skaup og niðurtaka jólanna

Ég lýsi yfir eindreginni ánægju minni með skaupið. Ég fann að ég var að missa af einhverri vísun og er búin að sjá á feisbúkk hvaða mynd er verið að vísa í sem ég er ekki búin að sjá og man ekki núna hver er. En ég hló stundum og skemmti mér almennt vel. Mér fannst það áberandi vel unnið tæknilega, alveg sannfærð um að þarna eru senur sem kosta slatta pening og er forvitin að vita hvort þau fóru bara betur með peningana, hvort einhverjir unnu kannski brellur og dót launalaust eða á óvanalega lágum launum. En ég ætla ekki að leggja mig sérstaklega eftir þeim upplýsingum enda finnst mér peningatalið í kringum RÚV núna óþolandi. Auðvitað þarf að vera RÚV, og þegiði bara ef þið eruð ósammála mér. Ég nenni ekki einu sinni að telja augljós rökin fyrir því upp.
Lokaatriði skaupsins er stórsigur í sjónvarpsgerð á Íslandi. Til hamingju skaupsfólk.

Hér stendur svo jólatréð strípað og ljóslaust í stofunni og bíður örlaga sinna. Ég tek ekki allt jólaskrautið í dag, geri þetta í svipuðum skrefum og þegar ég set það upp. Mér finnst ferlega góð tilhugsun að börnin séu að fara aftur í skólann en kvíði því sjálf svo hryllilega að það tekur engu tali. Eina einkunnin sem ég fæ á morgun er úr prófinu sem ég tók í merkingarfræði svo hún telst ekki með. En ég er búin að fá íslensku einkunnina, fékk átta í skjalaþýðingum. Merkileg tölfræði í þeim áfanga. 23 skráðir, 8 virðast hafa mætt til prófs, 6 fengu einkunn, 4 náðu. Ég minntist reyndar á það við vin á dögunum að það væri fínt að fleiri færu úr þjóðfélaginu og inn í Háskóla. Fólk sem heldur að það ætli að „rúlla upp“ einhverjum gráðum sér vonandi að þetta er annað og meira en að segja það.

Lifið í friði.

15 Responses to “skaup og niðurtaka jólanna”


 1. 1 Eyja 3 Jan, 2010 kl. 7:39 e.h.

  Myndin heitir The Hangover. Ég hef séð hana hálfa, hélt ekki lengur út yfir henni.

 2. 2 Karl 3 Jan, 2010 kl. 8:43 e.h.

  Ég er nú ekki búinn að sjá myndina en ég sá stikluna úr henni og þar sést, held ég, nánast allt sem var notað í skaupinu

 3. 3 atli 3 Jan, 2010 kl. 9:55 e.h.

  Hvað borgar þú mikið á ári fyrir rúv?

 4. 4 parisardaman 3 Jan, 2010 kl. 10:08 e.h.

  Æ, já Hangover. Ég sá hana sumsé ekki, og ekki heldur stikluna (vá, hvað ég man aldrei þetta fína íslenska orð þegar ég þarf á því að halda). Atli, úúú, ég frábað mér umræðu um þetta en þú gast ekki haldið í þér, ég svara næstum alltaf öllum svo ég skal aðeins prófa, þó ég kunni illa við þennan „tón“ hjá þér: Þú sérð væntanlega á síðunni að ég bý ekki á Íslandi og þekkir líklega reglur um afnotagjöld? Ég horfi á efnið á örlitlum skjá inni á tölvuskjánum mínum, hef ekki möguleika á að stækka hann upp, get ekki flett fram og aftur í efni eða annað slíkt, því ég er Mac-notandi og RÚV þrjóskast við að nota Windows Media Player. Finnst þér ég ætti að borga? Eða finnst þér bara óhugsandi að ég geti haft skoðanir á einhverju sem ég borga ekki fyrir einmitt núna? (Því, jú, ég greiddi full gjöld af RÚV þegar ég bjó heima láglaunaður starfsmaður ríkisins og einnig sem námsmaður, ekki á námslánum heldur að vinna með námi á vídeóleigu). Og ég mun greiða þessi gjöld mun glaðari en ýmislegt annað ef ég flyt aftur heim. En þú? Allt gott að frétta?

 5. 5 ella 3 Jan, 2010 kl. 11:19 e.h.

  RÚV er snilld og ég borga himinlifandi glöð fyrir það. Sumt er nauðsynlegt og annað ekki og það er gaman að vera til þegar maður er að hlusta á þokkalega vitrænt efni á meðan maður sekkur sér til dæmis í handverk af einhverju tagi. Rás eitt lengi lifi!

 6. 6 ella 3 Jan, 2010 kl. 11:23 e.h.

  Æijá, hvað var það annars sem er úr títtnefndri mynd? Ég er svo sljó að ég fatta sjaldan tilvísanir, sé líka fáar bíómyndir og bara eina sjónvarpsstöð en ég fattaði þó að golfbílsgufumökkurinn vísar á Börn náttúrunnar svo að mér er ekki alls varnað.

 7. 7 parisardaman 4 Jan, 2010 kl. 7:21 f.h.

  Mér finnst það bara spurning um sjálfsvirðingu þjóðar að halda uppi menningu og listum, RÚV er hluti af því. Rás1 er náttúrulega best af öllu batteríinu, en sjónvarpið hlýtur að teljast nauðsynlegur miðill líka. Ég veit ekki hvaða vísanir þetta eru, fann bara að ég var stundum ekki alveg með á nótunum, hefði nú aldrei fattað þetta með Börn náttúrunnar, haha.

 8. 8 ella 4 Jan, 2010 kl. 7:31 f.h.

  Tíhí, hún var sko sýnd í sjónvarpinu sunnudaginn 27. og ég kveikti ekki á perunni fyrr en í endursýningunni á skaupinu :).

 9. 9 Frú Sigurbjörg 4 Jan, 2010 kl. 9:08 f.h.

  Skaupið var nokkuð þétt og gott og klikkti út með frábæru lokaatriði. (Þú þektir vonandi tilvísunina í lagið þó myndatilvísanirnar hafi vafist fyrr þér?)

 10. 10 parisardaman 4 Jan, 2010 kl. 10:18 f.h.

  Hehe, já, Frú Sigurbjörg, þar var tilvísunin kýrskýr!

 11. 11 Ibba Sig. 4 Jan, 2010 kl. 1:04 e.h.

  Ha, Börn náttúrunnar? Ég hélt að golfbíllinn væri þarna af því að Sigmundur var að koma af MP golfmóti þegar hann fór fullur í ræðustól.

 12. 12 ella 4 Jan, 2010 kl. 2:54 e.h.

  Jájá, en eftir að ökuþórinn gekk af honum var ekki annað að sjá en tækið ætlaði að leysast upp í gufumekki eins og jeppinn sem Gísli og Sigríður Hagalín stálu forðum :).

 13. 13 Harpa J 5 Jan, 2010 kl. 1:33 e.h.

  Rúv er lífnauðsyn. Ekki spurning.

 14. 14 SVanfríður 5 Jan, 2010 kl. 11:06 e.h.

  Sammála þér með Skaupið og RÚV-þó ég gleymi því nú aldrei þegar ég fór í höfuðstöðvar RÚV á Akureyri stuttu áður en ég flutti til USA.Ég vissi ekkert hvernig ég átti að fara að því að segja upp RÚV þannig að ég fór þangað og sagði starfsmanni þar að ég væri að flytja og ætlaði að vera viss á að ég þyrfti ekki lengur að greiða afnotagjöld. „nú já,ertu að flytja? Leyfðu mér að sjá flugmiðann þinn“ Ég varð eiginlega svolítið hissa á spurningunni-en kannski er það alvanalegt að þau spyrji að þessu?

 15. 15 Kristín í París 5 Jan, 2010 kl. 11:16 e.h.

  Já, ég þurfti að senda þeim afrit af flugmiða líka, hehe.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: