Sarpur fyrir febrúar, 2010

tími og orka I (byrjun á engu)

Ein af lífsreglunum mínum er að það borgar sig ekki að eyða of miklum krafti í óþarfa hluti. Ég skil t.d. ekki fólk sem nennir að vera reitt og fúlt og enn síður skil ég fólk sem heldur að það sé einhver ein heilög og sérstök aðferð við að hengja upp þvott. Þvott þarf að hengja þannig upp að hann þorni, en það er auðvelt, hann gerir það alltaf á endanum, jafnvel þó að hann gleymist í kuðli inni í vélinni, ég þekki það af reynslu (og er ekki stolt af því). En líka er gott að ekki sé nauðsynlegt að strauja hann, þetta felur þó ekki í sér að hann þurfi að líta út fyrir að vera stífpressaður, hver vill líka vera stífpressaður? Ekki ég.

Það getur orðið dálítið flókið stundum að finna út hvenær maður er kominn út í óþarflega mikla orkunotkun í verkefni. Ég þarf áreiðanlega að skrifa meira um þetta, til að finna nákvæmlega hvað það er sem veldur þessum þunga hnút í maganum á mér núna. En ég hef ekki tíma, hvernig er það, hefur þessi tími ekkert annað að gera en að líða?

Lifið í friði.

ekkisölumaður vill blóð í bíó

Það hefur mikið gengið á undanfarið.

Fjölskyldan kom og fór, nýja frænka mín og nafna er yndisleg, horfir spekingslega á heiminn, myndast við að brosa og spjalla með öllum líkamanum, drekkur mikið og stækkar hratt.
Sveitaferðin var fín og þó að jörð og gróður væru gegnfrosin skilst mér að langtímaplan gestanna sé að flytja í franska sveit.

Það urðu sviptingar í viðskiptalífi mínu og þar sem ég hef ekki harðan sölumannskráp brást ég við með því að draga mig út úr verkefninu. Mér létti töluvert við það, ég var alltaf aðeins of hikandi varðandi þetta hlutverk. Þó mér líði eins og næstum allt sem ég geri sé með aðferðinni „fake it till you make it“, var þetta líklega aðeins of mikið feik.
Ég fékk tvö stór þýðingaverkefni um leið og ég sagði skilið við sölumennskuna, það var eins og alltumlykjandi öflin eða alheimurinn eða örlaganornirnar eða hverjir sem það eru sem sjá um þessi mál væru að sýna mér að þetta væri rétt ákvörðun. Ég engist að vísu óvenjulega mikið yfir þessum skjölum, vandræðast með orðalag í kringum lánaábyrgðir og kröfur en ég veit samt að þetta á betur við mig en sölumennska og sé núna að það var óðs manns æði að ætla sér svona um of. Ég er jú í fullu námi sem ég ætla mér að klára.

Kuldinn virðist ekki ætla að hopa fyrir vorkomunni og ég berst hetjulega gegn því að leggjast í jörðina og sparka og öskra af pirringi yfir þessu. Geng hnarreist um í þreföldu ullarlagi sem mun líklega þurfa að skafa af um mánaðarmótin (ég treysti því að vorhelvítið komi strax 1. mars).

Stökk dagsins í dag verða 78, voru 77 í gær og 76 daginn þar áður. 12. mars nálgast óðfluga. Ég hef misst úr stökkdaga þrisvar, held ég. Hef ekki borgað það upp að fullu svo ég verð að taka einhver aukastökk þarna eftir 12. mars til að vera viss um að hafa gert 5050 stökk í áskoruninni og mega verðlauna mig. Ég er alvarlega að spá í að verðlauna mig með húðflúri, en það er þó óljóst ennþá og verður ekki ákveðið fyrr en öllu þess’er lokið.
Líkt og Anna, áskorandinn minn, ætla ég að halda áfram að gera leikfimi heima hjá mér daglega, en ætla þó að hafa einn frídag í viku. Ég held að ég myndi reikna það inn í áskorunina ef ég væri að byrja núna, það er hálfbilað að fá aldrei frí, 100 dagar er ansi langur tími. Systir mín íþróttafríkið kenndi mér alls konar æfingar í sveitinni svo nú þarf ég bara að setja upp prógramm og markmið að halda. Armbeygjur verða inni í því og þá kannski að hluta til á tánum, armbeygjurnar í stökkunum geri ég alltaf á hnjánum (ég má það því ég er kona, segja þeir). Eitthvað af stökkum verða þar líka, því mér er tjáð að maður sakni þeirra þegar þetta er búið og ég trúi því alveg, þetta er brjálæði, en eitthvað gott í þessu brjálæði samt.

Lífið er ótrúlega gott þegar maður nær hæfilegum skammti af öllu þessu góða og bægir frá sér öllum óþarfa leiðindum. Þá er ég ekki að meina að við eigum að hætta að hugsa um það sem er neikvætt og erfitt, ónei. Á ég að byrja að tala um allar þessar ofurjákvæðu myndir um ofurjákvætt og ofurgáfulegtísamræðumogégséalltafhvaðerréttaðsegjahverjusinni-fólk sem hafa náð ofurvinsældum undanfarið? Til dæmis Julie and Julia. Yndisleg mynd, Meryl Streep er æði, unga stelpan líka. En. Það er eitthvað við svona myndir sem kveikir í mér einhvers konar örskilning á fólki sem verður sér úti um vopn og skýtur niður fólkið í kringum sig. Ég get ekki alveg lýst þessari tilfinningu en bið fólk að varast slepjuna. Til dæmis, í J og J, eiginmennirnir báðir. Óþolandi skilningsríkið fékk mig til að langa að klóra úr þeim augun. Svona er ég nú vond. Þá var hún nú betri, væmna myndin hans Clint Eastwood, Gran torino. Þar var alla vega blóð. Í bíó á að vera blóð, í blóðinu er catharsis.

Lifið í friði.

tepoki úr morgunþoku sunnudags

Í gær var kaffiboð til heiðurs Sólrúnu og átta ára afmæli hennar 3. feb. Þegar ég spái í að það er jafnlangt í að við höldum upp á 16 árin og síðan hún fæddist, hríslast um mig einhvers konar hrollur. Um leið og það er fín tilfinning að finna börnin stækka og verða sjálfstæðari, fylgir því einhver undarlegur hnútur, ógnvekjandi tilfinning. Eru foreldrar of uppteknir af börnum sínum? Er ég það? Já, það er líklega eitthvað til í því. Hvar sá ég þetta skrifað um daginn, með að líf foreldra snerist æ meira um börnin? Líklega á feisbúkk, en ég er samt ekki viss.
Ég bakaði þessa köku hérna fyrir fullorðna fólkið í afmælinu. Þar sem tímasetningu á bökunarlengd er ábótavant, stóð ég töluvert yfir ofninum, eftir tuttugu mínútur. Ég held að botnarnir hafi verið í um 25 mínútur í ofninum. Þessi kaka er syndsamlega góð.

Það hefur hlýnað aðeins hérna, en í morgunsárið er þokuslæðingur yfir Copavogure. Upp úr ellefu koma vinir okkar og nágrannar til baka, en þau fluttu suður í lítinn fjallabæ nú um jólin. Við verðum vitanlega með brunch til reiðu fyrir þau. Svo stökkvum við í fjölskylduboð og ætlunin er að rjúka úr því og beint upp í sveit með foreldrana og frænkurnar. Kannski förum við þó ekki fyrr en á morgun, það verður ákveðið yfir rjúkandi kaffibolla og hafragraut á eftir. í raun ættu að vera croissantar og súkkulaðibrauð á sunnudagsmorgni, en þar sem þetta er raðboðadagur er grauturinn lógískari lausn.

Í sveitinni er ekki nettenging svo bloggvirkni mín mun ekki lifna við á næstu viku. Ég skrifaði níu færslur í janúar. Það finnst mér ekki mikið. En kannski er það bara alveg feikinóg.

Lifið í friði.

Af og á og aftur af

Ég er að lesa mér til um Omega-3, út af söludæminu sem ég hef talað um og sem ég ætla að taka að mér. Skjótið mig bara ef þið viljið, ég verð að fara að vinna mér inn pening og ekki ætla ég að fara að grotna í einhverju drulludjobbi, takk fyrir samt. Kannski er allt sem skrifað er um Omega-3 fitusýrurnar bara sölumennska og lygi, en ég er alla vega sannfærð í bili. Ég hef reyndar alltaf tekið lýsi. Ekki endilega reglulega á hverjum degi. Frekar svona slurkað í mig úr flösku þegar löngunin hefur gripið mig og hellt þá ofan í börnin í leiðinni. Ég passa reyndar líka upp á að borða síld og lax, því ég veit að þar eru líka þessi efni sem gera mann gáfaðan, sem ég veit núna að heita Omega-3. Ég veit ekki af hverju, en ég hef alltaf verið sannfærð um þetta, að fiskur geri mann gáfaðan. Og nú virðast læknar og efnafræðingar stíga fram um allan heim og staðfesta þetta með rannsóknum. Það er kannski tengt því að ógrynni af alls konar Omega-3 bætiefnum eru til sölu á netinu, en, ég ætla alla vega að halda í þessa sannfæringu mína, sem mér var innleidd í æsku, þar til annað kemur í ljós. Og ég er líka sannfærð um að lýsi geti hjálpað börnum sem eiga við hegðunarvandamál að stríða. Sjá frétt á RÚV í dag!
Ég ætla líka að vera með SagaPro til sölu. Þeir segja að SagaPro hjálpi börnum sem eiga við pissuvandamál á næturnar að stríða. Er einhver með reynslusögu af því?

Þetta er alls ekki söluherferðarpistill, markhópurinn minn er franskur. Ég lofa ykkur því að ég mun ekki breytast í Omega-3 bloggara, ég bara þurfti aðeins að koma þessu út eftir allan lesturinn.

Annars sé ég að ég var eitthvað að tala um að það glitti í vor hérna. Það var húmbúkk. Í gær snjóaði allan morguninn, í dag rignir slyddu og það er ennþá ískalt. Ég er þó í nógu góðum gír til að átta mig strax á því að svona er þetta á hverju ári. Ég fyllist voróþreyju of snemma og verð pirruð. Maðurinn minn þurfti að minna mig á þetta fyrir ári síðan, en nú áttaði ég mig á þessu alveg sjálf. Hver veit, á næsta ári verð ég kannski bara alveg saliróleg?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha