ekkisölumaður vill blóð í bíó

Það hefur mikið gengið á undanfarið.

Fjölskyldan kom og fór, nýja frænka mín og nafna er yndisleg, horfir spekingslega á heiminn, myndast við að brosa og spjalla með öllum líkamanum, drekkur mikið og stækkar hratt.
Sveitaferðin var fín og þó að jörð og gróður væru gegnfrosin skilst mér að langtímaplan gestanna sé að flytja í franska sveit.

Það urðu sviptingar í viðskiptalífi mínu og þar sem ég hef ekki harðan sölumannskráp brást ég við með því að draga mig út úr verkefninu. Mér létti töluvert við það, ég var alltaf aðeins of hikandi varðandi þetta hlutverk. Þó mér líði eins og næstum allt sem ég geri sé með aðferðinni „fake it till you make it“, var þetta líklega aðeins of mikið feik.
Ég fékk tvö stór þýðingaverkefni um leið og ég sagði skilið við sölumennskuna, það var eins og alltumlykjandi öflin eða alheimurinn eða örlaganornirnar eða hverjir sem það eru sem sjá um þessi mál væru að sýna mér að þetta væri rétt ákvörðun. Ég engist að vísu óvenjulega mikið yfir þessum skjölum, vandræðast með orðalag í kringum lánaábyrgðir og kröfur en ég veit samt að þetta á betur við mig en sölumennska og sé núna að það var óðs manns æði að ætla sér svona um of. Ég er jú í fullu námi sem ég ætla mér að klára.

Kuldinn virðist ekki ætla að hopa fyrir vorkomunni og ég berst hetjulega gegn því að leggjast í jörðina og sparka og öskra af pirringi yfir þessu. Geng hnarreist um í þreföldu ullarlagi sem mun líklega þurfa að skafa af um mánaðarmótin (ég treysti því að vorhelvítið komi strax 1. mars).

Stökk dagsins í dag verða 78, voru 77 í gær og 76 daginn þar áður. 12. mars nálgast óðfluga. Ég hef misst úr stökkdaga þrisvar, held ég. Hef ekki borgað það upp að fullu svo ég verð að taka einhver aukastökk þarna eftir 12. mars til að vera viss um að hafa gert 5050 stökk í áskoruninni og mega verðlauna mig. Ég er alvarlega að spá í að verðlauna mig með húðflúri, en það er þó óljóst ennþá og verður ekki ákveðið fyrr en öllu þess’er lokið.
Líkt og Anna, áskorandinn minn, ætla ég að halda áfram að gera leikfimi heima hjá mér daglega, en ætla þó að hafa einn frídag í viku. Ég held að ég myndi reikna það inn í áskorunina ef ég væri að byrja núna, það er hálfbilað að fá aldrei frí, 100 dagar er ansi langur tími. Systir mín íþróttafríkið kenndi mér alls konar æfingar í sveitinni svo nú þarf ég bara að setja upp prógramm og markmið að halda. Armbeygjur verða inni í því og þá kannski að hluta til á tánum, armbeygjurnar í stökkunum geri ég alltaf á hnjánum (ég má það því ég er kona, segja þeir). Eitthvað af stökkum verða þar líka, því mér er tjáð að maður sakni þeirra þegar þetta er búið og ég trúi því alveg, þetta er brjálæði, en eitthvað gott í þessu brjálæði samt.

Lífið er ótrúlega gott þegar maður nær hæfilegum skammti af öllu þessu góða og bægir frá sér öllum óþarfa leiðindum. Þá er ég ekki að meina að við eigum að hætta að hugsa um það sem er neikvætt og erfitt, ónei. Á ég að byrja að tala um allar þessar ofurjákvæðu myndir um ofurjákvætt og ofurgáfulegtísamræðumogégséalltafhvaðerréttaðsegjahverjusinni-fólk sem hafa náð ofurvinsældum undanfarið? Til dæmis Julie and Julia. Yndisleg mynd, Meryl Streep er æði, unga stelpan líka. En. Það er eitthvað við svona myndir sem kveikir í mér einhvers konar örskilning á fólki sem verður sér úti um vopn og skýtur niður fólkið í kringum sig. Ég get ekki alveg lýst þessari tilfinningu en bið fólk að varast slepjuna. Til dæmis, í J og J, eiginmennirnir báðir. Óþolandi skilningsríkið fékk mig til að langa að klóra úr þeim augun. Svona er ég nú vond. Þá var hún nú betri, væmna myndin hans Clint Eastwood, Gran torino. Þar var alla vega blóð. Í bíó á að vera blóð, í blóðinu er catharsis.

Lifið í friði.

12 Responses to “ekkisölumaður vill blóð í bíó”


 1. 1 hildigunnur 18 Feb, 2010 kl. 8:23 f.h.

  Skil þig vel með sölumennskuna, ég er líka alveg hroðalega lélegur sölumaður.

  Þarf líka að fara að huga að einhvers konar heimaleikfimi, þegar þessar 9 vikur hjá JSB eru búnar ætla ég ekki á nýtt námskeið og það þýðir nákvæmlega ekkert fyrir mig að kaupa opið kort – ég þekki mig nægilega vel til að vita að ég mun ekki mæta.

  Frábært fyrir þig ef ég skil rétt að hluti familíunnar sé að flytja til Frakklands 😀

 2. 2 beggi dot com 18 Feb, 2010 kl. 8:44 f.h.

  Húðflúrið verður þá væntanlega mynd af froski.

 3. 3 parisardaman 18 Feb, 2010 kl. 8:55 f.h.

  Hildigunnur: Taka stökkin og koma so! Ég veit ekki hvort þau láta af flutningum verða, en franska sveitin heillar…
  Beggi: Hugmyndin er sett á listann, takk. Heldurðu að hann gæti borðað maríhænuna sem ég er með á bakinu?

 4. 4 Harpa J 18 Feb, 2010 kl. 10:01 f.h.

  Svona ertu þá harðbrjósta!
  En ég skil þig alveg svo sem. Blóð er ágætt í bíó.
  Til hamingju með að vera laus úr viðjum sölumennskunnar, það er gott að taka góðar ákvarðanir, ekki síst ef alheiskraftarnir eru í liði með manni.

 5. 5 beggi dot com 18 Feb, 2010 kl. 10:25 f.h.

  Vissara að hafa langt milli frosks og maríhænu.

 6. 7 beggi dot com 18 Feb, 2010 kl. 10:27 f.h.

  Sé núna að þú slepptir líka ‘u’, þetta er eitthvað að ganga. 😉

 7. 8 parisardaman 18 Feb, 2010 kl. 11:53 f.h.

  þetta er greinilega harðútlensk marí(u)hæna:)
  Já, Harpa, ég get alveg verið bljúg sem lamb, en ætla ekki einu sinni að reyna að byrja að lýsa því hvað ég hlakka til að byrja að horfa á Dexter í kvöld. Þar er sko blóð!

 8. 10 ævar örn 19 Feb, 2010 kl. 12:08 f.h.

  Hvað segirðu, er Clintarinn væminn? Og ég sem er búinn að geyma mér þessa mynd, ákveðinn í að glápa á hana einhverntímann þegar ég verð skilinn einn eftir heima með popp og bjór. Bömmer. Dexter klikkar hinsvegar ekki, ég er búinn að horfa á nýjustu syrpuna einsog hún leggur sig. Á ég að trúa því á þig að þú horfir á frönskumælandi Dexter?

 9. 11 parisardaman 19 Feb, 2010 kl. 7:09 f.h.

  Clint er svo oft tilfinningaríkur (nóg að nefna Bridges over Madison County), Gran torino er meiriháttar, ung leikkona af asískum uppruna fer t.d. þarna á kostum.
  Við erum með DigitalCanal+ og stillum á version originale.

 10. 12 hildigunnur 22 Feb, 2010 kl. 12:22 e.h.

  Kannski stökkin, já kannski…


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: