Sarpur fyrir mars, 2010

dráttarvextir

Konan sem ég talaði við í morgun var ofurkurteis og ég var það líka. Enda svo sem engin ástæða til annars. En þegar hún sagði voða kæruleysislega að „þá rúllar þetta bara á dráttarvöxtum“ fraus blóðið í æðum mér í örskamma stund. Ég sagði ekkert við hana. Bara takk og bless en þessar spurningar brenna nú á mér: Er það þá bara ekkert mál? Og fæ ég dráttarvextina niðurfellda ef ég fæ endurgreiðsluna niðurfellda? En ef ég fæ endurgreiðsluna EKKI niðurfellda, en svarið berst ekki fyrr en eftir að þetta er búið að „rúlla á dráttarvöxtum“ í einhvern tíma? Borga þau það þá? Það er nefnilega ekkert sjálfgefið að ég fái niðurfellingu þó ég sé í fullu námi og hafi unnið mér inn rétt um milljón á síðasta ári. Ég gæti t.d. fengið neitun út frá því að ég get ekki skilað inn fullgildum pappírum fyrr en í ágúst, kerfið er þannig hér í Frakklandi. Á hverju einasta ári fær pabbi minn alla vega rukkun upp á risasummu „í vanskilum“ því ég næ aldrei að senda staðfesta skattskýrsluna fyrr en „of seint“.
Ég HATA dráttarvexti og reyni alltaf að forðast að borga svoleiðis. Reyndar hef ég ekki græna glóru hvernig ég ætti að borga þessa blessuðu námslánaskuld akkúrat núna, valið stendur líklega milli dráttarvaxta eða yfirdráttarvaxta og ekki býst ég við að stórmunur sé þar á. En vá hvað það fer í taugarnar á mér þegar fólk talar um dráttarvexti eins og einhvern sjálfsagðan hlut. Sérstaklega þegar það er fólkið í sjálfri innheimtunni. HFF.

Lifið í friði.

lykla- og heilabrot, ökkla- og geðbólgur og gredda Larssons og vorsins

Rækt hefur ekki gengið sem skyldi í vikunni. Á laugardaginn fór ég með krakkana út að leika. Við ætluðum að fara í hjólabrettagarðinn með hjólabrettið og hlaupahjólið, en lykillinn brotnaði í skránni að geymslunni svo við fórum bara upp í skóginn. Þar var rúllað sér í brekku en ekkert gekk að útskýra orðið garnaflækja fyrir þessum tvítyngdu verum sem fóru á hvílíkri fart þarna niður að mér varð um og ó.
Á heimleiðinni var ég kannski í einhverju draumleiðsluástandi, ég veit það ekki, en það veit ég að skyndilega var annar fóturinn ekki að halda mér uppi og ég farin að velta um á grútskítugum tröppunum. Mér fannst ég heyra einhvers konar hljóð, en get ekki verið fullviss. Mér var svo illt í ökklanum að ég fór strax að skæla. Veinin í mér drógu þrjár velsnyrtar konur sín með hvorn hundinn að vettvangi og ég fór að ráðum þeirra og hringdi í eiginmanninn sem kom og studdi mig heim. Daginn eftir ætlaði ég að gera plankann, en gat það ekki einu sinni. Ég hef komist að þeirri undarlegu staðreynd að magaæfingar reyna á ökkla. Þar sem mér var eindregið ráðlagt að reyna ekkert á ökklan hef ég látið allar æfingar vera þessa vikuna.
Mér hætti fjótlega að vera illt, bara strax á sunnudag held ég, en er búin að vera vel bólgin og í gær varð ristin fagurblá og bólgan hefur hjaðnað. Ég stefni á planka í dag ásamt fleiri æfingum. Hef ekki tekið svona langt æfingafrí síðan í byrjun desember og finn satt að segja fyrir einhvers konar pirringi út af því. Held samt að það sé frekar hræðsla við að ég hætti alveg en að ég sé í endorfínfráhvarfi. Því miður held ég að ég sé ekki enn orðinn fíkill:)

Og ekki hefur garðræktarferill minn hafist enn. Við áttum að bíða eftir símtali en þolinmæðin þraut í fyrradag. Þá fengum við að vita að úthlutunin væri í raun ekki tilbúin, en við mættum koma og sækja lás. Lyklarnir væru að vísu ekki tilbúnir, og ekki búið að deila út skikunum, en hengilásarnir væru komnir og okkur væri velkomið að sækja okkar. Ég hef spekúlerað í lása- og lyklasmíði síðan þá, svona í anda hvort kemur á undan, hænan eða eggið? en ekki fengið neina niðurstöðu í þær hugleiðingar.

Námið gengur skítsæmilega. Einhver lægð samt, get ekki útskýrt hvers vegna. Mér finnst alltaf jafngaman í tímunum og er jafnákveðin í að klára, en samt einhver vonleysistilfinning yfir þessu akkúrat núna. Margt að hugsa um, melta og reyna að skilja (fyrir utan dularfulla lyklalausa lása og viðhorf almennings til aðgerða gegn ríkjandi yfirvaldi). Aðalvandamálið er líklega að ég er með nokkuð mörg járn í eldinum, hræri í ansi mörgum pottum þar ofan á… oh, ég ætlaði að koma með fjórar myndhverfingar en virðist þurrausin.

Af Hallgerði langbrók er það að frétta að ég get líklega tvinnað Lisbeth Salander inn í ritgerðina um hana og frönsku miðaldakonurnar. Mikið óskaplega hef ég notið þess að lesa Millenium. Um tíma fannst mér Stieg Larsson eiginlega hljóta að vera lesbía en allar þessar ótrúlega flottu konur verða ástfangnar af Kalla Blómkvist svo það stenst ekki alveg. Í gærkvöldi áttaði ég mig á því að í bókunum er einhver bullandi gredda á svo mörgum vígstöðvum, bæði þessi venjulega en líka í tengslum við blaðamannastarfið (greinar og þættir fá blaðamannaverðlaunin síðar meir).

Talandi um greddu, þá er vorið að brjótast fram í öllu sínu veldi hérna. Trén farin að blómstra, fuglarnir í mögnuðu stuði og í gær mætti ég, á stuttri göngu minni um París, þremur pörum í hörkusleik úti á götu. Þau voru öll heteró og hvít. Það er ekkert sérlega PC, en mér fannst þetta þó vita á gott.

Lifið í friði.

aftenging

Eiríkur er með ágætis hugvekju um verkföll og sterkan samhljóm almannaróms, fjölmiðla og yfirvalda gegn verkfalli flugvirkja og bara verkföllum almennt. Ég skal fús játa mig seka um að hafa umhugsunarlaust hissast á flugvirkjum eftir nokkra pirraða feisbúkkstatusa gegn þeim en ég hef ekki hugsað mikið um þetta, svo margt annað að hugsa um einhvern veginn.

Í dag er ég til dæmis búin að hugsa mikið um það hvers vegna ég æsti mig dálítið við nokkrar vinkonur um helgina og hvort ég eigi að biðja þær afsökunar. Þannig er mál með vexti að þegar heimildamynd um íslenska hrunið og það sem hefur verið kallað búsáhaldabylting var sýnd hér í Frakklandi fyrir einhverjum mánuðum síðan, töluðu þessar vinkonur fjálglega um myndina og sögðust hafa tárast yfir henni. Ég reyndi að spyrja hvers vegna þær hefðu tárast, hvað kom tárunum fram, en fátt var um svör. Nú er það svo að þessar konur hafa aldrei tekið þátt í neinum af mótmælunum á Íslandi og taka yfir höfuð aldrei þátt í mótmælum. Þess vegna fór þessi tilfinningasemi yfir myndinni eitthvað fyrir brjóstið á mér á sínum tíma en ég sagði aldrei neitt, því miður. En svo barst „ástandið“ í tal um helgina og ég fór að segja eitthvað, því miður.
Æh, þetta er svo flókið. Ég sem er búin að vera með sjálfa mig í allsherjarmeðferð gegn því að reyna að segja fólki hvernig það á að haga sér, leyfi mér að setja mig á einhvers konar háan hest gagnvart vinum mínum. Er ég eitthvað betri en þær af því ég mætti á mótmæli? Hvað veit ég nema það sé einmitt rétt og góð hegðun að segja ekki neitt, gera ekki neitt? Leyfa bara þingmönnum og ríkisstjórn sem við réðum jú til starfans að hafa sína hentisemi og gera eins og þau vilja? Af hverju þurfum við, lýðurinn, að vera að eyða orku í að fylgjast með þeim endalaust? Getum við ekki nýtt orkuna í eitthvað betra?
En samt. Það er svo margt svo undarlegt á seyði, svo margt sem maður hélt að myndi breytast en sem virðist svo ekki breytast. Áfram er orkan okkar seld á spottprís til stórfyrirtækja sem virðast hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Og svo er þetta herþotuæfingamál alveg til að æra óstöðugan. Ef þið hafið áhuga á að fylgjast með því sem er að gerast, sér Lára Hanna alltaf um að koma því á framfæri.

Stundum langar mig bara að klippa mig burt frá þessu öllu. Gera bara eins og maður á að gera við alka, aftengja mig og hætta að hafa áhyggjur af hegðuninni. Kannski áorka ég einhverju meiru og merkilegra ef ég næ því?

Lifið í friði.

grein um Polanski

Ég fékk þýðingu mína á grein um Roman Polanski og fleiri durta birta á Smugunni.

Lifið í friði.

rækt

Á föstudaginn tók ég 100 froskastökk með armbeygju og hala. Ég fagnaði ein með sjálfri mér.

Í gærmorgun gerði ég plankann og gat heila mínútu. Ætla ekki að segja án þess að svitna, því það væri lygi, síðustu fimm sekúndurnar sá ég í ljósið við enda gangsins, held ég. Það er hvítt. En ég hafði samt mínútu í stað 45 sekúndna eins og alltaf í síðustu viku. Stefnan er sett á þrjár mínútur en geri mér enga grein fyrir hve mikinn tíma það mun taka, hvað sagði ég um daginn? Fjörtíu dagar? Það hljómar fínt. 24. apríl geri ég plankann í 3 mínútur. Úúúú [ef þú hefur séð Ópru skilur þú djókið og það er fínt, ef þú horfir reglulega á Ópru segi ég bara: það er þitt vandamál!]

En margt hefur á daga mína drifið sem ekki hefur verið rætt hér. Sumt verður ekki rætt, en ég get þó upplýst að maðurinn minn er nú stoltur eigandi grænna kassa við Signubakka. Hvar nákvæmlega kassarnir enda sem kassar undir bækurnar sem hann hefur til sölu er enn ekki ljóst, Parísarborg tekur sér tíma í að ákveða það. Fylgist spennt með.
Og eins og til að kóróna þá heppni að vera valinn úr hópi umsækjenda um pláss við Signubakka, vorum við líka valin úr hópi umsækjenda um lítinn grænmetisgarð hérna efst í götunni. Ég er því á leið að leggjast í rit og vefsíður um garðrækt. Við látum okkur dreyma um að rækta gulrætur og rófur, salat og radísur, grasker og kúrbít, tómata og jarðarber. Fleiri hugmyndir? Góð ráð?

Vorið er að skríða yfir okkur. Hefur hlýnað um 10 gráður og sól skín í heiði. Lífið er ekki alltaf tóm fegurð, en þessa dagana er ansi bjart yfir litlu kjarnafjölskyldunni minni hér í Copavogure.

Lifið í friði.

meðvirkni eða samlíðan

Ég hef mikið spáð í meðvirkni í gegnum tíðina. Ég er „ásökuð“ um að vera mjög meðvirk af ýmsum, aðallega samt af þeim sem um leið nýta sér það óspart að ég er mjög góð í að hlusta og er eins mikið til staðar og ég mögulega get.
Ég hef lent í að fólk hefur ofboðið mér, farið yfir þunna línuna á milli þess að vera í þörf fyrir mig og nýta sér það út í að vera farnir að nota mig eins og ruslatunnu sem má henda öllu í. Ég hef samt ekki losað mig við það fólk úr lífi mínu, bara sett mig í smá fjarlægð, lokað einhverri rás án þess að fara út í vinslit og uppgjör. Kannski er það að hætta að kóa? Að aftengja meðvirknina, sem var þá sjúkleg?
Ég veit það ekki, en ég verð að fá að hafa þetta svona, þó stundum sé ég hálfhrædd um að þetta sé hræsni í mér. Ég hef nefnilega aldrei skilið þá sem geta sagt skilið við vini sína, fengið nóg, hætt að hafa samband, látið vináttuna annað hvort fjara út (kannski heldur fólk að þetta sé laumulegt, en það er það aldrei) eða komið af stað uppgjöri með tilheyrandi vinslitum (sem er í raun hreinlegri aðferð).

Og eitt veit ég vel. Það fer ískaldur hrollur um mig þegar fólk er hissa á mér fyrir að hugsa til og hafa áhyggjur af vinum sem eru að ganga í gegnum erfiðleika. Það fólk er líklega fólkið í stóru húsunum, sem Jón Kalman skrifar um: „Hvað er ábyrgð; að hjálpa öðrum svo mikið að það skaði manns eigið líf? En ef þú stígur ekki skrefið til móts við manneskjuna kemur holur hljómur í daga þína. Lífið er einungis einfalt fyrir þá siðlausu, þeir komast líka vel af og búa í stórum húsum.“ [Harmur englanna, bls 84-85]
Reyndar er þetta röng ályktun hjá Jóni Kalman, nema ég sé að misskilja hann. Fólk sem býr í litlum íbúðum og hefur það ekkert sérlega gott fjárhagslega getur nefnilega líka alveg verið siðlaust og sneytt þeim hæfileika að finna til með öðrum. En þessar línur róuðu mig töluvert í gær. Ég hef svo sem alveg vitað það, en það er mjög gott að sjá það svona skrifað. Fyrir mér er bara ekki hægt að skilja fólk eftir aleitt. Það er bara ekki val því ég verð að hafa sterkan hljóm í dögum mínum.

Lifið í friði.

varúð líkamsræktarfærsla

Í gærkvöldi gerði ég 96 froskastökk með armbeygjum og hala. Mér fannst það varla erfitt, eiginlega bara gaman. Ég er farin að nota tæknina 11 í hvert skipti og mjög misstuttar pásur á milli. Stundum bara rétt svo anda ég djúpt nokkrum sinnum, stundum fer ég alveg upp í mínútu. Á föstudaginn geri ég 100, ég hefði alveg getað gert hundrað í gær, en ég verð að fylgja prógramminu.
Það er svo furðulegt með mig að ég tel mig hafa komist næst því að veslast upp og deyja þegar ég vann í eitt og hálft ár á skrifstofu með stimpilklukku, en á sama tíma á ég mjög gott með að hlýða fyrirmælum og fara eftir áætlun. Þannig til dæmis hef ég náð að krafla mig í gegnum þetta nám með því að gera áætlanir og reyna að standa við þær. Ég á það reyndar enn til að ofætla mér dagsverkið, en það er allt í lagi þegar ég veit að ég er hvort eð er með aukatíma í öllu mínu tímaplani. Ég reikna alltaf með hvíldardögum en vinn oftast á þeim líka.

Mér er ferlega illt í hægri upphandlegg, þetta hefur fylgt stökkunum núna í nokkra daga. Mér er ekki illt meðan ég geri stökkin og ég er ákveðin í að klára þetta. Heh, ég á fjögur skipti eftir. Eftir hálftíma á ég þrjú skipti eftir. Ég neyddist samt til að sleppa enn einum deginum um helgina og fer ekki ofan af því að það á að reikna með einum frídegi í viku. Ég ætla að borga þessa daga sem ég hef sleppt úr með því að gera um 80 stökk á dag alla næstu viku.
Svo er ég byrjuð að huga að framhaldsæfingum, það kemur vitanlega ekki til greina að hætta að hreyfa sig, hreyfing er góð krakkar, vissuð þið það?
Ég ætla að einbeita mér að maganum (kviðvöðvar heitir þetta á fínu máli). Ég hef ekki hugmynd um hvað ég á að kalla æfinguna sem er þannig að ég leggst á magann (kviðinn), lyfti mér upp á olnbogana og held líkamanum stífum, eingöngu tær og olnbogar og hendur á gólfi. Þetta reynir víst svakalega á magann. Ég get núna 40 sekúndur og stefni á að ná upp í 3 mínútur á 40 dögum. Þetta er það eina sem ég ætla að gera á hverjum degi, ásamt „venjulegum“ magaæfingum (kviðæfingum). Svo ætla ég að halda lærum og upphandleggjum við með fram- og afturstigi og armbeygjum, en stefni líka á að komast bráðum út að hlaupa. Ég meika ekki að hlaupa í þessum kulda, það er ísjökulkalt hérna ennþá. Ég gæti byrjað að væla en ég ætla ekki að gera það, meðan ekki snjóar á okkur. Og það er svo margt svo miklu verra sem hægt er að væla yfir, sérstaklega fyrir okkur sem eigum norsk ullarnærföt og íslenskar lopapeysur, trefla og húfur. En það sem er svo miklu verra er ekki heldur hægt að skrifa í blogg.

Lifið í friði.

fyrirboðar

Í gærkvöldi klæjaði mig svo í 14 ára gamla örið á fætinum að ég klóraði mig til blóðs. Ég var gersamlega viðþolslaus. Í morgun vakna ég með þriðju bóluna sprungna út á hökunni og svo er ég með frunsu.

Ég horfði á Silfur Egils í fyrsta skipti í vetur í heilu lagi í gær (horfi stundum á brot hjá Láru Hönnu).

Samhengi?
Ekki hugmynd. En ég lýsi hér með fullum stuðningi við ríkisstjórn Jóhönnu. Ég er ekki sátt. En það eru engar aðstæður til að vera sáttur. Ég væri hins vegar á barmi örvæntingar ef stjórnarandstæðan [læt þessa innsláttarvillu standa, of góð] væri tekin við stýrinu.

Lifið í friði.

sól vekur með kossi – tepoki

Í gær lagðist yfir mig mara á bóksasafninu. Ég var að lesa frásögnina af vígi Gunnars og pæla í þessu með hárið og hvað Hallgerði gekk eiginlega til. Allt í einu varð ég svo syfjuð að mig hreinlega verkjaði um allan líkamann. Ég drattaðist einhvern veginn heim en lagði mig ekki, heldur hlustaði á tímann sem ég er skráð í á Íslandi þessa önn. Svo tók ég 91 stökk og svitnaði næstum til bana. Síðan fékk mér hvítvínsglas með matnum og það varð til þess að ég var komin upp í rúm og sofnuð fyrir klukkan tíu. Þegar maðurinn minn kom svo inn í rúm vildi hann ekki loka hlerunum, ég svaf svo vært. Þess vegna var ég vakin í morgun af sólarupprás. Klukkan var hálfátta, ég útsofin og alveg sátt við að vakna snemma. Ég er ekki frá því að það sé best að vakna við sólina. Jafnvel betra en að vakna við börnin (það var best þegar þau lágu hjalandi í vöggu, ekki eins best þegar þau koma og heimta morgunverð og engar refjar, orðin nógu stór til að sjá um sig sjálf).
Ég er ekki frá því að maran sé góðs viti. Ég er næsta viss um að næst þegar ég les söguna af víginu og samskiptum þeirra hjóna komi andinn yfir mig og ég geti skrifað eitthvað ógurlega gáfulegt um þetta á frönsku, með vísan í franskar miðaldasögur og nútímafemínista. Er það ekki annars?

Nú er sólin komin hátt á himinn og ég sé að gluggarnir hérna eru ekki góðri húsmóður sæmandi. Hversu skítugir geta gluggar orðið? Eigum við að prófa? Neeh, ég held ég skelli mér bara í að skrúbba þá, ágæt morgunleikfimi, meika ekki stökksessjón með 12 tíma millibili, held ég.

Lifið í friði.

forvitinn letihaugur játar njósnir

Það er ekki lát á bloggletinni og líklega þjáist ég almennt af leti og ómennsku þessa dagana. Ég drattaðist þó út í göngutúr í morgun og fagnaði sól og logni eftir lætin í gær. Og hjarta mitt hoppaði og skoppaði af gleði yfir því að sjá að kirsuberjatrén eru byrjuð að bruma. Þetta blessaða vor er líklega á leiðinni til okkar eftir allt saman. Ég man ekki annan eins vetur, þetta er orðið gott, bara.

Og ég hef haldið áskoruninni ótrauð áfram, það er nú engin leti í því!

Ég er annars m.a. að lesa Njálu og spá í Hallgerði og aðrar kvenpersónur bókarinnar. Ég las einhvers staðar að höfundur Njálu væri karlrembusvín, en ég er ekki alveg sannfærð um það. Ef einhver hefur upplýsta skoðun á því er meira en guðvelkomið að viðra hana hér á vefnum, eða í tölvupósti til mín parisardaman hja gmail.com. Maður er alltaf dálítið einmana í náminu, týpískt fyrir mig að velja eitthvað efni sem ég get ekki rætt við samnemendur, og þó, nú þegar ég „segi þetta upphátt“ dettur mér í hug að það gæti nú alveg leynst einhver norrænuáhugamaður í hópnum. En þori ég að fá að kalla það út yfir bekkinn? Það er ekki gefið. Við sjáum til. Efnið er spennandi en ég á þó dálítið erfitt með að negla niður hvað ég ætla nákvæmlega að fjalla um.
Svo er ég byrjuð í þýðingafræðikúrsum sem ég gat ekki tekið fyrir jól af því þeir eru svo seint á daginn. Ég ákvað að vera sjálfselskari eftir jól og nú þarf maðurinn minn að borga pössun fyrir krakkana svo ég komist í tímana, svona þegar ég get ekki níðst á vinum og nágrönnum. Þetta eru áhugaverðir tímar, kennararnir eru tveir og spjalla, sem er mjög gott fyrirkomulag, enda eru þetta málstofur. Það myndast mun betri stemning fyrir samtölum en þegar kennarinn er einn. En annar kennaranna er einhvers konar stórstjarna og óhugnalega sjálfumglaður segir hann endalausa aulabrandara og hlær dátt að sjálfum sér. Nemendurnir taka hjartanlega undir og ég hef á tilfinningunni að hann hljóti að halda að ég skilji ekki frönsku eða sé svona hrikalega húmorslaus, sem ég væntanlega er, frá hans sjónarhorni. Hann hlýtur að taka eftir því að í salnum situr ein kona sem varla stekkur bros á vör, og jú, stundum reyndar brosi ég að því hvað þetta er fáránlega skrýtið. Það er aðdáendasíða um manninn á facebook og ég þori ekki að setja nafnið hans hingað inn, ég er svo hrædd um að hann stundi sitt daglega sjálfsgúggl og fái einhvern til að þýða mig.
Annars er gúggl á Jónum og Siggum úti í bæ dálítið fyndið fyrirbrigði. Það er ótrúlega merkilegt hvernig sumt fólk birtist út um allt á alls konar síðum en annað kemur hvergi fram á netinu. Ég þekki fólk sem er mjög annt um að það komi hvergi fram á netinu. Og ég gúgglaði einu sinni af rælni mann sem vinkona mín nefndi á nafn í símtali með þeim orðum að hann væri sætur (hún var að pæla í honum fyrir sig, ekki fyrir mig). Á nokkrum sekúndum gat ég sagt henni að hann væri fráskilinn og ætti litla stelpu, hvað mamma hennar héti og hvar þær mæðgur ættu heima. Það var spúkí. Netið er spúkí. En skemmtilegt fyrir sjúklega forvitið fólk eins og mig.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha