Rækt hefur ekki gengið sem skyldi í vikunni. Á laugardaginn fór ég með krakkana út að leika. Við ætluðum að fara í hjólabrettagarðinn með hjólabrettið og hlaupahjólið, en lykillinn brotnaði í skránni að geymslunni svo við fórum bara upp í skóginn. Þar var rúllað sér í brekku en ekkert gekk að útskýra orðið garnaflækja fyrir þessum tvítyngdu verum sem fóru á hvílíkri fart þarna niður að mér varð um og ó.
Á heimleiðinni var ég kannski í einhverju draumleiðsluástandi, ég veit það ekki, en það veit ég að skyndilega var annar fóturinn ekki að halda mér uppi og ég farin að velta um á grútskítugum tröppunum. Mér fannst ég heyra einhvers konar hljóð, en get ekki verið fullviss. Mér var svo illt í ökklanum að ég fór strax að skæla. Veinin í mér drógu þrjár velsnyrtar konur sín með hvorn hundinn að vettvangi og ég fór að ráðum þeirra og hringdi í eiginmanninn sem kom og studdi mig heim. Daginn eftir ætlaði ég að gera plankann, en gat það ekki einu sinni. Ég hef komist að þeirri undarlegu staðreynd að magaæfingar reyna á ökkla. Þar sem mér var eindregið ráðlagt að reyna ekkert á ökklan hef ég látið allar æfingar vera þessa vikuna.
Mér hætti fjótlega að vera illt, bara strax á sunnudag held ég, en er búin að vera vel bólgin og í gær varð ristin fagurblá og bólgan hefur hjaðnað. Ég stefni á planka í dag ásamt fleiri æfingum. Hef ekki tekið svona langt æfingafrí síðan í byrjun desember og finn satt að segja fyrir einhvers konar pirringi út af því. Held samt að það sé frekar hræðsla við að ég hætti alveg en að ég sé í endorfínfráhvarfi. Því miður held ég að ég sé ekki enn orðinn fíkill:)
Og ekki hefur garðræktarferill minn hafist enn. Við áttum að bíða eftir símtali en þolinmæðin þraut í fyrradag. Þá fengum við að vita að úthlutunin væri í raun ekki tilbúin, en við mættum koma og sækja lás. Lyklarnir væru að vísu ekki tilbúnir, og ekki búið að deila út skikunum, en hengilásarnir væru komnir og okkur væri velkomið að sækja okkar. Ég hef spekúlerað í lása- og lyklasmíði síðan þá, svona í anda hvort kemur á undan, hænan eða eggið? en ekki fengið neina niðurstöðu í þær hugleiðingar.
Námið gengur skítsæmilega. Einhver lægð samt, get ekki útskýrt hvers vegna. Mér finnst alltaf jafngaman í tímunum og er jafnákveðin í að klára, en samt einhver vonleysistilfinning yfir þessu akkúrat núna. Margt að hugsa um, melta og reyna að skilja (fyrir utan dularfulla lyklalausa lása og viðhorf almennings til aðgerða gegn ríkjandi yfirvaldi). Aðalvandamálið er líklega að ég er með nokkuð mörg járn í eldinum, hræri í ansi mörgum pottum þar ofan á… oh, ég ætlaði að koma með fjórar myndhverfingar en virðist þurrausin.
Af Hallgerði langbrók er það að frétta að ég get líklega tvinnað Lisbeth Salander inn í ritgerðina um hana og frönsku miðaldakonurnar. Mikið óskaplega hef ég notið þess að lesa Millenium. Um tíma fannst mér Stieg Larsson eiginlega hljóta að vera lesbía en allar þessar ótrúlega flottu konur verða ástfangnar af Kalla Blómkvist svo það stenst ekki alveg. Í gærkvöldi áttaði ég mig á því að í bókunum er einhver bullandi gredda á svo mörgum vígstöðvum, bæði þessi venjulega en líka í tengslum við blaðamannastarfið (greinar og þættir fá blaðamannaverðlaunin síðar meir).
Talandi um greddu, þá er vorið að brjótast fram í öllu sínu veldi hérna. Trén farin að blómstra, fuglarnir í mögnuðu stuði og í gær mætti ég, á stuttri göngu minni um París, þremur pörum í hörkusleik úti á götu. Þau voru öll heteró og hvít. Það er ekkert sérlega PC, en mér fannst þetta þó vita á gott.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir