meðvirkni eða samlíðan

Ég hef mikið spáð í meðvirkni í gegnum tíðina. Ég er „ásökuð“ um að vera mjög meðvirk af ýmsum, aðallega samt af þeim sem um leið nýta sér það óspart að ég er mjög góð í að hlusta og er eins mikið til staðar og ég mögulega get.
Ég hef lent í að fólk hefur ofboðið mér, farið yfir þunna línuna á milli þess að vera í þörf fyrir mig og nýta sér það út í að vera farnir að nota mig eins og ruslatunnu sem má henda öllu í. Ég hef samt ekki losað mig við það fólk úr lífi mínu, bara sett mig í smá fjarlægð, lokað einhverri rás án þess að fara út í vinslit og uppgjör. Kannski er það að hætta að kóa? Að aftengja meðvirknina, sem var þá sjúkleg?
Ég veit það ekki, en ég verð að fá að hafa þetta svona, þó stundum sé ég hálfhrædd um að þetta sé hræsni í mér. Ég hef nefnilega aldrei skilið þá sem geta sagt skilið við vini sína, fengið nóg, hætt að hafa samband, látið vináttuna annað hvort fjara út (kannski heldur fólk að þetta sé laumulegt, en það er það aldrei) eða komið af stað uppgjöri með tilheyrandi vinslitum (sem er í raun hreinlegri aðferð).

Og eitt veit ég vel. Það fer ískaldur hrollur um mig þegar fólk er hissa á mér fyrir að hugsa til og hafa áhyggjur af vinum sem eru að ganga í gegnum erfiðleika. Það fólk er líklega fólkið í stóru húsunum, sem Jón Kalman skrifar um: „Hvað er ábyrgð; að hjálpa öðrum svo mikið að það skaði manns eigið líf? En ef þú stígur ekki skrefið til móts við manneskjuna kemur holur hljómur í daga þína. Lífið er einungis einfalt fyrir þá siðlausu, þeir komast líka vel af og búa í stórum húsum.“ [Harmur englanna, bls 84-85]
Reyndar er þetta röng ályktun hjá Jóni Kalman, nema ég sé að misskilja hann. Fólk sem býr í litlum íbúðum og hefur það ekkert sérlega gott fjárhagslega getur nefnilega líka alveg verið siðlaust og sneytt þeim hæfileika að finna til með öðrum. En þessar línur róuðu mig töluvert í gær. Ég hef svo sem alveg vitað það, en það er mjög gott að sjá það svona skrifað. Fyrir mér er bara ekki hægt að skilja fólk eftir aleitt. Það er bara ekki val því ég verð að hafa sterkan hljóm í dögum mínum.

Lifið í friði.

13 Responses to “meðvirkni eða samlíðan”


 1. 1 K.S. 11 Mar, 2010 kl. 10:02 f.h.

  Vel ritar þú.
  Ég er á því líka að það sé rétt að minnast þess að þjáningin hefur alltaf sömu áhrif. Hvort sem hún telst verðskulduð með einhverju móti eða ekki. Og að þrátt fyrir allt fylgir býsna mikið jafnrétti skilmálum lífs og tilveru manna þótt misjöfn sé mannsævin vissulega.

 2. 2 baun 11 Mar, 2010 kl. 12:23 e.h.

  Ég hef líka oft verið sökuð um meðvirkni og vafalaust er mikið til í því að ég geti verið meðvirk. Veit samt ekki alveg hvað það er, veit það einhver?

 3. 3 parisardaman 11 Mar, 2010 kl. 1:03 e.h.

  Takk, K.S. Ég hef alveg séð dæmi um mjög sjúklega meðvirkni, t.d. þegar aðstandendur fela endalaust drykkju áfengissjúklings. Ég held að ég geri ekki svoleiðis, þó ég beri ekki á torg vandamál sem mér er treyst fyrir. Það er alla vega deginum ljósara að notkun á hugtakinu er óljós, og að mínu viti er það ofnotað, ef við gefum okkur að meðvirkni sé sjúkleg hegðun. Það er ekkert sjúklegt að finna til með öðrum… æh, ég varð einhverra hluta vegna að skrifa aðeins um þetta en er svo sem ekki að ímynda mér að til sé einhver lausn.

 4. 4 Hermann 11 Mar, 2010 kl. 3:25 e.h.

  Tel að ofnotkun orðsins meðvirkni hafi beinlínis haft skaðleg áhrif á samskipti manna, þ.a. fólk fjarlægist hvert annað býsna mikið. Hvar mörkin liggja milli meðvirkni og samlíðunar er ekki gott að segja, góðar spurningar gætu kannski hjálpað til við að skilgreina það, t.d. er viðkomandi að láta gott af sér leiða með tiltekinni hegðun? Jákvætt svar við því útilokar væntanlega a.m.k. meðvirkni í þrengsta skilningi orðsins.

 5. 5 Linda Björk Jóhannsdóttir 11 Mar, 2010 kl. 4:17 e.h.

  Meðvirkni í mínum huga er þegar maður gerir hluti til að halda einhverjum góðum, sbr. þegar karlmenn berja konur og þær láta sem allt sé í lagi út á við. Samlíðan myndi þá vera að finna til samkenndar með öðrum og en það þarf ekki að hafa áhrif á hegðun manns út á við gagnvart þeim einstaklingi. Hvað segir þú um þessar skilgreiningar Kristín?

 6. 6 K.S. 11 Mar, 2010 kl. 11:47 e.h.

  Virðulega Parísardama, tæpir þú ekki á einhvers konar lausn eða lykli að haldbærri hugtakanotkun í athugasemd þinni við eigið blogg? Meðvirkni og sjúkleg (eða skaðleg) meðvirkni. Það er ekki eitt og hið sama, er það, frekar en drykkja og sjúkleg drykkja? Hið fyrrnefnda getur reynst jákvætt, eða í það minnsta skaðlaust, meðan hið síðarnefnda leiðir einungis illt af sér.

  Samkennd og samlíðan er verðmæt, jákvæð og gild tilfinning. Eða því vil ég trúa. Og meðvirkni í réttum farvegi einnig. Eins og samvirkni (synergy) þar sem samanlagðir kostir og orka tveggja eða fleiri skapa ríkulegri og betri útkomu en er á færi einfarans að skila. En þegar tekið er til við að mæla upp í einhverjum ræfildóminn, fela afbrot eða illar gerðir, eða hindra að fólk taki afleiðingum gerða sinna þá er það varla meðvirkni heldur yfirhylming sem stafar af ótta, vanmetakennd og / eða varnarleysi fremur en samlíðan. Líklega er þó gjarnan átt við eitthvað slíkt þegar rætt er og ritað um meðvirkni. Þannig hefur þetta orð, sem er jákvætt í eigindum sínum, fengið neikvæða merkingu sem stafar af því að fólk á það sannarlega til að nota hvert annað í stað þess að njóta hvers annars. Ekki ættum við að láta það leiða okkur á villigötur, er það nokkuð? Megi dagar þínir ávallt hljóma sterkum þungum ómi.

 7. 7 parisardaman 12 Mar, 2010 kl. 7:11 f.h.

  Jú, þið eruð á réttri leið, Linda og KS. Ég held að meðvirkni-orðið megi alveg nota í sjúklegu merkingunni, með og án sjúklegrar meðvirkni. Hitt sé samlíðan, jafnvel samvirkni (sem er falllegt orð) og vitanlega náttúrulega hreinn og tær kærleikur:)

 8. 8 Soffía Ákadóttir 12 Mar, 2010 kl. 10:01 e.h.

  Skemmtileg umræða. Það eru til ótal skilgreiningar um meðvirkni. Hér er ein: „Tilfinningalegt, sálrænt og atferlislegt ástand sem þróast vegna langrar sögu einstaklinsins af tengslum sem fela í sér að framfylgja og lúta þjakandi reglum: reglum sem hindra opinskáa tjáningu tilfinninga sem og óhindraða umræðu um persónuleg og samskiptaleg vandamál. “ “ Meðvirkni er meðal annars: að stjórna öðrum, hugsa fyrir aðra, vita hvernig aðrir hugsa, fela tilfinningar, segja já þegar þú vilt segja nei, hylma yfir óþægilega hluti. Hlæja þegar þig langar að gráta. Leyfa öðrum að særa sig. Upplifa sig hrædda, særða og reiða. Stjórna endalaust og telja sig alltaf vita hvernig annað fólk hugsar. Meðvirkur einstaklingur er kvíðnn, hræddur, og með stöðugar áhyggjur af hinum ólíklegustu hlutum. Ég trúi því að meðvirkni sé sjúdómur sem þróast og geti orðið hættulegur og eyðileggjandi ef ekkert er að gert.

 9. 9 Bragi 15 Mar, 2010 kl. 9:59 e.h.

  Þetta er á algerum villigötum……..

 10. 10 parisardaman 16 Mar, 2010 kl. 7:14 f.h.

  Ég er ekki sammála því að við séum á villigötum, en leiðin er flókin eins og mannleg samskipti eru í eðli sínu. Fullt af gráum svæðum. Ég er búin að hugsa betur um þessa hluti í nokkra daga og sé að stundum leyfi ég fólki að ganga of nærri mér án þess að segja stopp, það held ég hljóti að vera meðvirkni (sem er sjúkleg). Hins vegar get ég ekki samþykkt hegðun sumra vina minna sem forðast að vera í sambandi við þá sem eiga í vanda, ég vil frekar gera það sem ég get til að hjálpa. Það held ég hljóti að vera samlíðan (eða samvirkni) og að rangt sé af þeim sem flýja, að kalla það meðvirkni. Að kalla það meðvirkni er bara léleg afsökun fyrir því að vera ekki til staðar í því súra, vilja bara þetta sæta.

 11. 11 hildigunnur 16 Mar, 2010 kl. 6:46 e.h.

  Við megum allavega alls alls ekki missa hæfileikann til samlíðunar (líðanar?)

 12. 12 Sigurbjörn 16 Mar, 2010 kl. 9:49 e.h.

  Mér leiðist tal um tilfinningar.

 13. 13 parisardaman 16 Mar, 2010 kl. 11:11 e.h.

  Það er afneitun, Sigurbjörn. Efni í aðra færslu.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: