aftenging

Eiríkur er með ágætis hugvekju um verkföll og sterkan samhljóm almannaróms, fjölmiðla og yfirvalda gegn verkfalli flugvirkja og bara verkföllum almennt. Ég skal fús játa mig seka um að hafa umhugsunarlaust hissast á flugvirkjum eftir nokkra pirraða feisbúkkstatusa gegn þeim en ég hef ekki hugsað mikið um þetta, svo margt annað að hugsa um einhvern veginn.

Í dag er ég til dæmis búin að hugsa mikið um það hvers vegna ég æsti mig dálítið við nokkrar vinkonur um helgina og hvort ég eigi að biðja þær afsökunar. Þannig er mál með vexti að þegar heimildamynd um íslenska hrunið og það sem hefur verið kallað búsáhaldabylting var sýnd hér í Frakklandi fyrir einhverjum mánuðum síðan, töluðu þessar vinkonur fjálglega um myndina og sögðust hafa tárast yfir henni. Ég reyndi að spyrja hvers vegna þær hefðu tárast, hvað kom tárunum fram, en fátt var um svör. Nú er það svo að þessar konur hafa aldrei tekið þátt í neinum af mótmælunum á Íslandi og taka yfir höfuð aldrei þátt í mótmælum. Þess vegna fór þessi tilfinningasemi yfir myndinni eitthvað fyrir brjóstið á mér á sínum tíma en ég sagði aldrei neitt, því miður. En svo barst „ástandið“ í tal um helgina og ég fór að segja eitthvað, því miður.
Æh, þetta er svo flókið. Ég sem er búin að vera með sjálfa mig í allsherjarmeðferð gegn því að reyna að segja fólki hvernig það á að haga sér, leyfi mér að setja mig á einhvers konar háan hest gagnvart vinum mínum. Er ég eitthvað betri en þær af því ég mætti á mótmæli? Hvað veit ég nema það sé einmitt rétt og góð hegðun að segja ekki neitt, gera ekki neitt? Leyfa bara þingmönnum og ríkisstjórn sem við réðum jú til starfans að hafa sína hentisemi og gera eins og þau vilja? Af hverju þurfum við, lýðurinn, að vera að eyða orku í að fylgjast með þeim endalaust? Getum við ekki nýtt orkuna í eitthvað betra?
En samt. Það er svo margt svo undarlegt á seyði, svo margt sem maður hélt að myndi breytast en sem virðist svo ekki breytast. Áfram er orkan okkar seld á spottprís til stórfyrirtækja sem virðast hafa óhreint mjöl í pokahorninu. Og svo er þetta herþotuæfingamál alveg til að æra óstöðugan. Ef þið hafið áhuga á að fylgjast með því sem er að gerast, sér Lára Hanna alltaf um að koma því á framfæri.

Stundum langar mig bara að klippa mig burt frá þessu öllu. Gera bara eins og maður á að gera við alka, aftengja mig og hætta að hafa áhyggjur af hegðuninni. Kannski áorka ég einhverju meiru og merkilegra ef ég næ því?

Lifið í friði.

8 Responses to “aftenging”


 1. 1 Hólmfríður Bjarnadóttir 23 Mar, 2010 kl. 10:23 f.h.

  Þó ég sé með króniskann stjórnmálaáhuga og hef haft hann frá því ég man fyrst eftir mér, þá hefur kokið á mér fyllst annað slagið nú síðustu vikurnar. Ég skil það vel að þú viljir klippa þig frá þessu öllu og bara njóta þín með bókina.
  Ég hef líka verið að temja mig í því að segja ekki öðru fólki hvernig það á að haga sér, hef þessi í stað verið að leita að því með logandi ljósi hvernig ég vil haga mér.
  Ég er ekki fyrir mótmæli, en legg þess í stað mitt við mál og tillögur sem ég tel að geti bætt ástandið, hvert sem það er.
  Fyrir mörgum árum (er 65 ára) var sagt við mig og fleiri á námskeiði í ræðumennsku.

  „Ef þið gagnrýnið einhvað, þá verður að fylgja með tillaga til úrbóta. Sú tillaga þarf ekki að vera frá ykkur sjálfum, þið getið stutt tillögu sem þegar er framkomin, en þið verðið ávalt að benda á leið til úrbóta“

  Í þessu finnst mér að liggi mikil sannindi og ég hef reynt að hafa þetta í huga þegar ég er að blogga um okkar stóra pakka.

  Gangi þér vel í Frans

 2. 2 Toyota san 23 Mar, 2010 kl. 10:58 f.h.

  Móðir Teresa var víst einhvern tíma spurð að því af hverju hún veitti ekki hinum ýmsu mótmælendum stríðs og ófriðar liðsinni sitt og rödd, mér finnst svarið hennar gott: „ég kýs að vera MEÐ friði ekki á MÓTI stríði“.

  Ég held að orkan í Búsáhaldabyltingunni svokölluðu hafa virkað neikvætt á marga sem voru þó alls ekki sáttir við ástandið síðastliðinn áratuginn, fyrir mér persónulega urðu neikvæðu bylgjurnar, þar of sterkar – hatrið rífur niður það byggir ekkert upp.

 3. 3 parisardaman 23 Mar, 2010 kl. 1:14 e.h.

  Ég upplifði allar aðgerðirnar sem ég tók þátt í heima á mjög jákvæðan hátt. Sérstaklega var frábært að vera eldsnemma að morgni að trufla ríkisstjórn á leið á kjaftæðisfund í staðinn fyrir að segja af sér. Það var mjög falleg og jákvæð og góð aðgerð. Einnig aðgerðin við hótel Borg þegar Kryddsíldin var stöðvuð. Þvert á lýsingar í fjölmiðlum, fóru þau mótmæli mjög friðsamlega fram, fyrir utan hysterísk viðbrögð lögreglunnar. Ekki má gleyma því að Móðir Teresa var aðgerðarsinni, bara á sinn hátt.
  En í dag hef ég ákveðið að byrja aftengingu og ætla að beina kröftum mínum í eitthvað annað. Kannski verð ég búin að skipta um skoðun aftur á morgun, það er alveg minn stíll:)

 4. 4 baun 23 Mar, 2010 kl. 5:39 e.h.

  Það er ekki séns í helvíti að ég hafi samúð með málstað hátekjuhópa sem eru í þeirri einstöku aðstöðu að geta haft hrikaleg áhrif með því að fara í verkfall, óháð kjörum almennings og ástandsins í þjóðfélaginu eins og það heitir. Verkfallsvopnið er misbeitt eftir stéttum, og því virðist vera misbeitt af sumum stéttum. Og á meðan má þorri almennings snapa gams.

 5. 5 ella 23 Mar, 2010 kl. 11:44 e.h.

  Ég var stundum að velta þessu fyrir mér meðan hæst lét; færi ég þangað ef ég væri fyrir sunnan? Ég veit það ekki enn. Það var svo margt þarna sem ég hefði aldrei í lífinu viljað láta bendla mig við, sumar ræðurnar til dæmis voru glórulausar, en þegar þau fóru að gefa lögreglumönnunum blóm varð ég heilluð. Múgæsing er vond og spillir jafnvel hinum besta málstað en margir og vafalaust flestir voru á góðum nótum. Auðvitað var myndavélunum helst beint að stöðunum þar sem“eitthvað var að gerast“. Ég ber virðingu fyrir fólki sem fórnar tíma og orku fyrir góðan málstað.

 6. 6 Svanfríður 24 Mar, 2010 kl. 3:44 e.h.

  Ég ber fölskvalausa virðingu fyrir þeim sem gefa af sér og hafa trú á því sem þeir gera (á ég ekki við hryðjuverkasamtök þó-þú skilur hvað ég á við) Stundum er ég rög við að segja hlutina ef mér finnst ég ekki geta rökstutt þá nægilega vel því það kallar oft á misskilning þeirra sem á hlusta og hvað ég hef oft lent í því að vera misskilin,hef ég ekki tölu á;)
  Hafðu það gott:)

 7. 7 Thrainn Kristinsson 26 Mar, 2010 kl. 1:49 f.h.

  Það voru náttúrulega frekar fáir sem tóku einhvern þátt í mótmælum. Ég mætti alltaf hafði það mjög styrkjandi áhrif á andlega heilsu mína á þessum tíma og í vonbrigðunum yfir fámenninu hugsaði ég með mér að ég væri líka að mæta fyrir mína nánustu og vini sem mörg hver höfðu stór orð á lofti og brýndu fyrir mér að mæta á Austurvöll og mættu svo ekki sjálf…og voru ýmsar oft frekar aumkunarverðar ástæður tilgreindar.

  Ég horfði á Z um daginn og hugsaði þá að eftirá var þetta ómetanleg reynsla að hafa tekið þátt hvernig svo sem árangurinn er metinn…ríkisstjórnin, seðlabankastjórar, stjórn FME og kosningar strax var mantran hjá Herði og það varð…en berum við ábyrgð á þvi sem skeði eftir það?

 8. 8 parisardaman 26 Mar, 2010 kl. 9:44 f.h.

  Hver eru grunnlaun flugumferðarstjóra? Tölurnar sem eru nefndar eru með yfirvinnu o.s.frv. Það er því ekki alveg að marka þær. Ég hef ekki tíma til að tékka á þessu og hef því svo sem enga skoðun á málinu eins og er.
  Ella og Svanfríður, þið eruð akkúrat svona fólk sem ég myndi vilja breyta í aðgerðarsinna:)
  Ja, bera eða bera ekki ábyrgð. Við megum alla vega ekki bara hætta að fylgjast með, finnst mér. Og mér finnst allt of margt benda til þess að vinstrið sé ekki að haga sér eins og vinstri. Mér sýnist ansi margir í svokölluðum vinstriflokkum fara að eins og þeir ætli að hylma yfir og halda áfram með kapítalísku aðferðinni. Það finnst mér drullufokkinghelvíti fúlt.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: