Sarpur fyrir apríl, 2010

garðurinn sem enn ekki fæst til afnota

Ég fór í dag og skoðaði garðana sem búið er að úthluta en sem við fáum ekki aðgang að á aðalútsáningartímabilinu, vegna hægagangs í einhverju kerfi. Ég fékk sumsé að vita að ég fengi garð fyrir einhverju alllöngu síðan, svo fékk ég að vita eftir óþolinmæðisímtal að ég gæti svo sem komið og sótt lásinn, en lyklarnir væru ekki til. Það gerði mig orðlausa og ég hef ekki truflað þá síðan. En fyrir rúmri viku síðan fékk ég að vita að nú væru pappírarnir í höndum umsjónarmanns sem hefði samband innan tíðar. Síðan hefur ekkert spurst til neins, en ég bíð þolinmóð, nota aðferðina anda inn, anda út, sem er víst helvíti góð.
Í dag voru nokkrir bæjarstarfsmenn að stússa með hjólbörur. Þeir blöstuðu útvarpi úr litla vörubílnum og lagið sem ómaði var „It’s raining men“. Ég tek það sem góðu tákni. Bæði er þetta eitt af mínum uppáhaldsdiskólögum og svo hlýtur að vera gott fyrir jarðveginn að það rigni. Karlmönnum.

Hér eru tvær myndir:

tveir skúrar hlið við hlið, á lóðarmörkum

tveir skúrar hlið við hlið, á lóðarmörkum


ein lóð

ein lóð


Lifið í friði.

gosorð

sallaróleg – öskuill – hrauna ég yfir þig – þú snertir kvikuna í mér – það gaus upp mér löngun…

Ég lýsi eftir fleiri gostengdum hugtökum.

Ekki til að markaðssetja kremið „Eilíf aska“ sem varð til á feisbúkk í gær. Og endaði í að verða hvað skal maður kalla það sem notað er til að smyrja lík: Smyrðu látinn eiginmanninn með ösku úr Eyjafjallajökli, við lofum því að askan af honum kemst lengra en þig gæti grunað.

Lifið í friði.

blóm

Það veit ekki á gott að vakna allt of snemma daginn sem maður er búinn að lofa sjálfum sér að sofa út eftir langan dag og kvöld. Ég hef ekki afkastað nema broti af því sem ég ætlaði mér og hef eiginlega eytt þessum fagra degi í vitleysu. Fyrir utan símtölin við vinkonurnar kannski.
Reyndar ég er líka búin að hlusta tvisvar á Álfur út úr hól sem Björk söng 12 ára gömul og það er ekki tímasóun.
Nú ætla ég að hafa mig til og ganga út í sólina og ganga eins langt og ég næ áður en ég sting mér ofan í neðanjarðarlest og fer og sæki börnin mín sem eru að koma heim eftir vikudvöl í suðrænni sveit með ömmu sinni og fleiri góðum konum. Ahhh, hvað ég hlakka til að fá þau í fangið. Ég get ekki sett á mig maskara því ég veit að ég á eftir að gráta dálítið, ég er eitthvað svo meyr þessa dagana. Í morgun grét ég til dæmis töluvert yfir viðtali við blindan mann í Kastljósi í gær. Hann var svo æðrulaus og fallegur að það var ekkert annað hægt.

Og til að kóróna meyrnina, ætla ég að setja inn mynd af uppáhaldsblómunum mínum. Þau minna mig alltaf á ömmu Helgu, en hún var alltaf með yndislega fallegt valmúabeð í Kjósinni.

DSC02189

Lifið í friði.

Gleðilegt sumar!

Gamalt japanskt kirsuberjatré í Jardin des Plantes

Gamalt japanskt kirsuberjatré í Jardin des Plantes

Megi bættur hugsunarháttur jafnt hjá yfirvöldum sem og í þjóðarhjartanu einkenna sumarið 2010.

Eitt af því sem mig hefur alltaf dreymt um að gera, er að setjast undir kirsuberjatré þegar fyrstu blómaknúpparnir fara að koma og sjá þá springa út. Þetta gera víst Japanir. Segir sagan. Ég þekki næstum engan Japana persónulega, en vinur minn er í miklum samskiptum við Japan og segir okkur stundum sögur af því. Honum gengur vel að eiga við þá, enda er hann aðlögunarhæfur og hefur starfað töluvert í fjarlægum löndum. Hann segir þá ekki líkjast neinu öðru fólki sem hann hefur kynnst. Ekki held ég að fólk myndi almennt tala um Japani sem letingja (við vitum jú öll að Portúgalir, Spánverjar og Arabar eru letingjar (þetta er hádramatísk ádeila á rangan hugsunarhátt)), en samt finnst þeim verðugt verkefni að setjast undir kirsuberjatré og fylgjast með blómunum springa út. Það ætti kannski að geta verið okkur vinnudýrunum á Íslandi ágætis lexía.

Gleðilegt sumar. Njótið. Lifið. Elskist. Verið til.

Annað tré í sama garði

Annað tré í sama garði

Lifið í friði.

Myndir af bóksala við Signu

byrjar á því að opna alla lása

byrjar á því að opna alla lása


Búinn að opna fyrsta kassann af fimm
Alveg að verða búinn að opna alla kassana

Alveg að verða búinn að opna alla kassana


ekki búið að raða eins og það verður og ekki orðið fullt

ekki búið að raða eins og það verður og ekki orðið fullt


Kaupi bækur og bókasöfn
Hinrik IV er góður nágranni

Hinrik IV er góður nágranni

Lifið í friði.

bouquiniste, frb. búkkíníst: bóksali

Á eftir fyllum við hjónin okkar eðalbláa Citroën af bókakössum og ökum sem leið liggur niður að miðju Parísar. Þar, á Quai des grands Augustins, gegnt númer 53bis, opnar Arnaud svo bóksöluna sína í grænum kössum um hádegisbilið. Arnaud, le bouquiniste.
Ég get svo sem lofað mynd, en ég gæti samt verið að lofa upp í ermina á mér.

Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að við erum nú bæði orðin sjálfstæðir atvinnurekendur. Nú er ekki lengur hægt að treysta á evrurnar sem Arnaud fékk fyrir að standa og selja annarrar konu bækur, heldur verður hann bara að standa sig í að selja það sem hann hefur viðað að sér í gegnum árin. Hann er dugnaðarforkur og veit hvað hann er að selja, svo þetta ætti að ganga upp. Við ætlum í það minnsta ekki að hlusta á kveinið í gömlu búkkínistunum, þetta er sama kveinið og heyrðist fyrir 15 árum síðan og er líklega bara hluti af umhverfinu. Frakkar eru dálítið fyrir að kveina án þess að það risti djúpt. Líklega hef ég algerlega aðlagast hvað þetta varðar.

Vorið er komið. Alla vega í bili. Kirsuberjatré, eplatré, perutré og apríkósutré standa í fullum blóma, sól skín í heiði og hitastigið á það til að skoppa upp í 20. Það er þó oftar frekar svalt og ég er enn með ullarbolinn til taks, eftir að hafa í óráði eða sjúku bjartsýniskasti haldið að ég gæti pakkað honum niður fyrir mörgum vikum síðan.

Ísland var og er enn á allra vörum. Fólk hefur áhyggjur af íbúum landsins sem aldrei sjást á nokkurri einustu fréttamynd. Ég er spurð spjörunum úr um aðbúnað og líðan, stöðu landbúnaðarins og fleira sem virðist lítið sem ekkert hafa verið talað um í fréttum hérna. Og fólk gapir enn yfir því hvað við erum fámenn þjóð. En allir vita nú nákvæmlega hvar það er á kortinu, hafi það verið óljóst áður.

Og mín plön eru afar óljós. Ég er með risastóran hnút í maganum því ég hef ekki efni á að festa mér flugmiða til landsins í sumar og sé þá bara snarhækka með hverjum deginum sem líður. Brátt verða ekki eftir sæti sem ég get leyft mér að splæsa í. Ég fer ekki ofan af því að mér finnst það ótækt að ekki skuli vera hægt að panta og láta geyma fyrir sig sæti. Og hafi fólk í stórum stíl verið að afpanta undanfarna daga, eins og ferðaþjónustan vill meina, hefur það ekki skilað sér í meira úrvali af ódýrari sætum í vélunum í sumar. Skyldu kveinstafir vera orðnir eðlilegur hluti af íslenskri ferðaþjónustu? Nei, það getur fjandakornið ekki verið. Haldið þið það nokkuð?

Lifið í friði.

fjallið

Ég fékk þessi skilaboð frá gömlum bekkjarfélaga:

Ef Kristín kemst ekki til fjallsins, kemur fjallið til Kristínar.

Mér finnst þau svolítið skemmtileg og eftir sæmilegan nætursvefn – draumarnir snerust vitanlega um alls konar náttúruhamfarir og ég var auðvitað með pínulítið ungabarn – og róandi athugasemd frá Ellu, líður mér eitthvað betur.

Hér tala fjölmiðlar ekki um neina hættu fyrir mannfólk, bara flugumferð, svo líklega er það rétt. Frönsk yfirvöld væru líklegri til að vera með ofsaviðbrögð, afhendandi grímur á hverju götuhorni, en að vera að draga úr ástandinu. (Paranojan í mér segir reyndar: nema af því þeir vita að við munum öll deyja, vilja þeir ekki segja neitt. En ég er ekki haldin sjúklegu ofsóknarbrjálæði, get ráðið við þessa tilfinningu).

Lifið í friði.

hræðsla

Þetta myndband hræðir mig. Ég skildi engan veginn í morgun hvernig fólk gat verið að grínast með öskufall, fyrir mér er orðið beintengt við móðuharðindin og hryllilegar afleiðingar þá. Ég hafði frekar áhyggjur af fólki og dýrum en mig grunaði ekki að ég væri í nokkurri hættu.
Ég trúi því að við séum líklega betur í stakk búin að takast á við öskufall í dag en í lok 18. aldar, en samt. Mér er órótt. Eiginlega er ég alveg jafnhrædd eins og ég verð þegar það verður of hvasst.
Mig langar mest að liggja undir sæng á morgun með bók og alla hlera lokaða og hafa alla fjölskylduna hjá mér. Fjölmiðlar hér tala eingöngu um lamaða flugumferð, ekkert um hvernig bregðast á við ef aska fer að berast hingað. Er ástæðulaust fyrir mig að líða svona undarlega gagnvart þessu?

Lifið í friði.

grænmetiskássan sem galdraðist fram í skýrslulostinu

Í gær var ákveðið á foreldrafundi um morguninn að hafa spagettí í kvöldmatinn. Þegar það er spagettí í kvöldmatinn er langsamlega oftast sósa úr krukku höfð með, stundum blönduð túnfiski eða kjöti á tyllidögum. En svo kom í ljós að næturgesturinn okkar ætlaði að koma heim í kvöldmat og þá fannst mér ótækt að gera ekki eitthvað næringarríkt og gott úr öllu þessu fína grænmeti sem er til í ísskápnum. Ég hafði mjög lítinn tíma því ég þurfti að rjúka út að sækja Kára í tónlistarskólann. Ég á oftast mjög erfitt með að ákveða hvað á að vera í matinn og næ langoftast að láta manninn minn sjá um þá deild. En í gær kom einhver andi yfir mig og þetta varð til:

Ég hakkaði niður nokkrar gulrætur, einn lauk, bita af engifer, hvítlauksrif og smá bita af púrrulauk. Þetta glæraði ég í ólífuolíu og kryddaði með salti, pipar og kúmmíni.
Svo bætti ég Quinoa-korni við og vatni í samræmi við magnið (nóg handa 5, mjög væn lúka) og skildi eftir til að sjóða í 20 mínútur meðan ég rauk að ná í soninn (næturgesturinn var kominn heim og hún hrærði við og við).
Þegar ég kom heim, sá ég að þetta var engan veginn nógu matarmikið miðað við eigin svengd og væntanlega hinna líka. Þá reif ég fram poka af sojapróteinum í smáum bitum, tók aðra vel væna lúku af þeim og lagði í bleyti í kalt vatn ásamt lífrænum kjúklingateningi í fimm mínútur og sauð svo með öllu hinu í aðrar fimm mínútur. Þetta er hin ljúffengasta kássa sem ég er einmitt að gæða mér á upphitaðri núna.
Sojakjöt er hlutur sem margir hafa einhvers konar óbeit á, en það er algerlega út í hött. Þetta er hræódýrt, bragðlaust og fyllir upp í allar kássur sem þú vilt fylla upp með því. Þú getur t.d. gert dásemdar lasagna eða chili con carné með litlu magni af nautahakki og meiru magni af sojakjöti. Ég skal veðja að fáir finna muninn ef þú notar gott soð (tening) og ert með góða uppskrift af lasagna eða chili con carné.
Ég býst við að þessi kássa handa okkur í gær hafi kostað innan við 8 evrur með öllu. Ég hef þó ekki reiknað það út vísindalega. Hún fæddi okkur fimm í gær, ásamt niðursneyddum tómötum og grænu salati. Og er hádegisverðurinn minn í dag og líklega aftur á morgun. Ég hrærði smá tahini út í kássuna í dag og ætla að útfæra þetta áfram með kókosmjólk og karrý, eða hnetum eða fleiru góðgæti.

Quinoa féll ég fyrir um leið og ég uppgötvaði það. Þetta er í líkingu við hrísgrjón eða couscous, en hefur það fram yfir að vera ekki [jafn] kolvetnisríkt heldur er úr grænmetisríkinu. Það er víst kostur fyrir okkur litlu búllurnar sem langar alltaf að missa 2 til 3 kíló.

Hvað lestur á skýrslu varðar, ákvað ég að naglalakka á mér táneglurnar í dag. Ef þið sjáið ekki samhengið er það allt í lagi.

Ég fór að spá í nafn á kássuna áður en ég ýtti á publish, hugmyndir vel þegnar. Frábið mér skýrslutengdum nöfnum nema þau séu óborganlega fyndin.

Lifið í friði.

bojkott og gísling

Ég hef lengi argast út í það að á hverjum degi neyðist ég til að eiga viðskipti við fyrirtæki sem ég fyrirlít. Það er einfaldlega langoftast bara hreint ekkert val. Nú er ég alveg steinhissa á því að hafa ekki séð neina almennilega úttekt á eignum og lífsstíl Vilhjálms Bjarnasonar eftir að hafa afþakkað gjafabréf á föstudagskvöld. Hvernig bíl á hann? Hvað heita skórnir hans? Hvaða kaffi drekkur hann? Hvaðan kemur bláa skyrtan?

Veit einhver um einhvern sem getur bojkottað alla ljótu kallana? Sjálf er ég með reikning í Landsbankanum og annan í BNP. Ég kaupi oft jógúrt frá Danone, súkkulaði frá Nestlé, ég gekk í ísraelskum sandölum árum saman, ég er áskrifandi að Canal +, ég á kolefnisspúandi bíl, ég kaupi föt í HogM og bókahillur í Ikea. Ég er viss um að þetta eru allt ljótukallafyrirtæki þó sumum þeirra hafi tekist að leyna því mjög glæsilega (hvernig fara Svíarnir að þessu?).

Ég veit ekki um neinn sem getur lifað fullkomlega eftir prinsippunum sínum. Og mig vantar pening til að geta keypt miða til Íslands í sumar fyrir mig og börnin, áður en helvítis sætin seljast upp. Því mig langar að eyða sumrinu á Íslandi, aðallega vegna barnanna, bæði minna og systur minnar og allra hinna.
Þegar ég verð búin að skrapa saman fyrir þessum miðum, mun ég smella á kaupa-hnappinn hjá þeim seljanda sem þann daginn býður mér lægstu verðin. Í mínum huga eru þetta þrjú skítafyrirtæki.
Ég hefði sennilega ekki talið mig hafa efni á því að afþakka gjafabréf upp á fimmtíuþúsundkall.

En þetta var samt flott stönt hjá Vilhjálmi og ágætt að vekja fólk til umhugsunar að stundum er hægt að bojkotta og að bojkott er góð leið neytandans til að koma málstað sínum á framfæri.
Bojóboj, hvað svipurinn á Þóru er líka óborganlegur. Sem og lokasetningin: Sjáumst kannski næsta vetur. Skyldi það velta á stuðningi Iceland Express?

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha