Á eftir fyllum við hjónin okkar eðalbláa Citroën af bókakössum og ökum sem leið liggur niður að miðju Parísar. Þar, á Quai des grands Augustins, gegnt númer 53bis, opnar Arnaud svo bóksöluna sína í grænum kössum um hádegisbilið. Arnaud, le bouquiniste.
Ég get svo sem lofað mynd, en ég gæti samt verið að lofa upp í ermina á mér.
Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að við erum nú bæði orðin sjálfstæðir atvinnurekendur. Nú er ekki lengur hægt að treysta á evrurnar sem Arnaud fékk fyrir að standa og selja annarrar konu bækur, heldur verður hann bara að standa sig í að selja það sem hann hefur viðað að sér í gegnum árin. Hann er dugnaðarforkur og veit hvað hann er að selja, svo þetta ætti að ganga upp. Við ætlum í það minnsta ekki að hlusta á kveinið í gömlu búkkínistunum, þetta er sama kveinið og heyrðist fyrir 15 árum síðan og er líklega bara hluti af umhverfinu. Frakkar eru dálítið fyrir að kveina án þess að það risti djúpt. Líklega hef ég algerlega aðlagast hvað þetta varðar.
Vorið er komið. Alla vega í bili. Kirsuberjatré, eplatré, perutré og apríkósutré standa í fullum blóma, sól skín í heiði og hitastigið á það til að skoppa upp í 20. Það er þó oftar frekar svalt og ég er enn með ullarbolinn til taks, eftir að hafa í óráði eða sjúku bjartsýniskasti haldið að ég gæti pakkað honum niður fyrir mörgum vikum síðan.
Ísland var og er enn á allra vörum. Fólk hefur áhyggjur af íbúum landsins sem aldrei sjást á nokkurri einustu fréttamynd. Ég er spurð spjörunum úr um aðbúnað og líðan, stöðu landbúnaðarins og fleira sem virðist lítið sem ekkert hafa verið talað um í fréttum hérna. Og fólk gapir enn yfir því hvað við erum fámenn þjóð. En allir vita nú nákvæmlega hvar það er á kortinu, hafi það verið óljóst áður.
Og mín plön eru afar óljós. Ég er með risastóran hnút í maganum því ég hef ekki efni á að festa mér flugmiða til landsins í sumar og sé þá bara snarhækka með hverjum deginum sem líður. Brátt verða ekki eftir sæti sem ég get leyft mér að splæsa í. Ég fer ekki ofan af því að mér finnst það ótækt að ekki skuli vera hægt að panta og láta geyma fyrir sig sæti. Og hafi fólk í stórum stíl verið að afpanta undanfarna daga, eins og ferðaþjónustan vill meina, hefur það ekki skilað sér í meira úrvali af ódýrari sætum í vélunum í sumar. Skyldu kveinstafir vera orðnir eðlilegur hluti af íslenskri ferðaþjónustu? Nei, það getur fjandakornið ekki verið. Haldið þið það nokkuð?
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir