grænmetiskássan sem galdraðist fram í skýrslulostinu

Í gær var ákveðið á foreldrafundi um morguninn að hafa spagettí í kvöldmatinn. Þegar það er spagettí í kvöldmatinn er langsamlega oftast sósa úr krukku höfð með, stundum blönduð túnfiski eða kjöti á tyllidögum. En svo kom í ljós að næturgesturinn okkar ætlaði að koma heim í kvöldmat og þá fannst mér ótækt að gera ekki eitthvað næringarríkt og gott úr öllu þessu fína grænmeti sem er til í ísskápnum. Ég hafði mjög lítinn tíma því ég þurfti að rjúka út að sækja Kára í tónlistarskólann. Ég á oftast mjög erfitt með að ákveða hvað á að vera í matinn og næ langoftast að láta manninn minn sjá um þá deild. En í gær kom einhver andi yfir mig og þetta varð til:

Ég hakkaði niður nokkrar gulrætur, einn lauk, bita af engifer, hvítlauksrif og smá bita af púrrulauk. Þetta glæraði ég í ólífuolíu og kryddaði með salti, pipar og kúmmíni.
Svo bætti ég Quinoa-korni við og vatni í samræmi við magnið (nóg handa 5, mjög væn lúka) og skildi eftir til að sjóða í 20 mínútur meðan ég rauk að ná í soninn (næturgesturinn var kominn heim og hún hrærði við og við).
Þegar ég kom heim, sá ég að þetta var engan veginn nógu matarmikið miðað við eigin svengd og væntanlega hinna líka. Þá reif ég fram poka af sojapróteinum í smáum bitum, tók aðra vel væna lúku af þeim og lagði í bleyti í kalt vatn ásamt lífrænum kjúklingateningi í fimm mínútur og sauð svo með öllu hinu í aðrar fimm mínútur. Þetta er hin ljúffengasta kássa sem ég er einmitt að gæða mér á upphitaðri núna.
Sojakjöt er hlutur sem margir hafa einhvers konar óbeit á, en það er algerlega út í hött. Þetta er hræódýrt, bragðlaust og fyllir upp í allar kássur sem þú vilt fylla upp með því. Þú getur t.d. gert dásemdar lasagna eða chili con carné með litlu magni af nautahakki og meiru magni af sojakjöti. Ég skal veðja að fáir finna muninn ef þú notar gott soð (tening) og ert með góða uppskrift af lasagna eða chili con carné.
Ég býst við að þessi kássa handa okkur í gær hafi kostað innan við 8 evrur með öllu. Ég hef þó ekki reiknað það út vísindalega. Hún fæddi okkur fimm í gær, ásamt niðursneyddum tómötum og grænu salati. Og er hádegisverðurinn minn í dag og líklega aftur á morgun. Ég hrærði smá tahini út í kássuna í dag og ætla að útfæra þetta áfram með kókosmjólk og karrý, eða hnetum eða fleiru góðgæti.

Quinoa féll ég fyrir um leið og ég uppgötvaði það. Þetta er í líkingu við hrísgrjón eða couscous, en hefur það fram yfir að vera ekki [jafn] kolvetnisríkt heldur er úr grænmetisríkinu. Það er víst kostur fyrir okkur litlu búllurnar sem langar alltaf að missa 2 til 3 kíló.

Hvað lestur á skýrslu varðar, ákvað ég að naglalakka á mér táneglurnar í dag. Ef þið sjáið ekki samhengið er það allt í lagi.

Ég fór að spá í nafn á kássuna áður en ég ýtti á publish, hugmyndir vel þegnar. Frábið mér skýrslutengdum nöfnum nema þau séu óborganlega fyndin.

Lifið í friði.

17 Responses to “grænmetiskássan sem galdraðist fram í skýrslulostinu”


 1. 1 Björn Friðgeir 13 Apr, 2010 kl. 12:47 e.h.

  hrísgrjón og couscous ekki úr grænmetisríkinu.
  Que??
  Reyndar virðist quinoa hollara, um 64% kolvetni móti 79% í hrísgrjónum og betri ballans af nauðsynlegum amínósýrum.
  En samt 🙂

 2. 2 parisardaman 13 Apr, 2010 kl. 12:57 e.h.

  Uss, ekki vera að hanka mig á svona smáatriðum sem ég einmitt nennti ekki að gefa mér tíma í að tékka á, en skal þá gera það núna. Dæs.
  Í frönsku er légumes (grænmeti) ekki það sama og céréales (korn). Hrísgrjón og couscous eru céréales, en quinoa er légume. Sjáum nú hvað snara.is segir. Céréale: kornjurt; korn, kornmeti. Farine de céréales: mjöl. Légume: (k) grænmeti. Légumes verts: ferskt grænmeti. Soupe aux légumes. Bouillon de légumes. Légumes secs: þurrkaðir belgávextir.
  En áhugaverðust er grein um grænmeti á Wikipedia: http://is.wikipedia.org/wiki/Gr%C3%A6nmeti
  Þar kemur fram að korn er sumsé grænmeti. Hah. Þú hefur alveg einstakt lag á að pikka upp úr því sem ég skrifa, það sem ég hika með en læt svo flakka. Við hljótum því að vera andlega skyld:)

 3. 3 parisardaman 13 Apr, 2010 kl. 1:03 e.h.

  Ég leyfði mér að laga þetta aðeins, en hélt þó villu míns vegar inní pistlinum.

 4. 4 Björn Friðgeir 13 Apr, 2010 kl. 1:07 e.h.

  jamm ‘græmmeti’ er loðið hugtak og teygjanlegt.
  úr ensku wiki: Pseudocereals are broadleaf plants (non-grasses) that are used in much the same way as cereals (true cereals are grasses).
  og quinoa er sumsé súdóseríal. Eða þannig.
  Þetta er alltsaman kanínufóður anyway.

 5. 5 parisardaman 13 Apr, 2010 kl. 1:25 e.h.

  Nammigott kanínufóður.

 6. 6 Líba 13 Apr, 2010 kl. 3:01 e.h.

  Nafn á réttinn? … eitthvað með K-i til heiðurs kokknum … hmm … Kvínó … þó kokknum sé frekar líkt við lítinn prins … Kvísoja … uss hvað það er erfitt að finna nafn á svona heilsusamlega kássu

 7. 7 Hulda 13 Apr, 2010 kl. 3:04 e.h.

  Þarf að prófa quinoa í svona sjálfsprottna matargerð en vil líka benda á að grænar linsubaunir eru frábærar í alls konar kássur og súpur og lasagna og salöt og ég veit ekki hvað og hvað. En það veist þú væntanlega allt um. Þess utan eru þær ofurhollar.

 8. 8 Linda 13 Apr, 2010 kl. 4:45 e.h.

  Þetta er nú svo augljóst, þ.e.a.s. nafnið á réttinum. Soqui kássa 🙂

 9. 9 parisardaman 13 Apr, 2010 kl. 6:26 e.h.

  Pælum betur í nöfnunum… Hulda, já, linsubaunir eru líka algert lostæti og auðveldar í notkun (annað en nýrnabaunir og aðrar glerharðar baunir sem þurfa að liggja allt of lengi í bleyti og svona).

 10. 10 einar jónsson 13 Apr, 2010 kl. 7:37 e.h.

  Maður verður bara svangur.

 11. 12 hildigunnur 13 Apr, 2010 kl. 11:27 e.h.

  Bara ekki reyna að naglalakka kakkalakkana eins og Pekka.

 12. 13 parisardaman 14 Apr, 2010 kl. 7:13 f.h.

  Lostglás gæti festst. Kakkalakkarnir eru ólakkaðir.

 13. 14 Sigurbjörn 14 Apr, 2010 kl. 11:21 f.h.

  Kínóa heitir hélunjóli á íslensku og er það nóg til að ég legg mér ekki slíkt til munns.

 14. 15 parisardaman 14 Apr, 2010 kl. 1:49 e.h.

  Hélunjóli er… dramatískt. Hver í ósköpunum bjó orðið til? Árni Johnsen?

 15. 16 ella 14 Apr, 2010 kl. 7:34 e.h.

  Er ekki bara nóg að skipta í jurtaríki – dýraríki – steinaríki? Það dugði þegar ég var lítil og ég hef sáralítið stækkað svo að ég legg til að það verði bara látið standa.

 16. 17 parisardaman 14 Apr, 2010 kl. 11:13 e.h.

  jújú, það er einmitt málið með þetta dæmi. Bæði korn og annað kál (sem ég vildi kalla grænmeti) eru úr jurtaríkinu.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: