bouquiniste, frb. búkkíníst: bóksali

Á eftir fyllum við hjónin okkar eðalbláa Citroën af bókakössum og ökum sem leið liggur niður að miðju Parísar. Þar, á Quai des grands Augustins, gegnt númer 53bis, opnar Arnaud svo bóksöluna sína í grænum kössum um hádegisbilið. Arnaud, le bouquiniste.
Ég get svo sem lofað mynd, en ég gæti samt verið að lofa upp í ermina á mér.

Það eru blendnar tilfinningar sem fylgja því að við erum nú bæði orðin sjálfstæðir atvinnurekendur. Nú er ekki lengur hægt að treysta á evrurnar sem Arnaud fékk fyrir að standa og selja annarrar konu bækur, heldur verður hann bara að standa sig í að selja það sem hann hefur viðað að sér í gegnum árin. Hann er dugnaðarforkur og veit hvað hann er að selja, svo þetta ætti að ganga upp. Við ætlum í það minnsta ekki að hlusta á kveinið í gömlu búkkínistunum, þetta er sama kveinið og heyrðist fyrir 15 árum síðan og er líklega bara hluti af umhverfinu. Frakkar eru dálítið fyrir að kveina án þess að það risti djúpt. Líklega hef ég algerlega aðlagast hvað þetta varðar.

Vorið er komið. Alla vega í bili. Kirsuberjatré, eplatré, perutré og apríkósutré standa í fullum blóma, sól skín í heiði og hitastigið á það til að skoppa upp í 20. Það er þó oftar frekar svalt og ég er enn með ullarbolinn til taks, eftir að hafa í óráði eða sjúku bjartsýniskasti haldið að ég gæti pakkað honum niður fyrir mörgum vikum síðan.

Ísland var og er enn á allra vörum. Fólk hefur áhyggjur af íbúum landsins sem aldrei sjást á nokkurri einustu fréttamynd. Ég er spurð spjörunum úr um aðbúnað og líðan, stöðu landbúnaðarins og fleira sem virðist lítið sem ekkert hafa verið talað um í fréttum hérna. Og fólk gapir enn yfir því hvað við erum fámenn þjóð. En allir vita nú nákvæmlega hvar það er á kortinu, hafi það verið óljóst áður.

Og mín plön eru afar óljós. Ég er með risastóran hnút í maganum því ég hef ekki efni á að festa mér flugmiða til landsins í sumar og sé þá bara snarhækka með hverjum deginum sem líður. Brátt verða ekki eftir sæti sem ég get leyft mér að splæsa í. Ég fer ekki ofan af því að mér finnst það ótækt að ekki skuli vera hægt að panta og láta geyma fyrir sig sæti. Og hafi fólk í stórum stíl verið að afpanta undanfarna daga, eins og ferðaþjónustan vill meina, hefur það ekki skilað sér í meira úrvali af ódýrari sætum í vélunum í sumar. Skyldu kveinstafir vera orðnir eðlilegur hluti af íslenskri ferðaþjónustu? Nei, það getur fjandakornið ekki verið. Haldið þið það nokkuð?

Lifið í friði.

12 Responses to “bouquiniste, frb. búkkíníst: bóksali”


 1. 1 baun 21 Apr, 2010 kl. 7:45 f.h.

  Það hlýtur alltaf að vera nóg af túristum í París sem kaupa bækur, nema auðvitað Eiffelturninn taki upp á því að gjósa. Vona að allt gangi í haginn hjá búkkinistanum þínum og hann selji grimmt.

 2. 2 einar jónsson 21 Apr, 2010 kl. 8:00 f.h.

  Er ekki frekar erfitt að fá sinn eigin bókakassa? Minnir að ég hafi heyrt það einhvern tíma. Hann hlýtur að vera kominn með góðan kúnnahóp eftir öll þessi ár.

 3. 3 hildigunnur 21 Apr, 2010 kl. 8:06 f.h.

  Krossa putta til baka að þið komist heim í sumar! Og gangi ógurlega vel með söluna.

 4. 5 ella 21 Apr, 2010 kl. 10:20 f.h.

  Kveinstafir? Íslendingar? Tjaaa…
  Fréttamenn. Dööö.

 5. 6 parisardaman 21 Apr, 2010 kl. 10:24 f.h.

  Já, Baun, það gæti sett strik í reikninginn ef Eiffelturninn tæki upp á þeim ósóma að fara að reykja á gamals aldri. Arnaud er í raun ekki að stíla inn á túristana, nema þá franska túrista sem búa langt frá bókabúðum.
  Jú, Einar, þetta tekur langan tíma en reglunum var þó breytt núna og ekki bara farið eftir tímaröð biðlistans, heldur voru umsóknirnar teknar fyrir og verið er að reyna að fá fleiri til að vera með alvöru bækur, ekki bara túristadót, svo Arnaud vann! Takk fyrir puttakrossun og allt. Ég hef alla vega séð tvær manneskjur úr ferðaþjónustunni kveinandi í sjónvarpinu;)

 6. 7 parisardaman 21 Apr, 2010 kl. 10:25 f.h.

  Djí, hvað ég er alltaf stoppuð af þessari blessuðu kæfuvörn. Og rétt upp hend sem finnst kæfuvörn góð íslenskun? Ekki mér!

 7. 8 Líba 21 Apr, 2010 kl. 11:12 f.h.

  Enginn er búmaður nema hann barmi sér … er ekki til samskonar spakmæli á frönsku?

  Ég hef fulla trú á ykkur hjónum til hvers þess sem þið takið ykkur fyrir hendur. Gangi búkkínistum og parísardömum sem best.

 8. 9 einar jónsson 21 Apr, 2010 kl. 1:22 e.h.

  Ég held að viti hver eigi heiðurinn af orðinu kæfa í merkingunni spam. Kæfuvörn er hins vegar ekki frá honum komin að ég held.

 9. 10 Rútur 21 Apr, 2010 kl. 1:25 e.h.

  Til hamingju. Það er ekki laust við að ég öfundi Arnaud, ég gæti mjög vel hugsað mér að vera „búkkínisti“ á Signubakka. Sendi ykkur árnaðaróskir.

 10. 11 ella 21 Apr, 2010 kl. 3:23 e.h.

  Mér finnst ekki rétt að bendla kæfu við þetta, hún er svo góð.

 11. 12 Líba 21 Apr, 2010 kl. 4:07 e.h.

  Skinka? Íslensk skinka er altjént hálfgert spam … skinkuvörn kveikir bros hjá mér ; )


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha

%d bloggurum líkar þetta: