Sarpur fyrir maí, 2010

the eye of the beholder?

Alveg magnað að lesa svo fallega færslu um hverfið sitt gamla. Í smá stund langaði mig mest að skamma mömmu og pabba fyrir að hafa vogað sér að flytja þaðan. Og reyndar sendi ég þeim tengilinn að þessum skrifum, bara ákvað að vera ekkert að skamma þau, enda er ég svo þroskuð að ég veit að það þýðir ekkert að vera að skammast út í löngu orðinn hlut. Foreldrar mínir fluttu nefnilega úr Seljahverfinu rétt um það bil sem ég flutti til Parísar, fyrir tuttugu árum síðan.

Í dag bendir Einar Örn svo á þessa færslu og skyndilega færist svartur skuggi yfir dýrðarljóma æskunnar.

Að vísu er ég eldri en Bjarni. Ég flutti um það leyti sem Hólmaselsdæmið er að byggjast upp. Það var að vísu komin vídeóleiga og sjoppa. Eitthvað var farið að fegra í kringum tjörnina, sem við lékum okkur í alla mína æsku, þó hún væri bara drullupyttur umkringdur moldarflagi. Einhverjum úr hópnum tókst m.a.s að skríða svo langt inn í rörið sem hleypti vatni á pollinn, að þau komu upp einhvers staðar uppi á Vatnsenda. Ég þorði aldrei lengra en að fara fyrir beygjuna. Þegar ég hætti að sjá ljós varð mér um og ó og sneri við.
Við vorum með fín fótboltamörk á völlunum tveimur við Seljaskóla og varð það eitt af mínum fyrstu femínísku baráttumálum (og okkar stelpnanna í bekknum, við létum sko aldrei vaða yfir okkur með neitt) að koma skikki á skipulag í frímínútum þannig að stelpurnar fengju líka að leika sér á vellinum. Fram að því var hreinlega slegist um vellina og stundum allharkalega.
En það voru matvörubúðir og sitthvað fleira bæði uppi við Seljabraut og í kjarnanum við Ölduselsskóla. Og verslunarkjarninn í Neðra-Breiðholti var alveg frábær. Þar var bókabúð og allt. Þá þótti það ágætis göngufæri, í dag þarf líklega að taka þangað leigubíl, eða hvað? Fellarnir voru líka blómlegt verslunarsvæði og félagsmiðstöðin Fellahellir tilheyrði okkur öllum, þó upp hafi komið eitthvað vesen um tíma og ákveðið hafi verið að útskúfa Seljahverfiskrökkunum úr Fellahelli. Þá varð stríð, löggan kom og það birtust fréttir af þessu í dönsku pressunni. Þá var maður alveg skyndilega hluti af Breiðholtsvillingadæminu, og bara nokkuð ánægður með það.

Þó að ýmis leiksvæði okkar krakkanna hafi væntanlega verið stórhættuleg byggingarsvæði, á ég alveg frábærar minningar úr þessu hverfi og hef alltaf sagt með stolti (líka smá þjósti því vá, hvað Miðbæjarfólkið og Vesturbæingarnir settu sig á háan hest gagnvart okkur Breiðhyltingum) frá því að ég hafi alist upp í Breiðholtinu.

En mér finnst munurinn á þessum tveimur færslum bara allt of mikill til að geta sætt mig algerlega við hann. Sá Hjálmar ekki ástandið á leikvöllunum þegar hann gekk um hverfið fyrir nokkrum dögum? Er Bjarni að ýkja upp hluti sem eru bara í fínu lagi? Er þetta spurning um „eye of the beholder“ að fólk sjái bara það sem það vill sjá, eða er annar hvort þeirra bölvaður lygalaupur?

Ég veit það alla vega núna, að ég verð að setja göngutúr um Seljahverfið á dagskrá sumarfrísins. Og ég hlakka til að ganga um hverfið sem er ansi oft svið drauma minna, oft hálfafskræmt og ruglingslegt, en samt. Ef ég er á Íslandi í draumi, er ég langoftast uppi í Seljahverfi. Ég ætla að taka góðan göngutúr um hverfið og læt ykkur svo vita. Án nokkura fordóma eða löngunar til að blanda mér í pólitíkina. Pólitík er fyrir mér dautt og ómerkt fyrirbrigði. Ég held alveg örugglega að ég sé ekki að ljúga, en ég hefði ekki mætt til að kjósa þó ég hefði haft kosningarétt í þessum kosningum nú.

Lifið í friði.

anda inn – anda út

Mikið óskaplega er ég fegin að þurfa ekki að setja mig inn í málin fyrir þessar kosningar. Mjög þægilegt að fylgjast bara með á hliðarlínunni. Hvað sem hægt er að segja um Besta flokkinn, er ljóst að hann kryddar heldur betur kosningabaráttuna, aðrir frambjóðendur komast ekki jafn auðveldlega upp með að bera fram sinn vanalega vélræna vaðal. Sem hlýtur að þýða að þau hafa náð takmarki sínu, að afhjúpa merkingarleysið.

Merking smerking. Ég ætla að henda mér út í ritgerðarsmíðar í dag. Finna merkinguna í því sem hefur verið að bullsjóða í kolli mínum undanfarnar vikur og reyna að koma henni á blað. Er samt einhvern veginn öll stíf og stressuð gagnvart því, hvílíkur verkkvíði í gangi. Vona að mér takist að hjóla hann af mér og að andinn komi yfir mig á safninu þar sem hurðin baular.

Lifið í friði.

bland í tepoka

Hópurinn kom og borðaði Coq au vin hjá mér. Ég fékk bestu meðmælin þegar ég bætti á diskana: Ég er reyndar ekkert svangur, þetta er bara svo gott að ég ætla að fá mér meira. Þetta er nákvæmlega það sem þú átt að segja við kokk sem hefur staðið í eldamennsku allan daginn. Þau komust svo öll heil á húfi og með allan farangurinn, til Tógó.

Kári kom heim úr ferðalaginu. Hann fór einu sinni að gráta, en það var þegar hann datt af baki og meiddi sig dálítið í mjöðminni. Hann vill ekki meina að nokkurt barn hafi grátið á kvöldin og ég trúi honum alveg. Þau eru þarna með kennurunum sínum, sem eru frábærar konur og staðurinn er útbúinn til að taka á móti barnahópum, þau lærðu að baka brauð og búa til pappír, hlustuðu á sögur og fengu að hafa kvöldvöku. 6 ára krakkar eru orðin ansi stór, þó þau virðist svo lítil. Ég man hvað ég var sjálfstæð og hvað mér þótti gott að vera ekki alltaf með mömmu og pabba þegar ég var krakki. Af hverju eru foreldrar alltaf svona uppteknir af því að krakkarnir þeirra geti ekki lifað án þeirra? Er þetta nútímavandamál, eða hefur þetta alltaf verið svona? Var Hallgerður svona með Grana og Högna?

Ég byrjaði alvöru ritgerðarskrif fyrst í gær. Um Njálu, Hallgerði og franskar miðaldakonur. Ég þarf að skila 2. júní í allra síðasta lagi, það er dagsetning með fresti, sem ég veit að ég mun biðja um. Þetta verður erfitt. Sérstaklega þar sem nú kemur þriggja daga helgi sem maðurinn minn þarf að vinna og ég er með krakkana. Ég hefði kannski getað farið út í að reyna að finna einhverja pössun, en mér finnst ég hafa verið svo mikið að níðast á fjölskyldu og vinum undanfarið að ég lagði ekki í það. Nóg að gera hjá hinum líka. Svo er veðurspáin líka 22-25 stig og sól, svo við verðum bara úti í garði alla helgina og ég skrifa ritgerðina svo kolbrún og gasalega sæt og endurnærð í næstu viku.

Við fengum enn eitt bréfið út af garðinum okkar, þessum grænmetisgarði sem okkur var úthlutað í febrúar/mars en höfum ekki enn fengið afnot af því skipulagsmál eru greinilega í ólestri hjá garðyfirvöldum í Copavogure. Nú vitum við að við eigum garðholu númer 34, en það hjálpar okkur ekki mikið, því ekki fengum við kort af svæðinu sem sýndi nákvæmlega hvar okkar garður er, hvað þá að við fengjum lyklavöld. Nei, þetta bréf endar eins og öll hin bréfin: Það verður haft samband við ykkur síðar. Ég er einmitt þekkt í vinahópnum fyrir að vera sérlega yfirveguð jógatýpa, sem tek alltaf langan tíma í að hugsa áður en ég framkvæmi, svo þetta hentar mér ágætlega. NOT!

Svo voru keyptir miðar til Íslands. Ég veit ekki hvort ég ætti að fara nánar út í það, en við keyptum sumsé miða af íslenska (ríkis)flugfélaginu með útlenska nafnið. Í marga mánuði hef ég fylgst með verðinu smáhækka en alltaf var verðið dýrara hjá hinum félögunum sem fljúga beint til og frá París, Express og Transavia.com. Ég fór því bara beint inn á það íslenska og keypti. Í gær sá ég svo á feisbúkk að vinkona mín fékk mun ódýrari miða hjá Transavia. Ég fór því þar inn og prófaði að slá inn mínum dagsetningum og fékk áfall. Ég hefði borgað 630 evrur fyrir okkur þrjú, mig og börnin, í staðinn fyrir þessar 1050 evrur sem ég greiddi fyrir miðana hjá Icelandair. Hvernig gat ég verið svona mikill klaufi? HFF!

Lifið í friði.

póníferð og mataróskakönnun

Rútan virkaði svakalega stór, miðað við farþegana. 50 sex ára krakkar á leið á smáhestabúgarð með kennslukonunum og aðstoðarfólki, frá mánudegi til föstudags. Enginn fór að gráta, hvorki börn, né foreldrar (alla vega ekki fyrir framan hina foreldrana). En litli strákurinn minn var nú samt hnípinn yfir morgunverðinum og sagðist vera furðulegur innan í sér. Hann var líklega með nokkur fiðrildi í maganum yfir þessu.

Ég er orðin þrælvön að kveðja börnin mín, þau ferðast ansi mikið án okkar foreldranna. En þetta var í fyrsta skipti sem Kári fer svona aleinn án nokkurs úr fjölskyldunni. Þetta verður skemmtilegt. Og ekki verður tómlegt hjá okkur hér á meðan. Svona ef ekki verður öskuröskun á plönunum. 9 manns í mat á miðvikudagskvöldið. Hvað á ég að elda gott og franskt handa þeim? Hvað myndi þig langa til að ég eldaði fyrir þig?

Lifið í friði.

afsökunarbeiðni og heróp

Mér þykir mjög miður að fólk telji mig hrokafulla gagnvart lagerstarfsmönnum, ræstitæknum og kassadömum. Það var alls ekki ætlunin.
Ég nefndi bara heiðarleg (það sem ég kallaði venjuleg í morgun) störf sem fólk stundar og fær oftast frekar lág laun fyrir og hefur oftast lítið að gera með stjórnun fyrirtækisins. Punkturinn hjá mér var að fólk sem er dæmt sekt, ætti frekar að nýtast þjóðfélaginu í staðinn fyrir að vera sett til hliðar um tíma á kostnað okkar hinna og getur svo bara mætt aftur bísperrt og hreinsað. Og þá byrjað aftur að gera nákvæmlega sömu hlutina aftur, ef þeim sýnist svo.
Ég vil sjá þessa menn svipta öllum réttindum til að stjórna fyrirtækjum og sýsla með peninga og eignir, eins og Eva stakk upp á í morgun. Til lífstíðar. Hvort þeir fái vinnu á lager er svo annað mál, ég vil vitanlega að fólk sem hefur hreinan skjöld en hangir nú heima hjá sér atvinnulaust gangi fyrir í þau störf sem verða í boði. Ég bið ykkur innilega afsökunar á því að hafa ekki tekið nógu skýrt fram að mér finnst öll heiðarleg og vel unnin vinna vera virðuleg. Í alvörunni. Og ég myndi þúsund sinnum frekar taka sjálf að mér uppfyllingu í hillur í matvörubúð, en að sitja og hringja í fólk á síðkvöldum til að sannfæra það um að færa sparifé sitt í áhættusjóði. Ég bara nenni svo sjaldan að skrifa það augljósa, það hefur svo sem komið mér í koll áður.
Ég vona að þetta dugi til að sannfæra þá sem sárnaði yfir mér í morgun.

Og þá að þessu með að sumir geta unnið og aðrir ekki og allt það helvítis vesen:

Ég leyfi mér að láta sig dreyma um að taka breytingar þjóðfélagskerfi enn lengra. Ég veit að það er til nógu andsk… mikill peningur í heiminum til að allir geti unnið styttri vinnuviku, allir geti haft í sig og á og að ef ekki sé næg vinna handa öllum, geti það fólk sem situr heima samt lifað mannsæmandi lífi og þá bara notið þess að spila bingó, prjóna, ganga á fjöll eða hanga yfir sjónvarpinu ef því sýnist svo, án þess að því sé látið líða eins og afætur sem nenni ekki í vinnu sem ekki er til. Um þetta fjallar bók sem ég er að lesa þessa dagana, milli annarra verkefna. Bók sem ég stefni á að þýða næsta vetur, sem meistaraverkefnið í Þýðingafræðinni. Þá mun ég vonandi kasta inn köflum úr þessu ágæta riti hingað inn reglulega og þið getið pælt í því að kannski er ekkert svo vitlaust að bara taka í alvörunni til við að stokka upp í þjóðfélaginu. ÞAÐ ER EITTHVAÐ MIKIÐ AÐ NÚNA, erum við ekki öll sammála um það? Það er eitthvað mikið að í þjóðfélagi sem hampar gaurum og gellum fyrir það eitt að vera smart í tauinu og með flotta hárgreiðslu, en lítur niður á fólkið sem saumar fötin og skúrar hárgreiðslustofuna, þvær bílana, kemur með vörurnar… (æ, ég sagði það áðan, mér finnst svoooo leiðinlegt að skrifa sjálfsagða frasa, sorrí). En það er eitthvað að. Og við getum breytt því. Þú. Og ég.

Lifið í friði.

fangelsun er úrelt fyrirbrigði

Þegar ég sé fréttir af mönnum sem verið er að hneppa í gærsluvarðhald, finn ég hvorki fyrir gleði né létti. Hjartað í mér herpist allt saman og mér líður illa. Eins og alltaf þegar ég horfi upp á þetta undarlega yfirvald og hvernig það virkar. [Undantekningin er þegar ljóst er að þessar aðgerðir vernda mig og mína, til dæmis þegar skrímsli eins og Fritzl eru teknir úr umferð, þá finn ég fyrir létti.]
Það gagnast nákvæmlega engum að þessir bankagaurar fari bak við lás og slá. Eins og bent hefur verið á er dýrt að hafa mann í fangelsi. Fangelsun er eldgömul og úreld „lausn“ í meðferð siðbrotamanna og bófa.
Menn eins og þessir sem færðir voru til yfirheyrslu í gær (og þetta á við um alla grunaða ræningja) ættu betur heima í „venjulegri“ vinnu, án nokkurra möguleika til að klífa valdastiga, án þess að geta haft nokkuð með stjórnun fyrirtækisins/stofnunarinnar að gera. Þeir eiga að vera settir í lága stöðu og vitanlega ekki vera með neina lykla að nokkrum mögulegum peningaskáp/kassa. Þannig væru þeir lagerstarfsmenn ef þeir ynnu í matvöruverslun, ekki taldir hæfir á kassa. Þeir væru gangastúlkur eða ræstitæknar á spítala, ekki hæfir í húsvarðarstarfið með stóru lyklakippuna.

Líklega er, að vissu leyti, miðað við það sem á undan er gengið og miðað við hvað rannsóknin hefur tekið langan tíma og með það í huga að þegar eru hafin réttarhöld gegn nokkrum ógurlegum mótmælendum meðan allir gerendur í bankaráninu stóra hafa gengið lausir og liðugir og lifað í velllystingum, eðlilegt að fólk missi sig og klappi fyrir löggimann að sækja bófana.
En það er samt eitthvað sjúkt við þetta kerfi. Það mun ekki breyta nokkrum sköpuðum hlut fyrir þessa menn, né okkur hin, að þeir sitji af sér einhvern dóm í fangelsi. Sjáið bara þá sem aftur hafa borgað sig alla leið inn á Alþingi, eftir að dómar hafa fallið og sekt sönnuð.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha