bland í tepoka

Hópurinn kom og borðaði Coq au vin hjá mér. Ég fékk bestu meðmælin þegar ég bætti á diskana: Ég er reyndar ekkert svangur, þetta er bara svo gott að ég ætla að fá mér meira. Þetta er nákvæmlega það sem þú átt að segja við kokk sem hefur staðið í eldamennsku allan daginn. Þau komust svo öll heil á húfi og með allan farangurinn, til Tógó.

Kári kom heim úr ferðalaginu. Hann fór einu sinni að gráta, en það var þegar hann datt af baki og meiddi sig dálítið í mjöðminni. Hann vill ekki meina að nokkurt barn hafi grátið á kvöldin og ég trúi honum alveg. Þau eru þarna með kennurunum sínum, sem eru frábærar konur og staðurinn er útbúinn til að taka á móti barnahópum, þau lærðu að baka brauð og búa til pappír, hlustuðu á sögur og fengu að hafa kvöldvöku. 6 ára krakkar eru orðin ansi stór, þó þau virðist svo lítil. Ég man hvað ég var sjálfstæð og hvað mér þótti gott að vera ekki alltaf með mömmu og pabba þegar ég var krakki. Af hverju eru foreldrar alltaf svona uppteknir af því að krakkarnir þeirra geti ekki lifað án þeirra? Er þetta nútímavandamál, eða hefur þetta alltaf verið svona? Var Hallgerður svona með Grana og Högna?

Ég byrjaði alvöru ritgerðarskrif fyrst í gær. Um Njálu, Hallgerði og franskar miðaldakonur. Ég þarf að skila 2. júní í allra síðasta lagi, það er dagsetning með fresti, sem ég veit að ég mun biðja um. Þetta verður erfitt. Sérstaklega þar sem nú kemur þriggja daga helgi sem maðurinn minn þarf að vinna og ég er með krakkana. Ég hefði kannski getað farið út í að reyna að finna einhverja pössun, en mér finnst ég hafa verið svo mikið að níðast á fjölskyldu og vinum undanfarið að ég lagði ekki í það. Nóg að gera hjá hinum líka. Svo er veðurspáin líka 22-25 stig og sól, svo við verðum bara úti í garði alla helgina og ég skrifa ritgerðina svo kolbrún og gasalega sæt og endurnærð í næstu viku.

Við fengum enn eitt bréfið út af garðinum okkar, þessum grænmetisgarði sem okkur var úthlutað í febrúar/mars en höfum ekki enn fengið afnot af því skipulagsmál eru greinilega í ólestri hjá garðyfirvöldum í Copavogure. Nú vitum við að við eigum garðholu númer 34, en það hjálpar okkur ekki mikið, því ekki fengum við kort af svæðinu sem sýndi nákvæmlega hvar okkar garður er, hvað þá að við fengjum lyklavöld. Nei, þetta bréf endar eins og öll hin bréfin: Það verður haft samband við ykkur síðar. Ég er einmitt þekkt í vinahópnum fyrir að vera sérlega yfirveguð jógatýpa, sem tek alltaf langan tíma í að hugsa áður en ég framkvæmi, svo þetta hentar mér ágætlega. NOT!

Svo voru keyptir miðar til Íslands. Ég veit ekki hvort ég ætti að fara nánar út í það, en við keyptum sumsé miða af íslenska (ríkis)flugfélaginu með útlenska nafnið. Í marga mánuði hef ég fylgst með verðinu smáhækka en alltaf var verðið dýrara hjá hinum félögunum sem fljúga beint til og frá París, Express og Transavia.com. Ég fór því bara beint inn á það íslenska og keypti. Í gær sá ég svo á feisbúkk að vinkona mín fékk mun ódýrari miða hjá Transavia. Ég fór því þar inn og prófaði að slá inn mínum dagsetningum og fékk áfall. Ég hefði borgað 630 evrur fyrir okkur þrjú, mig og börnin, í staðinn fyrir þessar 1050 evrur sem ég greiddi fyrir miðana hjá Icelandair. Hvernig gat ég verið svona mikill klaufi? HFF!

Lifið í friði.

10 Responses to “bland í tepoka”


 1. 1 baun 22 Maí, 2010 kl. 10:47 f.h.

  Æ, kúkur piss og ræpana! (Þessi fúkyrði eru tileinkuð flugmiðaokrinu).

  Annars fínt að Kári hafi verið ánægður í skólaferðalaginu, mikið hljómar franska skólakerfið vel, fyrst börnin fara í svona grand ferðalög. Enginn svona lúxus í því íslenska, hér hangir allt á horriminni.

 2. 2 parisardaman 22 Maí, 2010 kl. 11:32 f.h.

  Börnin mín eru að vísu í einkaskóla (ríkisreknum, ekkert miklu dýrara en miklu betri skóli en sá sem átti að troða okkur í hér í Copavogure) og þetta fer algerlega eftir kennurum, þeir leggja til og skipuleggja algerlega sjálfir. Og foreldrarnir borga formúu fyrir svona ferðir;) Mig minnir að þessi ferð hafi kostað okkur um 300 evrur, sem við höfum borgað smátt og smátt í allan vetur. En það er hverrar krónu virði (fyrst skrifaði ég kverrar hrónu).

 3. 3 baun 22 Maí, 2010 kl. 12:07 e.h.

  Jahá, það lá nú að. En kverrar hrónu hljómar fullt eins vel og hverrar krónu, og liggur eiginlega beint við að skipta um kennitölu á gjaldmiðlinum og taka upp hrónur.

 4. 4 parisardaman 22 Maí, 2010 kl. 3:10 e.h.

  En, það er að vísu nokkuð öruggt að á Íslandi væru börnin ekki tekin í svona löng og flott skólaferðalög svona ung. Foreldrarnir myndu líklega ekki vilja það einu sinni. Það var slatti af foreldrum voða stressaður yfir þessu, en við fengum m.a.s. þriggja eða fjögurra daga ferð fyrir Sólrúnu á leikskólanum, sem var bæjarskóli, ekki einka. Þá fengu að vísu ekki öll börnin að koma með, foreldranna vegna. Þó haldinn væri langur fundur og reynt að sannfæra sem flesta. Enda var það frábær ferð. Ég held að börnin hér læri fyrr að klæða sig sjálf o.s.frv. Man alla vega hvað leikskólakennararnir sem ég fór með í skólaheimsóknir voru hissa á sjálfstæði barnanna. Enda mun fleiri börn per fóstru en heima. Oft eitthvað gott í hinu slæma… og héðan í frá mun ég reyna að berjast fyrir því að hrónan verði tekin upp sem gjaldmiðill á Íslandi.

 5. 5 Gísli Ásgeirsson 22 Maí, 2010 kl. 4:40 e.h.

  Ég held að Grana hafi skort aga í uppeldinu og hugsanlega var mulið undir Högna.

 6. 6 parisardaman 22 Maí, 2010 kl. 5:09 e.h.

  Noh, sumsé ekki nútímavandamál, þetta með agann og fordekrað pakk?

 7. 7 einar 22 Maí, 2010 kl. 11:02 e.h.

  Ég hefði haldið að það væri löngu orðið tímabært að pota niður grænmetinu í Frakklandi. Ég er búinn að pota niður mínu hér á Íslandi. Óskiljanlegt að þið séuð ekki enn komin með lyklavöld að garðinum ykkar.

 8. 8 parisardaman 23 Maí, 2010 kl. 8:08 f.h.

  Það er löngu kominn tími og er í raun orðið of seint fyrir mig, því ég fer heim í lok júní. Ég lýg fullum fetum þegar ég segist vera voða kúl á þessu. Í raun hefur mér jafnvel dottið í hug að fara og bera eld að þessum bév… kofum þeirra sem standa þarna hrokafullir og óaðgengilegir.

 9. 9 ella 23 Maí, 2010 kl. 1:44 e.h.

  Nújæja, þá er ekki um annað að ræða en að sá áður en þú ferð heim, fela svo bóksalanum að reyta arfa og vökva, borða svo afraksturinn þegar þú kemur til baka. Er ekki franska sumarið svo langt? Vissulega ekki það sem til stóð en kannski skárra en ekkert?

 10. 10 parisardaman 23 Maí, 2010 kl. 9:15 e.h.

  Mjámm, þegar ég hugsa um hvernig maðurinn minn hefur sálgað plöntum sem ég hef skilið eftir á matarborðinu, er ég ekki viss um að geta skilið grænmetisgarð eftir í hans umsjá. En við spáum í þetta. Eigum nú eftir að fá blessuð lyklavöldin ennþá:)


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha

%d bloggurum líkar þetta: