the eye of the beholder?

Alveg magnað að lesa svo fallega færslu um hverfið sitt gamla. Í smá stund langaði mig mest að skamma mömmu og pabba fyrir að hafa vogað sér að flytja þaðan. Og reyndar sendi ég þeim tengilinn að þessum skrifum, bara ákvað að vera ekkert að skamma þau, enda er ég svo þroskuð að ég veit að það þýðir ekkert að vera að skammast út í löngu orðinn hlut. Foreldrar mínir fluttu nefnilega úr Seljahverfinu rétt um það bil sem ég flutti til Parísar, fyrir tuttugu árum síðan.

Í dag bendir Einar Örn svo á þessa færslu og skyndilega færist svartur skuggi yfir dýrðarljóma æskunnar.

Að vísu er ég eldri en Bjarni. Ég flutti um það leyti sem Hólmaselsdæmið er að byggjast upp. Það var að vísu komin vídeóleiga og sjoppa. Eitthvað var farið að fegra í kringum tjörnina, sem við lékum okkur í alla mína æsku, þó hún væri bara drullupyttur umkringdur moldarflagi. Einhverjum úr hópnum tókst m.a.s að skríða svo langt inn í rörið sem hleypti vatni á pollinn, að þau komu upp einhvers staðar uppi á Vatnsenda. Ég þorði aldrei lengra en að fara fyrir beygjuna. Þegar ég hætti að sjá ljós varð mér um og ó og sneri við.
Við vorum með fín fótboltamörk á völlunum tveimur við Seljaskóla og varð það eitt af mínum fyrstu femínísku baráttumálum (og okkar stelpnanna í bekknum, við létum sko aldrei vaða yfir okkur með neitt) að koma skikki á skipulag í frímínútum þannig að stelpurnar fengju líka að leika sér á vellinum. Fram að því var hreinlega slegist um vellina og stundum allharkalega.
En það voru matvörubúðir og sitthvað fleira bæði uppi við Seljabraut og í kjarnanum við Ölduselsskóla. Og verslunarkjarninn í Neðra-Breiðholti var alveg frábær. Þar var bókabúð og allt. Þá þótti það ágætis göngufæri, í dag þarf líklega að taka þangað leigubíl, eða hvað? Fellarnir voru líka blómlegt verslunarsvæði og félagsmiðstöðin Fellahellir tilheyrði okkur öllum, þó upp hafi komið eitthvað vesen um tíma og ákveðið hafi verið að útskúfa Seljahverfiskrökkunum úr Fellahelli. Þá varð stríð, löggan kom og það birtust fréttir af þessu í dönsku pressunni. Þá var maður alveg skyndilega hluti af Breiðholtsvillingadæminu, og bara nokkuð ánægður með það.

Þó að ýmis leiksvæði okkar krakkanna hafi væntanlega verið stórhættuleg byggingarsvæði, á ég alveg frábærar minningar úr þessu hverfi og hef alltaf sagt með stolti (líka smá þjósti því vá, hvað Miðbæjarfólkið og Vesturbæingarnir settu sig á háan hest gagnvart okkur Breiðhyltingum) frá því að ég hafi alist upp í Breiðholtinu.

En mér finnst munurinn á þessum tveimur færslum bara allt of mikill til að geta sætt mig algerlega við hann. Sá Hjálmar ekki ástandið á leikvöllunum þegar hann gekk um hverfið fyrir nokkrum dögum? Er Bjarni að ýkja upp hluti sem eru bara í fínu lagi? Er þetta spurning um „eye of the beholder“ að fólk sjái bara það sem það vill sjá, eða er annar hvort þeirra bölvaður lygalaupur?

Ég veit það alla vega núna, að ég verð að setja göngutúr um Seljahverfið á dagskrá sumarfrísins. Og ég hlakka til að ganga um hverfið sem er ansi oft svið drauma minna, oft hálfafskræmt og ruglingslegt, en samt. Ef ég er á Íslandi í draumi, er ég langoftast uppi í Seljahverfi. Ég ætla að taka góðan göngutúr um hverfið og læt ykkur svo vita. Án nokkura fordóma eða löngunar til að blanda mér í pólitíkina. Pólitík er fyrir mér dautt og ómerkt fyrirbrigði. Ég held alveg örugglega að ég sé ekki að ljúga, en ég hefði ekki mætt til að kjósa þó ég hefði haft kosningarétt í þessum kosningum nú.

Lifið í friði.

5 Responses to “the eye of the beholder?”


 1. 1 baun 29 Maí, 2010 kl. 9:01 f.h.

  Ég er alin upp í Kópavogi og villist alltaf í Breiðholtinu.

 2. 2 Svanfríður 29 Maí, 2010 kl. 2:12 e.h.

  Þetta var skemmtileg færsla,takk fyrir.

 3. 3 Eva 31 Maí, 2010 kl. 12:06 e.h.

  Já, þetta eru merkilega ólíkar lýsingar á sama hverfi.

 4. 4 Sigurbjörn 3 Jún, 2010 kl. 9:50 e.h.

  Býr fólk austan Elliðaáa?

 5. 5 María 7 Jún, 2010 kl. 10:44 e.h.

  Ég ólst líka uppí Seljahverfi og leið vel þar.
  Enn fer ég í gönguferðir þarna og skemmti mér við að horfa á fuglana á tjörninni, fallegan trjágróður og móa í Dalnum.
  Þá eru mörg húsin með skemmtilegan stíl.
  Það er hægt að fara jákvæður í göngutúr og sjá bara fegurð og líka neikvæður bældur af kreppuáhyggjum og sjá bara niðurníslu


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: