Í morgun tók ég mig til og tengdi jólagjöfina frá tengdapabba, en ég bað hann um að gefa mér prentara í jólagjöf. Þá áttum við eina aukaumferð af hylkjum í þann gamla sem var farinn að hökta, vildi ekki skanna og var með ýmsa stæla. Síðan á jólum höfum við nýtt hann, bíðandi eftir að hylkin kláruðust (þau eru líka dýr hér í Frakklandi).
Í morgun sagði sá gamli endanlega stopp, en við vorum búin að rúlla honum með blikkandi viðvörun um að skipta þyrfti um hylki í líklega mánuð. Við prentum út nánast daglega, þ.e. maðurinn minn prentar út fylgibréf með bókunum sem hann selur á netinu. Hér með ráðlegg ég sem sagt fólki að nýta hylkin til fulls.
Í lokin vorum við farin að prenta út eina og eina síðu í einu og leyfa þeim að hvílast á milli. Jafnvel slökkva og kveikja á prentaranaum, svo þau hreyfðust aðeins til. Það dugði til að ná ágætum síðum. Þessi þrautseigja var aðallega vegna þess að við nenntum ekki að tengja þann nýja. Ég skilaði báðum frönsku ritgerðunum í dökkvínrauðu, það kom ekki að sök, a.m.k. ekki í Hallgerðarritgerðinni sem ég er heldur betur búin að monta mig af. Ég hef enn ekki fengið hina til baka…
Í morgun tengdi ég sumsé risastóran kolbikasvartan prentara með snertiskjá og allt. Þegar hann var að koma sér í gang gaf hann frá sér ógurleg hljóð og borðið titraði svo mikið að afríska tréfígúran sem vaktar vinnusvæðið datt um koll.
Ég er enn að leita að nafni á garðinn minn, það gengur illa. En nafnið á prentarann kom strax, þetta ER Svarthöfði sjálfur. Ég er ekki týpan sem gef dauðum hlutum nafn, bíllinn minn heitir bara bíllinn og tölvan mín er bara tölvan. En þetta bara liggur svo svakalega í prentarans eðli, að vera Svarthöfði, að það kemur ekkert annað til greina. Það að skrifa þetta, fékk mig til að hugsa, getum við ekki leitað í Star Wars til að finna nafn á garðinn?
Það kom mikið á óvart að með prentaranum fylgdu blekhylki. Við vorum búin að fjárfesta í slíkum, því það kom hvergi fram á umbúðunum að þau fylgdu með. Gamlar minningar um leikföng og annað sem þurfti batterí sem ekki voru til á heimilinu valda því að ég passaði sérstaklega upp á þetta.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir