Sarpur fyrir júní, 2010

svarta flykkið

Í morgun tók ég mig til og tengdi jólagjöfina frá tengdapabba, en ég bað hann um að gefa mér prentara í jólagjöf. Þá áttum við eina aukaumferð af hylkjum í þann gamla sem var farinn að hökta, vildi ekki skanna og var með ýmsa stæla. Síðan á jólum höfum við nýtt hann, bíðandi eftir að hylkin kláruðust (þau eru líka dýr hér í Frakklandi).
Í morgun sagði sá gamli endanlega stopp, en við vorum búin að rúlla honum með blikkandi viðvörun um að skipta þyrfti um hylki í líklega mánuð. Við prentum út nánast daglega, þ.e. maðurinn minn prentar út fylgibréf með bókunum sem hann selur á netinu. Hér með ráðlegg ég sem sagt fólki að nýta hylkin til fulls.
Í lokin vorum við farin að prenta út eina og eina síðu í einu og leyfa þeim að hvílast á milli. Jafnvel slökkva og kveikja á prentaranaum, svo þau hreyfðust aðeins til. Það dugði til að ná ágætum síðum. Þessi þrautseigja var aðallega vegna þess að við nenntum ekki að tengja þann nýja. Ég skilaði báðum frönsku ritgerðunum í dökkvínrauðu, það kom ekki að sök, a.m.k. ekki í Hallgerðarritgerðinni sem ég er heldur betur búin að monta mig af. Ég hef enn ekki fengið hina til baka…

Í morgun tengdi ég sumsé risastóran kolbikasvartan prentara með snertiskjá og allt. Þegar hann var að koma sér í gang gaf hann frá sér ógurleg hljóð og borðið titraði svo mikið að afríska tréfígúran sem vaktar vinnusvæðið datt um koll.
Ég er enn að leita að nafni á garðinn minn, það gengur illa. En nafnið á prentarann kom strax, þetta ER Svarthöfði sjálfur. Ég er ekki týpan sem gef dauðum hlutum nafn, bíllinn minn heitir bara bíllinn og tölvan mín er bara tölvan. En þetta bara liggur svo svakalega í prentarans eðli, að vera Svarthöfði, að það kemur ekkert annað til greina. Það að skrifa þetta, fékk mig til að hugsa, getum við ekki leitað í Star Wars til að finna nafn á garðinn?

Það kom mikið á óvart að með prentaranum fylgdu blekhylki. Við vorum búin að fjárfesta í slíkum, því það kom hvergi fram á umbúðunum að þau fylgdu með. Gamlar minningar um leikföng og annað sem þurfti batterí sem ekki voru til á heimilinu valda því að ég passaði sérstaklega upp á þetta.

Lifið í friði.

kæfuvarnarhelvítisruglið

Djöfuls rugl er þetta kæfuvarnarsystem hérna á Eyjunni. Hvað þá að kalla þetta „kæfuvörn“. Hvílík endemis vitleysa og hvað netheimur hefur misst af mörgum skemmtilegum og hnyttnum tilsvörum út af þessu kjaftæði.

Lifið í friði.

Lína Langsokkur snýr aftur

Þetta er Lína Langsokkur heimilisins, fyrir nokkrum árum síðan:

IMG_0281_1

Nú er dóttir mín farin að lesa Línu alveg sjálf og var að spyrja mig hvort ég ætti ekki kannski einhvern bláan kjól með götum sem hún gæti svo bætt alveg sjálf. Hún sagðist komin með tvenna góða sokka (og ég skildi betur vesenið á henni með gamla nælonsokka í gær) og að hún væri á góðri leið með að koma sér upp Línubúning. Þegar ég sýndi henni myndirnar, var það m.a. til að sýna henni að Lína þyrfti ekkert endilega að vera í bláum kjól til að vera sannfærandi. Ég er ekki viss um að hún sé sannfærð. Það er annað að vera 8 ára en að vera 3ja og vera að klæða sig í búninga. Hér er sama stúlkan á svipuðum tíma, búin að breyta sér í Íþróttaálfinn:

IMG_0260

Lifið í friði.

Meiri garðrækt

Hér má sjá mynd sem ég tók eftir sex klukkustunda vinnu við að rífa upp illgresi:

DSC02376

Hér sést svæðið þar sem ég lét rótarskotin eiga sig, því jarðvegurinn var svo erfiður, sumt af þessu er farið síðan, annað á ég eftir að ráðast á:

DSC02383

Tómatplöntur. Einhverjar brotnuðu „aðeins“ í flutningunum og ætla líklega ekki að lifa það af. Ég er þó sannur Íslendingur og gefst ekki upp fyrr en í fulla hnefana:

DSC02384

Hér átti svo að sjást hvað maðurinn minn var hrikalega duglegur að stinga upp fyrir kartöfluniðursetningu, en þar sem myndin er bara hálf og ég get ekkert valið, þarf ég bara að taka aðra mynd með kartöflurákirnar (nú með kartöflum komnum niður) meira til vinstri í rammanum. Ég gerði hluta, en hann tók megnið af þeirri vinnu. Ég hef aldrei gert mér grein fyrir því hvað það er mikil erfiðisvinna að stinga upp kartöflugarð. Ég spái því að maðurinn minn verði alveg jafnáhugasamur og ég í garðinum, eftir smá tíma:

DSC02389

Að lokum eru hér sólberin sem vaxa fyrir utan garðinn en ég hef aðgang að og leyfi til að taka. Ég væri ýkt til að búa til sólberjavín, en hef ekki hugmynd um hvernig það er gert og finnst ég ekki hafa tíma í neitt slíkt ævintýri þessa örfáu daga sem ég hef fram að fríinu:

DSC02393

Lifið í friði.

prufa

DSC02336

Hér er stærri mynd. Ég var einmitt að spá í þetta með stærðina áðan. Hvernig setur fólk huggulegar myndir inn í textann, sem er svo hægt að smella á, til stækkunar?
Hef ekki tíma til að breyta öllu núna, en mun finna út úr þessu. Þarf út í garð áður en ég fer í kaupstaðarferð.
Lifið í friði.

í tilefni dagsins

Handa ykkur:

Appollon

Appollon er hér sem barn með móður sinni. (Þarna efst á gosbrunninum, þessi börn fyrir framan eru mín). Síðar fékk hann vinnu við að draga eldvagninn sem ég vona að lýsi upp daginn á Íslandi. Það er bara svo miklu betra þegar sólin skín á 17. júní.

Svanur og Sólrún

Dóttir mín er sko engin Dimmalimm, en hún hugsar alltaf vel um öll dýr sem verða á vegi hennar. Hún er óhrædd við þau, jafnvel þó þó séu henni ókunnug og framandi.

Hjarta

Það væri nú ögrandi verkefni að koma svona upp í garðinum mínum. Spái aðeins í það. Munið að það er ekki bara trúin sem flytur fjöll. Ástin getur það líka.

Lifið í friði.

Garðurinn við lyklaafhendingu

Tekin af terrössunni
Þessi mynd er tekin af terrössunni við kofadyrnar. Bláhornið vinstra megin er endamörk garðsins míns. Runnarnir fyrir ofan girðinguna eru sólberjarunnar, þar eru sólber sem bráðum má fara að tína.

freyjubrá

Hér sést hvað freyjubráin er orðin hávaxin. Inn á milli eru svo svakalegar gaddavírsplöntur, og óteljandi rótarskot sem trén allt í kring hafa sent yfir okkur í vor. Rótarskotin eru erfiðust að taka upp, ótrúlegt hvað rótin nær langt niður á þessum títlum. Frá þeim koma blöðrurnar á höndunum.

Kofinn

Tunnurnar eru til regnvatnssöfnunar. Garðyrkjufræðingurinn bað um plast, en arkitektinn sagði nei. Það þurfti að borga manni stórfé fyrir að mála allar tunnurnar svartar. Þær eru vel ryðgaðar og vatnið alveg brúnt. Við vitum ekki hvort í lagi sé að nota það, fæstir leggja í það. Hurðin er svo annar kapítuli út af fyrir sig. Svaka stálhurð með læsingu sem er greypt inn í hurðina með logsuðu. Sumsé heilmikið mál að skipta skránni á þeim hurðum sem búið var að sparka upp þegar við fengum loksins lyklana afhenta. En það er svo stórt bil á milli veggja og þaks að fólk kemst auðveldlega inn ef það vill komast inn. Tveir kofar hafa verið teknir af flóttamönnum, þar voru dýnur og fleira smálegt þegar garðyrkjufólkið kom að. Enginn vill koma og henda þeim út, hvorki bæjaryfirvöld né lögregla. Fólkið sem á þá garða þurfti að ganga í það mál sjálft, mér skilst að það hafi gengið upp, en er náttúrulega ferlega óþægilegt. Smáborgarahnútsflöturinn á þessu stússi öllu saman fær kannski sérfærslu síðar.

Lifið í friði.

pæl

Ég pæli og pæli í garðinum mínum. Ég tek fullt af myndum en er svo þreytt í líkamanum að ég get ekki dregið út tágakörfuna sem geymir snúrur heimilisins, þar með talda snúruna til að koma myndunum í tölvuna. Þið verðið því bara að ímynda ykkur þetta í bili.
Á kvöldin horfi ég stundum á Mad Men, sem ég fékk lánaða á geisladiski. Eða ég hangi á feisbúkk á milli þess sem ég les annarra manna blogg og kíki á fréttasíður. Ég prjóna ekki né baka og er ekki byrjuð að búa til jólagjafirnar.
Í dag stakk ég upp kartöflugarð. Það var mjög erfitt. Sem betur fer birtist eiginmaðurinn og tók við hakanum og gerði nokkrar ræmur fyrir mig. Ég plantaði líka sex tómatplöntum sem ég man ekki hvað heita.

Ég þarf að kaupa allt. Ekki bara verkfæri sem ég var alveg laus við að eiga fyrir heldur líka kartöfluútsæði og tómatplöntur komnar á legg. Ég stalst líka til að kaupa tvo pakka af fræjum, einn með harðgeru timjan og annan með 3 ítölskum, steinselju, basilíku og meiran/kryddmæru (marjolaine). Ég hlakka til að sjá hvernig fer með blessaðan garðinn minn meðan ég verð fjarverandi, en ég ætla að heimsækja undarlega eyju í langan tíma í sumar. Maðurinn minn lofar að sjá um að vökva, en vill ekki þurfa að gera of mikið, segist ekki kunna neitt. Ég er sannfærð um að hann yrði góður garðyrkjumaður, líklega betri en ég. Hann er þolinmóðari og meiri dútlari. Ég er ansi hreint hvatvís og gæti þess vegna átt það til að byrja að rífa upp of snemma og svona. En ég ætla að reyna að gera þetta eins vel og ég get.
Á heimleiðinni úr garðinum kom ég við í „skóginum“ og týndi brenninetlur í stóran plastpoka. Ég var með hanska og klippur. Ég klippti svo slatta af þeim í litla bita og lagði í bleyti í flösku. Þetta á að gerjast á nokkrum dögum og vera hið fínasta meðal gegn lús og slíku. Restina af laufunum á ég að leggja í jörðina undir kartöflurnar þegar ég sting þeim niður á morgun, síðdegis svo jörðin sé hlý. Af því að það á maður víst að gera. Ég er svolítið mikið að feika þetta núna, en við sjáum hvernig tekst til.
Þegar ég kem aftur heim í ágúst mun ég svo gera tilraunir með salat, radísur og fleira í þeim dúr. Þetta er þrælgaman en gvuð mín góð hvað ég er viðurstyggilega ógeðslega rosalega þreytt í öllum líkamanum. Og samt hvorki hleyp ég né geri nokkrar æfingar hér heima. Er garðyrkjufólk alltaf svona þreytt, eða eru þetta byrjunarörðugleikar? Ég er kannski með einhver ofnæmisviðbrögð við freyjubránni sem vex í miklu magni þarna í reitnum mínum og alls staðar í kring. Gerir það mann svona örþreyttan?

Lifið í friði.

lyklar, gáfur, framtíð og geitur.

Jæja, þá er ég komin með langþráðan lykil að garðinum mínum. Það eru reyndar tveir lyklar, einn til að komast inn á svæðið og svo annar að lásnum fræga. Lásinn fékk ég hins vegar ekki hjá Monsieur le référent Safforo, hann var bara með lyklana og tók við tékkunum. Það er Monsieur eitthvað annað sem er svo með blessaða lásana. Hann kemur víst við reglulega svo ég ætti að hitta á hann. Ekki það að lásinn mun ekki halda fólki með einbeittan brotavilja frá því að fara inn á reitinn minn. Sem er ekki ennþá fallegasti reiturinn á svæðinu og verður það kannski aldrei, líklega skjóta ellilífeyrisþegarnir með svaka plön fyrir sinn reit, mér alltaf ref fyrir rass. En þetta er samt alveg svakalega spennandi og skemmtilegt allt saman. Nú þarf ég bara að klambra saman þessari þýðingafræðiritgerð. Hefur ekki gengið upp né niður, en ég skal samt ná að klára þetta. Ég skal. Ég er í hálfgerðri sigurvímu eftir að hafa fengið Hallgerðarritgerðina til baka um hæl með fullt af hóli. Kennarinn sagði beinlínis: „Þú ert gáfuð manneskja og átt að nýta hæfileika þína.“ Hún gaf mér 16 af 20, sem er mjög góð einkunn í frönskum háskóla. Frekar gaman að heyra svona, sérstaklega frá gáfaðri konu sem gengur í rauðum fötum. En samt hálfstressandi líka, því mér finnst ég ekkert sérstaklega gáfuð, eiginlega finnst mér ég alltaf berjast eins og rjúpa við staur.
Mér leið eins og litlum afskaplega heimskum aumingja á ráðstefnunni sem ég þurfti að sitja á fimmtudag og föstudag, og á svo að skrifa þessa ritgerð um sem ég þykist vera að baksa við núna. Þar kom hver gáfaður fræðimaðurinn upp í púlt á eftir öðrum og ruddi út úr sér svaðalegum orðum og setningum fullum af -isme og -ique orðum. Ég reyndi að taka glósur, maður verður eiginlega að glósa þegar það kemur buna af orðum sem maður skilur ekki. En svo gagnast glósurnar illa þegar maður er með endalausar hálfar setningar eða bara stikkorð. Ha? Var hann að tala um að blablablaisme blablatique væru góð eða vond fræði? Ég skildi suma útlendingana mun betur en flesta Frakkana, og fannst þeir meira lifandi og kannski aðeins minna gáfulegir en samt með eitthvað fram að færa. Upp úr þeirri uppgötvun fékk ég hrikalega deprímerandi hugsanir um að ég væri á röngum stað, en ég er búin að jafna mig á því. Ég er á réttum stað fyrst garðurinn minn er hér (og kallinn og börnin já já). En suma útlendingana var ekki smuga að skilja. Þegar svarthærða ofurvelklædda rúmenska fræðikonan hleypti frá sínum fræðiorðakrana með svakalegum hreim, sofnaði m.a.s. Herra Sjálfglaður, sem ráðstefnan var til heiðurs og sem hún beindi orðum sínum að allan tímann, með alls konar ofurgáfulegum spurningum sem hann átti að svara en verður að fá að svara seinna (hann bað forláts).
Ég er örugglega ekkert alvitlaus og auðvitað á ég alveg að geta unnið krefjandi vinnu. En mér líður samt alveg rosalega vel svona bara sem Parísardaman, með krakkana mína og lífið og vinina – náminu er ég búin að fá nóg af í bili, en ég veit að ég á eftir að sakna þess líka síðar. Ég veit ekkert hvort ég yrði eitthvað ánægðari með einhverja stöðu og föst laun og svona. En tíminn leiðir bara í ljós hvað verður. Ég er persónulega alls ekki með einhverja mynd af mér í höfðinu um það „hvar ég verði eftir x mörg ár“.

Lifið í friði.

ljónshjarta eða músar

Ég byrjaði að lesa Bróðir minn Ljónsharta fyrir börnin í fyrrakvöld. Maðurinn minn spurði hvort ég væri að snöggkvefast þegar ég kom gangandi (alein snöktand’og móð) fram. Ég held ég hafi lesið þessa bók svona 500 sinnum. Vá, hvað ég mundi ekki hvað fyrstu tveir kaflarnir eru átakanlegir. Ég bíð bara spennt eftir Kötlu og því öllu, þá verður ekkert grenj, bara spítt spýtt í lófana og tekið á því. Gaur.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha