lyklar, gáfur, framtíð og geitur.

Jæja, þá er ég komin með langþráðan lykil að garðinum mínum. Það eru reyndar tveir lyklar, einn til að komast inn á svæðið og svo annar að lásnum fræga. Lásinn fékk ég hins vegar ekki hjá Monsieur le référent Safforo, hann var bara með lyklana og tók við tékkunum. Það er Monsieur eitthvað annað sem er svo með blessaða lásana. Hann kemur víst við reglulega svo ég ætti að hitta á hann. Ekki það að lásinn mun ekki halda fólki með einbeittan brotavilja frá því að fara inn á reitinn minn. Sem er ekki ennþá fallegasti reiturinn á svæðinu og verður það kannski aldrei, líklega skjóta ellilífeyrisþegarnir með svaka plön fyrir sinn reit, mér alltaf ref fyrir rass. En þetta er samt alveg svakalega spennandi og skemmtilegt allt saman. Nú þarf ég bara að klambra saman þessari þýðingafræðiritgerð. Hefur ekki gengið upp né niður, en ég skal samt ná að klára þetta. Ég skal. Ég er í hálfgerðri sigurvímu eftir að hafa fengið Hallgerðarritgerðina til baka um hæl með fullt af hóli. Kennarinn sagði beinlínis: „Þú ert gáfuð manneskja og átt að nýta hæfileika þína.“ Hún gaf mér 16 af 20, sem er mjög góð einkunn í frönskum háskóla. Frekar gaman að heyra svona, sérstaklega frá gáfaðri konu sem gengur í rauðum fötum. En samt hálfstressandi líka, því mér finnst ég ekkert sérstaklega gáfuð, eiginlega finnst mér ég alltaf berjast eins og rjúpa við staur.
Mér leið eins og litlum afskaplega heimskum aumingja á ráðstefnunni sem ég þurfti að sitja á fimmtudag og föstudag, og á svo að skrifa þessa ritgerð um sem ég þykist vera að baksa við núna. Þar kom hver gáfaður fræðimaðurinn upp í púlt á eftir öðrum og ruddi út úr sér svaðalegum orðum og setningum fullum af -isme og -ique orðum. Ég reyndi að taka glósur, maður verður eiginlega að glósa þegar það kemur buna af orðum sem maður skilur ekki. En svo gagnast glósurnar illa þegar maður er með endalausar hálfar setningar eða bara stikkorð. Ha? Var hann að tala um að blablablaisme blablatique væru góð eða vond fræði? Ég skildi suma útlendingana mun betur en flesta Frakkana, og fannst þeir meira lifandi og kannski aðeins minna gáfulegir en samt með eitthvað fram að færa. Upp úr þeirri uppgötvun fékk ég hrikalega deprímerandi hugsanir um að ég væri á röngum stað, en ég er búin að jafna mig á því. Ég er á réttum stað fyrst garðurinn minn er hér (og kallinn og börnin já já). En suma útlendingana var ekki smuga að skilja. Þegar svarthærða ofurvelklædda rúmenska fræðikonan hleypti frá sínum fræðiorðakrana með svakalegum hreim, sofnaði m.a.s. Herra Sjálfglaður, sem ráðstefnan var til heiðurs og sem hún beindi orðum sínum að allan tímann, með alls konar ofurgáfulegum spurningum sem hann átti að svara en verður að fá að svara seinna (hann bað forláts).
Ég er örugglega ekkert alvitlaus og auðvitað á ég alveg að geta unnið krefjandi vinnu. En mér líður samt alveg rosalega vel svona bara sem Parísardaman, með krakkana mína og lífið og vinina – náminu er ég búin að fá nóg af í bili, en ég veit að ég á eftir að sakna þess líka síðar. Ég veit ekkert hvort ég yrði eitthvað ánægðari með einhverja stöðu og föst laun og svona. En tíminn leiðir bara í ljós hvað verður. Ég er persónulega alls ekki með einhverja mynd af mér í höfðinu um það „hvar ég verði eftir x mörg ár“.

Lifið í friði.

11 Responses to “lyklar, gáfur, framtíð og geitur.”


 1. 1 Svanfríður 8 Jún, 2010 kl. 8:35 e.h.

  Ég verð að segja að mér þykir þú mjög klár og vel gefin kona-stundum veit ég ekki einu sinni hvað ég að skrifa hér í orðapunginn því mér finnst ég ekkert hafa til málanna að leggja.En ég samgleðst þér innilega með góða einkunn,með garðinn þinn (ég væri vel glöð ef ég gæti verið í garðinum mínum allan liðlangan daginn) og vona að allt sem þú setur niður,komi upp seinna.
  Hafðu það sem allra allra best frú Parísardama:)Svanfríður.

 2. 2 Erla 8 Jún, 2010 kl. 8:55 e.h.

  Mér finnst algjör óþarfi að „vita“ hvar maður verður eftir x ár. Bara lifa í núinu, njóta þess, og sjá svo til.
  Já, og ég er löngu búin að komast að því að þú ert gáfuð kona. Annars myndi ég sko aldeilis ekki nenna að lesa bloggið þitt!

 3. 3 parisardaman 9 Jún, 2010 kl. 6:36 f.h.

  Ég var nú ekki að biðja um kosningu, hehe. Þið eruð líka klárar:) Alveg satt, ég myndi ekki segja það annars! Erla, hvaða „vísindi“ eru það annars sem hvetja fólk í að hugsa alltaf svona fram á við?

 4. 4 hildigunnur 9 Jún, 2010 kl. 8:37 f.h.

  sko, setningar fullar af ismum og iquum þýða EKKI að viðkomandi sé gáfaður – langt frá því. Ef fólk getur ekki komið hlutunum frá sér á skiljanlegu máli er mjög hætt við því að það sé að fela eitthvað… :þ

 5. 5 baun 9 Jún, 2010 kl. 8:52 f.h.

  Ég aðhyllist kosmism og er afar gáfuðique.

 6. 6 Linda Björk Jóhannsdóttir 9 Jún, 2010 kl. 10:48 f.h.

  Það vita það allir Kristín sem hafa umgengist þig í einhvern tíma að þú ert gáfaðri en meðalmanneskjan 😉 Annars varð ég ofurfúl í gamla daga þegar ég var í frönskunáminu mínu í París fyrir útlendinga og fékk bara 13. Það var ein spænsk pía sem fékk 14 og hún var sú eina fyrir ofan mig, mér var bara nokk sama og fannst það glatað að fá 13. Man nú reyndar ekki hvort skalinn náði upp í 20 eða minna en það endaði með því að kennarinn sá hvað ég varð megafúl og útskýrði fyrir mér að ef hún hefði gefið einhverjum fullt hús þá hefði hún orðið að útskýra það fyrir skólastjóranum af hverju ég hefði átt það skilið, það þarf með öðrum orðum að gera meira en svara bara rétt skv. henni. Sum sé annað viðhorf en á Íslandi.

 7. 7 Eyja 9 Jún, 2010 kl. 11:18 f.h.

  Ég tek undir með Hildigunni, uppskrúfað mál fullt af ógagnsæjum orðum er oft merki um að viðkomandi sé að blaðra tóma vitleysu. Og svo held ég að íslenskir kennarar séu allt of örlátir á einkunnir, til hamingju með sextánið.

 8. 8 Harpa J 9 Jún, 2010 kl. 12:12 e.h.

  Sextán – kúl!
  Ég er svo sammála ofanrituðum, uppskrúfað illskiljanlegt mál er síður en svo gáfugarantí.

 9. 9 ella 9 Jún, 2010 kl. 7:32 e.h.

  Blessuð vertu, fyrr en varir ert þú orðin ellilífeyrisþegi með laangflottasta garðinn! Hvar sem hann nú verður.

 10. 10 parisardaman 10 Jún, 2010 kl. 6:57 f.h.

  Takk takk. Og varðandi garðinn, gildir leigusamningur bara í fimm ár. Ég er dauðhrædd um að svo sé hann rifinn af okkur, er strax farin að kvíða því. En þá verður það kannski bara hvati til að drífa sig frá París og fara að búa í alvöru sveit;)

 11. 11 GlG 11 Jún, 2010 kl. 12:01 f.h.

  Parísar- sýnir daman dug
  – dahlíur vaxa í garði –
  „mér er nú samt meir í hug
  melgrasskúfurinn harði“
  og Eyjafjallaöskuryk
  því aldrei fékk ég sextán prik
  þá minnaprófið marði


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: