pæl

Ég pæli og pæli í garðinum mínum. Ég tek fullt af myndum en er svo þreytt í líkamanum að ég get ekki dregið út tágakörfuna sem geymir snúrur heimilisins, þar með talda snúruna til að koma myndunum í tölvuna. Þið verðið því bara að ímynda ykkur þetta í bili.
Á kvöldin horfi ég stundum á Mad Men, sem ég fékk lánaða á geisladiski. Eða ég hangi á feisbúkk á milli þess sem ég les annarra manna blogg og kíki á fréttasíður. Ég prjóna ekki né baka og er ekki byrjuð að búa til jólagjafirnar.
Í dag stakk ég upp kartöflugarð. Það var mjög erfitt. Sem betur fer birtist eiginmaðurinn og tók við hakanum og gerði nokkrar ræmur fyrir mig. Ég plantaði líka sex tómatplöntum sem ég man ekki hvað heita.

Ég þarf að kaupa allt. Ekki bara verkfæri sem ég var alveg laus við að eiga fyrir heldur líka kartöfluútsæði og tómatplöntur komnar á legg. Ég stalst líka til að kaupa tvo pakka af fræjum, einn með harðgeru timjan og annan með 3 ítölskum, steinselju, basilíku og meiran/kryddmæru (marjolaine). Ég hlakka til að sjá hvernig fer með blessaðan garðinn minn meðan ég verð fjarverandi, en ég ætla að heimsækja undarlega eyju í langan tíma í sumar. Maðurinn minn lofar að sjá um að vökva, en vill ekki þurfa að gera of mikið, segist ekki kunna neitt. Ég er sannfærð um að hann yrði góður garðyrkjumaður, líklega betri en ég. Hann er þolinmóðari og meiri dútlari. Ég er ansi hreint hvatvís og gæti þess vegna átt það til að byrja að rífa upp of snemma og svona. En ég ætla að reyna að gera þetta eins vel og ég get.
Á heimleiðinni úr garðinum kom ég við í „skóginum“ og týndi brenninetlur í stóran plastpoka. Ég var með hanska og klippur. Ég klippti svo slatta af þeim í litla bita og lagði í bleyti í flösku. Þetta á að gerjast á nokkrum dögum og vera hið fínasta meðal gegn lús og slíku. Restina af laufunum á ég að leggja í jörðina undir kartöflurnar þegar ég sting þeim niður á morgun, síðdegis svo jörðin sé hlý. Af því að það á maður víst að gera. Ég er svolítið mikið að feika þetta núna, en við sjáum hvernig tekst til.
Þegar ég kem aftur heim í ágúst mun ég svo gera tilraunir með salat, radísur og fleira í þeim dúr. Þetta er þrælgaman en gvuð mín góð hvað ég er viðurstyggilega ógeðslega rosalega þreytt í öllum líkamanum. Og samt hvorki hleyp ég né geri nokkrar æfingar hér heima. Er garðyrkjufólk alltaf svona þreytt, eða eru þetta byrjunarörðugleikar? Ég er kannski með einhver ofnæmisviðbrögð við freyjubránni sem vex í miklu magni þarna í reitnum mínum og alls staðar í kring. Gerir það mann svona örþreyttan?

Lifið í friði.

9 Responses to “pæl”


 1. 1 Hrönn Geirsdóttir 16 Jún, 2010 kl. 7:52 e.h.

  Gangi þér bara vel. Og þetta með þreytuna, góð þreyta og holl. Þú verður orðin góð í haust! Garðyrkjukveðja að norðan

 2. 2 ella 16 Jún, 2010 kl. 8:35 e.h.

  Garðyrkjan er herjans púl. Kaupir þú útsæði með spírum?

 3. 3 parisardaman 16 Jún, 2010 kl. 8:52 e.h.

  Já, ég keypti spíraðar kartöbblur Ella. Takk fyrir hvatninguna Hrönn, garðyrkjukveðja frá París til baka!

 4. 4 einar 16 Jún, 2010 kl. 8:53 e.h.

  Þú talar um þetta eins og þú hafir ekki gert annað í 50 ár. Þreytan hverfur með æfingunni. Gangi þér vel.

 5. 5 Elísabet 16 Jún, 2010 kl. 10:11 e.h.

  Iss, þú massar þetta. Mundu líka að planta spínati, það gerir mann gríðarlega sterkan!

 6. 6 hildigunnur 17 Jún, 2010 kl. 12:25 f.h.

  Byrjunarörðugleikar og þetta er góð þreyta. Mig langar að planta næpum…

 7. 7 Sigurbjörn 17 Jún, 2010 kl. 7:40 f.h.

  Oj. Lús. Ætli brenninetlur dugi líka við höfuðlús? Við keyptum rafknúinn lúsakamb sem drepur lúsina með raflosti til að þurfa ekki að menga umhverfið með lúsameðulum og tæma peningaveskið. Kannski maður prófi hann á rósirnar?

 8. 8 parisardaman 17 Jún, 2010 kl. 7:52 f.h.

  Þú verður bara að prófa að láta gerjast og þvo þér svo upp úr því. Ekki gleyma að filtra netlurnar frá og notaðu hratið í safnkassann.

 9. 9 Sigurbjörn 17 Jún, 2010 kl. 8:10 f.h.

  Var nú að bara spá í að henda krakkagemlingunum inn í brenninetlurunna, sko. Ætli það virki ekki alveg jafnvel? Ég er sköllóttur svo ég fæ ekki lús, nema kannski í skeggið.

  Svo á ég engan safnkassa. Hef lítinn áhuga á að sóla mig í myglulykt.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: