Sarpur fyrir júlí, 2010

líf

Ég er á lífi þó ég bloggi ekki um það. Ég veit ekki hvort það sé samband á milli þess að vera á lífi og blogga lítið. Ég vona samt ekki, því mér finnst bloggið svo skemmtilegt fyrirbrigði. Ég sé mikið tuðað um það á bloggum að bloggið sé tómt tuð. Ég er engan veginn sammála. Það er tuðað á sumum bloggum en ekki öllum. Frekar er það svona þus sem er bara hressandi og skemmtilegt. Ég segi hér með hátt og snjallt, eins og Lily Allen sagði: Fuck you very much, þið sem segið að bloggið sé dautt eða tómt tuð eða bæði.

Ég er stödd á Íslandi og búin að þeysast um og njóta lífsins í botn. Eftir að veðrið varð svona gott (í gær) hef ég fengið þessar brjálæðislegu hugsanir um að auðvitað langi mig til að búa hér en ekki þar. Á þriðjudag held ég eldsnemma að morgni upp í óbyggðir og mun ganga með stóran poka á bakinu í sex daga, vaða jökulár og bergvatnsár, borða verksmiðjuframleiddan þurrmat og sofa í allt allt of litlu tjaldi. Ég sé þetta allt saman fyrir mér en á erfitt með að sjá veðrið fyrir mér. Ég óska þess að það verði sól og blíða en geri mér fulla grein fyrir því að það gæti rignt og blásið á okkur allan tímann. Ég veit ekki hvort ég mun lifa það af en mér hefur verið lofað að ég verði ekki skilin eftir til að deyja hægum dauðdaga heldur verði ég skorin á háls. Stefnan er tekin á Þjórsárver og er einhvers konar pílagrímaferð (pílagrímsferð?) mín á náttúruperlu sem liggur undir stöðugri ógn.
Ég lofa því hérmeð að ég mun berjast með kjafti og klóm gegn því að þetta svæði verði gert að stóru vatni sem enginn kemst yfir nema fuglinn fljúgandi, nema ég sannfærist um að þetta sé ekkert nema „ómerkilegt grjót“ eins og einhver ráðherrann sagði um annað svæði sem lagt var undir lón og sem ég barðist ekki gegn, nema í hjarta og með nokkrum þúsundköllum í mat handa þeim sem börðust. Ég hef aldrei alveg fyrirgefið sjálfri mér að hafa ekki gert neitt af viti og í þetta skiptið mun ég ekki láta það endurtaka sig. Mér skilst að Þjórsárver séu ekki í bráðri hættu eins og er, en að ákveðnir aðilar hafi þó uppi ákveðnar hugmyndir um ákveðnar „lausnir“ á fjárhagsvanda þjóðarinnar.

Annars eru hápunktar dvalarinnar núna að hafa næstum fokið ofan í Gullfoss, hljóðað svo hátt af hræðslu þegar Strokkur gaus að sonur minn féll saman og ég þurfti að hlaupa með hann í burt af svæðinu, setið heilan eftirmiðdag í sól og blíðu í Hljómskálagarðinum með góðum vinkonum, allar að skrópa úr vinnu eða öðrum skylduverkefnum, synt fram og til baka í hinum ýmsu laugum landsins, ekið löturhægt með mörgum stoppum „gamla Hvalfjörð“ í kvöldkyrrð og sól og fundið hvernig hjartað kramdist og það var svo gottvont, horft á tengdamömmu sjötuga hoppa á trampólíni, átt sæludaga í gömlu góðu Kjósinni minni, hitt slatta af vinum (en ekki næstum alla, alltaf sama sagan), borðað litla lambið, fallega fiskinn, góða skyrið, legið í laut og fundið ilminn af lynginu, hlustað á rigninguna berja tjaldið heila nótt, sleikt ís og sporðrennt kókosbollu sem keypt var beint af Völu sjálfri, fundið paradísir á nokkrum stöðum, þar af eina stórkostlega inni í Básum í Þórsmörk eftir öskulagða leið yfir sanda og ár, framhjá kolbikasvörtum Gígjökli sem liggur samfallinn yfir tómu lóninu…

Ég veit ekki hvort sami mærðartónn verður í mér eftir þrautagönguna í næstu viku. Bíðið spennt.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha