Sarpur fyrir ágúst, 2010

Aðför að kirkjunni

Ég hef engan áhuga á að gera aðför að kirkjunni, en ég hnaut um orðalag Davíðs Þórs í Kastljósi gærdagsins, þegar hann segir að siðgæðislínulagningahluverkið „hvíli á“ kirkjunni. Kirkjan hefur nefnilega endalaust nýtt sér þetta hlutverk til staðfestingar á tilverurétti sínum og óspart gefið í skyn að vera ein fær um að sinna þessu hlutverki. Hluti af varnarárásum á hópa eins og Vantrú og jafnvel Siðmennt, er að segja þá siðleysingja. Oft hefur verið gefið í skyn að siðgæðisvitund þjóðarinnar muni hverfa með aðskilnaði ríkis og kirkju.

Ég hef mikið álit á Davíð Þór og þess vegna fór þetta orðalag í mínar fínustu taugar, að vera að setja kirkjuna í einhvers konar fórnarlambshlutverk með vísunum í annars konar æskulýðsstarf þar sem svona mál yrði ekki alveg jafn sóðalegt.
Ég gef honum þann séns að maður notar nú ekkert endilega alltaf nákvæmt og vísindalega rétt orðalag í beinni útsendingu, held að hann geri sér fulla grein fyrir þessu sjálfur. Og tek undir lokaorð hans, ef ekkert er gert í dag, verður málið enn ljótara á morgun.

Lifið í friði.

bólur og marblettur

Það er svo margt spennandi að gerast á Íslandi, að það mætti halda að landið væri ein allsherjar bíómynd. Ég stend mig að því að fara oft á dag inn á fréttamiðla til að athuga hvað sé að frétta í hinu og þessu málinu. Ég hef sterkar skoðanir um sum málanna mál, en ég er löngu hætt að nenna að blogga um þær. Eða ég nenni því alla vega ekki núna. Læt duga að segja að mér finnst löngu tímabært að aðskilja ríki og kirkju, og hefur fundist það í þó nokkurn tíma án þess að það komi þeirra óhreinataui nokkurn skapaðan (guðs skapaðan?) hlut við. Svo finnst mér það hrein firra að einkavæða orkusölu landsins. Mér fannst það sama um bankana, símann o.fl. og sé ekki ástæðu til að endurskoða þessa afstöðu mína í ljósi þess sem gerst hefur síðan sú einkavæðing fór fram.

Garðurinn minn hefur legið svo til ósnertur, ég rétt næ að kíkja þangað við og við til að hlúa að tómötunum sem enn eru grænir, en virðast sprækir og fínir. Nú er ég búin að læra hvernig á að koma tómatplöntum fyrir þannig að auðvelt sé að binda þungar greinarnar upp eina af annarri. Setja niður staura og festa snúrur á milli þeirra. Svo er ég líka búin að læra að klippa plönturnar til. Internetið er sko besta bólan sem ég þekki. Betri en fína bólan sem hreiðrar nú um sig rétt ofan við efrivör mína og kemur líklega til af stressi. Verkefnið sem ég er að vinna í er mér hið versta torf. Ýmislegt sem ég þarf að hafa ansi mikið fyrir, stunda rannsóknir og fá aðstoð mér fróðari manna. Þar kemur önnur bóla sterk inn, sem er feisbúkk. Feisbúkk rúlar.
Ég sit þó við og kvarta ekki. Tók m.a.s. að mér annað verkefni um helgina, slík er nú græðgin. Mig bara langaði allt í einu svo að blogga smá. Einhver þörf til að láta vita af mér, en ég er hérna alltaf. Föst við tölvuna og m.a.s. komin með marblett rétt ofan við úlnlið hægri handar af þessari törn. Dálítið fyndið, finnst mér.

Lifið í friði.

garðnýting

Á föstudagskvöld var okkur boðið í mat til fólks sem flutti nýlega í voða fínt hús með garði. Þar sem dagurinn hafði verið sérlega heitur, gerði ég ráð fyrir því að við myndum borða úti og bjó mig andlega undir glæsilega garðveislu. En nei. Við fengum ekki einu sinni fordrykkinn úti. Við sátum inni í stofunni og sáum ekki einu sinni út í garð. Einu skiptin sem við kíktum út, var þegar þau fóru út að reykja (ég fagna um þessar mundir fjögurra mánaða reykleysisafmæli og fann ekki snefil af löngun þarna á föstudag).
Ég hef tekið eftir því áður, að fólk sem býr í húsi með garð, virðist einhvern veginn ekkert endilega nota hann mikið. Þetta á ég mjög erfitt með að skilja. Þegar ég læt mig dreyma um húsið með gestaherbergjunum (mörg) og garðinum (ekki stór), erum við næstum alltaf úti á fallegu terrössunni þar sem stóra borðið rúmar okkur og alla gestina. Þegar ég sé svo hvernig fólkið í húsunum með garðana kúldrast alltaf inni, sefa ég mína eigin (næsta vonlausu) þrá með því að líklega er ég bara betur sett með íbúð í blokk, ekkert þak sem ég þarf að halda við sjálf, engin girðing, dren og blabla sem fylgir því að búa í einbýlishúsi.

Þar sem ég púlaði í garðinum í gær fram yfir kvöldverðartíma, áttaði ég mig á því að nú þarf ég að taka á mig rögg og rigga upp borði og stólum svo við getum nú farið að nýta garðinn í matmálstíma. Það verður þá einna helst pikknikk, og kannski eitthvað grillað. Nú verður spennandi að sjá hvort ég verði dugleg við að nýta garðinn í annað en að rækta matjurtir, eða hvort ég verði eins og aðrir garðeigendur, bara inni þegar það koma gestir.

Annars var ég í tvo tíma í garðbúðinni stóru í gær. Þar skoðaði ég alls konar tréflísar fram og til baka. Það er mikið úrval og mikill verðmunur. Nú þarf ég að gera þarfagreiningu og ákveða mig, en það er ekki mín sterka hlið. Ég get ekki spurt manninn minn, hann yppir bara öxlum. Ég get ekki spurt vini mína, enginn þeirra hefur sýnt þessum garði mínum nógu mikinn áhuga til að koma í heimsókn (fannst biturðin? Ekki? Ég er ógeðslega sár. Það hefur verið meiri áhugi frá bloggvinum en raunheimavinum, enn og aftur spurning hverjir eru hinir raunverulegu vinir manns!). Ég gæti spurt ykkur, en eiginlega nenni ég ekki að útskýra muninn, nema það er hægt að kaupa svona tré“fleka“, t.d. í 50×50, í ýmsum „bois exotique“ eða furu (hræódýrast úr furunni) og svo er hægt að kaupa tréflísar sem eru með einhverju plastdóti undir, sem er þá hægt að tengja saman svo allt haldist vel, og sem stingst þá líka ofan í jörðina. Það er líklega mun betri kostur, ég sé það um leið og ég skrifa það. Ah, hvað bloggið hjálpar oft, hah. En, tréflísadæmið með plastinu myndi kosta um 80 evrur, meðan ég get fengið dýrari týpur af flekaflísum fyrir tæpar 24 evrur. Það er því alveg spurning með að prófa ódýru lausnina fyrst. Eða hvað?

Lifið í friði.

Áfram Ísland

Sumarið er komið aftur til okkar í París. 28 stiga hiti og sól í gær og sama spá í dag. Fer líklega upp fyrir þrjátíu ef marka má morgunhitann. Það er ekki auðvelt að sitja við tölvuna og þykjast dugleg í svona veðri. En ég þrjóskast eitthvað við. Hef náð að sitja við til um fjögur, þá farið í garðdútl. Er byrjuð að moka út fyrir stækkun terrössunnar, en er dálítið óviss um það hvernig ég á að ná að slétta það almennilega. Í dag er ég að hugsa um að svindla dálítið og skreppa í Leroy Merlin að skoða tréflísar og fræ áður en ég sest við tölvuna.

Á Íslandi hleypur fólk til góðs í dag. Ég styrkti vitanlega Sóleyju og félaga. Hvet þig til að gera það líka, en þú mátt líka alveg styrkja eitthvað annað gott málefni, af nógu er að taka.

Svo er náttúrulega spennandi leikur í dag. Ísland – Frakkland. Ég má alveg halda með báðum, en held vitanlega með íslensku stelpunum. Koma so!

Lifið í friði.

ekki náttúrulegasta svæðið

„Geysissvæðið er ekki náttúrulegasta svæðið á Íslandi“. Hvað átti konan eiginlega við? Skildi einhver sem horfði á Kastljós hvað hún var að reyna að segja þegar hún féll á tíma? Þetta háhitasvæði er algerlega náttúrulegt, eða er ég að misskilja eitthvað? Eru til einhverjar viðmiðanir mér ókunnugar um það hvað telst náttúrulegt, svona eins og lífrænir staðlar og svoleiðis?

Af bréfi mínu er það að frétta að Menntamálaráðuneytið sendi mér staðfestingu á móttöku, Iðnaðarráðuneytið sendi mér persónulegt svar og tjáði mér að erindi mitt, nú bókað sem mál IDN10010016 verður tekið fyrir á fundi með oddvita sveitastjórnar Bláskógabyggðar (ó, svo fallegt nafn sem ég þekkti barasta ekki).
Önnur ráðuneyti, þ.á.m. forsætisráðuneytið hafa ekki séð nokkra ástæðu til að svara mér en ég er ekkert sár, ég veit að það er ógurlega mikið að gera hjá öllum. Líka mér.

Lifið í friði.

Garður

Það eina sem ég hlakkaði virkilega til að sjá aftur í Frakklandi, var grænmetisgarðurinn okkar. Hann er vitanlega einn af þeim ljótari á svæðinu, en mér finnst hann ógurlega fallegur. Kartöflugrösin eru sperrt og fín þó mér sýnist maðurinn minn ekki hafa sett eins mikla mold ofan á og ég vildi að hann gerði. Þau standa í holum, en í raun átti hann að slétta rásirnar út. Hér í Frakklandi er ráðlagt að setja kartöflur niður á ca 10 cm dýpi. Leyfa svo grösunum að koma upp og hlaða mold utan á þau, og jafnvel yfir þau alveg. Þau koma svo aftur upp og þetta á að tvöfalda uppskeruna, skilst mér.
Ég heyrði af íslenskri aðferð sem mér skilst að komi frá Vésteini, en hún er sú að stinga nokkrum kartöflum ofan í moldarfylltan hjólbarða. Þegar grösin eru komin upp, er annar hjólbarði settur ofan á og fylltur af mold. Það á víst að koma rokna uppskera úr þessu.
Hvort kartöfluuppskera mín verði góð eður ei, verður tíminn að leiða í ljós. Ég á að taka upp í kringum 18. september. Jarðvegurinn er mjög leirugur og harðnar svakalega. Ég hef því ekki græna glóru um það hvort kartöflur nái að vaxa ofan í honum. Ég þori samt ekki að kíkja, vil ekki skemma spennuna.
Tómatplönturnar eru smávaxnar en ansi kröftuglegar og nokkrar bera smáa græna tómata. Einn þeirra er á stærð við nögl á litla fingri, það næstum því grætti mig að sjá svo smáan ávöxt og vita að ég muni geta fylgst með honum vaxa. Verst að ég náði ekki að sýna krökkunum þennan agnarsmáa hnúð áður en þau flugu í næsta frí með afa sínum.
Nágranni minn sem sá um að vökva fyrir okkur meðan við vorum í burtu sáði svo fyrir þremur salathausum (blómum? blöðungum?) sem eru byrjaðir að stinga upp kolli (blöðum).
Þetta er þrælspennandi allt saman og skemmtilegt. Ég þarf að fara á stúfana og skoða hvað það er fleira sem ég gæti stungið niður núna og fengið upp áður en veturinn skellur á. Radísur, gulrætur…
Í hinum görðunum er margt spennandi og glæsilegt að gerast. Kannski ég skreppi með myndavélina og taki nokkrar myndir af flottum graskerjum og kúrbítum og fleiru.

Ég ætla svo líka að gera garðinn kósí til að geta verið þarna og gert annað en að vinna baki brotnu, eins og ýmsir hafa gert hjá sér. Til dæmis langar mig að stækka aðeins terrössuna. Ég þarf að moka moldinni frá, en er svo hikandi hvað ég á að setja í staðinn. Væri kannski nóg að jafna bara nokkuð nákvæmlega við hæð stéttarinnar sem fyrir er, og setja einhvern dúk ofan á og svo kannski bara t.d. gervigras eða einhverja strámottu? Eða þarf ég að grafa dýpra og setja dúk og svo sand? Ég er að spá í að þetta verði ekki allt á hreyfingu ef ég set t.d. borð og stóla sem ná út á stækkunina.

Annars er bara ljúft að vera komin heim aftur. Reyndar verð ég að bretta upp ermar og vinna eins og svín næstu tvær vikurnar, skríming deddlæn 1. september á verkefni sem komst nákvæmlega næstum ekki neitt áfram í sumar, þvert á góðar fyrirætlanir. En við ætlum líka að njóta barnleysisins, hitta vini og kannski gerast djörf og skella okkur í bíó. Hvað er nú í gangi í bíó annars?

Lifið í friði.

sendibréf

Ég sendi bréf til ýmissa ráðuneyta í dag, þar sem ég bið um að eitthvað verði gert til að laga Geysissvæðið sem er allt of hættulegt. Það hef ég fengið að sannreyna á eigin skinni. Fyrir þá sem hafa áhuga, birti ég bréfið. Fyrir ykkur hin, sem leitið að skemmtilegu efni að lesa, vil ég benda á þessi skrif sem hafa skemmt mér konunglega í allt kvöld. Ég ætla svo að fara að taka á mig rögg og byrja að drita niður frásögnum af fjallgöngunni góðu. Bráðum. Eða ekki.

Lifið í friði.

Þetta bréf er sent til Forsætisráðuneytisins og nokkurra annarra ráðuneyta sem mér dettur í hug að gætu látið sig málið varða, þó, ef trúa má fréttum nú í vikunni, ekkert ráðuneyti beri ábyrgð á svæðinu sem um ræðir í eftirfarandi bréfi. Einnig sendi ég afrit til Ferðamálastofu og mun birta það á bloggsíðu minni inni á Eyjan.is (Parísardaman).

Komið sæl,

Um páskana 1996 varð ég fyrir því óhappi að ganga aftur á bak ofan í lítinn opinn hver á Geysissvæðinu, þegar ég mundaði myndavél og gleymdi mér smá stund. Ég brenndist illa á hægri fæti og þurfti læknirinn sem annaðist mig m.a. að flytja húð af lærinu og græða á ökklann sem varð verst úti. Ég var frá vinnu í um það bil 2 mánuði vegna áverkanna.
Ég var þá hissa á vankunnáttu starfsfólksins á svæðinu og lélegri aðstöðu til að taka á móti slösuðum, sérstaklega með tilliti til þess hve auðvelt er að verða fyrir óhappi þarna. Engin viðbragðsáætlun var til, einn hringdi í lækni á Laugarási og annar hringdi á sjúkrabíl frá Selfossi. Þegar læknirinn heyrði að sjúkrabíll væri á leiðinni, ákvað hann að koma ekki. Þeim á Selfossi var hins vegar sagt að verið væri að hringja í lækninn á Laugarási og sendu því bílinn læknalausan. Ég fékk þess vegna enga deyfingu fyrr en ég kom á Selfoss.
Eitthvað höfðu þau heyrt um ákveðna blöndu af volgu vatni með sykri eða salti til kælingar og var ég látin bíða meðan brúsi var fylltur. Ég veit núna að hver sekúnda fram að kælingu húðar skiptir máli, ég var látin bíða allt of lengi.

Nú hefur aftur orðið hræðilegt slys á þessu svæði. Mun verra en mitt, því litla stúlkan er mjög ung og brennd á stærra svæði en ég. Ég er þó „bara“ með ljót ör á öðrum fæti. Hún verður afskræmd í framan, ef marka má óljósar fréttir af þessum ömurlega atburði. Því miður hef ég kannski verið að bíða eftir einhverju viðlíka til að koma mér í að rita þetta bónbréf til nokkurra opinberra aðila.

Ég bið um að farið verði í að skoða hvernig má laga þetta svæði þannig að fólk geti áfram notið þess að sjá hverina bulla og gjósa, án þess að eiga það á hættu að verða fyrir bruna. Ég kom þarna við í sumar með franska gesti og varð þá mjög hrædd, mér fannst svæðið mjög óöruggt og mér leið illa. Nú er sýnt að ótti minn reyndist ekki ástæðulaus, því miður.

Ég bið um einhvers konar kæliaðstöðu þarna á sjálfu svæðinu. Slík lausn getur varla kostað mikið. Ég lýsi mig jafnvel hér með tilbúna til að greiða persónulega fyrir baðkar sem mætti standa þarna á góðum stað, ef starfsfólkið á svæðinu treystir sér til að halda því hreinu og ávallt fylltu af köldu vatni.

Ég bið um að hægt sé að kalla samstundis út starfsfólk á svæðinu sem hefur hlotið þjálfun í aðhlynningu slasaðra.

Það er ljóst að eitthvað hlýtur að þurfa að gera á þessum magnaða stað, sem dregur að sér fjölda ferðamanna á hverju ári. Eitt slys er einu slysi of mikið og slælegur viðbúnaður og algert ábyrgðarleysi þegar óhöpp eiga sér stað er íslenska ríkinu til háborinnar skammar.

Ritað í Romainville, 13. ágúst 2010.

Virðingarfyllst,
Kristín Jónsdóttir

Kjólar og teppi úr efnum frá Tógó

Í dag er gleðidagur og Sóley og félagar ætla að nota tækifærið og vera með fjáröflunarsölu vegna stækkunar og endurbóta á barnaheimilinu sem þau reka í Tógó.

Salan fer fram á Þórsgötu 10B, í bakhúsinu, kl 14-18.

Kjólarnir hans Dieudonne:

kjolli

Barnateppin eru framleidd á barnaheimilinu í Aneho:

teppi f. frettabr

Ég vona að ég sjái ykkur sem flest, örstutt að skreppa úr gleðigöngunni. Hikið ekki við að heilsa mér ef ég þekki ykkur ekki nú þegar.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha