sendibréf

Ég sendi bréf til ýmissa ráðuneyta í dag, þar sem ég bið um að eitthvað verði gert til að laga Geysissvæðið sem er allt of hættulegt. Það hef ég fengið að sannreyna á eigin skinni. Fyrir þá sem hafa áhuga, birti ég bréfið. Fyrir ykkur hin, sem leitið að skemmtilegu efni að lesa, vil ég benda á þessi skrif sem hafa skemmt mér konunglega í allt kvöld. Ég ætla svo að fara að taka á mig rögg og byrja að drita niður frásögnum af fjallgöngunni góðu. Bráðum. Eða ekki.

Lifið í friði.

Þetta bréf er sent til Forsætisráðuneytisins og nokkurra annarra ráðuneyta sem mér dettur í hug að gætu látið sig málið varða, þó, ef trúa má fréttum nú í vikunni, ekkert ráðuneyti beri ábyrgð á svæðinu sem um ræðir í eftirfarandi bréfi. Einnig sendi ég afrit til Ferðamálastofu og mun birta það á bloggsíðu minni inni á Eyjan.is (Parísardaman).

Komið sæl,

Um páskana 1996 varð ég fyrir því óhappi að ganga aftur á bak ofan í lítinn opinn hver á Geysissvæðinu, þegar ég mundaði myndavél og gleymdi mér smá stund. Ég brenndist illa á hægri fæti og þurfti læknirinn sem annaðist mig m.a. að flytja húð af lærinu og græða á ökklann sem varð verst úti. Ég var frá vinnu í um það bil 2 mánuði vegna áverkanna.
Ég var þá hissa á vankunnáttu starfsfólksins á svæðinu og lélegri aðstöðu til að taka á móti slösuðum, sérstaklega með tilliti til þess hve auðvelt er að verða fyrir óhappi þarna. Engin viðbragðsáætlun var til, einn hringdi í lækni á Laugarási og annar hringdi á sjúkrabíl frá Selfossi. Þegar læknirinn heyrði að sjúkrabíll væri á leiðinni, ákvað hann að koma ekki. Þeim á Selfossi var hins vegar sagt að verið væri að hringja í lækninn á Laugarási og sendu því bílinn læknalausan. Ég fékk þess vegna enga deyfingu fyrr en ég kom á Selfoss.
Eitthvað höfðu þau heyrt um ákveðna blöndu af volgu vatni með sykri eða salti til kælingar og var ég látin bíða meðan brúsi var fylltur. Ég veit núna að hver sekúnda fram að kælingu húðar skiptir máli, ég var látin bíða allt of lengi.

Nú hefur aftur orðið hræðilegt slys á þessu svæði. Mun verra en mitt, því litla stúlkan er mjög ung og brennd á stærra svæði en ég. Ég er þó „bara“ með ljót ör á öðrum fæti. Hún verður afskræmd í framan, ef marka má óljósar fréttir af þessum ömurlega atburði. Því miður hef ég kannski verið að bíða eftir einhverju viðlíka til að koma mér í að rita þetta bónbréf til nokkurra opinberra aðila.

Ég bið um að farið verði í að skoða hvernig má laga þetta svæði þannig að fólk geti áfram notið þess að sjá hverina bulla og gjósa, án þess að eiga það á hættu að verða fyrir bruna. Ég kom þarna við í sumar með franska gesti og varð þá mjög hrædd, mér fannst svæðið mjög óöruggt og mér leið illa. Nú er sýnt að ótti minn reyndist ekki ástæðulaus, því miður.

Ég bið um einhvers konar kæliaðstöðu þarna á sjálfu svæðinu. Slík lausn getur varla kostað mikið. Ég lýsi mig jafnvel hér með tilbúna til að greiða persónulega fyrir baðkar sem mætti standa þarna á góðum stað, ef starfsfólkið á svæðinu treystir sér til að halda því hreinu og ávallt fylltu af köldu vatni.

Ég bið um að hægt sé að kalla samstundis út starfsfólk á svæðinu sem hefur hlotið þjálfun í aðhlynningu slasaðra.

Það er ljóst að eitthvað hlýtur að þurfa að gera á þessum magnaða stað, sem dregur að sér fjölda ferðamanna á hverju ári. Eitt slys er einu slysi of mikið og slælegur viðbúnaður og algert ábyrgðarleysi þegar óhöpp eiga sér stað er íslenska ríkinu til háborinnar skammar.

Ritað í Romainville, 13. ágúst 2010.

Virðingarfyllst,
Kristín Jónsdóttir

10 Responses to “sendibréf”


 1. 1 ella 13 Ágú, 2010 kl. 10:52 e.h.

  Þetta er mun verra en vont.

 2. 2 Margrét 13 Ágú, 2010 kl. 10:53 e.h.

  Þú ert aldeilis bjartsýn kona verð ég að segja. Hér er allt á beinni leið til andskotans, landið brennur og stjórnmálamenn gera EKKERT. Dettur þér í hug eina einustu mínútu að einhver nenni að sinna svona máli? Nei, biddu fyrir þér – liðið sem ætti að sinna þessu vill alls ekki fyrir nokkra muni, hugsa eina litla hugsun.
  Gleymdu þessu og snúðu þér að hekli – mun uppbyggilegra heldur en að senda lötu og áhugalausu fólki bréf.

 3. 3 parisardaman 13 Ágú, 2010 kl. 11:00 e.h.

  Jámm Ella, vont var’ða.
  Uss, Margrét, ég neita að gefast upp. Hins vegar hef ég mikið spáð í að fara að snúa mér að hekli, líst svo vel á það sem systir mín snaraði undan (ofan af?) lítilli heklunál nú í sumar. Má ég ekki gera bæði? Halda áfram að berjast (kannski við vindmyllur, kannski ekki) og hekla dálítið í leiðinni?

 4. 4 ella 14 Ágú, 2010 kl. 5:34 f.h.

  Mæli eindregið með því að byggja sig upp með handvberki innan um erfiðu málin.

 5. 5 ella 14 Ágú, 2010 kl. 5:35 f.h.

  Hef eki hugmynd um hvaðan þessi börkur kom.

 6. 6 ella 14 Ágú, 2010 kl. 5:37 f.h.

  Þessi fartölva hentar mér greinilega ekki nógu vel.

 7. 7 parisardaman 14 Ágú, 2010 kl. 9:26 f.h.

  Ég skilðig og ætla mér að tékka á hekli fljótlega.

 8. 8 Sigurbjörn 15 Ágú, 2010 kl. 9:32 f.h.

  Við vorum þarna í gær og mér leist ekki á blikuna. Hvergi sér maður skilti sem vara ferðamenn við hættunni, fyrir utan kortið við hliðið inn á svæðið, náttúrlega, en fólk arkar þar framhjá með bjór og hvítvín í annarri hendi og myndavél í hinni án þess að líta á það með svo miklu sem öðru auganu. Snúrurnar sem eiga að halda fólki frá hverunum liggja sums staðar bara á jörðinni og fólk hoppar skeytingarlaust yfir þær.

  Mér sýndist ástandið ekki vera mikið skárra við Gullfoss, þótt maður þurfi kannski ekki að hafa áhyggjur af því að brenna sig til ólífis, þá er nú stutt í að maður húrri niður í gilið þar.

 9. 9 Hlédís 15 Ágú, 2010 kl. 11:17 f.h.

  Sæl, mín kæra!
  Mikið er gott að þú sendir bréfið. Bölsýnis-tuð um að „ÞEIR“ muni ekki hlusta og ekket gera, er neikvætt og niðurrífandi. Ég fullyrði, að uppsetning kæliaðstöðu við Geysi (og víðar) er verkefni sem margir vilja taka þátt í. Vilji/frumkvæði er allt sem þarf, nú sem fyrr.
  xxx-ap

 10. 10 baun 15 Ágú, 2010 kl. 3:34 e.h.

  Þetta bréf er þarft og gott framtak, vona að við verði brugðist fyrr en seinna.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: