Garður

Það eina sem ég hlakkaði virkilega til að sjá aftur í Frakklandi, var grænmetisgarðurinn okkar. Hann er vitanlega einn af þeim ljótari á svæðinu, en mér finnst hann ógurlega fallegur. Kartöflugrösin eru sperrt og fín þó mér sýnist maðurinn minn ekki hafa sett eins mikla mold ofan á og ég vildi að hann gerði. Þau standa í holum, en í raun átti hann að slétta rásirnar út. Hér í Frakklandi er ráðlagt að setja kartöflur niður á ca 10 cm dýpi. Leyfa svo grösunum að koma upp og hlaða mold utan á þau, og jafnvel yfir þau alveg. Þau koma svo aftur upp og þetta á að tvöfalda uppskeruna, skilst mér.
Ég heyrði af íslenskri aðferð sem mér skilst að komi frá Vésteini, en hún er sú að stinga nokkrum kartöflum ofan í moldarfylltan hjólbarða. Þegar grösin eru komin upp, er annar hjólbarði settur ofan á og fylltur af mold. Það á víst að koma rokna uppskera úr þessu.
Hvort kartöfluuppskera mín verði góð eður ei, verður tíminn að leiða í ljós. Ég á að taka upp í kringum 18. september. Jarðvegurinn er mjög leirugur og harðnar svakalega. Ég hef því ekki græna glóru um það hvort kartöflur nái að vaxa ofan í honum. Ég þori samt ekki að kíkja, vil ekki skemma spennuna.
Tómatplönturnar eru smávaxnar en ansi kröftuglegar og nokkrar bera smáa græna tómata. Einn þeirra er á stærð við nögl á litla fingri, það næstum því grætti mig að sjá svo smáan ávöxt og vita að ég muni geta fylgst með honum vaxa. Verst að ég náði ekki að sýna krökkunum þennan agnarsmáa hnúð áður en þau flugu í næsta frí með afa sínum.
Nágranni minn sem sá um að vökva fyrir okkur meðan við vorum í burtu sáði svo fyrir þremur salathausum (blómum? blöðungum?) sem eru byrjaðir að stinga upp kolli (blöðum).
Þetta er þrælspennandi allt saman og skemmtilegt. Ég þarf að fara á stúfana og skoða hvað það er fleira sem ég gæti stungið niður núna og fengið upp áður en veturinn skellur á. Radísur, gulrætur…
Í hinum görðunum er margt spennandi og glæsilegt að gerast. Kannski ég skreppi með myndavélina og taki nokkrar myndir af flottum graskerjum og kúrbítum og fleiru.

Ég ætla svo líka að gera garðinn kósí til að geta verið þarna og gert annað en að vinna baki brotnu, eins og ýmsir hafa gert hjá sér. Til dæmis langar mig að stækka aðeins terrössuna. Ég þarf að moka moldinni frá, en er svo hikandi hvað ég á að setja í staðinn. Væri kannski nóg að jafna bara nokkuð nákvæmlega við hæð stéttarinnar sem fyrir er, og setja einhvern dúk ofan á og svo kannski bara t.d. gervigras eða einhverja strámottu? Eða þarf ég að grafa dýpra og setja dúk og svo sand? Ég er að spá í að þetta verði ekki allt á hreyfingu ef ég set t.d. borð og stóla sem ná út á stækkunina.

Annars er bara ljúft að vera komin heim aftur. Reyndar verð ég að bretta upp ermar og vinna eins og svín næstu tvær vikurnar, skríming deddlæn 1. september á verkefni sem komst nákvæmlega næstum ekki neitt áfram í sumar, þvert á góðar fyrirætlanir. En við ætlum líka að njóta barnleysisins, hitta vini og kannski gerast djörf og skella okkur í bíó. Hvað er nú í gangi í bíó annars?

Lifið í friði.

9 Responses to “Garður”


 1. 1 Herta Kristjánsdóttir 15 Ágú, 2010 kl. 9:57 f.h.

  Skemmtileg ertu…

 2. 2 hildigunnur 15 Ágú, 2010 kl. 10:16 f.h.

  Það er alltaf bara svo gott að komast heim til sín… Sama hvað er gaman í fríinu.

  Þarf að prófa þetta bíldekkjatrikk ef ég man þá eftir því næsta sumar. Gæti komið slíku fyrir í garðinum mínum.

  Inception segja þeir að sé góð mynd. Pínu yfirhæpuð en góð ef maður heldur ekki að maður sé að fara á bestu mynd í heimi ever.

 3. 3 Frú Sigurbjörg 15 Ágú, 2010 kl. 10:44 f.h.

  Gangi þér vel með hvoru tveggja; gaðinn og svín-vinnuna!

 4. 4 Anna Helgadóttir 15 Ágú, 2010 kl. 10:54 f.h.

  Inception. Það var búið að hæpa hana fyrir mér og ég var með miklar væntingar þegar ég fór. Kom mjög sátt út úr salnum 🙂

 5. 5 parisardaman 15 Ágú, 2010 kl. 11:38 f.h.

  Takk, allar saman. Já, Hildigunnur, eiginlega langar mig líka að prófa bíldekkjatrikkið, þá úti í garði hreinlega. Fer eftir uppskerunni nú hvort ég geri það eða ekki.

 6. 6 baun 15 Ágú, 2010 kl. 3:30 e.h.

  Mér fannst Inception alls ekkert spes, en margir eru yfir sig hrifnir af þessari ræmu.
  Hlakka til að fá fréttir af uppskeru úr garðinum þínum góða. Afi minn sagði alltaf að svolítið sendinn jarðvegur væri góður fyrir kartöflur, en meira veit ég varla um það málefni.

 7. 7 Líba 16 Ágú, 2010 kl. 11:20 f.h.

  Sem stíl-lögga vil ég koma því á framfæri að gervigras er bannað.

  Hugmyndin um að jafna nokkuð – setja jarðvegsdúk og svo mottu ætti að ganga í einhvern tíma. Til lengri tíma er líklega betra að grafa dýpra og setja möl og sand og valta og … en það er þá hægt að gera það þegar fyrsta aðferð hefur sannað sig að virka ekki. Mér heyrist þú hvort sem er ekki hafa tíma í seinvirkar aðgerðir ; ) … ég man að það var hægt að fá trépalla-púsl í sænsku heimilisversluninni … jafnhliða „flísar“ sem hægt var að raða saman í pall.

 8. 8 Parísardaman 16 Ágú, 2010 kl. 12:17 e.h.

  Inceptionmálið hefur ekki verið leyst, sendinn jarðvegur hljómar voðalega gáfulega, ég held að minn sé það áreiðanlega ekki.
  Frú stíl-lögga, ég beygi mig í duftið fyrir þessu stíl-ráði:) Og var einmitt búin að spá í tréflísar einhverjar, þarf greinilega að tékka á Svíunum fljótlega. Málið er, að ég held að ég komi mjög fljótt niður á urð og það ætti því ekki að vera mikið mál að fylla uppí með sandi eða möl, ég ætla nú bara rétt að víkka þetta út um tæpan metra. Prófa kannski fyrst bara dúk og flísar, enda, eins og þú segir réttilega, ekki mikill tími fyrir dútlerí hérna…

 9. 9 einar 18 Ágú, 2010 kl. 6:25 e.h.

  Það mætti prófa þetta með hjólbarðana. Ég hefði reyndar haldið að með þessari aðferð færi allur vöxturinn í plöntuna sjálfa (kartöflugrasið, ofanvöxtinn) en ekki kartöflurnar sem eru undir plöntunni.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: