garðnýting

Á föstudagskvöld var okkur boðið í mat til fólks sem flutti nýlega í voða fínt hús með garði. Þar sem dagurinn hafði verið sérlega heitur, gerði ég ráð fyrir því að við myndum borða úti og bjó mig andlega undir glæsilega garðveislu. En nei. Við fengum ekki einu sinni fordrykkinn úti. Við sátum inni í stofunni og sáum ekki einu sinni út í garð. Einu skiptin sem við kíktum út, var þegar þau fóru út að reykja (ég fagna um þessar mundir fjögurra mánaða reykleysisafmæli og fann ekki snefil af löngun þarna á föstudag).
Ég hef tekið eftir því áður, að fólk sem býr í húsi með garð, virðist einhvern veginn ekkert endilega nota hann mikið. Þetta á ég mjög erfitt með að skilja. Þegar ég læt mig dreyma um húsið með gestaherbergjunum (mörg) og garðinum (ekki stór), erum við næstum alltaf úti á fallegu terrössunni þar sem stóra borðið rúmar okkur og alla gestina. Þegar ég sé svo hvernig fólkið í húsunum með garðana kúldrast alltaf inni, sefa ég mína eigin (næsta vonlausu) þrá með því að líklega er ég bara betur sett með íbúð í blokk, ekkert þak sem ég þarf að halda við sjálf, engin girðing, dren og blabla sem fylgir því að búa í einbýlishúsi.

Þar sem ég púlaði í garðinum í gær fram yfir kvöldverðartíma, áttaði ég mig á því að nú þarf ég að taka á mig rögg og rigga upp borði og stólum svo við getum nú farið að nýta garðinn í matmálstíma. Það verður þá einna helst pikknikk, og kannski eitthvað grillað. Nú verður spennandi að sjá hvort ég verði dugleg við að nýta garðinn í annað en að rækta matjurtir, eða hvort ég verði eins og aðrir garðeigendur, bara inni þegar það koma gestir.

Annars var ég í tvo tíma í garðbúðinni stóru í gær. Þar skoðaði ég alls konar tréflísar fram og til baka. Það er mikið úrval og mikill verðmunur. Nú þarf ég að gera þarfagreiningu og ákveða mig, en það er ekki mín sterka hlið. Ég get ekki spurt manninn minn, hann yppir bara öxlum. Ég get ekki spurt vini mína, enginn þeirra hefur sýnt þessum garði mínum nógu mikinn áhuga til að koma í heimsókn (fannst biturðin? Ekki? Ég er ógeðslega sár. Það hefur verið meiri áhugi frá bloggvinum en raunheimavinum, enn og aftur spurning hverjir eru hinir raunverulegu vinir manns!). Ég gæti spurt ykkur, en eiginlega nenni ég ekki að útskýra muninn, nema það er hægt að kaupa svona tré“fleka“, t.d. í 50×50, í ýmsum „bois exotique“ eða furu (hræódýrast úr furunni) og svo er hægt að kaupa tréflísar sem eru með einhverju plastdóti undir, sem er þá hægt að tengja saman svo allt haldist vel, og sem stingst þá líka ofan í jörðina. Það er líklega mun betri kostur, ég sé það um leið og ég skrifa það. Ah, hvað bloggið hjálpar oft, hah. En, tréflísadæmið með plastinu myndi kosta um 80 evrur, meðan ég get fengið dýrari týpur af flekaflísum fyrir tæpar 24 evrur. Það er því alveg spurning með að prófa ódýru lausnina fyrst. Eða hvað?

Lifið í friði.

10 Responses to “garðnýting”


 1. 1 Soffía Ákadóttir 22 Ágú, 2010 kl. 9:33 f.h.

  Oft er dýrari lausn betri til lengri tíma, en mikið væri gaman að koma með þér í garðbúðina. Elska svona búðir eins og þú veist. Gangi þér vel með garðinn og ég hlakka til að koma í kaffi þangað.

 2. 2 parisardaman 22 Ágú, 2010 kl. 9:40 f.h.

  Oh, já! Komdu! Mér fannst sko ekkert vont að eyða tveimur tímum þarna, hehe. Var farin að skoða alls konar tæki og tól ofan í kjölinn. Tætara fyrir garðúrgang og svona. Vá hvað ég hlakka til að sýna ykkur.

 3. 3 Soffía Ákadóttir 22 Ágú, 2010 kl. 10:23 f.h.

  Já.ég hlakka lika til. Talandi um garð þá eru blómin fyrst núna að byrja að blómstra sem ég sáði fyrir í garðinn hér heima en fræin keypti ég í litlu garðbúðinni í Cloyes (Er það ekki rétt?) Vonandi ná þau að blómstra en allt í einu virðist sumarið búið og haust vindar komnir.

 4. 4 parisardaman 22 Ágú, 2010 kl. 12:25 e.h.

  Jú, það var í Cloyes. Æ, hvað þau voru sein. Ég sá einmitt að hitastigið er fimm gráður hjá ykkur. Það er 25 gráðum minna en hér.

 5. 5 ella 22 Ágú, 2010 kl. 11:05 e.h.

  Ég lofa að líta til þín í garðinn þegar ég verð á ferðinni í París.

 6. 6 Parísardaman 23 Ágú, 2010 kl. 7:46 f.h.

  Flott, Ella. Ávallt velkomin!

 7. 7 Linda 27 Ágú, 2010 kl. 11:53 f.h.

  Hæ skvís, ég held að endingin hljóti að vera meiri í tréflekunum með plastinu undir þannig að ég ætla að mæla með þeim. Síðan ætla ég að skammast út í garðinn minn um helgina og þrífa hann. Og muna að næst þegar þú kemur til landsins þá býð ég þér og genginu okkar út í garð. Sjáumst og heyrumst, kv. Linda Björk.

 8. 8 parisardaman 28 Ágú, 2010 kl. 9:33 f.h.

  Frábært og takk Linda mín:)

 9. 9 Hulda Hákonardóttir 28 Ágú, 2010 kl. 1:17 e.h.

  Varðandi drauminn um dásemd þess að sitja að snæðingi úti í dásamlega garðinum sínum eða flennistóru garðsvölunum, þá vantar eitt í drauminn: Helv…. flugurnar!
  Það er alla vega mín reynsla. Ég dvaldi t.d. einu sinni í nokkrar vikur á agalega fallegum stað við frönsku rívíeruna og hafði til yfirráða risa garðsvalir með ægifögru útsýni. Ég var búin að hlakka svoooooo til að borða allar máltíðir þarna, ostana og rauðvínið og bara vera eins og í franskri bíómynd.
  Eftir þrjá daga lúffaði ég fyrir helv…. flugunum, færði mig inn fyrir stóra stofugluggann og lokaði svalarhurðinni.
  Útsýnið var þó enn sem áður fagurt.

 10. 10 parisardaman 3 Sep, 2010 kl. 9:07 f.h.

  Haha, ég geri mér grein fyrir því að þær geta verið vandamál. En það eru líka til alls konar lausnir á því. Alls konar lyktar- og hátíðnidippidútt sem hægt er að nýta gegn flugum, skilst mér.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: