Sarpur fyrir september, 2010

endurfæðing í hunangi

Haustið kom til Parísar um síðustu helgi. Einhver rændi indíánasumrinu okkar og lét okkur hafa hráslaga og gráma í staðinn.
Ferð á framandi slóðir í gær læknaði mig örlítið af haustleiðanum. Ég var tekin og skrúbbuð með krydduðu hunangi, síðan smurð annars konar krydduðu hunangi og vafin inn í dúk og látin liggja á hitaplötu. Svo var andlitið á mér skrúbbað varlega með enn einu hunanginu og síðan var ég nudduð ljúflega upp úr ilmolíum. Þetta var fertugsafmælisgjöf nokkurra vina minna, gjafakortið hefði runnið út í næstu viku. Í raun finnst mér að ég ætti að geta fengið svona meðferð, tja, mánaðarlega, en ég veit að ég get það samt ekki. Ég er samt að spá í að lofa sjálfri mér því að gera þetta alla vega árlega. Og fara líka oftar bara í hammam. Þetta hammam er í hverfinu mínu, ég hef verið á leiðinni síðan ég flutti hingað, fyrir sex og hálfu ári síðan.
Í dag fór ég svo í leikfimistíma í annað skipti. Síðasta þriðjudag datt ég næstum niður dauð í miðjum tíma og ég get lofað ykkur því að ég er ekki að ýkja þegar ég segi að ég lék mér að því að sjá sjálfa mig fyrir mér taka kennarann og buffa hana. Í dag fann ég varla fyrir nokkru. Eiginlega frústreruð. Ætli maður endurfæðist í alvörunni við svona hungangsmaríneringu? Mér leið þannig í gær, og virðist í betra formi en fyrir viku síðan, þó ég hafi verið á fullu við allt annað en að þjálfa mig eða borða hollan mat.

Lifið í friði.

Álfar og tröll

Mig langar svo að vita hvort þeir sem telja ekkert mál að „bara prófa“ að setja niður risaálverksmiðjur, að punga út fyrir öllu því sem þarf til þess, án þess að vera viss um það að hreina orkan okkar sé nægileg, án þess að vera viss um að landið okkar þoli þetta, mig langar svo að vita hvort þeir sem eru í liðinu „á móti“ mér, Andra, Framtíðarlandsfólkinu, Saving Iceland fólkinu og öllum hinum, hafi setið og jánkað og kinkað kolli og kannski líka hlegið aðeins, þegar Tryggvi Þór ásakar Andra Snæ um að „vera á móti framförum“, um að hafa „búið til gull úr skít“ (það sama og Tryggvi Þór notar sem rök fyrir því að taka áhættu á því að skemma, er umbreytt í einhvers konar Akkilesarhæl á Andra) og þegar hann kallar hann „prest í Culti“ (ofstækistrúarpredikara).
Finnst því fólki þetta nægjanleg rök til að taka sénsinn á því að eyðileggja landið og koma okkur enn dýpra niður í skuldafenið, um leið og við höfum okkur að þvílíkum fíflum á alþjóðavettvangi, að jafnvel ferðamenn munu fara að sniðganga landið? Því munið það, að nú er mikill áhugi á Íslandi og það er fylgst mjög vel með okkur. Við erum í tísku. Núna. Hver veit hvað verður á morgun?

Eins og Andri bendir á í gær, er það gersamlega óþolandi hvernig búið er að skipa þjóðinni í tvær fylkingar sem eiga ekki að geta talað saman án þess að níða hvor aðra niður. Öðru megin eru krúttlegu álfarnir sem eru á móti öllu og gegn þeim standa flottu tröllin sem vilja bara grafa, grafa, grafa. Eins og það sé ekkert til sem heitir samræður, samvinna, millivegur… Meira um frasa og bólur, alhæfingar og almenningsálit síðar.

Lifið í friði.

þolinmæði

Fyrir mér eru framfarir ekki tengdar hagvexti. Fyrir mér er það beinlínis rangt að mæla hamingju og velgengni með hagfræðilíkönum.
Það virðist gera mig að fífli og ógeði í augum þeirra sem ekki eru sammála mér. Mér finnst þeir hins vegar hvorki vera fífl né ógeð. Ég væri alveg til í að geta rætt við þá af alvöru. En ég get ekki rætt við fólk sem sýnir dónaskap.
Einhver sagði mig þolinmóða. En ég hef enga þolinmæði gagnvart bolum sem ryðjast yfir aðra með óþverraskap. Ég vorkenni þeim. Og maður á alltaf mjög erfitt með að þola til lengdar fólk sem maður vorkennir.

[viðbót: Tilvalið er að benda á Framfaragoðsögnina. Hún fæst í Bóksölunni og kostar heilar 2691 krónur.]

Lifið í friði.

Au revoir, Claude

Ég horfði á síðustu mynd Claude Chabrol í gærkvöldi, í tilefni af andláti hans. Við áttum hana á harða disknum frá því í sumar, tókum hana upp úr sjónvarpinu.

Gérard Depardieu segir í lokin: „Ég hef á tilfinningunni að ég hafi verið gabbaður.“

Áhorfandinn veit nákvæmlega hvað hann á við, veit ekki hvað snýr upp eða niður í myndinni. Það er ekki einu sinni algerlega ljóst hver er hvað, er lögfræðingurinn sami leikari og sá sem leikur rónann? Samt leiðist manni aldrei og er alveg sáttur í lokin. Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég vaknaði í morgun var nýr möguleiki á því hvað „raunverulega“ gerðist. Alger snilld.

Alveg eins og lífið. Hvað er „rétt“? Hvað er „raunverulegt“? Það er alveg fáránlegt að telja sig færan um að höndla það.

Lifið í friði.

Andri, hvað annað fær konu til að blogga á laugardagskvöldi?

Nú keppast allir náttúruverndarsinnar og ofvirkjunarandstæðingar við að lesa grein Andra Snæs og tárast jafnvel örlítið, hrista höfuðið og skilja ekki af hverju sumir hlutir geta ekki bara breyst.
Hins vegar er vandamálið að þeir sem eru búnir að ákveða að vera virkjunarsinnar og vilja stækka og þenja í nafni atvinnusköpunar, láta sér ekki einu sinni detta í hug að líta á hvað maðurinn er nákvæmlega að segja.
Það er mjög margt í þessari grein. Hún nær líka yfir heila opnu í Fréttablaðinu, þó auglýsingu hafi verið troðið á milli, einhverra hluta vegna. Ég vildi óska þess að sem flestir læsu hana. Það má t.d. nálgast hana hér, án þess að opna Fréttablaðið. Ég hvet vini mína og kunningja sem telja sig frekar vera virkjunarsinna og halda enn að í nýju álveri felist lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar, innilega til að fara nú eftir því sem ég var að bulla hér um daginn og leyfa nýjum hugmyndum að flæða um hugann og athuga hvort kannski, bara kannski, sé hreinlega ástæða og tækifæri einmitt nú, til að endurskoða viðhorfin. Og ef engin ástæða er til þess, þætti mér ógurlega gaman að sjá jafnsterk og góð rök með hinu gagnstæða. Einhvern veginn hef ég þó á tilfinningunni að helstu rökin verði að Andri Snær sé úr R-101 og eigi bara að þegja. Eða hann sé krútt og því ómarktækur. Ég get hugsað upp hundrað klisjur sem fólk beitir í samræðum og telur sig svakalega töff. Ég er orðin ofurþreytt á slíku og nenni ekki að telja fleiri upp (sojalatte kemur þó við sögu í einhverjum þeirra).

Lifið í friði.

blús

Ég er komin í þennan líka svaðalega bloggblús. Ég hamast við að halda blogginu við, af þrjósku minni sem á sér engin takmörk. Mér finnst ég samt hundleiðinleg, þurr og fúl, talandi um eitthvað sem skiptir máli á einhvern voðalega kverúlantalegan máta eða eitthvað sem engu máli skiptir en samt á einhvern undarlega óspennandi máta líka. Í gamla daga bloggaðist ég á við fólk sem sló inn alls konar skemmtilegar hugrenningar og pælingar og svo skiptumst við á athugasemdum, sem fóru stundum út í þennan dásamlega fíflagang sem nú hefur alfarið færst yfir á helvítis feisbúkk. Sorrí Björg feisbúkkmamma mín, mér finnst feisbúkk alltílæ en mér finnst bloggið svo miklu meira djúsí tjáningarform – þetta er eina orðið sem passar, þó það sé uppskrúfað og minni mig á öll hin uppskrúfuðu orðin úr menntuðu kúrsunum í HÍ. Og einmitt í einum af menntuðu kúrsunum sem ég hlustaði á í gær, var ég minnt á pælingar Kristevu stórvinkonu minnar, um textatengsl. Textinn minn verður til í tengslum við alla textana sem ég þekki. Og þar sem ég fæ ekki lengur bloggnæringu frá öðrum, er ég orðin þurr og leið(inleg).
Kannski ætti ég að flytja mig aftur frá Eyjunni, yfir á eitthvað meira freestyle svæði? Ég efast samt um að það dugi til og held í alvörunni að ég hafi ekki látið eyjuveruna trufla efnistök mín. Æh. Bleh. Mig langar að fremja bloggsjálfsmorð, eins og langflestir æðislegu meiriháttar skemmtilegu bloggararnir, bloggvinirnir mínir, hafa framið. Útfarirnar fara alltaf fram í kyrrþey og eftir stendur óljós minning. Ekkert meir.
Samt er eitthvað sem heldur mig frá því. Bloggið er sumsé alveg eins og hitt lífið, þetta þarna sem við köllum alvöru lífið. Mann langar stundum að fara, en fer þó ekki neitt.

Lifið í friði.

börn að eiga börn

Ég kann almennt mjög vel við að vera vakin til umhugsunar. Ég hef oft staðið sjálfa mig að því að vaða í bullandi fordómum en svo verið nóg að einhver benti mér á þá og ég þá kannski getað leiðrétt sjálfa mig. Stundum hefur það verið „sársaukafullt“, þ.e.a.s. ég hef í fyrstu tekið ábendingunni illa, ekki viljað trúa því sem sagt var, enda líður manni oftast bara alveg ágætlega vafinn inn í fordómana sína.
Ég á nokkra bloggvini sem hafa náð að stinga mig nokkrum sinnum með pælingum sínum. Þar eru t.d. Eva og Matti ofarlega á lista, þ.e. þau stinga reglulega og þó ég endurskoði ekki endilega alltaf viðhorf mín, ná þau að sá fræjum efans og pína mig þannig til að endurhugsa afstöðu mína, sem er stórgott mál, hvort sem ég styrkist í afstöðunni eða taki nýjan pól í hæðina.

Eva vakti mig til umhugsunar fyrir nokkru síðan með því að hefja máls á fóstureyðingum heilbrigðra ungra stelpna. Fyrst fóru þessi skrif hennar í taugarnar á mér, þó ég hafi aldrei verið beint að hneykslast á konum sem velja að eignast börnin sín snemma og einmitt tekið andköf af pirringi þegar ég hef heyrt um mömmur sem ganga harkalega fram í að fá dóttur sína til að láta eyða fóstri. Það fór náttúrulega aðallega í taugarnar á mér að hún skyldi voga sér að nota „primal scream“ myndbandið ógurlega, máli sínu til stuðnings. Og það truflar mig reyndar enn. En ég get alveg fyrirgefið henni það, whatever works
Og ég verð sumsé að lýsa því hér með yfir, að mér finnst algerlega tímabært að nú setjist fólk niður og hugsi sig örlítið um varðandi þessi mál. Er það einhver heimsendir fyrir 18 ára stelpu að eignast barn? Eða 16 ára, ef út í það er farið? Ef þessar stelpur eiga góða fjölskyldu og eru heilbrigðar finnst mér í alvöru talað ekkert að því að þær eignist barnið, að fjölskyldan taki þátt í því með henni, og helst vitanlega pabbinn og fjölskylda hans líka. Yrsa Sigurðardóttir hefur einmitt skapað svona fjölskyldu í glæpasögunum sínum. Er ekki allt í fína þar? Þetta er stundum erfitt, en það er samt allt í fína og barnið elska allir. Auðvitað.
Stundum er nefnilega hætta á því að framfarir breytist í andhverfu sína og verði niðurrífandi. Gæti það átt við um auðvelt aðgengi að fóstureyðingum?

Til að fyrirbyggja allan misskilning vil ég að konur fái áfram að velja og hafna. Ég óska bara eftir upplýstari og nútímalegri umræðu um þetta mál. Að ákvörðunin verði rædd á opinn hátt, með báða kosti í huga.

Lifið í friði.

horft fram veginn

Í gær skilaði ég síðasta kaflanum í stóra verkefninu sem ég ætlaði að vinna í rólegheitum í sumar, en vann á endanum á rúmum tveimur vikum nú í ágúst. Ég hef hugsað töluvert um þetta með að „hafa nógan tíma í að gera hlutina“ og hvernig það virkar aldrei fyrir mig. Hvernig mér tekst alltaf að ýta hlutunum fram að þeim tímapunkti að vera komin í tímaþröng. Ég veit að ég er ekki ein um að vinna svona, en ég veit líka að það er til fólk sem kemur sér ekki í svona aðstæður. Stundum er það engan veginn mér sjálfri að kenna, langflest þýðingaverkefni eru þannig að það bráðliggur á, manni er úthlutaður knappur tími af vinnuveitandanum. En þetta tilfelli var algerlega á mína ábyrgð, ég get engum kennt um nema sjálfri mér.
Mín eina afsökun er að ég þurfti líklega allillilega (töff orð!) á alvöru fríi að halda og í raun sé ég alls ekki eftir því að hafa tekið mér góða pásu. Það þurfti meira að segja bara kannski að vera heilar sjö vikur. Sjö vikur í tillhlaup inn í einn þann þyngsta vetur sem ég hef horft fram á lengi. Því í vetur ætla ég mér að ljúka náminu. Verða meistari. Úje.

Ég þarf að taka nokkra skyldukúrsa. Að auki skráði ég mig í mjög spennandi íslenskukúrs, en ég er ekki viss um að ég haldi honum. Það þyrfti að vera boðið upp á að fylgjast með námskeiðum alveg til enda sem „auditeur libre“, geta hlustað án þess að ætla í próf og fá einingarnar. Ég er nú þegar komin með of margar einingar því það er svo gaman að læra og margt skemmtilegt og spennandi í boði.
Meðfram skyldukúrsunum hefst ég handa við meistaraverkefnið sem felst í að þýða ansi veglega bók eftir Monu Chollet sem gæti kallast á íslensku Ofríki raunveruleikans. Ég ætla kannski vinsað úr henni nokkra kafla sem eru „of franskir“ og eiga kannski ekki endilega erindi við íslenskan lesanda. En ég sé til með það, það er líka heilmikið mál að klippa út úr texta, kannski bara ekki þess virði að fara út í slíkar aðgerðir. Og nú má fara aftur upp í fyrstu greinarskil þessa bloggs og átta sig á að líklega er ég ekki að fara að hefjast handa neitt alveg strax. Hvenær ætli ég finni að tíminn sé að renna út? Í mars? Viljið þið stofna til veðmála?
Auk námsmeyjarhlutverksins verð ég vitanlega áfram eiginkona og móðir tveggja barna og neyðist til að standa mig í því um leið og ég stend mig í náminu. Er það ekki annars? Ég íhugaði um tíma að vera á Íslandi í vetur, en það var slegið út af borðinu. Ég viðurkenni að mér finnst það dálítið súrt, ég hef ekki enn komist í að hlusta á tímana sem hófust í vikunni og mig verkjar af löngun til að vera staðnemi, það var svo gaman í fyrra.
Börnin eru í tónlistarskóla og mæta þangað þrisvar í viku. Ég hef það á minni könnu þegar tímarnir lenda á skóladögum. Eitthvað af tímunum lendir á miðvikudögum, en það eru líka einu dagarnir sem við fjölskyldan eigum saman í vetur. Maðurinn minn ætlar að vinna allar helgar og er þá oft horfinn út fyrir sjö á morgnana, en hann kaupir söluvöru sína á flóamörkuðum og vill vera mættur fyrstur.

Það stefnir sumsé í hörku vetur og eins gott að vera í formi. Þess vegna er einboðið að byrja aftur á froskastökkum og fara að hunskast í að byrja aftur að hlaupa. Svo ætla ég að skrá mig í leikfimina hjá bænum, vona að þeir tímar sem ég stefni á að mæta í, séu almennilegt púl og sviti.

Á eftir á ég svo tíma hjá lækni, til að ræða um bólusetningar vegna ferðar til Afríku. Hvort sú ferð verður farin í vetur eða ekki, verður tíminn að leiða í ljós, það veltur á utanaðkomandi þáttum sem ég hef lítið um að segja. Það gæti sett strik í námslokin, en so be it. Ég held einhvern veginn að þessi ákvörðun um að fara til Afríku sé ein sú besta sem ég hef tekið á síðustu árum, og allt í sambandi við þessa mögulegu ferð er mér hvatning og innblástur.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha