Sarpur fyrir október, 2010

tilraun

prufa

Ögmundur

Sé á vef hins illa, að Ögmundur er eini ráðherrann sem hefur farið að hitta BÓT, aðgerðarhóp um bætt samfélag.

Ég hef alltaf haldið mikið upp á Ögmund, hann er einn af fáum alvöru vinstri stjórnmálamönnum sem eftir eru í þessu undarlega hvorki-né ástandi sem við búum við. Ég fékk það almennilega staðfest þegar hópur sem ég hef fylgst mjög náið með undanfarið, náði loksins áheyrn eftir að Ögmundur tók við dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Það eru ættleiðingarsamtökin, sem lengi reyndu að sýna fram á ágæti þess að taka upp samstarf við Tógó um ættleiðingar til Íslands. Þau töluðu lengi fyrir daufum eyrum fyrrum ráðherra, en Ögmundur tók þau á fund, hlustaði vel og var komið með málið í farveg á nokkrum dögum. Þetta er glæsileg frammistaða og það er engin spurning að málið er brýnt. Ég nenni ekki einu sinni að reyna að byrja að skrifa um þann fáránleika sem fylgir því að út um allan heim deyja börn úr hungri og vosbúð meðan fólk bíður árum saman á biðlista eftir börnumá velmegunarsvæðunum. Óþolandi tilhugsun.

Ögmundur er að gera góða hluti. Lítill fugl hvíslaði því að mér að hann byrji vinnudaginn svo snemma, að þegar hann hringdi í ættleiðingarfélagsfulltrúann klukkan átta að morgni, hafi hann líklega verið búinn að bíða í tvo, þrjá tíma eftir að geta hringt án þess að eiga á hættu að vekja hana.

Það vantar meira vinstri í vinstrið. Það er hið stóra vandamál vinstri flokkanna um alla Evrópu og ástæðan fyrir því að alls konar öfgahópar ná mun meira fylgi en eðlilegt er (svo má ræða það í hundrað ár, hvað sé eðlilegt og hvað ekki). Ögmundur er alvöru vinstri. Hann gæti tapað á því, fékk hvílíkt skítkast á sig fyrir að draga sig út þegar hann neitaði að taka þátt í miðjumoðinu. En svo gæti hann líka bara staðið uppi sem sterkur hluti af hópnum, og jafnvel ástæða þess að maður þó myndi nenna að hunskast á kjörstað í næstu kosningum. Það skyldi þó aldrei vera?

Viðbót vegna athugasemda á feisbúkk: Ég viðurkenni það að afstaða Ögmundar og fleiri vinstrimanna gagnvart ESB fer óhugnalega mikið í taugarnar á mér. Þar þurfa þau kannski að setjast niður og ígrunda hlutina betur.

Lifið í friði.

garðyrkjumaðurinn minn er vöðvastæltur

Í dag plantaði ég túlípanalaukum í blönduðum litum, vitanlega. Þeir áttu að fara á 20 cm dýpi, en fóru ekki nema 15 cm ofan í leirugan jarðveginn. Ég gat ekki gert betur en það. Fjárfesti í sérstakri græju til að gera holur, og þetta var sú stærsta í búðinni. Þetta var erfiðisvinna og ég get varla vélritað núna, alveg búin í fingrunum. En mér líður alltaf jafnvel í garðinum og gleymi gersamlega stað og stund. Með Víðsjá í eyrunum og mold á hnjánum. C’est la vie!

Á morgun fer ég svo í langferð með lest. Það finnst mér alltaf jafnævintýralega gaman, þó ég hafi búið í Frakklandi í 20 ár. Kannski er það rétt hjá vini mínum, að okkur finnist alltaf exótískt það sem er ekki til í okkar heimalandi. Þó við séum búin að vera innflytjendur í 20 ár. Kannski aðlagast maður aldrei að útlandinu sínu. Alla vega þvertek ég alltaf fyrir að vera orðin frönsk. Samt tel ég mig „góðan“ innflytjanda. Ég reyni að vera kurteis, ég hef áhuga á tungumálinu, menningunni, lífinu og m.a.s. pólitíkinni. Ég kann að elda franskan ömmumat og drekk töluvert (les: mjög mikið, áreiðanlega allt of mikið) af frönskum vínum.

Ég hlakka til að sjá hvernig vinir okkar hafa það í sveitinni. Hvort þau séu sátt við að hafa flutt frá París. Hvort þau mæli með þessu. Ég sé mig alveg þannig lagað séð fyrir mér í sveitahúsi með góðan garð. Og nettengingu og næga þýðingavinnu. Og ketti. Marga ketti. Og garðyrkjumann sem setur túlípanalaukan niður á 20 cm dýpi meðan ég horfi aðdáunaraugum á hann.

Lifið í friði.

bensín

Á sunnudaginn var, fyrir viku síðan, heyrði ég af fólki bíðandi tímunum saman (ókei, tvo tíma) við bensínstöð til að fá allra náðarsamlegast að kaupa bensín fyrir 20 evrur. Ég vissi þá að minn tankur var svo til tómur, þó ljósið væri ekki enn farið að loga. En einhvern veginn nennti ég ómögulega að fara í eitthvað svona biðraðarugl og ákvað að ég gæti bara alveg lifað bíllaus.
Ég gleymdi náttúrulega að ég var búin að lofa gestinum mínum að við færum í smá sveitaferð á þriðjudeginum, en við aflýstum henni. Ég var líka alls ekki að pæla í því að ég þyrfti að koma gestinum upp á völl á fimmtudeginum. Hún var pinklum hlaðin, m.a. með hræið af tölvunni minni sem óskað var eftir til nánari skoðunar á Íslandi, svo ekki kom til greina að senda hana í einhverjar hrakfarir með lest. Lína B, sem þjónar flugvellinum, hefur verið í stöðugu verkfalli síðan lætin hófust.
Mér tókst að keyra hana upp á völl án nokkurra vandkvæða, lítið var af bílum á ferð, en biðraðirnar við bensínstöðvarnar voru óárennilegar. Og ég komst til baka líka, með ljósið logandi allan tímann. Um tíma fór dálítið um mig, þegar ég lenti í svaðalegum umferðarhnút þar sem menntaskólakrakkar í nærliggjandi úthverfabæjum höfðu lokað þjóðvegi 3 út úr París.
Það var margræð upplifun að sjá úthverfakrakkana í mótmælendahlutverkinu. Öll klædd samkvæmt nýjustu tísku, alls konar á litinn, vitandi að þeirra bíður langflestra djöfulsins streð við að fá drulluvinnu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er mun hærra en í öðrum aldurshópum, eða um 24 prósent. Hér má sjá tölur. T3 og T4 eru seinni ársfjórðungar ársins 2009, og talan er prósentutala. T4 er merkt með p, sem þýðir að tölurnar voru ekki endanlega staðfestar. Svo kemur sveiflan, og að lokum eru gefnar upp fjöldatölur í þúsundum, en þar virðist mér vera villa. Líklega eru um 1 og hálf milljón í yngsta hópnum atvinnulaus, en 646 þúsund fólks milli 25 og 50 ára. Þetta er tafla sem birt er á kennsluvef Hagstofunnar, INSEE.
Þarna voru þau saman komin, þúsundum saman, óskaplega venjulegir krakkar sem maður er vanari að sjá flissandi í metró eða hangandi fyrir utan blokkirnar niðri við metróstöð, daðrandi hvert við annað, reykjandi og stundum pínulítið að ögra gamla fólkinu.
Þarna voru þau öskrandi slagorð gegn Sarkozy og hrópandi til okkar bílstjóranna að við ættum ekki að fara í vinnuna heldur í verkfall. Ekki einn einasti ökumaður missti stjórn á sér og fór að flauta, fyrir utan að nokkrum sinnum var rythmaflautað, til stuðnings mótmælendum. Enginn virtist reyna að ögra lögreglumönnum sem stóðu vígbúnir gegn fjöldanum, en langoftast þegar unga fólkið rís upp er það eftir klúður lögreglunnar sem á það til að drepa óvart einn og einn unglingspiltinn (man ekki eftir dæmi þar sem stúlka hefur verið óvart drepin), og þá eru mótmælin mun meira í líkingu við stríð. Vonlaust stríð, því þau hafa ekkert í vopnaðan lögregluherinn. Langoftast fara þau stríð út í að þau brenna bíla sinna eigin nágranna og fjölskyldna, en komast ekki upp með að skemma neitt sem tilheyrir ríkinu. Þau komast aldrei til að mótmæla inni í París, þar sem ríkara fólkið er með bílana sína. Þessi stríð fara alltaf fram lengst úti í úthverfunum og hinn almenni Parísarbúi fylgist bara með í fréttum, líkt og fólkið á Íslandi.
Sumsé, fögur sjón að sjá þau halda svona alvöru göngu, ná að loka alvöru umferðaræð, og gera þetta á skipulegan og gáfulegan hátt.

Nú er þetta orðin langloka og ég sem ætlaði bara að tala um bensín, gerði m.a.s. fyrirsögn og allt. Þannig er mál með vexti að nú er svo komið að ég fæ alls konar misvísandi upplýsingar um möguleika á því að fá bensín. Það er ljóst að ef ég fæ bensín hér í nágrenni við mig, kemur það bensín frá olíuhreinsunarstöð sem Sarkozy lét taka með valdi af yfirvöldum. Ég sé því ekki ástæðu til að kaupa það. Mín leið til að styðja mótmælin, verður því að vera áfram bíllaus. Þetta er dálítið spennandi, en við sjáum hvernig okkur gengur það. Ég hef alltaf vitað að gamli Citroëninn minn er að vissu leyti lúxus, að ég gæti svo sem alveg lifað án hans. En mér finnst gott að hafa þennan lúxus, til dæmis var ég svo þreytt eftir hlaupin milli skóla og tónlistarskóla á fimmtudaginn, að ég hefði getað sofnað standandi (á bakvið) eldavélina. Og hlaupin yrðu verri á þriðjudögum, því þá höfum við korterinu styttri tíma til að komast. Og þá erum við með saxófón í farteskinu, sem er öllu þyngri og fyrirferðarmeiri en gítarinn sem við skellum á bakið. Til þeirra hlaupa kom ekki síðasta þriðjudag, þar sem tónlistarskólinn boðaði til verkfalls þann dag.
Nú er komið skólafrí, svo ekki lendi ég í þessum hlaupum í næstu viku. Hins vegar á ég miða í lest til Suður Frakklands á miðvikudag, en ekki er ljóst hvernig lestarsamgöngur verða í næstu viku. Og lestin fer með okkur til Aix en Provence og þaðan er svo klukkustundar akstur í fjallaþorpið sem við ætlum til. Munu vinir okkar þar eiga bensín til að koma að sækja okkur? Það eru engar almenningssamgöngur á þessari leið, við hefðum þurft að kaupa miða til Marseille til að ná gömlu hriktandi fjallalestinni, en það virtist bölvað vesen þegar miðarnir voru keyptir. Þá var bensín jú, munaðarvara, en samt alveg til nóg af því.
Það er flókið að lifa bensínlaus. Þess vegna er bensín líka dýr munaðarvara. Eins og t.d. vatn, þó Íslendingar nái alls ekki að skilja það, með vatnið sitt hreint og fínt og út um allt. En ég ætla ekki út í þá sálma hér og nú. Mál er að linni.

Lifið í friði.

sölumaðurinn og sauðurinn

Ég varð fyrir miklu áfalli á laugardagsmorgun þegar tölvan mín hrundi. Ekki með látum og hamagangi, heldur undarlegu tikki eins og í sprengju.
Hún var úrskurðuð látin af sérfræðingum strax sama morgun. Það tók mig ekki langan tíma að ákveða að ég þyrfti strax að ganga í það að kaupa mér nýja, enda lifi ég stórum hluta lífs míns í tölvunni. Félagslífið er á feisbúkk, námið er á Uglunni, vinnan er, með örfáum undantekningum, á gmail. Í raun er það eingöngu kjarnafjölskyldan og hluti af vinum og kunningjum sem njóta þeirra forréttinda að eiga samskipti við mig beint. Svona fyrir utan formleg samskipti við afgreiðslufólkið í búðinni og á bókasafninu. Kannski er þetta dálítið furðuleg eða óaðlaðandi tilhugsun, en ég er í raun alveg sátt. Held ég. Og þó.
Toujours est-il, að það er algerlega ljóst að ég get ekki og vil ekki lifa án tölvu.

Á miðvikudag lagði ég af stað í bæinn, eftir miklar vangaveltur og pælingar varðandi trúarofstæki mitt, en ég er sumsé meðlimur í sértrúarsöfnuðinum Apple. Ég sá að ég gat fengið ásættanlega PC tölvu fyrir um 5-600 evrur, en þyrfti upp í 1000 fyrir MacBook. Ég ákvað á endanum að fylgja trú minni, enda er ég að fara að byrja á Mastersverkefninu bráðum og bara hef ekki nægan vilja til að læra á PC. Mér finnst þær ljótar, bæði að utan og innan og ég fæ líkamleg viðbrögð við því að þurfa að leita að c-drifinu.
Ég fór í fnac, sem býður upp á raðgreiðslur. Ég hitti fyrst afgreiðslumann og bað hann að skýra fyrir mér muninn á 13 tommu MacBook og MacBook Pro. Hann fullvissaði mig um að eini munurinn væri verðið, 150 evrur og hraðara vinnsluminni sem gagnaðist eingöngu ef ég væri að klippa vídeó. Ég spurði hvort álið væri ekki betra en plastið en hann sagði að þetta væri nú bara allt sama draslið. Ég ákvað því að kaupa MacBook á 999 evrur, og þegar sölumaðurinn fór að reyna að selja mér 300 evru, 3ja ára megatryggingu var ég í svo miklum andkaupagír að ég sagði þvert nei. Ég fékk kassann og fór upp í deildina sem sér um að ganga frá raðgreiðslum. Þar hitti ég fyrir þessa dæmigerðu ofurþurru risaeðlutýpu sem virtist njóta þess út í ystu æsar að segja mér að þar sem bankinn minn væri BNP, væri RIB ekki nóg heldur þyrfti líka yfirstrikaða ávísun, þar sem BNP setur ekki heimilisfang viðskiptavinarins á RIB, ólíkt öllum öðrum bönkum.
Ég hunskaðist því aftur heim í metró og náði í ávísanaheftið mitt.
Á leiðinni niðureftir ákvað ég að fara í aðra fnac-verslun, nær verkstæðinu sem ætlaði að bjarga gögnunum úr gömlu tölvunni og setja inn í þessa nýju. Þar mæti ég í Apple-hornið og byrja á því að spyrja sölumanninn að gamni hver munurinn væri á MacBook og MacBook Pro. Ég fékk heillangan fyrirlestur sem hófst á því að álið væri mun sterkara en plastið, að geisladiskadrifið væri sterkara, það væru ljós í lyklaborðinu, það væru fleiri tengi, m.a. fyrir myndavélakort og ýmislegt fleira. Lokaniðurstaða: 150 evrur aukalega væri bara djók!
Ég ákvað því að kaupa dýrari tölvuna. Sölumaðurinn sendi mig á kassa. Þar hitti ég fyrir mann sem ég kannast aðeins við. Hann tók sér góðan tíma í að skýra fyrir mér megatrygginguna. Í þrjú ár fæ ég tölvunni skipt út fyrir nýja, ef eitthvað kemur fyrir hana annað en að ég missi hana í gólfið. Ef batteríið bilar fæ ég nýja. Ef lyklaborðið slappast upp fæ ég nýja. Og svo framvegis. Ég myndi borga 30 evrur á mánuði í 10 mánuði, 140 í stað 110, og gæti verið pollróleg í 3 ár. Aldrei yrði gert við tölvuna. Hún yrði bara tekin og ég fengi nýja. Jafnvel þó hún væri orðin miklu dýrari og með nýjum möguleikum en í dag. Þetta yrði þannig að eftir tvö ár myndi ég óska þess að tölvan mín bilaði nú bara. Ég var dálítið í vímu yfir því að hafa valið dýrari týpuna og lét því slag standa og keypti (helvítis) trygginguna. Þó ég viti að tryggingar eru svikamyllur. Svona er maður nú skrítinn. Og auðvelt að plata mann. Og manni finnst það þar að auki gott. Það er eiginlega það sem mér finnst langundarlegast í þessu öllu. Mér leið mjög vel meðan verið var að pranga vörunni inn á mig. Ég er nú meiri sauðurinn. En djö, hvað ég er hamingjusamur sauður í nýju tölvunni! Og kúl að hafa bara fengið allt klabbið inn aftur, adressubókin og myndirnar voru það sem ég var mest reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki geymt. En líka kúl að vera með dagatalið og bara öll wordskjölin og allt þarna á sínum stað.

En vá, hvað álið er nú kalt viðkomu á morgnana. Eins gott að ég var búin að kaupa svona púða/bakka undir tölvuna í Ikea fyrir nokkru síðan!

Lifið í friði.

orð

Orðið orð hefur verið að velkjast um í huga mér undanfarið, enda er þýðingaverkefnið grein um orð og orðaklasa sem þýðandinn (aumingja hann) þarf að koma yfir á móðurmál sitt (langoftast þýðir maður yfir á móðurmálið, sérstaklega í bókmenntaþýðingum). Og hvað er það í orðunum sem þarf að yfirfæra? Ekki orðið sem slíkt, það getur verið mjög varasamt að einblína á orðið:

Hver – á – þessa – bók?

Hot spring – river – this – book?

Samhengið, venslin við hin orðin í textanum breyta nefnilega orðinu. Þetta vita nú allir, held ég. Líka þeir sem aldrei hafa lesið nokkuð í málvísindum.

Höfundurinn skapar heim, falskan raunveruleika. Þýðandinn þarf að höndla þennan heim, skilja hann til fulls og koma honum yfir á nýtt, ólíkt og framandi tungumál. Til lesenda, viðtakenda, sem hafa kannski allt annan bakgrunn en viðtakendur frumtextans. Eru jafnvel fæddir þúsund árum á eftir þeim.
Þýðandinn þarf að færa fórnir og stendur sífellt frammi fyrir vali, sem getur verið mjög sársaukafullt. Það er í raun hundleiðinlegt að þurfa alltaf að velja. Hver kannast ekki við þetta val sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi:

Hvað á að vera í matinn í kvöld? (What river to be in the food tonight?)

En ég ætlaði að spá í orðið orð. Ég vil kalla þessa heild höfundarverksins orð. Orð höfundarins, þar sem orðið orð er í nefnifalli, eintölu. Með vísan í aðra fræga setningu:

Í upphafi var orðið.

Í gríska orðinu logos felst merkingin orð, vitanlega. En í því finnst líka rökvísi og jafnvel er andi í logosinu. Logos er að minnst kosti þrívítt orð.
Logos hefur sumsé biblíulega skírskotun – í upphafi var logos. Orðið. Andinn. Í ýmsum trúarkenningum er logos það sem tengir guð við manninn. Logos er í orðum sem varða rök, logic, lógík.

Ég hef fengið (mér – ég valdi þessa grein alveg sjálf!) það verkefni að íslenska samsetta orðið franska logocentrisme, sem hefur verið notað í heimspeki og öðrum kjaftafögum, eins og málvísindum. Það er þó ekki viðurkennt sem orð, því það finnst ekki í orðabókum.
Ég skil seinni hlutann –centrisme sem –miðaður (mér finnst það betra en miðjaður, þó það gæti vissulega líka gengið.

Ég var að hugsa um að lausþýða frasa af síðu sem er tileinkuð hugsun Derrida, en hann fjallaði um logocentrisme, en í hvert skipti sem ég reyni það, kemur bara óskiljanlegt bull. Var Derrida bara bullari? Feik?

En ég þá? Mér finnst ég alltaf vera að þykjast vera að gera eitthvað. Er ég bara feik? Erum við kannski öll feik? Í dag ætla ég að feika íslenskun á lógósentrík, þó mér finnist í raun alveg nóg að koma bara með þessa íslenskun á útlenska óskiljanlega bullorðinu.

Lifið í friði.

gulir tómatar – rauð pressa

Í morgun fór ég í dagrenningu út í garð og bjargaði síðustu tómötunum í hús. Nokkrir litlir gulir, sem eru hrikalega góðir, hinir grænir sem roðna í dagblaðapappír á eldhúsborðinu á nokkrum dögum. Algert gómsæti. Ég sá að salathöfuðin þrjú eru bara eiginlega tilbúin til átu, hlakka til að prófa þau. Það var ofvirki og stórskemmtilegi garðfélagi minn Díamel, sem gaf mér fræin. Hann sankar ótrúlegustu hlutum að sér og garðurinn hans er skemmtileg blanda af ruslahaugsfílíngnum en samt með kósíheitum og líka fullt af grænmeti. Hann minnir mig á eina af mínu bestu vinkonum, þó hann sé skemmtilega klikkaður arabakall illa haldinn af ákveðinni tegund af karlrembu sem honum fyrirgefst jafnóðum því hann brosir stöðugt og er mjög örlátur (hann hefur ekki bara gefið mér fræ, líka alls konar grænmeti því hann segist vera með of mikið). Ég er alltaf að sjá hann akandi um hverfið á druslunni sinni, líklega í leit að drasli að hirða, fyrir garðinn. Þá vinkar hann og pípir, alltaf jafnkátur að sjá mann.
Spínatið vex ágætlega, en það er kominn tími á að grisja aðeins einhvers konar gras sem vill endilega vaxa í beðinu með því. Þarf að finna mér tíma í það. Sem og að fara og bjarga restinni af kartöflunum, en krakkarnir tóku heilmikið af þeim upp um daginn, með aðstoð vinar síns, meðan mæðurnar skáluðu í kampavíni fyrir góða veðrinu og lífinu. Þar með hefur garðurinn líka verið kampavínsvígður, mikið var. Og síðan vinkonan samþykkti með mér staðsetningu grasblettsins og fleira í sambandi við skipulag næsta sumars, á ég mun auðveldara með að sjá þetta fyrir mér og hlakka til að byrja að vinna í því af alvöru. Næsta skref er að kaupa nokkra lauka svo ég fái nú páskaliljur í vor, og skóflu og góða sköfu svo ég geti slétt út fyrir grasflöt og stækkun terrössunnar.

Jahá. Ég gæti líka sagt ykkur frá skólaverkefninu sem ég er að bilast á. En sleppum því bara. Sérhlífniþörf minni hefur engan veginn verið fullnægt síðustu daga.

Og ekki er gaman að fylgjast með ruglinu heima. Ég hef nákvæmlega ekkert um það að segja sjálf, en bendi áhugasömu fólki hins vegar á að fylgjast með útkomu RÓSTURS á næstu dögum, ef mér skjátlast ekki. Og svo tilkynni ég líka með gleði í hjarta að fyrir utan hina ágætu Smugu, hefur nú annað sérdeilis vinstrisinnað og gott vefrit verið vakið af dvala sínum: Eggin er komin aftur, hárbeitt sem fyrr.

Lifið í friði.

skór og þjáning

Ég kláraði vinnuna í vikunni með ágætum, held ég. Erfitt, en gaman. Allt öðruvísi en það sem ég er vön að vera að gera. Á þriðjudag þurfti ég að vera dálítið fín. Ég fór í nýju hælaskóna mína, sem ég keypti mér eldrauða á hálfvirði á dögunum (líklega úreldur litur) og hljóp um á þeim í nokkra klukkutíma. Bæði upp og niður stiga og fram og aftur miðaldagöngustíg með tilheyrandi misgengi. Þeir hafa því staðist prófið. Ég fékk að vísu smá blöðrur en náði samt að halda áfram að ganga skóna til í vikunni, fer á þeim út að sækja krakkana í skólann. M.a.s. búin að hjóla á þeim án nokkurra vandræða. Ég er sem sagt mjög ánægð með nýju skóna.
Ég er ekki alveg eins ánægð með verkefnaskil vikunnar í skólanum. Ég skilaði einu verkefni degi of seint, og flausturslega unnu. Hitt á að fara frá mér á morgun, sunnudag, og mér líður ekki vel með tilhugsunina. En ég hamast þó við og er búin að fá að vita að það verður í lagi að skila ekki öllu í einu.
Það verkefni er þýðing á fræðigrein. Ég valdi grein sem ég stúderaði hjá sjálfum höfundinum í fyrra svo ég þekki hana inn og út. Það er samt alveg magnað hvað það er erfitt að koma því sem maður skilur nokkuð vel, yfir á nýtt tungumál. Þýðingar eru endalaust valfrelsi. En því fylgir engin frelsistilfinning, heldur bara þrúgandi efasemdir. En samt finnst mér þetta gaman. Vinkona mín segir að ég sé masókisti. Ég álít mig frekar sérhlífna manneskju, en kannski brýst minn masókismi út í að finnast gaman að þýða.
Í matarpásunni í gær renndi ég yfir unnið verk og rak augun í orð sem ég var ekki alveg viss með. Ég gúgglaði því, og það kemur eingöngu fyrir á færeyskum síðum. Eins og er, er því eitt færeyskt orð í greininni, en mér finnst það smellpassa í íslenskuna. Orðið er sagnorðið „að sóttverja“. Ég fór ekki út í að kanna hvort það færeyska sé sagnorð, grunar samt að það sé nafnorð.

Lifið í friði.

rugl

Ég er að reyna að fylgjast með því sem gengur á heima núna, en það er ekki auðvelt þegar maður er á kafi í skólaverkefnum, vinnu og að taka á móti vinum í heimsókn.
Ég hef alls konar skoðanir á málinu, en þær eru ruglingslegar og ég get ekki skrifað þær. Þess vegna ætla ég bara að segja ykkur frá því að tómatarnir roðna hratt og vel í eldhúsglugganum, vafðir inn í dagblaðapappír. Kartöflurnar eru orðnar risastórar og verða vonandi teknar upp á sunnudag. Það veldur mér þó heilabrotum að það virðast aldrei fleiri en tvær á hverju grasi. Hvaða lásí uppskera er það nú? Kryddjurtirnar eru smáar, en bragðgóðar, þó basílíkan þoli illa kuldann og sé blettótt. Spínatið er byrjað að stinga sér upp úr jörðu, og loksins kom vinkona að skoða garðinn og gaf mér smá hugmyndir um hvernig ég gæti útfært hann næsta vor. Mig sárvantaði fullorðinsálit á því og nú er þetta komið, held ég. Ég er farin að sjá fyrir mér hvernig þetta verður og fínt verður það.
Nú er að skella á risaverkefni sem ég hef verið að undirbúa síðan í sumar. Ég hlakka til að hitta fólkið og standa í þessu öllu saman. Hlakka samt mest til að þetta sé búið, því einhvern veginn er heilinn á mér á suðupunkti, allt of mikið af hugsunum, möguleikum, vandamálum… Ég sé fyrir mér að þau fari, að ég klári þýðinguna fyrir skólann og eftir það verði þetta bara svona ljúft og rennandi fram í desember. Je ræt. Ég er orðin eins og tengdamamma. Segi alltaf að það sé að fara að hægjast um í næstu viku. En segi það í hverri viku.
Ég vildi óska þess að ég gæti bara eytt restinni af lífinu smurð hunangi, liggjandi á heitum steini.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha