gulir tómatar – rauð pressa

Í morgun fór ég í dagrenningu út í garð og bjargaði síðustu tómötunum í hús. Nokkrir litlir gulir, sem eru hrikalega góðir, hinir grænir sem roðna í dagblaðapappír á eldhúsborðinu á nokkrum dögum. Algert gómsæti. Ég sá að salathöfuðin þrjú eru bara eiginlega tilbúin til átu, hlakka til að prófa þau. Það var ofvirki og stórskemmtilegi garðfélagi minn Díamel, sem gaf mér fræin. Hann sankar ótrúlegustu hlutum að sér og garðurinn hans er skemmtileg blanda af ruslahaugsfílíngnum en samt með kósíheitum og líka fullt af grænmeti. Hann minnir mig á eina af mínu bestu vinkonum, þó hann sé skemmtilega klikkaður arabakall illa haldinn af ákveðinni tegund af karlrembu sem honum fyrirgefst jafnóðum því hann brosir stöðugt og er mjög örlátur (hann hefur ekki bara gefið mér fræ, líka alls konar grænmeti því hann segist vera með of mikið). Ég er alltaf að sjá hann akandi um hverfið á druslunni sinni, líklega í leit að drasli að hirða, fyrir garðinn. Þá vinkar hann og pípir, alltaf jafnkátur að sjá mann.
Spínatið vex ágætlega, en það er kominn tími á að grisja aðeins einhvers konar gras sem vill endilega vaxa í beðinu með því. Þarf að finna mér tíma í það. Sem og að fara og bjarga restinni af kartöflunum, en krakkarnir tóku heilmikið af þeim upp um daginn, með aðstoð vinar síns, meðan mæðurnar skáluðu í kampavíni fyrir góða veðrinu og lífinu. Þar með hefur garðurinn líka verið kampavínsvígður, mikið var. Og síðan vinkonan samþykkti með mér staðsetningu grasblettsins og fleira í sambandi við skipulag næsta sumars, á ég mun auðveldara með að sjá þetta fyrir mér og hlakka til að byrja að vinna í því af alvöru. Næsta skref er að kaupa nokkra lauka svo ég fái nú páskaliljur í vor, og skóflu og góða sköfu svo ég geti slétt út fyrir grasflöt og stækkun terrössunnar.

Jahá. Ég gæti líka sagt ykkur frá skólaverkefninu sem ég er að bilast á. En sleppum því bara. Sérhlífniþörf minni hefur engan veginn verið fullnægt síðustu daga.

Og ekki er gaman að fylgjast með ruglinu heima. Ég hef nákvæmlega ekkert um það að segja sjálf, en bendi áhugasömu fólki hins vegar á að fylgjast með útkomu RÓSTURS á næstu dögum, ef mér skjátlast ekki. Og svo tilkynni ég líka með gleði í hjarta að fyrir utan hina ágætu Smugu, hefur nú annað sérdeilis vinstrisinnað og gott vefrit verið vakið af dvala sínum: Eggin er komin aftur, hárbeitt sem fyrr.

Lifið í friði.

8 Responses to “gulir tómatar – rauð pressa”


 1. 1 hildigunnur 12 Okt, 2010 kl. 11:40 e.h.

  okkur hér heima þykir heldur ekki gaman að fylgjast með ruglinu. Áfram fréttir af kampavínsvígðum görðum takk!

 2. 2 Vala G 13 Okt, 2010 kl. 12:25 f.h.

  Það er skemmtilegt að lesa garðatíðindi, takk fyrir. En hvað gerir dagblaðapappírinn fyrir tómatana?

 3. 3 parisardaman 13 Okt, 2010 kl. 4:44 f.h.

  Ég lofa að halda áfram að skrifa um garðinn:) Vala, ég veit ekki hvað dagblaðapappírinn gerir, reyndar pakkaði ég tómötunum í gær í alls konar pappír sem ég var með, reif niður bréfpoka osfrv. Verð því að vona að það sé ekki eitrið úr bleki dagblaðanna sem gerir gæfumuninn. Held að þetta sé frekar spurning með rakastig. Það er líka betra að geyma tómata og flesta ávexti (tómatar eru jú ávextir) í pappa/pappír inni í ískkáp.

 4. 4 HarpaJ 13 Okt, 2010 kl. 9:32 f.h.

  Ruglið er ekkert skemmtileg. Garðar eru skemmtilegir.

 5. 6 Erlendur Fjármagnsson 13 Okt, 2010 kl. 12:59 e.h.

  Æ! Ekki meira garðablogg.
  Daman best þegar hún skrifar um „ekki neitt.“

 6. 7 parisardaman 13 Okt, 2010 kl. 3:34 e.h.

  Þögnin er náttúrulega alltaf best, en við málóða pakkið getum ekki skilið það.

 7. 8 Sigurbjörn 13 Okt, 2010 kl. 8:20 e.h.

  Ég segi nú bara eins og móðir mín: Oft ratast kjöftugum satt orð í munn!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: