orð

Orðið orð hefur verið að velkjast um í huga mér undanfarið, enda er þýðingaverkefnið grein um orð og orðaklasa sem þýðandinn (aumingja hann) þarf að koma yfir á móðurmál sitt (langoftast þýðir maður yfir á móðurmálið, sérstaklega í bókmenntaþýðingum). Og hvað er það í orðunum sem þarf að yfirfæra? Ekki orðið sem slíkt, það getur verið mjög varasamt að einblína á orðið:

Hver – á – þessa – bók?

Hot spring – river – this – book?

Samhengið, venslin við hin orðin í textanum breyta nefnilega orðinu. Þetta vita nú allir, held ég. Líka þeir sem aldrei hafa lesið nokkuð í málvísindum.

Höfundurinn skapar heim, falskan raunveruleika. Þýðandinn þarf að höndla þennan heim, skilja hann til fulls og koma honum yfir á nýtt, ólíkt og framandi tungumál. Til lesenda, viðtakenda, sem hafa kannski allt annan bakgrunn en viðtakendur frumtextans. Eru jafnvel fæddir þúsund árum á eftir þeim.
Þýðandinn þarf að færa fórnir og stendur sífellt frammi fyrir vali, sem getur verið mjög sársaukafullt. Það er í raun hundleiðinlegt að þurfa alltaf að velja. Hver kannast ekki við þetta val sem við stöndum frammi fyrir á hverjum degi:

Hvað á að vera í matinn í kvöld? (What river to be in the food tonight?)

En ég ætlaði að spá í orðið orð. Ég vil kalla þessa heild höfundarverksins orð. Orð höfundarins, þar sem orðið orð er í nefnifalli, eintölu. Með vísan í aðra fræga setningu:

Í upphafi var orðið.

Í gríska orðinu logos felst merkingin orð, vitanlega. En í því finnst líka rökvísi og jafnvel er andi í logosinu. Logos er að minnst kosti þrívítt orð.
Logos hefur sumsé biblíulega skírskotun – í upphafi var logos. Orðið. Andinn. Í ýmsum trúarkenningum er logos það sem tengir guð við manninn. Logos er í orðum sem varða rök, logic, lógík.

Ég hef fengið (mér – ég valdi þessa grein alveg sjálf!) það verkefni að íslenska samsetta orðið franska logocentrisme, sem hefur verið notað í heimspeki og öðrum kjaftafögum, eins og málvísindum. Það er þó ekki viðurkennt sem orð, því það finnst ekki í orðabókum.
Ég skil seinni hlutann –centrisme sem –miðaður (mér finnst það betra en miðjaður, þó það gæti vissulega líka gengið.

Ég var að hugsa um að lausþýða frasa af síðu sem er tileinkuð hugsun Derrida, en hann fjallaði um logocentrisme, en í hvert skipti sem ég reyni það, kemur bara óskiljanlegt bull. Var Derrida bara bullari? Feik?

En ég þá? Mér finnst ég alltaf vera að þykjast vera að gera eitthvað. Er ég bara feik? Erum við kannski öll feik? Í dag ætla ég að feika íslenskun á lógósentrík, þó mér finnist í raun alveg nóg að koma bara með þessa íslenskun á útlenska óskiljanlega bullorðinu.

Lifið í friði.

9 Responses to “orð”


 1. 1 Lotta 14 Okt, 2010 kl. 7:53 f.h.

  Ég man alltaf eftir mjög sérstakri og skondinni þýðingu í bíómynd hjá þekktum íslenskum þýðanda. Einn leikarinn í myndinni lyftir glasi í lok myndarinnar og segir „Let’s make a toast“ og þýðandinn þýðir þetta sem „Ristum brauð“.

  Gangi þér vel með þýðinguna!

 2. 2 Gísli Ásgeirsson 14 Okt, 2010 kl. 8:00 f.h.

  Hmm.
  Lógósentrískur maður er sennilega orðhverfur. Sbr. egocentric eða sjálfhverfur. Getur þetta gengið?

 3. 3 parisardaman 14 Okt, 2010 kl. 8:20 f.h.

  Já, það gæti gengið Gísli. Takk. Lotta, farðu til hans Gísla. Hann safnar skemmtilegum (sorglegum) þýðingavillum: http://malbein.net/?page_id=716

 4. 4 Erlendur Fjármagnsson 14 Okt, 2010 kl. 4:33 e.h.

  Hvað sagði ég ekki!
  Hér er þessi líka fíni pistill um þrjá stafi.

 5. 5 Hlédís 16 Okt, 2010 kl. 12:58 f.h.

  Bíddu! (eins og margir segi nú um stundir) Hvar finn ég íslenskun þína á lógósentrík?

 6. 6 parisardaman 16 Okt, 2010 kl. 6:35 f.h.

  Tja, hann Gísli kom með „orðhverfa/orðhverfur“, ég er enn með það í þýðingunni, þó mér hafi reyndar verið gefið upp orðið „rökmiðjuhyggja“.

 7. 7 einar 16 Okt, 2010 kl. 11:54 e.h.

  Ég fæ alltaf höfuðverk þegar ég heyri minnst á Derrida.

 8. 8 Sigurbjörn 18 Okt, 2010 kl. 7:30 f.h.

  „[…] kjaftafögum, eins og málvísindum“ (sic!) … Ertu til í að útskýra þetta aðeins betur?

 9. 9 Parísardaman 18 Okt, 2010 kl. 10:52 e.h.

  MIKIÐ VAR, að einhver tók eftir þessu. Sigurbjörn, bróðir minn, þú veist alveg að ég var meinhæðin. Djöfull fór það í taugarnar á mér hvernig öllum finnst þetta sjálfsagður frasi.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: