sölumaðurinn og sauðurinn

Ég varð fyrir miklu áfalli á laugardagsmorgun þegar tölvan mín hrundi. Ekki með látum og hamagangi, heldur undarlegu tikki eins og í sprengju.
Hún var úrskurðuð látin af sérfræðingum strax sama morgun. Það tók mig ekki langan tíma að ákveða að ég þyrfti strax að ganga í það að kaupa mér nýja, enda lifi ég stórum hluta lífs míns í tölvunni. Félagslífið er á feisbúkk, námið er á Uglunni, vinnan er, með örfáum undantekningum, á gmail. Í raun er það eingöngu kjarnafjölskyldan og hluti af vinum og kunningjum sem njóta þeirra forréttinda að eiga samskipti við mig beint. Svona fyrir utan formleg samskipti við afgreiðslufólkið í búðinni og á bókasafninu. Kannski er þetta dálítið furðuleg eða óaðlaðandi tilhugsun, en ég er í raun alveg sátt. Held ég. Og þó.
Toujours est-il, að það er algerlega ljóst að ég get ekki og vil ekki lifa án tölvu.

Á miðvikudag lagði ég af stað í bæinn, eftir miklar vangaveltur og pælingar varðandi trúarofstæki mitt, en ég er sumsé meðlimur í sértrúarsöfnuðinum Apple. Ég sá að ég gat fengið ásættanlega PC tölvu fyrir um 5-600 evrur, en þyrfti upp í 1000 fyrir MacBook. Ég ákvað á endanum að fylgja trú minni, enda er ég að fara að byrja á Mastersverkefninu bráðum og bara hef ekki nægan vilja til að læra á PC. Mér finnst þær ljótar, bæði að utan og innan og ég fæ líkamleg viðbrögð við því að þurfa að leita að c-drifinu.
Ég fór í fnac, sem býður upp á raðgreiðslur. Ég hitti fyrst afgreiðslumann og bað hann að skýra fyrir mér muninn á 13 tommu MacBook og MacBook Pro. Hann fullvissaði mig um að eini munurinn væri verðið, 150 evrur og hraðara vinnsluminni sem gagnaðist eingöngu ef ég væri að klippa vídeó. Ég spurði hvort álið væri ekki betra en plastið en hann sagði að þetta væri nú bara allt sama draslið. Ég ákvað því að kaupa MacBook á 999 evrur, og þegar sölumaðurinn fór að reyna að selja mér 300 evru, 3ja ára megatryggingu var ég í svo miklum andkaupagír að ég sagði þvert nei. Ég fékk kassann og fór upp í deildina sem sér um að ganga frá raðgreiðslum. Þar hitti ég fyrir þessa dæmigerðu ofurþurru risaeðlutýpu sem virtist njóta þess út í ystu æsar að segja mér að þar sem bankinn minn væri BNP, væri RIB ekki nóg heldur þyrfti líka yfirstrikaða ávísun, þar sem BNP setur ekki heimilisfang viðskiptavinarins á RIB, ólíkt öllum öðrum bönkum.
Ég hunskaðist því aftur heim í metró og náði í ávísanaheftið mitt.
Á leiðinni niðureftir ákvað ég að fara í aðra fnac-verslun, nær verkstæðinu sem ætlaði að bjarga gögnunum úr gömlu tölvunni og setja inn í þessa nýju. Þar mæti ég í Apple-hornið og byrja á því að spyrja sölumanninn að gamni hver munurinn væri á MacBook og MacBook Pro. Ég fékk heillangan fyrirlestur sem hófst á því að álið væri mun sterkara en plastið, að geisladiskadrifið væri sterkara, það væru ljós í lyklaborðinu, það væru fleiri tengi, m.a. fyrir myndavélakort og ýmislegt fleira. Lokaniðurstaða: 150 evrur aukalega væri bara djók!
Ég ákvað því að kaupa dýrari tölvuna. Sölumaðurinn sendi mig á kassa. Þar hitti ég fyrir mann sem ég kannast aðeins við. Hann tók sér góðan tíma í að skýra fyrir mér megatrygginguna. Í þrjú ár fæ ég tölvunni skipt út fyrir nýja, ef eitthvað kemur fyrir hana annað en að ég missi hana í gólfið. Ef batteríið bilar fæ ég nýja. Ef lyklaborðið slappast upp fæ ég nýja. Og svo framvegis. Ég myndi borga 30 evrur á mánuði í 10 mánuði, 140 í stað 110, og gæti verið pollróleg í 3 ár. Aldrei yrði gert við tölvuna. Hún yrði bara tekin og ég fengi nýja. Jafnvel þó hún væri orðin miklu dýrari og með nýjum möguleikum en í dag. Þetta yrði þannig að eftir tvö ár myndi ég óska þess að tölvan mín bilaði nú bara. Ég var dálítið í vímu yfir því að hafa valið dýrari týpuna og lét því slag standa og keypti (helvítis) trygginguna. Þó ég viti að tryggingar eru svikamyllur. Svona er maður nú skrítinn. Og auðvelt að plata mann. Og manni finnst það þar að auki gott. Það er eiginlega það sem mér finnst langundarlegast í þessu öllu. Mér leið mjög vel meðan verið var að pranga vörunni inn á mig. Ég er nú meiri sauðurinn. En djö, hvað ég er hamingjusamur sauður í nýju tölvunni! Og kúl að hafa bara fengið allt klabbið inn aftur, adressubókin og myndirnar voru það sem ég var mest reið út í sjálfa mig fyrir að hafa ekki geymt. En líka kúl að vera með dagatalið og bara öll wordskjölin og allt þarna á sínum stað.

En vá, hvað álið er nú kalt viðkomu á morgnana. Eins gott að ég var búin að kaupa svona púða/bakka undir tölvuna í Ikea fyrir nokkru síðan!

Lifið í friði.

8 Responses to “sölumaðurinn og sauðurinn”


 1. 1 HarpaJ 22 Okt, 2010 kl. 12:08 e.h.

  Maaaaaccccc….. smá öööööfund…. En til hamingju með nýju tölvuna!

 2. 2 parisardaman 22 Okt, 2010 kl. 2:37 e.h.

  Takk takk. Hún er meiriháttar.

 3. 3 Líba 22 Okt, 2010 kl. 3:34 e.h.

  Til hamingju með nýju tölvuna : )

 4. 4 Svanfríður 22 Okt, 2010 kl. 5:20 e.h.

  Ég hreinlega elska Mac.Til hamingju með nýju tölvuna:)

 5. 5 GlG 22 Okt, 2010 kl. 5:44 e.h.

  Evudóttur eplið brast
  sem öllu skiptir máli
  hvorki að PC né plasti gast
  og pantaði nýtt úr áli

 6. 6 Árný Guðmundsdóttir 22 Okt, 2010 kl. 8:28 e.h.

  Til hamingju með nýju tölvuna!

 7. 7 parisardaman 23 Okt, 2010 kl. 6:52 f.h.

  Takk GIG fyrir ljóð og takk hinar!

 8. 8 Sigurbjörn 23 Okt, 2010 kl. 4:17 e.h.

  raðgreiðslur … er það ekki svolítið 2007?


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: