bensín

Á sunnudaginn var, fyrir viku síðan, heyrði ég af fólki bíðandi tímunum saman (ókei, tvo tíma) við bensínstöð til að fá allra náðarsamlegast að kaupa bensín fyrir 20 evrur. Ég vissi þá að minn tankur var svo til tómur, þó ljósið væri ekki enn farið að loga. En einhvern veginn nennti ég ómögulega að fara í eitthvað svona biðraðarugl og ákvað að ég gæti bara alveg lifað bíllaus.
Ég gleymdi náttúrulega að ég var búin að lofa gestinum mínum að við færum í smá sveitaferð á þriðjudeginum, en við aflýstum henni. Ég var líka alls ekki að pæla í því að ég þyrfti að koma gestinum upp á völl á fimmtudeginum. Hún var pinklum hlaðin, m.a. með hræið af tölvunni minni sem óskað var eftir til nánari skoðunar á Íslandi, svo ekki kom til greina að senda hana í einhverjar hrakfarir með lest. Lína B, sem þjónar flugvellinum, hefur verið í stöðugu verkfalli síðan lætin hófust.
Mér tókst að keyra hana upp á völl án nokkurra vandkvæða, lítið var af bílum á ferð, en biðraðirnar við bensínstöðvarnar voru óárennilegar. Og ég komst til baka líka, með ljósið logandi allan tímann. Um tíma fór dálítið um mig, þegar ég lenti í svaðalegum umferðarhnút þar sem menntaskólakrakkar í nærliggjandi úthverfabæjum höfðu lokað þjóðvegi 3 út úr París.
Það var margræð upplifun að sjá úthverfakrakkana í mótmælendahlutverkinu. Öll klædd samkvæmt nýjustu tísku, alls konar á litinn, vitandi að þeirra bíður langflestra djöfulsins streð við að fá drulluvinnu. Atvinnuleysi meðal ungs fólks er mun hærra en í öðrum aldurshópum, eða um 24 prósent. Hér má sjá tölur. T3 og T4 eru seinni ársfjórðungar ársins 2009, og talan er prósentutala. T4 er merkt með p, sem þýðir að tölurnar voru ekki endanlega staðfestar. Svo kemur sveiflan, og að lokum eru gefnar upp fjöldatölur í þúsundum, en þar virðist mér vera villa. Líklega eru um 1 og hálf milljón í yngsta hópnum atvinnulaus, en 646 þúsund fólks milli 25 og 50 ára. Þetta er tafla sem birt er á kennsluvef Hagstofunnar, INSEE.
Þarna voru þau saman komin, þúsundum saman, óskaplega venjulegir krakkar sem maður er vanari að sjá flissandi í metró eða hangandi fyrir utan blokkirnar niðri við metróstöð, daðrandi hvert við annað, reykjandi og stundum pínulítið að ögra gamla fólkinu.
Þarna voru þau öskrandi slagorð gegn Sarkozy og hrópandi til okkar bílstjóranna að við ættum ekki að fara í vinnuna heldur í verkfall. Ekki einn einasti ökumaður missti stjórn á sér og fór að flauta, fyrir utan að nokkrum sinnum var rythmaflautað, til stuðnings mótmælendum. Enginn virtist reyna að ögra lögreglumönnum sem stóðu vígbúnir gegn fjöldanum, en langoftast þegar unga fólkið rís upp er það eftir klúður lögreglunnar sem á það til að drepa óvart einn og einn unglingspiltinn (man ekki eftir dæmi þar sem stúlka hefur verið óvart drepin), og þá eru mótmælin mun meira í líkingu við stríð. Vonlaust stríð, því þau hafa ekkert í vopnaðan lögregluherinn. Langoftast fara þau stríð út í að þau brenna bíla sinna eigin nágranna og fjölskyldna, en komast ekki upp með að skemma neitt sem tilheyrir ríkinu. Þau komast aldrei til að mótmæla inni í París, þar sem ríkara fólkið er með bílana sína. Þessi stríð fara alltaf fram lengst úti í úthverfunum og hinn almenni Parísarbúi fylgist bara með í fréttum, líkt og fólkið á Íslandi.
Sumsé, fögur sjón að sjá þau halda svona alvöru göngu, ná að loka alvöru umferðaræð, og gera þetta á skipulegan og gáfulegan hátt.

Nú er þetta orðin langloka og ég sem ætlaði bara að tala um bensín, gerði m.a.s. fyrirsögn og allt. Þannig er mál með vexti að nú er svo komið að ég fæ alls konar misvísandi upplýsingar um möguleika á því að fá bensín. Það er ljóst að ef ég fæ bensín hér í nágrenni við mig, kemur það bensín frá olíuhreinsunarstöð sem Sarkozy lét taka með valdi af yfirvöldum. Ég sé því ekki ástæðu til að kaupa það. Mín leið til að styðja mótmælin, verður því að vera áfram bíllaus. Þetta er dálítið spennandi, en við sjáum hvernig okkur gengur það. Ég hef alltaf vitað að gamli Citroëninn minn er að vissu leyti lúxus, að ég gæti svo sem alveg lifað án hans. En mér finnst gott að hafa þennan lúxus, til dæmis var ég svo þreytt eftir hlaupin milli skóla og tónlistarskóla á fimmtudaginn, að ég hefði getað sofnað standandi (á bakvið) eldavélina. Og hlaupin yrðu verri á þriðjudögum, því þá höfum við korterinu styttri tíma til að komast. Og þá erum við með saxófón í farteskinu, sem er öllu þyngri og fyrirferðarmeiri en gítarinn sem við skellum á bakið. Til þeirra hlaupa kom ekki síðasta þriðjudag, þar sem tónlistarskólinn boðaði til verkfalls þann dag.
Nú er komið skólafrí, svo ekki lendi ég í þessum hlaupum í næstu viku. Hins vegar á ég miða í lest til Suður Frakklands á miðvikudag, en ekki er ljóst hvernig lestarsamgöngur verða í næstu viku. Og lestin fer með okkur til Aix en Provence og þaðan er svo klukkustundar akstur í fjallaþorpið sem við ætlum til. Munu vinir okkar þar eiga bensín til að koma að sækja okkur? Það eru engar almenningssamgöngur á þessari leið, við hefðum þurft að kaupa miða til Marseille til að ná gömlu hriktandi fjallalestinni, en það virtist bölvað vesen þegar miðarnir voru keyptir. Þá var bensín jú, munaðarvara, en samt alveg til nóg af því.
Það er flókið að lifa bensínlaus. Þess vegna er bensín líka dýr munaðarvara. Eins og t.d. vatn, þó Íslendingar nái alls ekki að skilja það, með vatnið sitt hreint og fínt og út um allt. En ég ætla ekki út í þá sálma hér og nú. Mál er að linni.

Lifið í friði.

8 Responses to “bensín”


 1. 1 GlG 23 Okt, 2010 kl. 3:33 e.h.

  Með Íslending ei aftur sný
  að sé þannig gerður
  að biðröð aldrei bíði í
  bensínlaus frekar verður

 2. 2 Heiða 23 Okt, 2010 kl. 6:54 e.h.

  vá, gott blogg um bensín sem munaðarvöru. auðvitað er bensín ekkert annað, og þessvegna verulega gáfulegt að reyna að venja sig af því að vera háður því. Gó almenningssamgöngur hjólreiðar og gamaldags labb! Amma mín talaði um að fara þetta á tveimur jafnfljótum….kann afskaplega vel við slíkan hugsunarhátt!

 3. 3 parisardaman 23 Okt, 2010 kl. 7:16 e.h.

  Já Heiða, og ég er nú betur sett að vera bensínlaus á Parísarsvæðinu, en t.d. að vera það á Íslandi. Reykjavík og Stór-Reykjavíkursvæðið á náttúrulega að byrja að vinna markvisst að því að gera fólk „afháð“ einkabílnum.
  Og takk, enn og aftur GIG:)

 4. 4 hildigunnur 23 Okt, 2010 kl. 10:14 e.h.

  Ætlaði að taka strætó út á Akureyrarflugvöll í dag en nei – strætó gengur ekki alla leið út á völl. Er þetta ekki dæmigert fyrir ónothæfi almenningssamgangna á Íslandi?

 5. 5 parisardaman 23 Okt, 2010 kl. 10:27 e.h.

  Jú, gersamlega. Reyndar voru víst dramatískar myndir hér af fólki gangandi út á völl, en það tengist verkföllunum. Alla jafna getur fólk algerlega alltaf komist í lest beint út á flugvöll.

 6. 6 Ari 24 Okt, 2010 kl. 9:57 e.h.

  Þessar froskaætur er með þeim vitlausari þjóðum sem maður veit um. Mótmæla því að eftirlaunaaldur fari í 62 (!!!!?) , það væri eflaust líka allt brjálað ef væri að hækka hann frá 58 í 60, lífsstílsmótmælendurnir mótmæla öllu sem hindrar þá í að sötra rauðvín sem lengst.

 7. 7 Árni 26 Okt, 2010 kl. 4:56 e.h.

  Ég þurfti að fara í gegnum París í síðustu viku, og fannst það sem ég sá af mótmælunum ansi fínt (ef svo má að orði komast); að fólk segi ‘hingað og ekki lengra’, og kannski hve skipulega þetta var unnið. Á hinn bóginn, tilhugsunin um að verða fastur í Frakklandi hljómaði ekki vel (hefði gjarnan vilja getað það, en lá á heim).

  B-lestin út á flugvöll var svo troðin að það var ekki hægt að stinga hendi niður með síðunni og ná í farsíma. Stórkostleg upplifun að sjá hana tæmast (af ferðalöngum) úti á flugvelli, og en samt var hún enn hálf full af ungu fólki — mótmælendum — sem urðu mér ‘samferða’ inn í terminal, þar sem mótmæli hófust.

  Skil núna af hverju sumir ganga afturábak inn í lestarnar.

 8. 8 Sigurbjörn 12 Nóv, 2010 kl. 11:58 f.h.

  Læk á síðasta komment!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: