Ég er mjög sátt við athyglina sem karlfjórflokkakerfið mitt fékk, en pínu svekkt út í að enginn dáist að Jesú-vísuninni. Ég var nefnilega dálítið stolt af henni, finnst hún svona um það bil þrjúþúsund sinnum meira spennandi en vísun KB með VAXI-nafninu Vá, kerfið fjallar um vöxt og heitir vaxi, jeij.
Í athugasemdum kom fram skemmtilegur brandari sem ég og vinkona sem vorum fastar í stafsetningarpælingunni tippi vs. typpi, misskildum alllengi. Tippi og typpi eru sumsé jafngild, en samt er það eðli tippa og typpa að vera misgild.
Það stefnir í hörkuvinnu hjá mér. Skrifa ritgerðina, fá til baka og laga bókmenntaþýðinguna áður en skila, læra á trados og gera tvö verkefni, læra fyrir prófið og mæta í það 16. desember.
Eftir það byrja ég að jólast á fullu, þó ég hafi reyndar sett upp aðventustjakann í gær og Kári farið hamförum í að raða upp öllu jóladótinu úr kössunum. Ég vil taka nokkra daga í það, gera í smáskömmtum. Og við erum reyndar ekki heldur sammála um röðunaraðferðir, hann vill helst jafna við brún, meðan ég vil heldur hafa dótið aðeins innar. Ég gat útskýrt fyrir honum að það væri hentugra fyrir hann, annars gæti hann ekkert leikið með geislasverðin allan desember. Það dugði. Af hverju má annars ekki raða hlutunum svona fram á brún á hillum? Varla kemur það frá geislasverðaleikjum barna? Hvers vegna truflar það svona jafnvægisskynið í mér, en ekki í honum?
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir