Sarpur fyrir nóvember, 2010

af jafngildi misgildra tippa/typpa og brúninni ógurlegu

Ég er mjög sátt við athyglina sem karlfjórflokkakerfið mitt fékk, en pínu svekkt út í að enginn dáist að Jesú-vísuninni. Ég var nefnilega dálítið stolt af henni, finnst hún svona um það bil þrjúþúsund sinnum meira spennandi en vísun KB með VAXI-nafninu Vá, kerfið fjallar um vöxt og heitir vaxi, jeij.

Í athugasemdum kom fram skemmtilegur brandari sem ég og vinkona sem vorum fastar í stafsetningarpælingunni tippi vs. typpi, misskildum alllengi. Tippi og typpi eru sumsé jafngild, en samt er það eðli tippa og typpa að vera misgild.

Það stefnir í hörkuvinnu hjá mér. Skrifa ritgerðina, fá til baka og laga bókmenntaþýðinguna áður en skila, læra á trados og gera tvö verkefni, læra fyrir prófið og mæta í það 16. desember.
Eftir það byrja ég að jólast á fullu, þó ég hafi reyndar sett upp aðventustjakann í gær og Kári farið hamförum í að raða upp öllu jóladótinu úr kössunum. Ég vil taka nokkra daga í það, gera í smáskömmtum. Og við erum reyndar ekki heldur sammála um röðunaraðferðir, hann vill helst jafna við brún, meðan ég vil heldur hafa dótið aðeins innar. Ég gat útskýrt fyrir honum að það væri hentugra fyrir hann, annars gæti hann ekkert leikið með geislasverðin allan desember. Það dugði. Af hverju má annars ekki raða hlutunum svona fram á brún á hillum? Varla kemur það frá geislasverðaleikjum barna? Hvers vegna truflar það svona jafnvægisskynið í mér, en ekki í honum?

Lifið í friði.

samhengingaról

Það er samhengi í hlutunum.

Mig óar við tilfinningunni sem hellist yfir mig þegar ég spái í íslensku þjóðina og það sem hefur gengið á undanfarin ár. Samhengið? Hver kaus hvern og hvers vegna? Og aftur og aftur í gegnum árin?

Í gær voru kosningar þar sem fullt af frábæru fólki bauð sig fram til að vinna að nýrri stjórnarskrá sem gæti miðað við að minnka möguleika á spillingu meðal valdhafa.
Þetta var rætt fram og til baka á netinu, á bloggum, vefmiðlum eins og svipan.is, feisbúkk o.s.frv. RÚV klúðraði reyndar glæsilega sinni þegnskyldu en fólk gat nú samt nálgast upplýsingar tiltölulega auðveldlega og fundið sér nokkra til að kjósa, en hvað? Fór fólkið bara í Smáralindina? Var það hræðslan við að þurfa kannski að bíða í röð?
Æ, æ, vesalings fólkið. Það kemur alltaf eitthvað svo leiðinlegt fyrir það. Án þess að það fái rönd við reist. Greyin. Nema kannski því finnist gaman að láta krossfesta sig?

Lifið í friði.

INRi – kerfið: skilgreining á mismunandi karltýpum

Karl nokkur Berndsen hefur gefið út bók um vaxtarlag og klæðaburð kvenna, líklega af hugulseminni einni saman, og kann ég honum bestu þakkir fyrir. Það er svo mikill munur fyrir okkur konur þegar karlmaður kemur okkur kvenkjánum til aðstoðar við að meta fegurð okkar, kosti okkar og galla og hvernig á að draga fram það sem gleður og hylja það sem hryllir.
Hann kallar kerfið sitt VAXI og hefur skipt okkur konum upp í fjóra flokka, eftir vaxtarlagi. Þið getið lesið nánar um bókina og kerfið hans hér, en ég mæli samt frekar með pistli Þorgerðar E. Sigurðardóttur í Víðsjá 18. nóvember sl. Hér er tengill, en ég minni á að hægt er að sækja Víðsjá í hlaðvarpinu.

Ég hef nú ákveðið, sem kona sem hefur gaman af því að horfa á karlmenn og vera með karlmönnum, að koma fram í dagsljósið með kerfið sem ég hef stuðst við í áraraðir, til að vega og meta karlmennina í kringum mig. Kannski Karl og fleiri kynbræður hans geti haft gagn og gaman af. Ég kalla kerfið INRi, og það er líka fjórflokkakerfi. Sem er bara tilviljun. Eða hvað?

Konur skyldi ávallt dæma út af vaxtarlagi alls líkamans. Skoða skal andlitið, hálsinn, barminn, mittið, mjaðmirnar, leggina og skóstærð og vandlega reikna út hlutföllin milli þessara parta áður en mat er lagt á konuna. Karlinn er mun einfaldara að meta. Nóg er að skoða það sem ég ætla í þessum greinarstúf að kalla „þriðja fótinn“. Þið vitið væntanlega hvað ég á við, en ég þori bara ekki að skrifa tippið.

I-maðurinn er sannur foli. Hann er með stinnan, flottan og vel stóran „þriðja fót“ og getur verið sannkallaður gleðigjafi. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þessa týpu.
N-maðurinn er flóknari. Hann byrjar vel, er gleðigjafi, oft líka rómantískur og blíður. En allt í einu fer að halla undan (þriðja) fæti(num) og allt er í volli, þar til einn daginn hann kemur heim og tilkynnir þér að hann er kominn með nýja. Hann fer, og sú nýja er blómstrandi og hamingjusöm og greinilega með mikinn gleðigjafa í lífi sínu.
R-týpan er undantekningin sem sannar regluna. Sumir karlar eru bara ekkert annað en risastóra bjór/hamborgara/brúnusósuvömbin sem er framan á þeim. Ekkert um „þriðja fótinn“ að segja, þeir hafa ekki sjálfir séð hann svo lengi.
i-týpan er algjört krútt. Lítill, sperrtur og getur oft verið ansi skemmtilegur, ef það sem umlykur „þriðja fótinn“ inniheldur skýran heila, rétt fálmandi hendur o.s.frv. i-týpan með réttum aukahlutum er sumsé mjög hentugt eiginmannseintak.

Hvaða týpa ert þú, kæri karllesandi?

Lifið í friði.

Punktablogg

Ég er búin að kjósa til stjórnlagaþings, þó í raun hafi ég afskaplega litla trú á þessu verkefni. Ég nenni svo sem ekkert að ræða það, og kannski hef ég rangt fyrir mér, annað eins hefur nú gerst.
Ég var búin að gera lista, en gleymdi honum heima. Þurfti því að muna þetta á staðnum og röðin ruglaðist aðeins. Verst var að ég krossaði við nafnalistann sem fylgdi með kjörseðlinum, en það mátti víst ekki.

Ég er að reyna að læra á trados, en það gengur afskaplega brösuglega svo ekki sé meira sagt. Ég veit ekki alveg hvernig þetta fer allt saman, þarf að senda enn einn vælupóstinn til kennarans, sem ég ímynda mér að fái grænar bólur þegar hann sér póst frá mér í tölvunni sinni. Það virðist verða erfiðara og erfiðara að vera fjarnemi, og þetta fag, Þýðingatækni, er eiginlega bara vita vonlaust í fjarnámi. Ég vildi að ég hefði vitað það fyrirfram, því það var í raun alveg möguleiki á að skipuleggja sig þannig að ég yrði á Íslandi þessa önn, mig langaði það m.a.s., en ekki nógu mikið til að láta slag standa.

Í garðinum mínum vex nú spínat, en það er einhver að borða af því, einhver lítill munnur búinn að narta í langflest blöðin. Ég veit að ég hefði getað sprautað brenninetlubruggi á það og í kringum það, spínatinu til varnar, en ég hafði ekki vit á að geyma brenninetlur í vor og mér skilst að það sé vorplantan sem þarf að nota. Annað í garðinum liggur nú í dvala, en ég er á fullu að búa til compost líka.

Það er búið að kveikja ljósin á Champs-Elysées, við förum að sjá þau 5. desember, þá er jólaball íslenska skólans í dönsku kirkjunni og tilvalið að taka jólaljósarúnt eftir dansinn og sönginn og kökuátið.

Ég er ekki enn komin með jólakortamynd. Gerði mislukkaða tilraun í gær og er jafnvel að spá í hvort ég eigi að losa sjálfa mig undan jólakortapligtinni þetta árið. Mér finnst það ömurleg tilhugsun en það er samt alveg nóg að gera og svo er dálítið dýrt að senda 80 – 100 jólakort eins og klikkhausinn ég geri á hverju ári. Í mínum huga er það leið til að dreifa góðum hugsunum og fegurð til vina minna og ættingja. Og já, ég get líklega ekki sleppt þessu. Ég veit að ég mun ekki fyrirgefa sjálfri mér það. Ég þarf að næra engilinn í mér, annars hverfur hann bara og tæfan stendur ein eftir.
Best að muna eftir myndavélinni í dag, þegar ég fer með krakkana í tónlistarskólann, næ kannski einni smellinni mynd af þeim meðan við bíðum. Ha?

Lifið í friði.

skref

Ég tók enn eitt skrefið áfram í lífinu í gær. Lítið skref fyrir heiminn, stórt skref fyrir mig. Ég er dálítið stolt af mér, en í bland er maður líka alltaf pínu skömmustulegur þegar maður finnur lausnina á þessum tæknivandræðum, lausnina sem var eiginlega allan tímann fyrir framan mann. Æh. Ég er kannski of hörð við sjálfa mig.
En nú er tölvan mín fína með lítinn aukaheila, sem stýrt er af kölska sjálfum, windows. Sem ég þurfti m.a.s. að kaupa dýrum dómum um leið og ég gleypti fordómana. Dálítið súrt. En ég lifi það af. Vona bara að tölvan mín geri það líka. (Ókei, ég gleypti fordómana ekki, ég held áfram að næra þá).

Í dag verð ég svo að lesa mér til um þetta flókna þýðingaminni (trados.com) svo ég geti gert verkefnið sem ég átti að skila einhvern tímann fyrir löngu síðan (kennarinn hefur sýnt mér skilning, ég vona að hann viti að hann er enn að sýna mér skilning). Um leið þarf ég að hrista fram eitt stykki bókmenntaþýðingu, en hana var ég búin með að hluta fyrir tveimur árum. Með þeirri þýðingu þarf ég samt að skila greinargerð sem ég er ekki byrjuð á. Og um leið þarf ég að skila ritgerð upp úr ódauðlega fyrirlestrinum, um þýðinguna sem ég skilaði fyrr á önninni. Ritgerðin sem ég hélt í alvörunni að ég myndi bara skrifa þarna um leið og ég skilaði. Je ræt.

Og mér finnst líka alveg kominn tími á að hér verði til piparkökur, en það þýðir ferð í Ikea. Spurning hvort ég athugi þá með hilluna sem var ekki til síðast. Ég er eiginlega búin að átta mig á því að líf mitt velti líklega alls ekki á þessari hillu heldur einhverju allt öðru sem ég þarf reyndar að átta mig betur á… seinna…
Og svo eru það jólakortin. Ég er ekki enn komin með myndina, þessa fullkomnu sem hoppar framan í mann þegar maður rennir yfir myndirnar í tölvunni. Reyndar tók það mig langan tíma að sjá myndina í fyrra sem þá réttu. Ég man ekki hvort ég setti hana hingað inn, en hún var öðruvísi, ekki eins og jólakortamyndir eru flestar. Mér fannst hún síðan svo töff, að ég sendi hana inn með viðtali í Vikunni á árinu (sem er að líða).

jólakort 2009

Kannski er myndin þarna einhvers staðar. Eða kannski kemur þessi fíni jólasnjór á fimmtudag eins og spáð er, og ég næ að fara með krakkana út og tek ódauðlega fallega mynd af þeim, sem lætur svo framkalla sig og límir sig inn í kortin sem skrifa sig sjálf og fara í póst á réttum tíma? Ha? Hvernig væri það? Jólastress? Ég? Nei nei, bara svona almennt stress, ég sleppi nefnilega aldrei góðu stressi, sjáiði til.

Lifið í friði.

og húsin mjakast upp

Ég er búin að berjast við tæknilegt vandamál megnið af þessari viku. Þegar ég hafði á annað borð tíma til að vera að einbeita mér að náminu. Það er slítandi og leiðinlegt og um tíma í gær flaug mér í hug að afneita endanlega tölvutækninni og taka aftur upp penna, stílabækur og bréfsefni.
En svo fór ég í tölvu vinkonu minnar og tók (helvítis) fyrirlesturinn upp. Gæði upptökunnar eru ekki til að hrópa húrra fyrir, en segjum bara að gæði fyrirlestursins bæti það upp. Eða ekki.

Ég tók áskorun og ætla að hoppa. En ég nenni ekki að segja ykkur frá því, það er svo plebbalegt að ræða líkamsrækt á blogginu. Ég segi ykkur bara frá því ef þetta virkar til að ná af mér blessaðri (helvítis) óléttubumbunni sem ég er enn með.

Um daginn ræddum við dóttir mín hvað það hlyti að vera gaman að búa í húsi, en ekki í blokk. Börnin hafa verið að hugsa töluvert um þetta, síðan við vorum í húsinu hjá vinum okkar í S-Frakklandi. Við vorum uppi við tónlistarskóla og hún minntist á öll fínu húsin í götunni út frá torginu. Ég sagði henni að við hefðum nú ekki efni á húsum þar. Hún stakk upp á því að við gætum kannski bara fundið „villt hús“ og málað það og lagað og búið svo í því. Dóttir mín er upprennandi hústökukona, mér líst mjög vel á það og hjálpa henni pottþétt að laga húsið sem hún finnur sér einn góðan veðurdag. Verst að hér í Copavogure er ekki mikið af villtum húsum, svei mér þá, ég man ekki eftir einu einasta yfirgefna húsi hér í nágrenninu. Hins vegar heyrði ég af fólki sem tók sér hús hérna rétt hjá, fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Þau hafa nú fengið staðfestan eignarétt sinn á því, en einhvern veginn efast ég um að svona sé mögulegt í dag, alla vega ekki á þessu svæði sem hefur hækkað hrottalega í verði, þó það sé alltaf jafn plebbalegt í hugum „alvöru“ Parísarbúa intra muros.
Upp hafa komið hugmyndir um að sá fyrir húsi í garðinum okkar, ég er þó ekki viss um að ég viti nákvæmlega hvernig húsafræ eru. Ætli það sé kannski hægt að taka afleggjara?

Lifið í friði.

Bowie, ég og börnin

Þegar ég var ung stúlka og tók samviskusamlega upp á kassettur lög úr þættinum Lög unga fólksins uppgötvaði ég David Bowie fyrir tilviljun. Það var flókið mál að taka upp úr þessum þáttum, því þáttastjórnendur áttu það til að tala inn á lögin, sem var vitanlega dauðasynd í þá daga, og var aldrei gert í Óskalögum sjúklinga og sjómanna, en þar voru lögin bara of drulluleiðinleg til að hafa á kassettum í partíum (en til þess var nú leikurinn gerður) þó manni þætti alltaf jafn gaman að hlusta á þá og næra barnið í sér.
En sumsé, einhvern veginn svo æxlaðist að á tveimur stöðum á kassettunni sagði þáttastjórnandinn David Bowie. Annars vegar á eftir þrusugóðu lagi um kattarfólk, og hins vegar á eftir þrusugóðu lagi um líf á Mars. Rödd Bowie er mjög ólík í þessum tveimur lögum og vakti það athygli mína. Pabbi ferðaðist mikið til útlanda á þessum árum, og bað ég hann um að kaupa fyrir mig plötu með David Bowie. Ég get ekki munað hver var fyrsta platan, en smátt og smátt eignaðist ég nokkuð myndarlegt safn af plötum hans og varð ein af aðdáendaskaranum. Ég notaði óspart bók sem ég fann Hjá Hirti og bar fram alls konar óþarfa upplýsingar um hann þegar stelpurnar í bekknum töluðu um nærbuxnalit Simon LeBon eða æskuvandamál George Michael.
Mamma mín var alltaf dálítið hissa á þessum Bowie-áhuga og sagði oft að ég ætti ekki að vera að hlusta á hann, því hann gæti verið pabbi minn. Þetta notaði ég líka óspart í vinahópnum, að mamma væri ekki alveg viss, en Bowie gæti sumsé verið pabbi minn.
Og nú er ég komin í þá stöðu að vera mamma með krakka sem eru að uppgötva alls konar hluti alla daga. Og ég misnota stöðu mína út í eitt og kynni þau mjög reglulega fyrir nýjum og nýjum Bowie-lögum. Þau muna ekki enn nafnið á honum, en biðja oftast um þennan rauðhærða skrítna, Ziggy Stardust heillar líka til sjö, átta ára krakka í Frakklandi 2010. Fáránlega frábært. Þegar þau voru mjög ung fannst þeim vídeóið við I am a DJ meiriháttar, núna finnst þeim það bara furðulegt og brosa bara í kampinn.

Bowie er tímalaus snilld. Hann hefur gert ýmislegt sem er ekki nein snilld, en það er fyrirgefanlegt, því snilldin hans er bara… oh…

Ég hef ekki enn lagt í að skýra Space Oddity fyrir krökkunum, hrædd um að þau fái martraðir. Hvað haldið þið? Þola þau tilhugsunina um einhvern sem flýtur um í óendanlegum geimnum? Ég þoli hana ekki ennþá sjálf.

Lifið í friði.

duttu mér þá allar dauðar

Í dag sagði góð kona mér að hún væri að verða amma. Þessi kona er 47 ára minnir mig. Hún á eina 21 árs og eina 18 ára dóttur. Ég spurði strax hvort það væri sú yngri, en hún hefur verið í föstu sambandi í 4 ár, þau eru að byggja og hún er bara á allan hátt miklu fullorðinslegri og þroskaðri en eldri systirin. Og jú, það reyndist rétt ágiskun hjá mér. Mér varð hálfvegis um og ó, ég verð alveg að játa það. Mér finnst þau bara vera allt of mikið að flýta sér. Hann er aðeins eldri, mig minnir að hann sé 24. Besti vinur hans átti barn í sumar með kærustunni sinni sem er jafngömul þeim. Ég hefði kosið að sjá þessa bíða til a.m.k. 22ja ára. Klára hárgreiðsluna (vonandi gerir hún það í vor, þó hún verði með bumbu út í loftið) og vinna í smá tíma áður en hún færi í barneignaleyfi. Ég er skíthrædd um að hún eigi einhvern tímann eftir að sjá eftir þessu, þó að núna séu þau víst algerlega í skýjunum og skilja bara engan veginn af hverju verðandi amman er ekki hoppandi um af kæti með þeim.
Hún sagðist vera ringluð, ekki alveg búin að meðtaka þetta enn. En hún sagði mér líka að hún hefði búist við þessu, var eiginlega farin að fylgjast með því hvort dóttirin hefði blæðingar og létti þá í hvert skiptið. Stelpan beið einfaldlega þar til hún varð lögráða, en ekki mínútu lengur.
Ég vona innilega að þetta fólk sé í þessum „góða hóp“ sem ég talaði um þegar ég bað fólk að hugsa sig tvisvar um varðandi fóstureyðingar unglinga. Ég held að svo sé, þau eru reglufólk, þau eru mjög upptekin af því að skipuleggja framtíðina og gera allt rétt og vel. Pælið í því að þau eru húseigendur! Á Parísarsvæðinu! Það eitt og sér er bara gersamlega ótrúlegt, bæði koma úr verkamannafjölskyldum, mamma hennar skúrar hérna hjá mér tvo tíma á viku (ókei, ég verð bara að viðurkenna þetta þó ég hundskammist mín í raun fyrir að vera með svona lúxus og tali næstum aldrei um það nema í nánum vinahópi (þar sem ég mæli eindregið með þessu)).
Ég verð að viðurkenna að ég er búin að vera hálfringluð yfir þessum fréttum sjálf í dag. Í raun dauðvorkenni ég konunni, stelpunni, pabbanum og barninu. Samt er ég nokkuð viss um að allt verður í allra besta lagi. Barnið er alla vega guðvelkomið, mamman er komin 5 vikur á leið og lenti í smá uppákomu um helgina. Verðandi amman sá þá hversu alvarlega hún tekur þessu öllu, því hún féll gersamlega saman þegar hún hélt að hún væri að missa fóstrið.
Skrítinn þessi heimur? Já, annars væri nú heldur ekkert gaman. Og ég skal líka fúslega játa það að þó ég sé enn með svona lítil börn (7 og 8 ára) dauðöfunda ég skúringakonuna mína um leið og ég vorkenni henni. Djöfull hlakka ég til að verða amma.

Lifið í friði.

samræður

Það er einhver þarna úti sem vill ræða við mig. Það er frábært.
Ég er sammála því að ég held að það sé ömurlegt fyrir börn að alast upp í fylleríi og rugli. Ég er vitanlega í mínum upprunalega pistli frekar að pæla í þeim stelpum sem eru heilbrigðar og búa við gott atlæti sjálfar. Ég sit því enn fast við minn keip, slíkar aðstæður geta verið hinar fínustu fyrir barn að alast upp við. Með unga mömmu (og vonandi pabba) og fínar ömmur og afa. Ég hef m.a.s. rekist á skemmtileg og góð dæmi um slíkt.

Ég bíð spennt eftir framhaldi leyniskyttunnar „ógurlegu“.

Lifið í friði.

hark

Í dag fékk ég þá furðulegu flugu í höfuðið að skella mér í Ikea að sækja hillu sem ég ásælist og tel að geti breytt lífi mínu til hins betra. Í búðinni voru líklega allir íbúar Ile de France og greinilega margir búnir að finna út að lífið er betra með þessari hillu, og engin hafði verið skilin eftir handa mér. Ég fipaðist svo við þetta að ég keypti hvorki kerti né servíettur, en það var ætlunin. Og líklega er ég að ljúga því að ég hafi fipast við þetta, því hillan átti að vera á sjálfsafgreiðslulagernum, en þá hlýt ég að hafa verið löngu komin framhjá servíettum og kertum. En ég á alla vega ljósaseríu og tvær rúllur af fallegum umbúðapappír. Á annarri rúllunni eru glitrandi englar. Og kökubox, ég keypti kökubox. Stóra spurningin er hvort eitthvað verði bakað ofan í þau. Það verður alla vega ekki fyrr en í desember. Nú verð ég að rífa mig upp úr doða gagnvart náminu, sem ég skrifa á tæknileg vandamál með nýju tölvuna. Ég verð að leysa það mál og taka upp eitt stykki fyrirlestur, skrifa svo ritgerð upp úr honum, ljúka við þýðingu á Nathalie Sarraute sem ég byrjaði á fyrir löngu en hefur legið á ís, og gera eitthvað afskaplega dularfullt og skrýtið verkefni með rosalega tæknilegum þýðingabúnaði sem ég skil hvorki upp né niður í. Það er gaman að þessu. Er furða að mann langi mest að grafa holu, skríða ofan í hana og fá einhvern til að moka yfir? En ég geri það ekki. Ég er svoddan þjarkur, þó ég þurfi alltaf að væla og tauta yfir harkinu.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha