duttu mér þá allar dauðar

Í dag sagði góð kona mér að hún væri að verða amma. Þessi kona er 47 ára minnir mig. Hún á eina 21 árs og eina 18 ára dóttur. Ég spurði strax hvort það væri sú yngri, en hún hefur verið í föstu sambandi í 4 ár, þau eru að byggja og hún er bara á allan hátt miklu fullorðinslegri og þroskaðri en eldri systirin. Og jú, það reyndist rétt ágiskun hjá mér. Mér varð hálfvegis um og ó, ég verð alveg að játa það. Mér finnst þau bara vera allt of mikið að flýta sér. Hann er aðeins eldri, mig minnir að hann sé 24. Besti vinur hans átti barn í sumar með kærustunni sinni sem er jafngömul þeim. Ég hefði kosið að sjá þessa bíða til a.m.k. 22ja ára. Klára hárgreiðsluna (vonandi gerir hún það í vor, þó hún verði með bumbu út í loftið) og vinna í smá tíma áður en hún færi í barneignaleyfi. Ég er skíthrædd um að hún eigi einhvern tímann eftir að sjá eftir þessu, þó að núna séu þau víst algerlega í skýjunum og skilja bara engan veginn af hverju verðandi amman er ekki hoppandi um af kæti með þeim.
Hún sagðist vera ringluð, ekki alveg búin að meðtaka þetta enn. En hún sagði mér líka að hún hefði búist við þessu, var eiginlega farin að fylgjast með því hvort dóttirin hefði blæðingar og létti þá í hvert skiptið. Stelpan beið einfaldlega þar til hún varð lögráða, en ekki mínútu lengur.
Ég vona innilega að þetta fólk sé í þessum „góða hóp“ sem ég talaði um þegar ég bað fólk að hugsa sig tvisvar um varðandi fóstureyðingar unglinga. Ég held að svo sé, þau eru reglufólk, þau eru mjög upptekin af því að skipuleggja framtíðina og gera allt rétt og vel. Pælið í því að þau eru húseigendur! Á Parísarsvæðinu! Það eitt og sér er bara gersamlega ótrúlegt, bæði koma úr verkamannafjölskyldum, mamma hennar skúrar hérna hjá mér tvo tíma á viku (ókei, ég verð bara að viðurkenna þetta þó ég hundskammist mín í raun fyrir að vera með svona lúxus og tali næstum aldrei um það nema í nánum vinahópi (þar sem ég mæli eindregið með þessu)).
Ég verð að viðurkenna að ég er búin að vera hálfringluð yfir þessum fréttum sjálf í dag. Í raun dauðvorkenni ég konunni, stelpunni, pabbanum og barninu. Samt er ég nokkuð viss um að allt verður í allra besta lagi. Barnið er alla vega guðvelkomið, mamman er komin 5 vikur á leið og lenti í smá uppákomu um helgina. Verðandi amman sá þá hversu alvarlega hún tekur þessu öllu, því hún féll gersamlega saman þegar hún hélt að hún væri að missa fóstrið.
Skrítinn þessi heimur? Já, annars væri nú heldur ekkert gaman. Og ég skal líka fúslega játa það að þó ég sé enn með svona lítil börn (7 og 8 ára) dauðöfunda ég skúringakonuna mína um leið og ég vorkenni henni. Djöfull hlakka ég til að verða amma.

Lifið í friði.

9 Responses to “duttu mér þá allar dauðar”


 1. 1 Guðlaug Hestnes 9 Nóv, 2010 kl. 8:54 e.h.

  Að verða amma er eitthvað það allra besta sem ég hef upplifað! Vonandi gengur allt vel hjá unga fólkinu.

 2. 2 Skítlegt eðli 9 Nóv, 2010 kl. 9:30 e.h.

  Veit um eina fædda 1953 sem er búin að vera lang-amma síðan síðla árs 2006.
  Hvorki ég né Jesú hefðum fengið að fæðast með núverandi löggjöf.

 3. 3 Addý 9 Nóv, 2010 kl. 10:21 e.h.

  Ekki skammast þín fyrir að borga konu laun fyrir að skúra hjá þér, ekki frekar en að þú skammist þín fyrir að kaupa brauð útí bakarí, flík í fatabúð (gætir jú bakað/saumað/prjónað allt sjálf …) etc – þú allavega hjálpar til að halda hjólum efnahagslífsins gangandi!

 4. 4 Guðný 9 Nóv, 2010 kl. 10:21 e.h.

  Frænka mín sem er núna 19 ára eignaðist barn 16 ára, og annað 18 ára. Systir mín spurði hana í sumar hvort þetta væri ekki erfitt. Svarið var. “ Jaaa, ÞETTA ER BARA SVO GAMAN.“ og ég sá hún meinti það svo innilega. Maðurinn hennar kláraði sitt rafvirkjanám með hjálp foreldra þeirra og hún er að læra sjúkraliðann. Þau eru svo mikið fjölskyldufólk að það er alveg yndislegt. Konur eru frjóastar þegar þær eru ungar svo ungmæður hljóta að vera í takt við eðli náttúrunnar.

  Stjúpdóttir mín eignaðist sitt fyrsta 15 ára, sitt fjórða 20 ára. Hún vann sem leikskólaliði, dagmamma og var áskrifandi að öllum uppeldisblöðum. Hún er í dag að læra lífeindafræði í háskólanum. Ég er verulega stolt af báðum þessum stelpum og þeirra mönnum.

 5. 5 parisardaman 9 Nóv, 2010 kl. 11:03 e.h.

  57 ára langamma, vá! Það er nokkuð vel af sér vikið. Á nú einmitt vin sem er ljósmyndari sem ljósmyndaði slatta af fjórum kynslóðum kvenna, og sumar myndanna sýndu ansi ungar langömmur. Merkilegt. Og gaman að sögunum frá hinum, takk takk.

 6. 6 HarpaJ 10 Nóv, 2010 kl. 10:33 f.h.

  Ég hef sagt það áður og segi það núna aftur.
  Ég er algerlega búin að skipta um skoðun varðandi barneignir ungs fólks. Það getur MARGT verra komið fyrir unglinga en að eignast börn. Sumir harðfullorðnir eru algerlega óhæfir foreldrar og margir ungir standa sig frábærlega. Það er (eins og bent er á hér fyrir ofan) ekki hægt að alhæfa neitt í þessum málum, frekar en í lífinu almennt.

 7. 7 Skítlegt eðli 10 Nóv, 2010 kl. 2:38 e.h.

  Hún varð langamma 53ja ára

  2006 mínus 1953

 8. 8 moi 10 Nóv, 2010 kl. 8:28 e.h.

  Vá, hvað ég þarf að fara að laga í mér einbeitninguna. Og svo þykist ég vera þýðandi…

 9. 9 hildigunnur 10 Nóv, 2010 kl. 10:21 e.h.

  Ég get samt vel hugsað mér að dætur mínar bíði fram yfir tvítugt með barneignir…


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: