Bowie, ég og börnin

Þegar ég var ung stúlka og tók samviskusamlega upp á kassettur lög úr þættinum Lög unga fólksins uppgötvaði ég David Bowie fyrir tilviljun. Það var flókið mál að taka upp úr þessum þáttum, því þáttastjórnendur áttu það til að tala inn á lögin, sem var vitanlega dauðasynd í þá daga, og var aldrei gert í Óskalögum sjúklinga og sjómanna, en þar voru lögin bara of drulluleiðinleg til að hafa á kassettum í partíum (en til þess var nú leikurinn gerður) þó manni þætti alltaf jafn gaman að hlusta á þá og næra barnið í sér.
En sumsé, einhvern veginn svo æxlaðist að á tveimur stöðum á kassettunni sagði þáttastjórnandinn David Bowie. Annars vegar á eftir þrusugóðu lagi um kattarfólk, og hins vegar á eftir þrusugóðu lagi um líf á Mars. Rödd Bowie er mjög ólík í þessum tveimur lögum og vakti það athygli mína. Pabbi ferðaðist mikið til útlanda á þessum árum, og bað ég hann um að kaupa fyrir mig plötu með David Bowie. Ég get ekki munað hver var fyrsta platan, en smátt og smátt eignaðist ég nokkuð myndarlegt safn af plötum hans og varð ein af aðdáendaskaranum. Ég notaði óspart bók sem ég fann Hjá Hirti og bar fram alls konar óþarfa upplýsingar um hann þegar stelpurnar í bekknum töluðu um nærbuxnalit Simon LeBon eða æskuvandamál George Michael.
Mamma mín var alltaf dálítið hissa á þessum Bowie-áhuga og sagði oft að ég ætti ekki að vera að hlusta á hann, því hann gæti verið pabbi minn. Þetta notaði ég líka óspart í vinahópnum, að mamma væri ekki alveg viss, en Bowie gæti sumsé verið pabbi minn.
Og nú er ég komin í þá stöðu að vera mamma með krakka sem eru að uppgötva alls konar hluti alla daga. Og ég misnota stöðu mína út í eitt og kynni þau mjög reglulega fyrir nýjum og nýjum Bowie-lögum. Þau muna ekki enn nafnið á honum, en biðja oftast um þennan rauðhærða skrítna, Ziggy Stardust heillar líka til sjö, átta ára krakka í Frakklandi 2010. Fáránlega frábært. Þegar þau voru mjög ung fannst þeim vídeóið við I am a DJ meiriháttar, núna finnst þeim það bara furðulegt og brosa bara í kampinn.

Bowie er tímalaus snilld. Hann hefur gert ýmislegt sem er ekki nein snilld, en það er fyrirgefanlegt, því snilldin hans er bara… oh…

Ég hef ekki enn lagt í að skýra Space Oddity fyrir krökkunum, hrædd um að þau fái martraðir. Hvað haldið þið? Þola þau tilhugsunina um einhvern sem flýtur um í óendanlegum geimnum? Ég þoli hana ekki ennþá sjálf.

Lifið í friði.

8 Responses to “Bowie, ég og börnin”


 1. 1 Halldór 10 Nóv, 2010 kl. 9:08 e.h.

  Þessi pistill gladdi mitt gamla Bowie hjarta sem hefur slegið taktinn með þessum snillingi síðan í júní 1972, rétt eftir að Ziggy Stardust kom út….dóttir mín blessunn fékk sinn skerf af tónlist meistarans en það hélt ekki, nú hlustar hún 17 ára bara á rapp!!! En þú og ég og hinir sem hafa fylgt Bowie í gegnum súrt og sætt bíðum spennt efir næsta útspili!! Spila þér til heiðurs frönsku útgáfuna af “Heroes“!

 2. 2 hildigunnur 10 Nóv, 2010 kl. 10:19 e.h.

  nei, ekki Space Oddity strax! 😮

 3. 3 Anna Gulla. 10 Nóv, 2010 kl. 10:35 e.h.

  Bowie er einfaldlega laaaaaaang flottastur!!! Ég heyrði Live on Mars og Hunky Dory í sveitinni í gamla daga og var kolfallin með það sama. Bowie mun alltaf fylgja mér þótt það líði mánuðir á milli þess sem ég setji hann á fóninn. Hann er einn snillingur samtíðarinnar, einn af þeim sem hefur haft áhrif gríðarlega áhrif á samtíð sína. Dóttir mín var einmitt að hlaða hann inn á símann sinn, ég var ánægð með það. Hún er 15. Hann er flottur.

 4. 4 Skítlegt eðli 10 Nóv, 2010 kl. 10:37 e.h.

  “ að mamma væri ekki alveg viss, en Bowie gæti sumsé verið pabbi minn.“
  Þessi frasi er á nóbelsplani!

 5. 6 Heiða 12 Nóv, 2010 kl. 1:48 e.h.

  Já, þetta er mjög hressandi lesning hér á föstudegi. Ég er einmitt í Bowie-genginu líka og tók það framyfir Wham/Duran. Var svo lánsöm að heyra lagið „Starman“ af „The Rise and Fall of Ziggy Stardust and the Spiders from Mars“ fyrst, og fékk plötuna í jólagjöf það ár, sem hefur líklega verið árið 1983. Ekki aftur snúið eftir það. Ég hins vegar er að beita annarri tækni á 9 ára son minn. Ég held ekkert að honum hlutum sem ég elska mjög mikið og vona að hann uppgötvi þá sjálfur, eins og ég gerði í plötusafni foreldra minna. So far hefur hann beðið um „Down by the River“ með Neil Young í tónstokkinn, nú bíð ég spennt eftir Bowie-áhuga….Góða helgi!

 6. 7 parisardaman 12 Nóv, 2010 kl. 2:35 e.h.

  Hehe, takk Alli:) Ég þekkti bara franska Foux Da Fa Fa með þessum gaurum, mjög skemmtilegt líka.
  Heiða: Já, þetta er líklega rétt aðferð hjá þér, miðað við það sem pabbi lét mig hlusta á (ég mun ekkert gefa upp um tónlistarsmekk hans fyrr en eftir Stjórnlagaþingkosningar, því annars væri hægt að nota það gegn honum) og hvaða leiðir ég fór svo um leið og ég hafði aldur til að leita sjálf;)

 7. 8 parisardaman 12 Nóv, 2010 kl. 2:36 e.h.

  Og góða helgi, sömuleiðis takk!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: