og húsin mjakast upp

Ég er búin að berjast við tæknilegt vandamál megnið af þessari viku. Þegar ég hafði á annað borð tíma til að vera að einbeita mér að náminu. Það er slítandi og leiðinlegt og um tíma í gær flaug mér í hug að afneita endanlega tölvutækninni og taka aftur upp penna, stílabækur og bréfsefni.
En svo fór ég í tölvu vinkonu minnar og tók (helvítis) fyrirlesturinn upp. Gæði upptökunnar eru ekki til að hrópa húrra fyrir, en segjum bara að gæði fyrirlestursins bæti það upp. Eða ekki.

Ég tók áskorun og ætla að hoppa. En ég nenni ekki að segja ykkur frá því, það er svo plebbalegt að ræða líkamsrækt á blogginu. Ég segi ykkur bara frá því ef þetta virkar til að ná af mér blessaðri (helvítis) óléttubumbunni sem ég er enn með.

Um daginn ræddum við dóttir mín hvað það hlyti að vera gaman að búa í húsi, en ekki í blokk. Börnin hafa verið að hugsa töluvert um þetta, síðan við vorum í húsinu hjá vinum okkar í S-Frakklandi. Við vorum uppi við tónlistarskóla og hún minntist á öll fínu húsin í götunni út frá torginu. Ég sagði henni að við hefðum nú ekki efni á húsum þar. Hún stakk upp á því að við gætum kannski bara fundið „villt hús“ og málað það og lagað og búið svo í því. Dóttir mín er upprennandi hústökukona, mér líst mjög vel á það og hjálpa henni pottþétt að laga húsið sem hún finnur sér einn góðan veðurdag. Verst að hér í Copavogure er ekki mikið af villtum húsum, svei mér þá, ég man ekki eftir einu einasta yfirgefna húsi hér í nágrenninu. Hins vegar heyrði ég af fólki sem tók sér hús hérna rétt hjá, fyrir rúmum tuttugu árum síðan. Þau hafa nú fengið staðfestan eignarétt sinn á því, en einhvern veginn efast ég um að svona sé mögulegt í dag, alla vega ekki á þessu svæði sem hefur hækkað hrottalega í verði, þó það sé alltaf jafn plebbalegt í hugum „alvöru“ Parísarbúa intra muros.
Upp hafa komið hugmyndir um að sá fyrir húsi í garðinum okkar, ég er þó ekki viss um að ég viti nákvæmlega hvernig húsafræ eru. Ætli það sé kannski hægt að taka afleggjara?

Lifið í friði.

6 Responses to “og húsin mjakast upp”


 1. 1 HarpaJ 18 Nóv, 2010 kl. 2:55 e.h.

  Mér líst mjög vel á afleggjarahugmyndina.

 2. 2 Líba 18 Nóv, 2010 kl. 3:09 e.h.

  Ég vil alveg heyra af líkamsræktinni … og hér er ýmislegt fróðlegt um slík málefni: http://www.stumptuous.com/

 3. 3 parisardaman 18 Nóv, 2010 kl. 3:41 e.h.

  Einhverjar myndanna þarna gætu nú alveg verið af mér. Rauð, sveitt og másandi sem ég alltaf er. Ég lenti í að þurfa að fara fremst í tímanum í dag og fékk næstum taugaáfall að sjá mig í speglinum í sambanburði við hinar allar stífmálaðar með strípur og tillagt hárið.

 4. 4 Guðlaug Hestnes 18 Nóv, 2010 kl. 10:31 e.h.

  Tildurrófur uppstrílaðar í leikfimi eru bara asnalegar. Þú ert örugglega fallegri og ferskari en þær, enda víkingur. Kauptu þér svo afleggjara, líst vel á það með kærri kveðju.

 5. 5 ella 19 Nóv, 2010 kl. 12:19 f.h.

  Ég legg til að þið drífið í að sá til dæmis eikartré og eftir nokkur hundruð ár er upplagt að hola það innan og þá er þetta barasta komið! Held ég.

 6. 6 baun 19 Nóv, 2010 kl. 11:20 e.h.

  Því hvað er auður afl og hús ef engin jurt vex í þinni krús. Sagði skáldið. Ég hef nákvæmlega engu við þetta að bæta.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: