skref

Ég tók enn eitt skrefið áfram í lífinu í gær. Lítið skref fyrir heiminn, stórt skref fyrir mig. Ég er dálítið stolt af mér, en í bland er maður líka alltaf pínu skömmustulegur þegar maður finnur lausnina á þessum tæknivandræðum, lausnina sem var eiginlega allan tímann fyrir framan mann. Æh. Ég er kannski of hörð við sjálfa mig.
En nú er tölvan mín fína með lítinn aukaheila, sem stýrt er af kölska sjálfum, windows. Sem ég þurfti m.a.s. að kaupa dýrum dómum um leið og ég gleypti fordómana. Dálítið súrt. En ég lifi það af. Vona bara að tölvan mín geri það líka. (Ókei, ég gleypti fordómana ekki, ég held áfram að næra þá).

Í dag verð ég svo að lesa mér til um þetta flókna þýðingaminni (trados.com) svo ég geti gert verkefnið sem ég átti að skila einhvern tímann fyrir löngu síðan (kennarinn hefur sýnt mér skilning, ég vona að hann viti að hann er enn að sýna mér skilning). Um leið þarf ég að hrista fram eitt stykki bókmenntaþýðingu, en hana var ég búin með að hluta fyrir tveimur árum. Með þeirri þýðingu þarf ég samt að skila greinargerð sem ég er ekki byrjuð á. Og um leið þarf ég að skila ritgerð upp úr ódauðlega fyrirlestrinum, um þýðinguna sem ég skilaði fyrr á önninni. Ritgerðin sem ég hélt í alvörunni að ég myndi bara skrifa þarna um leið og ég skilaði. Je ræt.

Og mér finnst líka alveg kominn tími á að hér verði til piparkökur, en það þýðir ferð í Ikea. Spurning hvort ég athugi þá með hilluna sem var ekki til síðast. Ég er eiginlega búin að átta mig á því að líf mitt velti líklega alls ekki á þessari hillu heldur einhverju allt öðru sem ég þarf reyndar að átta mig betur á… seinna…
Og svo eru það jólakortin. Ég er ekki enn komin með myndina, þessa fullkomnu sem hoppar framan í mann þegar maður rennir yfir myndirnar í tölvunni. Reyndar tók það mig langan tíma að sjá myndina í fyrra sem þá réttu. Ég man ekki hvort ég setti hana hingað inn, en hún var öðruvísi, ekki eins og jólakortamyndir eru flestar. Mér fannst hún síðan svo töff, að ég sendi hana inn með viðtali í Vikunni á árinu (sem er að líða).

jólakort 2009

Kannski er myndin þarna einhvers staðar. Eða kannski kemur þessi fíni jólasnjór á fimmtudag eins og spáð er, og ég næ að fara með krakkana út og tek ódauðlega fallega mynd af þeim, sem lætur svo framkalla sig og límir sig inn í kortin sem skrifa sig sjálf og fara í póst á réttum tíma? Ha? Hvernig væri það? Jólastress? Ég? Nei nei, bara svona almennt stress, ég sleppi nefnilega aldrei góðu stressi, sjáiði til.

Lifið í friði.

6 Responses to “skref”


 1. 1 Oddný H. 23 Nóv, 2010 kl. 9:40 f.h.

  Afsakaðu framhleypnina en þú getur kannski auðveldað þér lífið með því að skoða einfaldari þýðingarforrit; t.d. Wordfast Pro. Ég vann mitt verkefni út frá Wordfast Classique, sem er eldra en því fylgdu einfaldar og fínar leiðbeiningar. Held það væri meira notagildi í Pro-útgáfunni. En hvað er ég að þvæla, ekki eins og ég hafi eitthvað vit á þessu. Bara að tefja tímann áður en ég held áfram að undirbúa fyrirlestur um Petit Nicolas fyrir Gauta -mig? 🙂
  Kær kveðja frá laumusamstúdent þínum.

 2. 2 parisardaman 23 Nóv, 2010 kl. 1:43 e.h.

  Hehe, takk takk:) Ég ætla að baksa við Trados, enda lengi búin að vera á leiðinni að kaupa það (án þess að ég gerði mér grein fyrir and-makkadæminu hjá þeim). Oh, hvað ég væri til í að hlusta á fyrirlestur um Petit Nicolas! Í hvaða kúrs er það?

 3. 3 parisardaman 23 Nóv, 2010 kl. 2:08 e.h.

  Ég var sko búin að prófa wordfast, en það gekk ekkert hjá mér:/ Má maður játa svona lúðagang?

 4. 4 Oddný H. 23 Nóv, 2010 kl. 4:52 e.h.

  aaahhh, je pige! Þetta er kúrsinn Fjölmiðlaþýðingar – er að skoða skjátextana við íslensku DVD-útgáfuna. Dásamleg skemmtun (myndin, ekki skjátextarnir). Bon courage!

 5. 5 Erlendur Fjármagnsson 24 Nóv, 2010 kl. 3:44 e.h.

  „Kölski sjálfur“
  Auðvitað, þú ert í hans skóla.
  Íslendingur líklega ennþá látinn ganga síðastur út.
  Ætli óhætt sé að leika skuggatrikkið aftur eftir 930 ár ?

 6. 6 moi 24 Nóv, 2010 kl. 8:59 e.h.

  Ég er reyndar því miður „bara“ í HÍ. Var skiptinemi í Svartaskóla hjá Kölska og vinum hans í fyrra. Reyndi dæmið með selinn, í veikri von um ódýrt far heim um jólin, það gekk ekki.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: