Ég er dálítið sein með jólakveðjuna í ár, en það er lýsandi fyrir andlegt ástand mitt, ég hef bara ekki náð upp snefil af hressandi jólastressi.
Aðfangadagskvöld kom án þess að ég yrði nokkurn tímann hryssingsleg við mann og börn. Við lögðum á borð þremur korterum fyrir áætlaðan komutíma fyrsta gestsins, sú íslenska kom vitanlega fyrir sjö, til að ná jólaklukknahljóminum á RÚV. Þeir frönsku áttu svo að koma hálftíma síðar, en mágur minn mætti um þremur korterum of seint, og ruglaði dálítið allri tímasetningu á matarframburði. Lærið var því orðið volgt þegar við settumst að borðum. Kjötið var samt svo meyrt og ljúffengt, og sósan heit og fín, sem og allt meðlætið, að það kom ekki að sök. Verra var að Kári hafði dottið út meðan forrétturinn var snæddur og reyndist vonlaust að vekja hann aftur. Ég náði m.a.s. í hann og setti hann í sófann þegar við byrjuðum pakkaopnun, en hann breiddi teppi yfir höfuð sér og neitaði alfarið að gefa sig. Hann opnaði því pakkana á jóladagsmorgun eins og mörg frönsk börn gera reyndar.
í gær, jóladag, fórum við svo í matarboð til tengdamömmu og kærustunnar. Fengum bestu gæs með bestu fyllingu sem ég hef á ævinni smakkað. Verst að á undan var íslenskur lax og heimalöguð foie gras. Ég held ég hafi aldrei orðið jafnsödd á ævinni, en kannski er það bara þannig að ég þoli ekki lengur að verða svona pakksödd, hvað þá dag eftir dag. Ég gat ekki einu sinni klárað af disknum mínum, þó bragðið væri þannig að mig langaði ekkert frekar. Nú líður mér þannig að ég muni aldrei aftur geta borðað, en ég treysti því að það brái af mér eftir að kaffið sjatnar í maganum.
Ég ætla þó að skoða hvort ekki sé hægt að hafa hrátt grænmeti á borðum í hádeginu, ég meika ekki upphitaðan jólamat fyrr en í fyrsta lagi í kvöld.
Ég fékk allt of margar og fínar gjafir. Mamma prjónaði lopapeysu á mig, tengdamamma gaf mér undursamlega silki-kasmírpeysu og svo fékk ég hitt og þetta missmálegt en allt einhvern veginn svo fallegt og gott. Maðurinn minn tók áhættu og keypti varalit og hann er akkúrat eins og ég hef verið að leita að lengi árangurslaust. Mátulega rauðbleikur hversdagslitur.
Ég fékk nokkrar bækur, en þar sem ég er í svo annarlegu ástandi eftir tveggja daga ofát, nenni ég ekki að standa upp til að gá og ég get svo svarið það að ég man ekki hvaða bækur það voru. Nema jú, ég fékk Gjá eftir Hauk Má Helgason, sem ég hlakka mikið til að lesa, en verður samt ekki svona jólakósílesturinn.
Sem er að fara að hefjast núna bráðum.
Þegar kaffið hefur náð að virka á mig.
Já, klukkan er ellefu, ég svaf heldur betur út, ég er að segja ykkur það, engar ýkjur, ég er í mjög annarlegu ofáts-ástandi. Í dag er planið einfalt: Náttföt, bækur, DVD, spil og hangs. Ef við krakkarnir nennum, förum við í smá gönguferð í frostinu. Maðurinn er farinn að vinna, búinn að opna bóksöluna sína við Signu. Hann gat ekki unnið á Þorláksmessu og aðfangadag út af snjókomunni svo það er um að gera að reyna að næla í hugrakka vafrara borgarinnar í sólinni í dag.
Ég vona að jólin ykkar hafi verið jafn ljúf og náðug og mín. Megi restin vera tóm gleði og gaman.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir