Sarpur fyrir janúar, 2011

Viðreynslusaga

Vinur minn bað mig um viðreynslusögu og þar sem ég er fádæma hlýðin verð ég við bón hans:
Einhvern tímann var ég að staulast heim með of þunga innkaupapoka og börnin tvö. Það var rökkur, rigningarsuddi og ég var hálfstressuð yfir því að láta krakkana ganga með mér án þess að geta leitt þau, sonurinn hefur líklega verið 4 eða 5 ára.
Á móti mér kemur feitlaginn, góðlegur maður um þrítugt. Hann horfir á mig og segir svo stundarhátt: „Af hverju eru allar fallegustu konurnar alltaf fráteknar?“ Af talandanum mátti skilja að hann var eitthvað örlítið þroskaheftur eða á eftir. Ég brosti mínu fegursta til hans og var kát lengi á eftir. Mér fannst þetta glæsileg frammistaða í daðri, maðurinn kom fram af fyllsta öryggi og sýndi að hann hefur þennan líka fína húmor fyrir sjálfum sér.

Lifið í friði.

Leiðrétting á þvaðri um París

Það er fádæma fyndið þreytandi að lesa í glænýrri grein hér á Eyjunni, að kona geti ekki setið ein á kaffihúsi í París án þess að vera „álitin til í hvað sem er“.
Ég nenni varla að mótmæla þessu, en samt. Sem Parísardama bara neyðist ég til þess. Á hvaða öld lifa Pjattrófur eiginlega? Í hvaða fantasíuheimi?

Það eru reyndar ekki svo mörg ár síðan femínistahreyfingin „Les chiennes de garde“ [Varðtíkurnar] fór í hart gegn hinum dýra (og fína) Fouquet’s á Champs Elysées. Þeir streittust við að banna konum aðgang að staðnum nema „í fylgd“. Það var í ársbyrjun 2000 sem þeir loksins settu upp skilti undir því gamla sem sagði að konur mættu ekki koma einar, þar sem stendur að það fengi að hanga uppi sem söguleg heimild eingöngu.
Því gæti það verið svo, að í heimi hinna ríku (og fínu) séu meiri líkur á því að konur einar á ferð séu dæmdar sem mögulegar afætur eða hórur. Nema þá á Ritz, sem er eins og vin í eyðimörkinni fyrir stakar konur.
Aldrei nokkurn tímann hef ég fundið fyrir minnstu fordómum á þeim fjöldamörgu kaffihúsum sem ég hef vogað mér að sitja á, alein í mínum eigin heimi, jafnvel með vín í glasi. Ég hef heyrt konur segja að þeim finnist ekki þægilegt að sitja einar á kaffihúsi, en ég hef heyrt karla segja það sama. Það sé eitthvað svo einmanalegt að sitja einn, maður sé svo berskjaldaður. Mín upplifun er öfug, mér finnst ég geta gert mig ósýnilega þegar ég sit ein á kaffihúsi. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í París, að sitja og geta glápt og hlustað án þess að þurfa að halda uppi samræðum við félaga. Ég skrifaði til dæmis alltaf bréfin til Íslands á kaffihúsum, þar komst ég á almennilegt flug og gat sagt frá senunum í kringum mig.
Ekki misskilja mig, mér finnst líka mjög gaman að sitja með félögum á kaffihúsi, það er bara ekki sami hluturinn. Og auðvitað hef ég stundum fengið athygli frá einhverjum sem sér mig sitja eina, einhver sem reynir að fá mann til að tala við sig, þiggja jafnvel drykk eða blóm. Það er daður, sem eiga sér stað, og er langoftast algerlega heilbrigt og jafnvel bara skemmtilegt. Ég get alveg tæklað mann sem sýnir mér áhuga án þess að fara öll í flækju, hvað þá að ég telji mér trú um að hann líti endilega á mig sem druslu „til í hvað sem er“. Með tækla á ég ekki við að ég standi upp og felli hann, heldur bara að ég ráði við þessar aðstæður.

Það einkennir skrif Pjattrófanna, að það virðist engu máli skipta þær hvort alhæfingarnar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum eða ekki. Allt felst í „stílnum“. Ég er kannski að oftúlka eitthvað, en gæti það verið fantasía Gigi að vera álitin drusla af karlmönnum, og þess vegna sé svo smart að segja að þannig sé „menningin“ í Frakklandi?
Mér finnst svona bull svo þreytandi, ég bara skil ekki til hvers fólk er að hamast við að búa til svona platveröld með þessari undarlegu gjá milli kynjanna (og landanna líka, í þessu tilfelli).

París er meiriháttar borg. Hér er hægt að finna allt milli himins og jarðar. Hér er hægt að ganga milli mismunandi heima á örskömmum tíma. Hér er hægt að finna ótrúlegustu sérvöruverslanir, handverksmenn og listamenn, lífskúnstnera, snobbhana og -hænur og það er nákvæmlega það sem er svo skemmtilegt við París. Við erum samt komin inn í 21. öldina hér í borg og konur geta gengið nokkuð óáreittar um götur, þó athygli karlmanna sé vissulega alltaf sýnilegri en á götum Reykjavíkur. Það er ekkert óheilbrigt við það að karlmaður sýni konu áhuga, svo lengi sem hún hefur heilbrigða sýn á sjálfa sig og aðra.

Jæja, ég er að falla á tíma og þarf að fara. Kannski meira seinna. Kannski ekki. Ég strengdi ekki það áramótaheit að láta Pjattrófurnar ekki fara í taugarnar á mér, en ég ætlaði mér alls ekki að skrifa meira um þær eftir lætin um daginn. Mér finnst heldur ekki gaman að standa í deilum við fólk og auðvitað má fólk hafa aðrar skoðanir en ég. En þarna var ekki skoðun á ferð, heldur kolröng alhæfing um menningu borgarinnar sem ég lifi og hrærist í, og menningu landsins sem ég el börnin mín upp í. Ég gat ekki látið það standa hérna afskiptalaust.

Lifið í friði.

Gleðilegt ár

Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs nýs árs (og friðar, vitanlega).
Áramótin voru mjög óíslensk hjá okkur, en ansi skemmtileg. Engar sprengjur, bara venjuleg matar- og vínorgía. Þeir einu sem kíktu stundum út fyrir voru reykingamennirnir þrír. Ég verð að játa að það munaði afskaplega mjóu á því að ég færi út til þeirra í eitt skiptið, fékk þessa líka rokna sígólöngun, en eitt af því sem ég afrekaði á síðasta ári var einmitt að hætta þessu blessaða sígarettufikti sem ég hef stundað lengi. Mér tókst að halda í mér og ætla mér að láta árið 2011 vera fyrsta heila sígarettulausa árið mitt.
Fyrir utan þetta litla persónulega afrek, finnst mér árið hafa verið tiltölulega viðburðasnautt og jafnvel einhvern veginn ógurlega flatt, að undanskildum nokkrum frábærum hápunktum. Einn þeirra, og líklega sá mikilvægasti, var að ganga í Þjórsárverum. 6 dagar í óbyggðum með allar vistir á bakinu. Stórkostleg lífsreynsla.

bílar bannaðir - hvílíkur draumur

Ég man ekki hvort ég hef bloggað eitthvað um þessa ferð, ég veit að ég drattaðist alla vega aldrei til að skrifa stóru góðu ferðalýsinguna, en það gerði hann Gunnlaugur, sem í ferðinni bjargaði mér frá því að þurfa að svolgra í mig einhverjum lítrum af jökulá, og kannski bara hreinlega lífi mínu. Hvað veit maður? Það var alla vega magnað móment þegar ég fann skyndilega að undir mér var nákvæmlega ekki neitt og ég vissi að ég myndi vera á bólakafi í ánni, með pokann á bakinu, eftir örskamma stund. Var byrjuð að hugsa næstu „skref“, hvernig ég ætti að rífa af mér lausan pokann og halda niðri í mér andanum, þegar hann greip allt í einu undir hendurnar á mér, vippaði mér á fætur og gekk svo með mig yfir vaðið. Fokk, hvað ég skalf á eftir.

á Arnarfelli

á Arnarfelli

Það var allt meiriháttar við þessa ferð. Góðir leiðsögumenn, góður hópur, gott veður. Ég hef aldrei almennilega jafnað mig á því hvað þetta er ólýsanlega spennandi og skemmtilegt og er nú þegar búin að skrá mig í ferð næsta sumar hjá Ferðafélaginu. Prógrammið er á leiðinni á vefinn núna um miðjan janúar, en ég veit hvaða ferð ég vil fara næst. Og ég verð aftur með alvöru kaffi og alvöru kaffikönnu.

kaffikannan góða

kaffikannan góða

Aðrar góðar stundir ársins eru þær sem var eytt í góðra vina hópi, og að fylgjast með börnunum vaxa og dafna og verða stórkostlegri með hverjum mánuðinum sem líður. Afsakið væmnina en mér fannst ómögulegt að láta sem Þjórsárver væru það eina góða, enda er það ekki rétt.

Annars hefur þessi síðasta önn verið frekar erfið. Það er komin einhver rokna þreyta í mig í náminu, enda var dálítið erfitt að snúa aftur í fjarnámið eftir heilan vetur í tímum með fólki. Ég hef líka verið ódugleg að fara á bókasafnið, því bókasafnsvinkonurnar frá því í fyrra eru báðar komnar í fasta vinnu svo ég sit þar alltaf alein og fer ein í mat og… jámm, mér finnst þetta bara einhvern veginn alveg hrikalega erfitt allt saman í dag. Ég hef á köflum verið svo leið, að það myndi líklega mælast sem þunglyndi. Ég þekki samt svo rosaleg dæmi um þunglyndi að ég á erfitt með að segja þetta, ég næ alltaf að hafa mig fram úr rúminu og hef ekki lagst í dagdrykkju, of svartar pælingar eða neitt slíkt. En samt… ekki búið að vera auðvelt. Fleira hefur spilað inn í en námsþreytan, veikindi og ýmsir erfiðleikar hjá fólkinu í kringum mig tekur líka sinn toll.

Áramótaheitið var því að passa betur upp á að lifa gleðistundir, fara meira út af heimilinu, hitta vinina oftar og svo framvegis. Nú er bara að standa við það, en það er jú oft það erfiðasta við þau og ástæðan fyrir því að ég hef ekki mikið verið að standa í slíkum strengingum. Ég fæ alla vega stuðning, það er verið að óska mér gleðilegs árs hægri vinstri! Segjum bara að það muni rætast, ég mun alla vega reyna.

jólaljós við Champs Eylysées

Ljós og jólabörn við Champs Elysées

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha