Gleðilegt ár

Ég óska öllum lesendum mínum gleðilegs nýs árs (og friðar, vitanlega).
Áramótin voru mjög óíslensk hjá okkur, en ansi skemmtileg. Engar sprengjur, bara venjuleg matar- og vínorgía. Þeir einu sem kíktu stundum út fyrir voru reykingamennirnir þrír. Ég verð að játa að það munaði afskaplega mjóu á því að ég færi út til þeirra í eitt skiptið, fékk þessa líka rokna sígólöngun, en eitt af því sem ég afrekaði á síðasta ári var einmitt að hætta þessu blessaða sígarettufikti sem ég hef stundað lengi. Mér tókst að halda í mér og ætla mér að láta árið 2011 vera fyrsta heila sígarettulausa árið mitt.
Fyrir utan þetta litla persónulega afrek, finnst mér árið hafa verið tiltölulega viðburðasnautt og jafnvel einhvern veginn ógurlega flatt, að undanskildum nokkrum frábærum hápunktum. Einn þeirra, og líklega sá mikilvægasti, var að ganga í Þjórsárverum. 6 dagar í óbyggðum með allar vistir á bakinu. Stórkostleg lífsreynsla.

bílar bannaðir - hvílíkur draumur

Ég man ekki hvort ég hef bloggað eitthvað um þessa ferð, ég veit að ég drattaðist alla vega aldrei til að skrifa stóru góðu ferðalýsinguna, en það gerði hann Gunnlaugur, sem í ferðinni bjargaði mér frá því að þurfa að svolgra í mig einhverjum lítrum af jökulá, og kannski bara hreinlega lífi mínu. Hvað veit maður? Það var alla vega magnað móment þegar ég fann skyndilega að undir mér var nákvæmlega ekki neitt og ég vissi að ég myndi vera á bólakafi í ánni, með pokann á bakinu, eftir örskamma stund. Var byrjuð að hugsa næstu „skref“, hvernig ég ætti að rífa af mér lausan pokann og halda niðri í mér andanum, þegar hann greip allt í einu undir hendurnar á mér, vippaði mér á fætur og gekk svo með mig yfir vaðið. Fokk, hvað ég skalf á eftir.

á Arnarfelli

á Arnarfelli

Það var allt meiriháttar við þessa ferð. Góðir leiðsögumenn, góður hópur, gott veður. Ég hef aldrei almennilega jafnað mig á því hvað þetta er ólýsanlega spennandi og skemmtilegt og er nú þegar búin að skrá mig í ferð næsta sumar hjá Ferðafélaginu. Prógrammið er á leiðinni á vefinn núna um miðjan janúar, en ég veit hvaða ferð ég vil fara næst. Og ég verð aftur með alvöru kaffi og alvöru kaffikönnu.

kaffikannan góða

kaffikannan góða

Aðrar góðar stundir ársins eru þær sem var eytt í góðra vina hópi, og að fylgjast með börnunum vaxa og dafna og verða stórkostlegri með hverjum mánuðinum sem líður. Afsakið væmnina en mér fannst ómögulegt að láta sem Þjórsárver væru það eina góða, enda er það ekki rétt.

Annars hefur þessi síðasta önn verið frekar erfið. Það er komin einhver rokna þreyta í mig í náminu, enda var dálítið erfitt að snúa aftur í fjarnámið eftir heilan vetur í tímum með fólki. Ég hef líka verið ódugleg að fara á bókasafnið, því bókasafnsvinkonurnar frá því í fyrra eru báðar komnar í fasta vinnu svo ég sit þar alltaf alein og fer ein í mat og… jámm, mér finnst þetta bara einhvern veginn alveg hrikalega erfitt allt saman í dag. Ég hef á köflum verið svo leið, að það myndi líklega mælast sem þunglyndi. Ég þekki samt svo rosaleg dæmi um þunglyndi að ég á erfitt með að segja þetta, ég næ alltaf að hafa mig fram úr rúminu og hef ekki lagst í dagdrykkju, of svartar pælingar eða neitt slíkt. En samt… ekki búið að vera auðvelt. Fleira hefur spilað inn í en námsþreytan, veikindi og ýmsir erfiðleikar hjá fólkinu í kringum mig tekur líka sinn toll.

Áramótaheitið var því að passa betur upp á að lifa gleðistundir, fara meira út af heimilinu, hitta vinina oftar og svo framvegis. Nú er bara að standa við það, en það er jú oft það erfiðasta við þau og ástæðan fyrir því að ég hef ekki mikið verið að standa í slíkum strengingum. Ég fæ alla vega stuðning, það er verið að óska mér gleðilegs árs hægri vinstri! Segjum bara að það muni rætast, ég mun alla vega reyna.

jólaljós við Champs Eylysées

Ljós og jólabörn við Champs Elysées

Lifið í friði.

11 Responses to “Gleðilegt ár”


 1. 1 Elísabet 2 Jan, 2011 kl. 10:43 e.h.

  Ánægð með þig, að hætta að reykja, til hamingju með það!

  Gleðilegt ár kæra Parísardama, vonast til að sjá þig sem oftast á nýja fína árinu (ég ætla að halda því fram að það verði fínt og gott þar til annað kemur í ljós).

 2. 2 HarpaJ 2 Jan, 2011 kl. 11:11 e.h.

  Gleðilegt ár – og til hamingju með reykleysið.
  Hrikalega er annars útilegukannan flott!

 3. 4 parisardaman 3 Jan, 2011 kl. 11:44 f.h.

  Ég er mjög ánægð með reykleysið, þó ég finni oft löngun. Ég veit samt ekki hvernig alvöru reykingafólk fer eiginlega að þessu, nógu erfitt fyrir mig að þola köstin og ekki reykti ég daglega eða mikið…
  @Harpa: Kannan er náttúrulega engin útilegukanna, en var það eina sem leyfðist að taka með í pokann án þess að geta talist alger nauðsyn og jafnvel dálítið dekadent. Við ferðafélagi minn vissum að við yrðum að kaupa okkur vini, og gáfum fólki kaffi með okkur;)
  Takk, Beggi, sömuleiðis!

 4. 5 Björg 3 Jan, 2011 kl. 1:23 e.h.

  Nohnohnoh, í hvaða ferð ertu búin að skrá þig, góan?

 5. 6 Gunnlaugur 3 Jan, 2011 kl. 4:13 e.h.

  Sæl Kristín og gleðilegt ár.
  Það er merkilegt hvað margt getur farið í gegnum hugann á örfáum andartökum eins og þú lýsir því hvað þú hugsaðir út í Miklukvíslinni!! Svona ferðir eru náttúrulega ekkert annað en andleg og líkamleg therapía hvernig sem allt veltist og hvernig sem veðrið er. Auðvitað hættirðu að reykja fyrir fullt og fast. Annað er bara rugl. Ég hætti að reykja fyrir tæpum þrjátíu árum og það er eitt að því gáfulegasta sem ég hef gert á lífsleiðinni.
  Gangi þér vel.
  Mbk
  Gunnl.

 6. 7 parisardaman 3 Jan, 2011 kl. 4:20 e.h.

  Já, sæll Gunnlaugur og gleðilegt ár sömuleiðis, takk.
  Ég vildi bara óska að þú hefðir verið þarna á bakvið mig daginn sem ég steig aftur á bak ofan í hverinn, það hefði nú breytt ýmsu og þá vissi ég áður en ég fór ofan í sjóðandi vatnið að ég var komin út í vandræði…
  Ég ætla mér að halda reykleysið, mér er tjáð að mann langi við og við í, alla ævi. Ég er þrjóskari en versti asni. Og já, þessi þerapía að ganga í óbyggðum er ómetanleg og verður árleg hjá mér, ekki spurning!

 7. 8 Frú Sigurbjörg 3 Jan, 2011 kl. 4:58 e.h.

  Mig hefur ekki langað hið minsta í smók sl. 2 ár. Reyndar orðin 7 ár síðan ég hætti og var engan veginn að átta mig á að það væri svo langt síðan. Enn fjarstæðukenndara þykir mér þó að hafa reykt í 14 ár. Skrýtinn þessi tími, en annars ætlaði ég að peppa þig upp en ekki tala um sjálfa mig; gangi þér vel að vera hætt, þetta verður þá líklega auðveldara eftir 5 ár eða svo ; )
  Hefur þú annars reynt að gera eins og Páll Óskar; hann byrjar víst alltaf á að segja já þegar hann vaknar… Gleðilegt ár.

 8. 9 parisardaman 4 Jan, 2011 kl. 7:13 f.h.

  Já, ég man eftir því þegar Páll Óskar sagði frá þessu. Í dag segi ég: Já, ég get klárað verkefni dagsins og tekið við nýjum! Gleðilegt ár sömuleiðis, takk.

 9. 10 hildigunnur 4 Jan, 2011 kl. 9:03 f.h.

  Gleðilegt ár elsku Kristín, takk fyrir ógurlega skemmtilegan hitting í fyrra, stefnum endilega á meira svona. Og tojtoj með gleði og jákvæðni!

 10. 11 Rósa Elín 4 Jan, 2011 kl. 11:14 f.h.

  Gleðilegt ár kæra Parísardama! Ég skal vera nýja bókasafnsvinkona þín á nýju ári. Ég verð reyndar í hálfu starfi fram í lok apríl en er laus 2-3 daga í viku.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: