Leiðrétting á þvaðri um París

Það er fádæma fyndið þreytandi að lesa í glænýrri grein hér á Eyjunni, að kona geti ekki setið ein á kaffihúsi í París án þess að vera „álitin til í hvað sem er“.
Ég nenni varla að mótmæla þessu, en samt. Sem Parísardama bara neyðist ég til þess. Á hvaða öld lifa Pjattrófur eiginlega? Í hvaða fantasíuheimi?

Það eru reyndar ekki svo mörg ár síðan femínistahreyfingin „Les chiennes de garde“ [Varðtíkurnar] fór í hart gegn hinum dýra (og fína) Fouquet’s á Champs Elysées. Þeir streittust við að banna konum aðgang að staðnum nema „í fylgd“. Það var í ársbyrjun 2000 sem þeir loksins settu upp skilti undir því gamla sem sagði að konur mættu ekki koma einar, þar sem stendur að það fengi að hanga uppi sem söguleg heimild eingöngu.
Því gæti það verið svo, að í heimi hinna ríku (og fínu) séu meiri líkur á því að konur einar á ferð séu dæmdar sem mögulegar afætur eða hórur. Nema þá á Ritz, sem er eins og vin í eyðimörkinni fyrir stakar konur.
Aldrei nokkurn tímann hef ég fundið fyrir minnstu fordómum á þeim fjöldamörgu kaffihúsum sem ég hef vogað mér að sitja á, alein í mínum eigin heimi, jafnvel með vín í glasi. Ég hef heyrt konur segja að þeim finnist ekki þægilegt að sitja einar á kaffihúsi, en ég hef heyrt karla segja það sama. Það sé eitthvað svo einmanalegt að sitja einn, maður sé svo berskjaldaður. Mín upplifun er öfug, mér finnst ég geta gert mig ósýnilega þegar ég sit ein á kaffihúsi. Það er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri í París, að sitja og geta glápt og hlustað án þess að þurfa að halda uppi samræðum við félaga. Ég skrifaði til dæmis alltaf bréfin til Íslands á kaffihúsum, þar komst ég á almennilegt flug og gat sagt frá senunum í kringum mig.
Ekki misskilja mig, mér finnst líka mjög gaman að sitja með félögum á kaffihúsi, það er bara ekki sami hluturinn. Og auðvitað hef ég stundum fengið athygli frá einhverjum sem sér mig sitja eina, einhver sem reynir að fá mann til að tala við sig, þiggja jafnvel drykk eða blóm. Það er daður, sem eiga sér stað, og er langoftast algerlega heilbrigt og jafnvel bara skemmtilegt. Ég get alveg tæklað mann sem sýnir mér áhuga án þess að fara öll í flækju, hvað þá að ég telji mér trú um að hann líti endilega á mig sem druslu „til í hvað sem er“. Með tækla á ég ekki við að ég standi upp og felli hann, heldur bara að ég ráði við þessar aðstæður.

Það einkennir skrif Pjattrófanna, að það virðist engu máli skipta þær hvort alhæfingarnar eigi sér nokkra stoð í raunveruleikanum eða ekki. Allt felst í „stílnum“. Ég er kannski að oftúlka eitthvað, en gæti það verið fantasía Gigi að vera álitin drusla af karlmönnum, og þess vegna sé svo smart að segja að þannig sé „menningin“ í Frakklandi?
Mér finnst svona bull svo þreytandi, ég bara skil ekki til hvers fólk er að hamast við að búa til svona platveröld með þessari undarlegu gjá milli kynjanna (og landanna líka, í þessu tilfelli).

París er meiriháttar borg. Hér er hægt að finna allt milli himins og jarðar. Hér er hægt að ganga milli mismunandi heima á örskömmum tíma. Hér er hægt að finna ótrúlegustu sérvöruverslanir, handverksmenn og listamenn, lífskúnstnera, snobbhana og -hænur og það er nákvæmlega það sem er svo skemmtilegt við París. Við erum samt komin inn í 21. öldina hér í borg og konur geta gengið nokkuð óáreittar um götur, þó athygli karlmanna sé vissulega alltaf sýnilegri en á götum Reykjavíkur. Það er ekkert óheilbrigt við það að karlmaður sýni konu áhuga, svo lengi sem hún hefur heilbrigða sýn á sjálfa sig og aðra.

Jæja, ég er að falla á tíma og þarf að fara. Kannski meira seinna. Kannski ekki. Ég strengdi ekki það áramótaheit að láta Pjattrófurnar ekki fara í taugarnar á mér, en ég ætlaði mér alls ekki að skrifa meira um þær eftir lætin um daginn. Mér finnst heldur ekki gaman að standa í deilum við fólk og auðvitað má fólk hafa aðrar skoðanir en ég. En þarna var ekki skoðun á ferð, heldur kolröng alhæfing um menningu borgarinnar sem ég lifi og hrærist í, og menningu landsins sem ég el börnin mín upp í. Ég gat ekki látið það standa hérna afskiptalaust.

Lifið í friði.

23 Responses to “Leiðrétting á þvaðri um París”


 1. 1 Frú Sigurbjörg 4 Jan, 2011 kl. 9:35 f.h.

  Á því 1,5 ári sem strætóferðir mínar milli Reykjavíkur og Kópavogs áttu sér reglulega stað, var tvisvar stigið í vænginn við mig. Ég var auðvita ein í strætó og get því sjálfri mér um kennt. Ætli Pjattrófurnar viti af þessu?

 2. 4 parisardaman 4 Jan, 2011 kl. 9:46 f.h.

  Ég er ekki í keppni, bara svo það sé á hreinu:)

 3. 5 hildur 4 Jan, 2011 kl. 10:06 f.h.

  Ætli hún hafi farið á alla bari Parísar til að gera samanburð á framkomu og viðhorfi gesta í hennar garð?

 4. 6 parisardaman 4 Jan, 2011 kl. 10:09 f.h.

  Eðlileg rannsókn myndi nú ekki krefjast þess að fara á alla bari, það ætti að vera nóg að taka svona tja, 40 – 50, ef maður virkilega ætlaði að kanna þetta.

 5. 7 Halla Sverrisdóttir 4 Jan, 2011 kl. 10:09 f.h.

  Æi, æi. Ég bjó í Vínarborg í tvö ár og var mishrifin af þeirri borg en eitt af því sem er klárlega yndislegt við hana eru einmitt kaffihúsin, þar sem fólk getur setið eitt eða með fleirum, verið vel tilhaft, smart, lúðalegt, fallegt, ljótt, sexí eða hroði og það er allt saman í góðu lagi. Kaffihús í Vínarborg eru griðastaðir, ekki sýningarpallur fyrir egó sjálfsdýrkenda. Svo eru auðvitað til einhverjir posh staðir þar sem hinir sjálfkynhneigðu setja sig á svið og flippa út yfir eigin þokka en maður lærði nú fljótt að forðast þá! Ætli þetta sé ekki allt spurning um óskhyggju, í París og Vín og flestum borgum með þroskaða kaffihúsamenningu? Ef þú ert sannfærð um að allt karlkyns á staðnum sé að leggja á ráðin um að áreita þig er stutt í fyrsta, hugsanlega ímyndaða, merki um það. Og gleðilegt árið, Kristín 🙂

 6. 8 Ósk Gunnlaugsdottir 4 Jan, 2011 kl. 10:14 f.h.

  Svo er lokað fyrir komment á færslunni. Þær eru eins og Kína þessar rófur.

 7. 9 Svala 4 Jan, 2011 kl. 12:09 e.h.

  Ég sat eitt föstudagskvöld ein á fjölsóttum tapas-bar í París, án þess að einn einasti maður áreitti mig eða áliti mig vera til í allt. Kannski er ég bara ekki jafn ómótstæðileg og umrædd pjattrófa.

 8. 10 ella 4 Jan, 2011 kl. 1:16 e.h.

  Alhæfingar stuða mig meir og meir eftir því sem ég eldist og vonandi þroskast.

 9. 11 Þóra D 4 Jan, 2011 kl. 2:16 e.h.

  Mér finnst sorglegt að sjá að Pjattrófur hafa tekið út öll komment. Kannski ekki furða því þeim er algjörlega fyrirmunað að taka við gagnrýni eða nokkru sem ekki er 100% já sammála þér umræða. Ég hef því hætt reglulegu innliti mínu á síðuna, þær mega vera í sínum fantasíuheimi ranghugmynda. Eftir á að hyggja voru það helst þessi skondnu komment við færslurnar sem höfðu skemmtanagildi 😉

 10. 12 Glúmur 4 Jan, 2011 kl. 2:32 e.h.

  Rófan hefur e.t.v. ruglað saman París og Kabúl.

 11. 13 áreitandi chauSvínisti 4 Jan, 2011 kl. 2:44 e.h.

  mig langar í pjattrófu, þeir eru greinilega ómótstæðilegar

 12. 14 Stefán Snævarr 4 Jan, 2011 kl. 4:37 e.h.

  Gallinn við pjattrófurnar er að þær eru stöðugt að ýta undir neyslugræðgi, t.d. með fáránlegum útreikningum á því hve mikið það kosti fyrir konu að líta vel út. Þær skilja ekki að gott útlit fæst með sparnaði, með því að hreyfa sig utan dyra í stað að sitja inn í bíl, spara við sig húðskemmandi gosdrykki og draslfæðu.

 13. 15 parisardaman 4 Jan, 2011 kl. 6:14 e.h.

  Það vantar alveg like-takka á athugasemdirnar. Svo vantar líka allt stuð hérna, en það er svo sem ágætt. Ég er sammála öllu sem fram kemur hér að ofan, takk takk.

 14. 16 Andreas T. Kristinsson 4 Jan, 2011 kl. 7:35 e.h.

  Ætli málið sé að pjattrófurnar ráða ekki við þessar daðuraðstæður sem gætu komið upp –

 15. 17 hildigunnur 5 Jan, 2011 kl. 8:29 f.h.

  Andreas, hehe væntanlega einmitt málið – þær kunna ekkert á daður…

 16. 18 parisardaman 5 Jan, 2011 kl. 8:37 f.h.

  Er það nema von, ekki eins og maður sé að fá einhverja þjálfun hjá íslenskum karlmönnum;)

 17. 19 Jónsi 7 Jan, 2011 kl. 1:30 e.h.

  Pjattrófurnar eru ágætar. Þær eru sætar og fínar og eftirsóttar af karlmönnum.

  Rauðrófurnar eru mussuklæddar í bomsum og með loðna vörtu á nefinu.
  Þær eru náttúrulega öfundsjúkar og taugapirraðar vegna þess að Pjattrófurnar taka alla myndarlegu karlana.

  Mér finnst sorglegt að sjá að Rauðrófurnar Sóley T. og Guðbjörg K. hafa tekið út öll komment á sínum bloggum. Kannski ekki furða því þeim er algjörlega fyrirmunað að taka við gagnrýni eða nokkru sem ekki er 100% sammála þeirra skoðunum.
  Þær lifa í sínum fantasíuheimi ranghugmynda Rauðrófuhyggjunnar.

 18. 21 Pjattrófurnar 12 Jan, 2011 kl. 1:27 e.h.

  Mikið finnst okkur þetta leitt Kristín. Þú mættir að slaka svolítið á og fara að gera eitthvað skemmtilegt í stað þess að hrauna svona yfir okkur stelpurnar.

  Talandi um fantasíur og rangfærslur:

  Guðrún var að tala um BAR en ekki kaffihús og það er munur þar á. Prófaðu bara að setjast ein á BAR seint um kvöld með glasið þitt og gáðu hvað gerist -eða ekki? Í fullkomnum heimi gætu konur húkkað sér bílfar frá Frakklandi til Tyrklands klæddar í mini-pils en þannig er heimurinn ekki. Ekki okkar heimur amk.

  Þú átt engan rétt á því að segja að stelpurnar sem skrifa á Pjattrófurnar séu ekki í tengslum við raunveruleikann. Þeirra raunveruleiki er kannski ekki sá sami og þinn? Það gæti einfaldlega verið svo?

  Og þú mættir líka LESA textann betur í stað þess að sjá bara það sem þú VILT sjá og túlka þetta eins og manneskjan sé að skrifa um kaffihús og viðreynsluárásir um hábjartan dag. Hún var alls ekkert að því, þvert á móti var hún að tala um góðan stað í borginni þar sem kona getur m.a. notið næðis en þú kaust að velja eina setningu og skemmta þér við að rangtúlka hana -eða túlka með þínum hætti.

  Pjattrófur hafa reynst þér góðar og flestar lesa pistlana þína reglulega. Vala benti síðast á þjónustu þína í Parísarborg með tilheyrandi hlekk og Guðrún (Gigi) er mikill aðdáandi bloggsíðu þinnar en Margrét var sú sem hafði upphaflega samband við þig og bað þig að koma með bloggið þitt á Eyjuna á sínum tíma.

  Okkur finnst leiðinlegt að upplifa þetta viðmót – en það er víst ekki meira hægt að gera í því en að minna á máltækið Live and let live.

  Gangi þér vel.

  Kv,
  Pjattrófur.

  http://pjattrofur.eyjan.is/2010/12/16/svadilfor-pjattrofu-i-paris/

  http://pjattrofur.eyjan.is/2010/12/29/hemingway-barinn-a-ritz/

 19. 22 GH 31 Jan, 2011 kl. 8:59 f.h.

  Engar nýjar viðreynslusögur?

 20. 23 parisardaman 8 Feb, 2011 kl. 7:25 f.h.

  Ég var bara fyrst núna að taka eftir því að sían geymdi svar ykkar Pjattrófanna við þessum pirringspistli. Bið ykkur forláts á því, en hef svo sem engu við neitt að bæta. Já, minn raunveruleiki er allt annar en ykkar, það er nú einmitt eina niðurstaða þessarar hugleiðingar. Ég fer sjaldan ein á BAR núorðið, en sat til dæmis eina á BAR á Þorláksmessu í tæpa tvo tíma meðan ég beið eftir manninum mínum. Drakk hvítvín og fékk nákvæmlega óaðfinnanlega þjónustu og engar undarlegar augngotur frá neinum af þeim fjölda karlmanna sem þar voru. Sorrí stelpur, þetta er gamaldags og úrelt, ég stend og fell með því.

  Ég bað aldrei um neinn hlekk, ég er alltaf mjög ánægð með það þegar fólk bendir á mig, en ég bið ekki um neitt. Ég er með ókeypis (ÓKEYPIS, bið ekki um neitt í staðinn) auglýsingasíðu og beiðni um auglýsingu er það eina sem hefur komið út úr hlekknum, enn sem komið er, bara svo því sé nú haldið til haga.
  Ef þessi hlekkur, og sú staðreynd að ykkur þyki ég skemmtileg, setur mig í einhvers konar skuldbindingu gagnvart ykkur, bið ég ykkur bara hér með að taka hann út og hætta að lesa mig. Allt í góðu. Lifið í friði. Plís!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: