Sarpur fyrir febrúar, 2011

tengill

Mér þykir full ástæða til að tengja á þessa fínu ábendingu. Konurnar í Rauðakrossbúðinni prjóna líka mjög flotta vettlinga og sokka og selja á vægu verði. Þar er líka oft hægt að ramba á fína kjóla, leðurjakka og annað skemmtilegt stöff.

Lifið í friði.

Í La Villette í febrúar

Við fórum í La Villette um daginn og hittum á þennan skemmtilega hóp fólks sem mætir á hverjum sunnudegi og dansar saman. Öllum er velkomið að taka þátt, ég er að hugsa um að prófa einhvern tímann, en ekki daginn eftir að hafa dansað með vinkonum á einum af heitustu stöðum Parísar, Kong. Ég var ekki alveg í elementinu mínu þarna inni, bjóst eiginlega ekki við að vera hleypt inn, en það dugði að vera hluti af stórglæsilegum pæjuhóp.

Á myndbandinu sést glöggt að dóttir mín hefur brjálaðan fatasmekk meðan bróðir hennar er klassískur. Þetta eru skemmtileg börn, mjög ólík en þeim semur alveg rosalega vel og leika sér mikið saman.

Lifið í friði.

skólafrí og næsti kafli í rútínunni

Þá er skólafríi barnanna að ljúka. Tveggja vikna febrúarfrí sem auðvitað á að nýta í skíðaferð, en það hefur ekki náð inn á fjárlög heimilisins undanfarin ár. Við stefnum þó á að komast í fjöllin á næsta ári, en skíðaferðir eru langskemmtilegustu fjölskyldufríin, að mínu mati. Allir úti allan daginn, hreyfing og stuð.
Á miðvikudaginn fór öll fjölskyldan í Parísarferð. Uppi voru hugmyndir um að fara eitthvað lengra á bílnum, en svo ákváðum við að fara einföldu leiðina, tókum metró yfir á Montmartre hvar við þrömmuðum allan liðlangan daginn. Ég sagði krökkunum sögur sem þau taka inn eins og svampar. Ótrúlegt hvað þau muna allt sem maður segir þeim. Ég vinn hörðum höndum í að ala upp erfingja að litla heimilisiðnaðinum mínum, thíhí…
Við enduðum gönguferðina á að fara að leiði ömmu mannsins míns. Hún lést þegar ég gekk með Sólrúnu, sem ber því einnig nafn hennar, Pauline. Pauline var dásamleg kona, sterk og klár. Hún var orðin 95 ára, og sat í stól og var að tala við dóttur sína um Bush og 11. september, sem var þá nýliðinn. Hún sagðist óttast viðbrögð Bush og búast við að heimurinn yrði lengi að jafna sig. Með þeim orðum leið hún út af og vaknaði ekki aftur. Hún var sem sagt fullkomlega með á nótunum og það var líkt og hún hefði ákveðið að yfirgefa heiminn sem yrði nú svo leiðinlegur.

Stundum fæ ég brjálæðislega saknaðartilfinningu eftir Pauline. Alveg jafnsterka og ég fæ stundum eftir mínum eigin ömmum. Hún tók mér rosalega vel, hélt alltaf fast í hendina á mér þegar við töluðum saman. Í kirkjugarðinum um daginn fór ég ekki að gráta, en ég varð alveg rosalega þreytt og steinsofnaði þegar við komum inn til tengdamömmu sem við kíktum til á heimleiðinni. Settist í sófann og rotaðist um leið. Ég held að það hafi verið einhvers konar sorgarviðbrögð. Sorgin er svo furðulegt fyrirbrigði. Sérstaklega þegar maður saknar fólks sem dó satt lífdaga, það er náttúrulega allt annað að þurfa að sætta sig við að missa fólk sem hefði getað lifað svo miklu lengur, en samt getur það líka verið svo sárt, stundum, að muna að maður fær aldrei að tala aftur við manneskjuna. Jæjah, ég er komin út á hálar brautir og finn akkúrat núna hvernig ég hálflyppast niður. En það er ekki í boði.
Við ætlum að nýta síðustu frídagana vel. Pompidou í dag, leikhús á morgun. Afi á sunnudag. Risaprógramm fram að mánudeginum, þegar rútínan hefst á ný. Ah, rútínan! Er hún ekki það besta af öllu? Alla vega svona þegar maður fær að brjóta hana aðeins upp. Og þessi rútína verður spennandi. Glænýtt verkefni. Öll mín plön hafa breyst. Í staðinn fyrir að þýða bók um atvinnuleysi hef ég ákveðið að taka að mér það ögrandi verkefni að þýða skáldsögu. Meira um það síðar.

Lifið í friði.

skófla reka spaði páll

Ég splæsti í þessar líka stórglæsilegu stunguskóflur í morgun. Eina fyrir fullorðna (mig) og eina fyrir börnin. Þau fengu líka haka og hafa nú lofað að taka fullan þátt í vorverkunum í garðinum, sem hefjast einmitt eftir tíu mínútur, þegar Kári er búinn með leyfilegan tíma í tölvuleik dagsins.
Drullugallar og sólkrem, skóflur og prins póló. Mikið óskaplega vona ég að mér takist að gera þennan garð þannig að ég geti meira og minna verið þar í vor. Það veltur aðallega á því hvort viljastyrkurinn nær að vera minni almennu leti yfirsterkari. Fylgist spennt með.

Lifið í friði.

Það er alveg magnað að fylgjast með samræðum um mál málanna á feisbúkk. Næstum allir virðast hafa myndað sér skoðun á málinu og já-hópurinn barmar sér hátt og snjallt yfir því vonlausa ástandi að þurfa að díla við hið ógurlega vopn nei-hópsins, þjóðerniskenndarinnar. Hún sé byggð á tilfinningahita og skynsemin gagnist ekki gegn henni. Um leið og maður vogar sér að birta tengil sem sýnir að slit Ekvador og Argentínu frá alþjóðlegum fjármálamarkaði hafi gengið vel og fólkið sé ánægt með ástandið í dag, rís þetta skynsemishyggjufólk upp með látum og tilfinningahitinn leynir sér ekki.

Ég hef ekki hugmynd um hvar ég stend í þessu máli. Það er ekki fallegt að neita að borga skuldir sínar, en ég lít samt einhvern veginn ekki svo á að íslenska þjóðin „eigi“ þessar skuldir. Ég bara get það ekki. Jú, ég veit að Alþingi samþykkti ríkisábyrgð og lýðurinn gerði ekki byltingu. Kannski má því segja að þjóðin eigi þessar skuldir vegna þess að hún segir aldrei neitt og kaus líka endalaust yfir sig sama FLokkinn alveg fram yfir hrun. Þó að fullt af fólki væri að hamast við að benda á sukkið og svínaríið sem sá FLokkur stóð fyrir.
Ég get ekki sagt múkk um það hvort betra sé að fara dómstólaleiðina og mér finnst dásamlegt krípí að sjá fólk staðfast í trú á að það sé „rétta leiðin“. En mér finnst allt í lagi að huga að því hvort sú leið gæti verið betri. Í rólegheitum.
Því myndi ég vilja sjá ríkisstjórnina ráða til sín hóp lögfræðinga sem gætu lagt kalt mat á möguleikana í stöðunni. Ég nenni ómögulega að eyða orku í að lesa trúarofsayfirlýsingar frá já eða nei fólki. Ég vil bara fá að sjá kalt mat á þessu öllu saman. Sett fram af gersamlega óháðum löglærðum einstaklingum. Það gefur auga leið að þeir þurfa að vera af erlendu bergi brotnir, annað væri aldrei ásættanlegt. Getum við unnið málið? Er smuga að dómari myndi álykta svo að íslenska þjóðin sé saklaus af þessu ráni? Hafi verið dregin á asnaeyrum en eigi ekki að gjalda þess? Getur það verið?
Skynsama já-fólkið segir að þetta snúist alls ekki um hvort við eigum að borga eða ekki. Bara um það hvernig við eigum að borga. Kannski er það svo. En kannski ekki. Eða hvað?

Vá, ég var næstum búin að missa mig í að skrifa um Icesave. Hjúkk að ég slapp!

Lifið í friði.

hæli

Mér líður í alvörunni eins og ég hafi sloppið út af einhverju hæli. Dálítið fríkað. Veit samt ekkert hvort ég verð duglegri að blogga eða skemmtilegri. En mér finnst alla vega hrikalega kósí að kíkja hingað inn. Svo er þessi mynd af Sólrúnu og kisanum sem er akkúrat núna stolið úr mér hvað heitir, alveg hreint svona líka dásamlega þægileg að horfa á.
Ahhh. Langur dagur loksins búinn. Farin að sofa, enda í raun löngu sofnuð.

Lifið í friði.

Aftur heim

Ég er komin aftur heim, eftir tæpt eitt og hálft ár á Eyjunni. Þar hefur verið skipt um eigendur og áherslurnar stemma engan veginn við kósíbloggið mitt.
Ég frábið mér „I told you so“ frá vinum mínum sem voru á móti því að ég færi þangað yfir. Ég lít á þessa reynslu sem ákveðinn kafla sem ég þurfti að fara í gegnum í lífinu, og sé ekki eftir neinu. Ekki frekar en að ég sé eftir að hafa búið með hasshaus í mörg ár. Smá drami í þessu, en þið skiljið hvað ég á við. Eða ekki. Skiptir engu.

Mér tókst að flytja allt ruglið af Eyjunni hingað inn. Sumar færslurnar eru tvöfaldar, ég þarf að hreinsa það allt saman út, sem og að taka til í tenglasafninu. Eilíf vinna að vera bloggari. En ég get ekki hætt. Alla vega ekki alveg strax.
Ég hitti konu um daginn sem játaði að vera leynilesandi til margra ára. Mér finnst alltaf mjög gaman þegar fólk gefur sig svona fram, en um leið fyllist ég pínu skelfingu og finn fyrir því hvað það er mikill exhibisjónismi í þessu bloggstússi. Líklega er ég perri. En ég lofa því að þið sem lesið mig, þið þekkið mig ekki alveg út og inn. Ég leyni ykkur ýmsu, og bloggsjálfið er alltaf hliðarsjálf frá raunheimamanneskjunni.

Ég neyðist til að viðurkenna að það kom sér mjög vel að eiga PC-tölvu. Mér tókst ekki að framkvæma flutningana með Makkanum, en það gekk algerlega smurt í PC. Eftir að mér tókst loksins að opna hana, en ég hamaðist á hjörunum í áreiðanlega 3 langar mínútur og skildi ekkert í því hvaða takka ætti að ýta á eða hvað ætti að gera til að opna hana, bölvaði PC og Windows og var bálill þar til ég loksins áttaði mig.

En nú er ég farin að gera alls konar hluti í raunheimum, orðin allt of sein eins og venjulega. Skjáumst!

Lifið í friði.

kjaftstopp? ég?

Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað rosalega skemmtilegt þegar ég rakst á athugasemd í hinni alræmdu síu sem Eyjan hefur á athugasemdum. Athugasemd fer í síu ef það er tengill í henni. Ég er mjög ódugleg að fylgjast með því, og þess vegna hafði löng athugasemd frá 12. janúar farið gersamlega framhjá mér. Hún er nú komin inn á sinn stað, sem og örstutt svar frá mér.

Og nú er ég bara algerlega blokkeruð og langar ekki að skrifa neitt skemmtilegt. Svona getur farið stundum. Ég sagði bara það sem mér finnst, en einhverjum öðrum finnst eitthvað allt annað. Og reynir að nota það gegn mér að ég standi í þakkarskuld við hann. Það finnst mér svo óþægilegt að ég er alveg kjaftstopp.
Ég er nefnilega sjálf svo vön því að gera bara alls konar hluti fyrir fólk án þess að finnast það nokkuð tiltökumál. Ef ég set inn tengil á eitthvað fyrirtæki eða annað skemmtilegt, ætlast ég ekki til þess að fá neitt til baka. Hvað þá að mér finnist ég þar með hafa tryggt mér einhvers konar „liðsmann“ með því. Þessi hugsunarháttur er mér hreinlega framandi, ég bara næ þessu ekki.

Á www.parisardaman.com er smáauglýsingasíða. Hún er algerlega ókeypis. Fólk sendir mér beiðni um auglýsingu og ég kem henni á framfæri á póstlistann, sem er orðinn ansi langur listi samsettur af Íslendingum sem búa, eða hafa búið, í Frakklandi sem og frönskum Íslandsvinum. Ég þýði allar auglýsingarnar yfir á frönsku áður en ég sendi þær út, því það kunna ekki allir viðtakendur íslensku. Þetta getur stundum tekið mig ansi góða stund, ég hef aldrei tekið það saman, en það hefur komið fyrir að þetta hafi tekið tvær klukkustundir, ef mikið hefur borist af auglýsingum í einu. Ég er reglulega spurð hvers vegna í ósköpunum ég sé að þessu, fyrir ekki neitt. Ég get ekkert útskýrt það, ég geri þetta vegna þess að enginn annar gerir það. Mér finnst ég ekki geta hætt og ég nenni ómögulega að fara að koma upp einhvers konar greiðslukerfi fyrir þetta.
Ég hef jafnvel fundið fyrir því að fólk haldi í alvörunni að ég sé að leyna einhverjum ábata af þessu. Eini mögulegi ábatinn er sá að fólk tali vel um mig og það skili sér í viðskiptavinum í gönguferðir um París. Ég fæ aldrei ókeypis að borða á veitingastöðum, ég fæ ekki íbúð fyrir mömmu og pabba þegar þau koma, ég fæ ekkert fyrir þetta. Og það truflar mig ekki neitt.
Vegna þess að ef ég fer að fá eitthvað fyrir þetta verð ég komin í leiðinda markaðsflækju-aðstöðu og tilhugsunina um það þoli ég mjög illa. Ég er bara mjög sátt við að fá að gera góðverk, það veit hver heilvita maður að sælla er að gefa en að þiggja, er það ekki?

Þess vegna er ég kjaftstopp og blokkeruð eftir að sjá þessa athugasemd, þar sem beinlínis er sagt að ég eigi að þegja út af tengli (og líka vegna þess hver bauð mér hingað inn, en þann flöt nenni ég ekki að hugsa til enda núna).
Ef ég verð kjaftstopp mjög lengi, mun ég íhuga hvað hægt sé að gera, hvort ég þurfi að flytja mig annað, í burtu frá markaðshyggjukerfisþenkjandi týpum. Við sjáum hvað setur.

En ég nota tækifærið og bendi lesendum á að nú er lag að byrja að undirbúa sumarfríið. Í gegnum Parísardömuna hefur slatti af fólki náð að skipta á íbúðum og bílum og átt þannig kost á að vera lengur í útlandinu, en þegar verið er að borga fyrir hótel. Mæli með því!

Lifið í friði.

viðreynsla í hina áttina

Vinkona bað mig um viðreynslusögu í hina áttina. Það vakti mig til umhugsunar og ég er í raun algerlega kjaftstopp. Ég get ómögulega munað eftir því að hafa sýnt einhverja sérlega glæsilega frammistöðu í daðri.
Ég hef mjög sjaldan verið einhleyp í almennilega langan tíma. Það eru þarna eitt, tvö ár einhvers staðar, sem ég eyddi á Íslandi og naut þess að vera einhleypur ríkisstarfsmaður á skítalaunum, sífellt að nurla til að ná endum saman. Það batnaði ekki þegar ég sagði upp og fór í Háskólann og vann í sjoppu á kvöldin og um helgar í staðinn fyrir að fara á námslán.
Ég hef nú samt alltaf verið einhleyp á milli þess sem ég hef átt kærasta og einhvern veginn gerist það að daðrið hefst og endar stundum í einhvers konar ævintýri, misvel lukkuðu.
En í alvöru talað þá finnst mér daðrið bara hafa verið mjög náttúrulegt og algerlega „óvart“ einhvern veginn. Ég man alla vega ekki eftir neinu svona stönti eins og maðurinn í síðustu færslu framkvæmdi (ég býst alls ekki við að vera sú eina sem hann hefur notað þetta á).

Ef mér dettur eitthvað sniðugt í hug, læt ég ykkur vita. Þangað til, verð ég bara að lýsa því yfir hér með að ég er annað hvort náttúrutalent og þarf ekki á einhverjum frösum að halda, eða ég er mjög leim daðrari. Og þá er ég að tala um daður við einhvern sem maður hefur áhuga á, því ég er þess fullviss að ég er náttúrutalent þegar kemur að þessu daglega daðri við fólkið sem maður þarf að hafa samskipti við, ég er þrælflink í að snúa uppásnúnum Frökkum á mitt band og fá þá til að gera alls konar hluti fyrir mig þvert á einhverjar reglur sem þeir hafa sett sér. Nú síðast á föstudag sannfærði ég t.d. veitingahúsaeiganda að taka á móti stórum hóp í kvöldverð á miðjum háannatíma, þvert á reglur staðarins. Ég beitti alls konar bellibrögðum, aðallega skjalli, og það snarvirkaði.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha