Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað rosalega skemmtilegt þegar ég rakst á athugasemd í hinni alræmdu síu sem Eyjan hefur á athugasemdum. Athugasemd fer í síu ef það er tengill í henni. Ég er mjög ódugleg að fylgjast með því, og þess vegna hafði löng athugasemd frá 12. janúar farið gersamlega framhjá mér. Hún er nú komin inn á sinn stað, sem og örstutt svar frá mér.
Og nú er ég bara algerlega blokkeruð og langar ekki að skrifa neitt skemmtilegt. Svona getur farið stundum. Ég sagði bara það sem mér finnst, en einhverjum öðrum finnst eitthvað allt annað. Og reynir að nota það gegn mér að ég standi í þakkarskuld við hann. Það finnst mér svo óþægilegt að ég er alveg kjaftstopp.
Ég er nefnilega sjálf svo vön því að gera bara alls konar hluti fyrir fólk án þess að finnast það nokkuð tiltökumál. Ef ég set inn tengil á eitthvað fyrirtæki eða annað skemmtilegt, ætlast ég ekki til þess að fá neitt til baka. Hvað þá að mér finnist ég þar með hafa tryggt mér einhvers konar „liðsmann“ með því. Þessi hugsunarháttur er mér hreinlega framandi, ég bara næ þessu ekki.
Á www.parisardaman.com er smáauglýsingasíða. Hún er algerlega ókeypis. Fólk sendir mér beiðni um auglýsingu og ég kem henni á framfæri á póstlistann, sem er orðinn ansi langur listi samsettur af Íslendingum sem búa, eða hafa búið, í Frakklandi sem og frönskum Íslandsvinum. Ég þýði allar auglýsingarnar yfir á frönsku áður en ég sendi þær út, því það kunna ekki allir viðtakendur íslensku. Þetta getur stundum tekið mig ansi góða stund, ég hef aldrei tekið það saman, en það hefur komið fyrir að þetta hafi tekið tvær klukkustundir, ef mikið hefur borist af auglýsingum í einu. Ég er reglulega spurð hvers vegna í ósköpunum ég sé að þessu, fyrir ekki neitt. Ég get ekkert útskýrt það, ég geri þetta vegna þess að enginn annar gerir það. Mér finnst ég ekki geta hætt og ég nenni ómögulega að fara að koma upp einhvers konar greiðslukerfi fyrir þetta.
Ég hef jafnvel fundið fyrir því að fólk haldi í alvörunni að ég sé að leyna einhverjum ábata af þessu. Eini mögulegi ábatinn er sá að fólk tali vel um mig og það skili sér í viðskiptavinum í gönguferðir um París. Ég fæ aldrei ókeypis að borða á veitingastöðum, ég fæ ekki íbúð fyrir mömmu og pabba þegar þau koma, ég fæ ekkert fyrir þetta. Og það truflar mig ekki neitt.
Vegna þess að ef ég fer að fá eitthvað fyrir þetta verð ég komin í leiðinda markaðsflækju-aðstöðu og tilhugsunina um það þoli ég mjög illa. Ég er bara mjög sátt við að fá að gera góðverk, það veit hver heilvita maður að sælla er að gefa en að þiggja, er það ekki?
Þess vegna er ég kjaftstopp og blokkeruð eftir að sjá þessa athugasemd, þar sem beinlínis er sagt að ég eigi að þegja út af tengli (og líka vegna þess hver bauð mér hingað inn, en þann flöt nenni ég ekki að hugsa til enda núna).
Ef ég verð kjaftstopp mjög lengi, mun ég íhuga hvað hægt sé að gera, hvort ég þurfi að flytja mig annað, í burtu frá markaðshyggjukerfisþenkjandi týpum. Við sjáum hvað setur.
En ég nota tækifærið og bendi lesendum á að nú er lag að byrja að undirbúa sumarfríið. Í gegnum Parísardömuna hefur slatti af fólki náð að skipta á íbúðum og bílum og átt þannig kost á að vera lengur í útlandinu, en þegar verið er að borga fyrir hótel. Mæli með því!
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir