kjaftstopp? ég?

Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað rosalega skemmtilegt þegar ég rakst á athugasemd í hinni alræmdu síu sem Eyjan hefur á athugasemdum. Athugasemd fer í síu ef það er tengill í henni. Ég er mjög ódugleg að fylgjast með því, og þess vegna hafði löng athugasemd frá 12. janúar farið gersamlega framhjá mér. Hún er nú komin inn á sinn stað, sem og örstutt svar frá mér.

Og nú er ég bara algerlega blokkeruð og langar ekki að skrifa neitt skemmtilegt. Svona getur farið stundum. Ég sagði bara það sem mér finnst, en einhverjum öðrum finnst eitthvað allt annað. Og reynir að nota það gegn mér að ég standi í þakkarskuld við hann. Það finnst mér svo óþægilegt að ég er alveg kjaftstopp.
Ég er nefnilega sjálf svo vön því að gera bara alls konar hluti fyrir fólk án þess að finnast það nokkuð tiltökumál. Ef ég set inn tengil á eitthvað fyrirtæki eða annað skemmtilegt, ætlast ég ekki til þess að fá neitt til baka. Hvað þá að mér finnist ég þar með hafa tryggt mér einhvers konar „liðsmann“ með því. Þessi hugsunarháttur er mér hreinlega framandi, ég bara næ þessu ekki.

Á www.parisardaman.com er smáauglýsingasíða. Hún er algerlega ókeypis. Fólk sendir mér beiðni um auglýsingu og ég kem henni á framfæri á póstlistann, sem er orðinn ansi langur listi samsettur af Íslendingum sem búa, eða hafa búið, í Frakklandi sem og frönskum Íslandsvinum. Ég þýði allar auglýsingarnar yfir á frönsku áður en ég sendi þær út, því það kunna ekki allir viðtakendur íslensku. Þetta getur stundum tekið mig ansi góða stund, ég hef aldrei tekið það saman, en það hefur komið fyrir að þetta hafi tekið tvær klukkustundir, ef mikið hefur borist af auglýsingum í einu. Ég er reglulega spurð hvers vegna í ósköpunum ég sé að þessu, fyrir ekki neitt. Ég get ekkert útskýrt það, ég geri þetta vegna þess að enginn annar gerir það. Mér finnst ég ekki geta hætt og ég nenni ómögulega að fara að koma upp einhvers konar greiðslukerfi fyrir þetta.
Ég hef jafnvel fundið fyrir því að fólk haldi í alvörunni að ég sé að leyna einhverjum ábata af þessu. Eini mögulegi ábatinn er sá að fólk tali vel um mig og það skili sér í viðskiptavinum í gönguferðir um París. Ég fæ aldrei ókeypis að borða á veitingastöðum, ég fæ ekki íbúð fyrir mömmu og pabba þegar þau koma, ég fæ ekkert fyrir þetta. Og það truflar mig ekki neitt.
Vegna þess að ef ég fer að fá eitthvað fyrir þetta verð ég komin í leiðinda markaðsflækju-aðstöðu og tilhugsunina um það þoli ég mjög illa. Ég er bara mjög sátt við að fá að gera góðverk, það veit hver heilvita maður að sælla er að gefa en að þiggja, er það ekki?

Þess vegna er ég kjaftstopp og blokkeruð eftir að sjá þessa athugasemd, þar sem beinlínis er sagt að ég eigi að þegja út af tengli (og líka vegna þess hver bauð mér hingað inn, en þann flöt nenni ég ekki að hugsa til enda núna).
Ef ég verð kjaftstopp mjög lengi, mun ég íhuga hvað hægt sé að gera, hvort ég þurfi að flytja mig annað, í burtu frá markaðshyggjukerfisþenkjandi týpum. Við sjáum hvað setur.

En ég nota tækifærið og bendi lesendum á að nú er lag að byrja að undirbúa sumarfríið. Í gegnum Parísardömuna hefur slatti af fólki náð að skipta á íbúðum og bílum og átt þannig kost á að vera lengur í útlandinu, en þegar verið er að borga fyrir hótel. Mæli með því!

Lifið í friði.

17 Responses to “kjaftstopp? ég?”


 1. 2 Herta Kristjánsdóttir 8 Feb, 2011 kl. 9:14 f.h.

  Hemingway barinn er líka eini barinn í París þar sem konur geta komið einar og drukkið sinn drykk og notið friðhelgi. Ósanngjarnt en satt þá er menningin hér sú að sitji kona ein á bar er hún álitin vera til í hvað sem er…

  Vá hvað Gigi hefur verið dugleg, farið á alla bari í París..sjúkk, hún hlýtur að hafa innbyrt mikið vín og upplifað mikla kvöl… samúð mín er öll með henni….

 2. 3 ella 8 Feb, 2011 kl. 11:11 f.h.

  Ég er afar hamingjusöm með að þú skulir hafa sett hjá þér tengla á bæði bloggin mín, ekki þér að kenna að fáir skuli líta inn á gamladagabloggið enn sem komið er :). Ég lofa samt að láta þig fá það óþvegið ef þú skyldir einhvern tíma ergja mig með skrifum þínum. Er bara alls ekki bjartsýn á að það verði. (Hafið þið velt því fyrir ykkur hvað skuli er skrýtið orð?)

 3. 4 Eyja 8 Feb, 2011 kl. 11:20 f.h.

  Mikið ferlega væri heimurinn ömurlegur ef ekki væri til fólk sem gerði alls konar hluti fyrir aðra, svona af því bara og af því að það langaði til, án þess að ætlast til einhvers í staðinn.

 4. 5 HarpaJ 8 Feb, 2011 kl. 11:52 f.h.

  Einmitt Eyja.

  Blessuð láttu þessar húmorslausu pjattrófur ekki hafa áhrif á þig Kristín! Ummæli þeirra dæma sig sjálf.

 5. 6 Frú Sigurbjörg 8 Feb, 2011 kl. 12:03 e.h.

  Vel má vera að e-r ein hafi bent á þig sem tilvalinn Eyjubloggara, en sú hin sama hefur vart stjórnað því ein; þú ert varla Eyju-skuldbundin neinum.
  Haltu þínu striki Kristín, kjaftstopp fer þér ekki : )

 6. 8 Gísli Ásgeirsson 8 Feb, 2011 kl. 4:33 e.h.

  Hve margir barir eru í París? Eru til tölur?

 7. 9 parisardaman 8 Feb, 2011 kl. 4:56 e.h.

  Nei, ég finn engar tölur, en fann eina frá 2007: 4.741 barir í Frakklandi.
  Ég er engan veginn að hnýta í Gigi fyrir alhæfinguna, heldur bara hvað þetta er skakkt sem hún er að halda fram…

 8. 10 Elísabet 8 Feb, 2011 kl. 8:43 e.h.

  Það er nú ekki eins og maður skuldi einhverjum eitthvað fyrir að hafa verið boðið að skrifa á Eyjunni, sér er nú hver heiðurinn. Var verið að gera þér sérstakan greiða (for you my friend, a special price) með því að biðja þig um að skrifa hér? Eða, vildu þeir hjá Eyjunni fá skemmtilegan pistlahöfund sem skrifar fínt efni fyrir ekki neitt?

  Þú veist betur en að hlusta á svona bull, Kristín.

 9. 11 Arnbjörg 8 Feb, 2011 kl. 9:43 e.h.

  Haltu þínu striki Kristín. Les alltaf bloggið þitt þó að ég þekki þig ekki neitt (mæður okkar eru reyndar gamlar vinkonur)og finnst það vel skrifað og skemmtilegt.

 10. 12 Glúmur 9 Feb, 2011 kl. 10:19 e.h.

  http://eyjan.is/2011/02/09/vefpressan-eignast-allt-hlutafe-i-utgafufelagi-eyjunnar/

  Mun reyna að fylgjast með hvert Daman fer – nema hún verði kyrr hjá Birni Inga?

 11. 13 parisardaman 9 Feb, 2011 kl. 10:28 e.h.

  Takk allir fyrir stuðninginn, það yljar egóinu alveg rosalega vel:)
  Glúmur, ég var einmitt að fá þessar fréttir (í gegnum feisbúkk, við erum ekki látin vita af neinu hér, bloggaraómyndirnar). Ég veit sannast sagna ekki hvað ég á að hugsa. Bíð aðeins…

 12. 14 hildigunnur 9 Feb, 2011 kl. 11:30 e.h.

  velkomin aftur á wordpress…

 13. 17 aagnarsson 11 Feb, 2011 kl. 8:52 e.h.

  Tek undir með Eyju, sem betur fer eru ekki allir eins, Parísardaman er fín,
  á Franskan mann, það hlýtur að vera svo spes að tala við hann.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: