skólafrí og næsti kafli í rútínunni

Þá er skólafríi barnanna að ljúka. Tveggja vikna febrúarfrí sem auðvitað á að nýta í skíðaferð, en það hefur ekki náð inn á fjárlög heimilisins undanfarin ár. Við stefnum þó á að komast í fjöllin á næsta ári, en skíðaferðir eru langskemmtilegustu fjölskyldufríin, að mínu mati. Allir úti allan daginn, hreyfing og stuð.
Á miðvikudaginn fór öll fjölskyldan í Parísarferð. Uppi voru hugmyndir um að fara eitthvað lengra á bílnum, en svo ákváðum við að fara einföldu leiðina, tókum metró yfir á Montmartre hvar við þrömmuðum allan liðlangan daginn. Ég sagði krökkunum sögur sem þau taka inn eins og svampar. Ótrúlegt hvað þau muna allt sem maður segir þeim. Ég vinn hörðum höndum í að ala upp erfingja að litla heimilisiðnaðinum mínum, thíhí…
Við enduðum gönguferðina á að fara að leiði ömmu mannsins míns. Hún lést þegar ég gekk með Sólrúnu, sem ber því einnig nafn hennar, Pauline. Pauline var dásamleg kona, sterk og klár. Hún var orðin 95 ára, og sat í stól og var að tala við dóttur sína um Bush og 11. september, sem var þá nýliðinn. Hún sagðist óttast viðbrögð Bush og búast við að heimurinn yrði lengi að jafna sig. Með þeim orðum leið hún út af og vaknaði ekki aftur. Hún var sem sagt fullkomlega með á nótunum og það var líkt og hún hefði ákveðið að yfirgefa heiminn sem yrði nú svo leiðinlegur.

Stundum fæ ég brjálæðislega saknaðartilfinningu eftir Pauline. Alveg jafnsterka og ég fæ stundum eftir mínum eigin ömmum. Hún tók mér rosalega vel, hélt alltaf fast í hendina á mér þegar við töluðum saman. Í kirkjugarðinum um daginn fór ég ekki að gráta, en ég varð alveg rosalega þreytt og steinsofnaði þegar við komum inn til tengdamömmu sem við kíktum til á heimleiðinni. Settist í sófann og rotaðist um leið. Ég held að það hafi verið einhvers konar sorgarviðbrögð. Sorgin er svo furðulegt fyrirbrigði. Sérstaklega þegar maður saknar fólks sem dó satt lífdaga, það er náttúrulega allt annað að þurfa að sætta sig við að missa fólk sem hefði getað lifað svo miklu lengur, en samt getur það líka verið svo sárt, stundum, að muna að maður fær aldrei að tala aftur við manneskjuna. Jæjah, ég er komin út á hálar brautir og finn akkúrat núna hvernig ég hálflyppast niður. En það er ekki í boði.
Við ætlum að nýta síðustu frídagana vel. Pompidou í dag, leikhús á morgun. Afi á sunnudag. Risaprógramm fram að mánudeginum, þegar rútínan hefst á ný. Ah, rútínan! Er hún ekki það besta af öllu? Alla vega svona þegar maður fær að brjóta hana aðeins upp. Og þessi rútína verður spennandi. Glænýtt verkefni. Öll mín plön hafa breyst. Í staðinn fyrir að þýða bók um atvinnuleysi hef ég ákveðið að taka að mér það ögrandi verkefni að þýða skáldsögu. Meira um það síðar.

Lifið í friði.

9 Responses to “skólafrí og næsti kafli í rútínunni”


  1. 1 Valur 25 Feb, 2011 kl. 11:56 f.h.

    Velkomin heim .. og sjá Eyjan sekkur af völdum þeirra er eiga hana núna.

  2. 2 parisardaman 25 Feb, 2011 kl. 12:50 e.h.

    Já, það má með sanni segja, Valur.

  3. 3 GlG 25 Feb, 2011 kl. 3:40 e.h.

    Okkur reynist Daman drjúg
    dauðann um þá brallar
    og Pálínu og Pommpídú
    pistill dagsins fjallar

  4. 4 GlG 25 Feb, 2011 kl. 3:46 e.h.

    Valur:

    Ummælin hér okkur segja
    að nú tæmist svið
    og þetta verði eyðieyja
    sem enginn lítur við

  5. 5 ella 26 Feb, 2011 kl. 11:02 f.h.

    Já tilfinningar eru stórmerkilegt fyrirbæri og geta lengi komið manni á óvart. Til dæmis þegar gamla fólkið fer. Þegar pabbi dó samgladdist ég honum svo innilega saman við mína eigin sorg sem var eiginlega samt nær eingöngu söknuður. Snúið dæmi.

  6. 6 krummi 26 Feb, 2011 kl. 9:08 e.h.

    Ó, hvað það er gaman að þú skulir ætla að þýða bók. Ég vona bara að það sé ekki neitt eftir Önnu Gavalda … ég reyndi einusinni að lesa bók eftir hana, en gafst upp (hún var reyndar þýdd yfir á nýnorsku, svo það gæti hafa skipt máli).

  7. 7 parisardaman 27 Feb, 2011 kl. 11:30 f.h.

    Nei, þetta er bók eftir kall. Ég hef aldrei lagt í að lesa Önnu Gavalda, og er í raun eiginlega hætt að lesa vinsælar franskar bækur. Sem er að vissu leyti kolröng afstaða, en ég ber fyrir mig tímaleysi. Ég hafði óljósa hugmynd um þennan höfund, en hafði aldrei lesið neitt eftir hann. Á dagskránni er ferð á bókasafnið til að ná í allar vinsælu bækurnar sem hann hefur skrifað. Þessi sem ég á að þýða var í útláni í öllum söfnum Parísar, þó hún sé til í fjölmörgum eintökum á hverju safni.

  8. 8 parisardaman 27 Feb, 2011 kl. 11:34 f.h.

    Já, Ella. Ég var einmitt að díla við slíka sorg núna um áramótin. Mjög snúið. Gott að hún fékk að fara því sjúkdómurinn er svo hræðilegur, en ferlega erfitt að sætta sig við að hún hafi fengið þennan sjúkdóm…

  9. 9 Frú Sigurbjörg 27 Feb, 2011 kl. 12:19 e.h.

    Ég furða mig stundum á því hversu sterkt ég sakna afa. 20 árum eftir dauða hans langar mig enn að geta talað við hann og fá gott faðmlag. Söknuðurinn eftir látnum ástvin hverfur aldrei. Þýdd skáldsaga kannski ekki heldur, hlakka til að vita meira um það verkefni.


Skildu eftir svar við parisardaman Hætta við svar




Nýlegar athugasemdir

hildigunnur um Ósýnileiki
showerhead Percolato… um
parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó