Egill Helgason, þú ert drekinn

Fyrirsögnin er vísun í eina af þessum ódauðlegu senum úr hinu ágæta sjónvarpsefni, Fóstbræðrum. Hún vísar á engan hátt í raunveruleikann, Egill Helgason er ekki dreki, og það var enginn að reyna að reka hann með afleitum árangri.

Egill Helgason svaraði bréfinu frá okkur á bloggi sínu mjög snemma í gær. Mun fyrr en ég átti von á, satt að segja. Svarið er mjög áhugavert, þið getið lesið það hér, en varúð, þetta er Eyjutengill. Hann ver sig meðal annars með því að skökk kynjahlutföll séu alls staðar. Eldgamalt bragð í samræðunni um jafnrétti, kallast algerlega á við að benda femínistum á að tala frekar um umskornar konur eða fjölkvæni, þegar þær reyna að tala um launamisrétti eða annað sem betur má fara.
Hin furðulegu ummæli um að Gerður Kristný hafi verið tekin fyrir í þættinum, eru varla svaraverð. Næstum hægt að túlka þetta sem einhvers konar hótun, en ég ætla nú ekki að gerast svo gróf. Þegar hann spyrðir henni svo á einhvern annarlegan hátt saman við eiginmanninn, er ekki annað hægt en að hlæja. Á hvaða öld lifir Egill Helgason? Er hann enn á 19. öld, þar sem konan hafði opinberlega einfaldlega bara skoðanir eiginmannsins? Úff …

Það er í raun ekki fyrr en í athugsemd undir svarinu sem endanleg túlkun hans kemur fram: Egill Helgason kemst að þeirri snarfurðulegu niðurstöðu að við séum að krefjast brottreksturs hans. Ég var alveg stúmm þegar ég las það, eftir að hafa verið meira svona bara pirruð/þreytt á því sem á undan fór í svarinu. En ég ætla að reyna að greina niður hvað það er sem fær Egil Helgason til að túlka bréf okkar þannig að við séum að krefjast brottrekstrar hans. Ég er með tvær hugmyndir:

1. Egill Helgason er að beita kænskubragði. Hann ýkir upp efni bréfsins, til að leiða lesendur frá hinu sanna inntaki og nær um leið að koma einhvers konar ofstopastimpli á hópinn sem skrifar undir.

2. Egill Helgason er of meðvitaður um að vissulega hljóti margir að öfunda hann af því að stjórna tveimur stórum og mikilvægum þáttum í íslenska ríkissjónvarpinu. Þar sem hann er of meðvitaður, er hann orðinn dálítið vænisjúkur. Hann tekur því allri gagnrýni sem beinni (og persónulegri?) árás, sannfærður um að verið sé að reyna að bola honum burt. Egill er kannski líka sannfærður um að einhverjir bókmenntafræðinganna á listanum eigi sér þá ósk heitasta að taka sæti hans í Kiljunni?
2bis. Egill las ekki bréfið. Hann las fyrirsögnina og þar sem hann er dálítið mikið hræddur um að allir vilji láta reka hann, ákvað hann að bréfið fjallaði um það.

Ég þekki ekki alveg alla sem skrifa undir bréfið með mér, en ég get fullvissað ykkur um að bæði ég, og þau sem ég þekki, eru svona frekar hreinskiptið fólk sem fer sjaldan í kringum hlutina eins og köttur í kringum heitan graut. Ef við hefðum viljað krefjast brottrekstrar Egils Helgasonar, hefðum við hreinlega skrifað það í bréfið. Þá hefði staðið einhvers staðar: „Og krefjumst við því umsvifalaust brottrekstrar Egils Helgasonar“ eða „Við krefjumst því að Agli Helgasyni verði vikið úr starfi“ eða … Það eru óteljandi leiðir til að skrifa kröfu um brottrekstur. Við vönduðum okkur töluvert við að skrifa bréfið. Eitt okkar gerði grunninn og svo fóru heilmargir tölvupóstar á milli okkar. Á meðal þess sem var breytt, var að stundum þótti orðalagið of harkalegt, og við vildum alls ekki vera með einhvern hæðnistón í því. Einn morguninn taldi ég bréfin í inboxinu mínu. Þau voru þá 53. Ég get lofað því, að aldrei nokkurn tímann var það viðrað að krefjast brottreksturs Egils Helgasonar. Aldrei svo mikið sem látið að því liggja, að hann ætti bara að fara.

Vinur er sá sem til vamms segir. Inntakið í varnarræðu Egils Helgasonar er að Egill ráði þessu ekki, því svona sé þetta bara. Þar er Egill Helgason á villigötum, því hann getur bara alveg unnið vinnuna sína og farið að lögum, jafnvel þó hann þurfi kannski stundum að hafa dálítið fyrir því. Sjáið til dæmis þessa frásögn hér. Þarna er markvisst farið eftir jafnréttisstefnu, en það er nákvæmlega það eina sem við erum að biðja um með bréfi okkar. Að farið sé að lögum og unnið samkvæmt jafnréttisstefnu RÚV. Öll önnur túlkun, er rangtúlkun.

Ef Egill Helgason stendur nógu lengi og galar það að ekki sé hægt að fara að lögum, það sé bara ekki hægt, þá kannski, já kannski, verður bara hreinlega kominn tími á að krefjast þess að hann segi starfi sínu lausu. En ég er ekki að krefjast þess í dag. Né nokkurt undirritaðra. Það eina sem við biðjum um, er að jafnréttis sé gætt í vali á viðmælendum og umfjöllunum í Kiljunni.

Lifið í friði.

15 Responses to “Egill Helgason, þú ert drekinn”


 1. 1 gg 19 Mar, 2011 kl. 12:23 e.h.

  þetta hefði ég viljað skrifa

 2. 2 Harpa Jónsdóttir 19 Mar, 2011 kl. 1:33 e.h.

  Nákvæmlega.
  Og takk fyrir vísunina í pistilinn um vídeómyndirnar! Hann er líka mjög góður.

 3. 3 baun 19 Mar, 2011 kl. 2:51 e.h.

  Algerlega sammála Parísardömunni, eins og svo oft áður.

 4. 4 Egill 19 Mar, 2011 kl. 3:54 e.h.

  Ef Kristján B. Jónasson gefur út 14 bækur eftir karla og 2 bækur eftir konur (ég held reyndar að hlutföllin séu verri), og ég fjalla um þær (sem ég hef gert af því þetta eru góðar bækur) þá þarf ég einhvern veginn að finna samsvarandi fjölga af bókum eftir konur – sem þá væntanlega einhver annar gefur út.

  Ég bendi líka á hvað tölfræðin í þessari grein er vitlaus. Hún er tekin saman með því að telja höfunda sem eru nefndir í kynningu á þáttunum á vef RÚV.

  Samkvæmt þessari reikningskúnst verður bókhaldið enn verra. Einar Falur Ingólfsson skrifar bók um Collingwood (2 karlar), Þröstur Helgason skrifar bók um Birgi Andrésar (2 karlar), Bragi Kristjónsson talar um Stein Steinarr og Þórberg (aftur 2 karlar).

  Ég nefndi líka Lærdómsrit Bókmenntafélagsins, sem eru mjög karllæg, þá getum við haldið áfram að reikna svona, Róbert Jack þýðir Nietzsche (2 karlar)…. o.s.frv.

  Eða bara Kristján Árnason þýðir Óvíd – 2 karlar þar.

  Svo er verið að gera því skóna að ég sé að útiloka einhverjar konur – hvaða konur eru það?

 5. 5 Lana 19 Mar, 2011 kl. 4:07 e.h.

  Egill segir i svari sinu a Eyjunni: „Í greininni er beitt mjög sérkennilegum bókhaldsaðferðum.“ En thad sem var gert var bara ad skoda thau nöfn sem er haldid til haga vid skraningu thattanna i safn RUV. Thannig verdur „mann“kynssagan til. Their sem hafa nöfn, lifa, adrir ekki. Bokmenntathattur i almannasjonvarpi litillar thjodar ber nokkud thungar skyldur. Ad halda til haga sögum af karlmönnum (svotil) eingöngu getur ekki verid rett endurspeglun a islensku samfelagi arid 2011.

 6. 6 Kristín V. 19 Mar, 2011 kl. 6:16 e.h.

  Mér þykir Bragi Kristjónsson merkilegt oft tala um konur, nennir einhver að gera samanburð á þeim Agli hvað það varðar?

 7. 7 ghh 19 Mar, 2011 kl. 7:20 e.h.

  Egill, hvernig væri að velta því aðeins fyrir sér hvort eitthvað sé til í gagnrýni okkar áður en þú byrjar að væla í annarra kommentakerfi?

 8. 8 Erna E. 20 Mar, 2011 kl. 1:02 f.h.

  Frábær úttekt, Kristín, og ég tek undir stórgóða ábendingu Lönu um söguna sem nafngreiningarnar segja. Ég var annars byrjuð að skrifa komment hérna sem varð svo langt að ég ákvað að endurlífga bloggið mitt í staðinn:
  http://ernae.blogspot.com/2011/03/kiljan-og-konurnar-og-vibrogin-og.html

 9. 9 Valey 21 Mar, 2011 kl. 12:43 f.h.

  Ég var að velta þessu máli fyrir mér og er alveg á báðum áttum. Ég er alveg 100% hlynnt réttu kynjahlutfalli og styð allar breytingar í þá átt. Ég skil alveg sjónarhorn Egils ef það eru 70% fleiri karlar sem skrifa/þýða bækur á Íslandi þá er það væntanlega ástæðan fyrir því að það eru fleiri karlar viðmælendur í Kiljunni heldur en konur.

  Ég hef aldrei séð þessa þætti og veit lítið hvað er verið að fjalla um í þeim. Miðað við dagskrá lýsinguna á rúv þá var kynjahlutfallið um svona 70-30 eða 40-60.

  Það sem ég vil fá svar við er hvernig er hægt að laga kynjahlutföllinn ef að vandamálið er kynjahlutföll rithöfunda? Ég get einnig verið alveg á villigötum hérna, biðst velvirðingar á því.

  Kveðja Valey

 10. 10 Hildur 21 Mar, 2011 kl. 12:30 e.h.

  Málið er bara að það eru ekki 77% fleiri karlar sem skrifa/þýða bækur á Íslandi, þannig að hlutfallið í þættinum endurspeglar ekki raunverulegt hlutfall, sem er um 60/40%.

  Ég held að vandann megi að vissu leyti rekja til þess að bækur kvenna fá minni umfjöllun en bækur karla. Ég hef heyrt forleggjara segja að tiltekin bók hafi rokið upp í sölu eftir að henni var hælt í Kiljunni. Ef bækur kvenna fá minni umfjöllun en bækur eftir karla þá seljast þær væntanlega verr og forlög sjá því minni gróðavon í því að gefa út bækur eftir konur en karla. Því gæti verið að það sé auðveldara fyrir karlmenn en konur að fá útgefið.

  Svo er líka hægt að ímynda sér að ungar konur sem hafi áhuga á því að skrifa leggi síður út í það því kvenkyns rithöfundar fá minni umfjöllun og eru ekki jafn sýnilegar og karlkyns rithöfundar.

  Þannig að ég held að til að laga kynjahlutföllin væri alveg upplagt að byrja t.d. á því að leggja áherslu á það í Kiljunni að skoða kvenkynsrithöfunda.

  Í ritlistarnáminu í HÍ eru stelpurnar t.d. miklu virkari í upplestrum, og svei mér þá ef þær hafa ekki verið í meirihluta þeirra sem hafa tekið þátt í útgáfum á vegum nemendafélagsins.

  Ritlistarnemar hafa haft samband við Egil í von um að fá umfjöllun um verkin sem þeir hafa gefið út, en hann hafði ekki áhuga á því að fjalla um þau, sem mér fannst skrýtið, því þar er mjög líklega á ferðinni stór hluti af næstu kynslóð rithöfunda á Íslandi.

 11. 11 Valey 21 Mar, 2011 kl. 2:12 e.h.

  Takk kærlega fyrir þetta Hildur, núna skil ég þetta allt saman mun betur 🙂

 12. 12 Kristín í París 21 Mar, 2011 kl. 4:10 e.h.

  Í kröfunni um sanngjarnt kynjahlutfall má alveg sjá ákveðna mismunun, sem hefur verið kölluð „jákvæð mismunun“. Heimurinn er vonandi að breytast, konur eru virkar á vinnumarkaðnum og út um allt þar sem hefðin býður að karlinn ráði. Til þess að ýta undir að þetta gerist hratt og vel er hægt að biðja um þessa „jákvæðu mismunun“, meðan hlutirnir rétta sig af. Það er amk hugsunin á bak við sannngjarnt kynjahlutfall. Ekki eru allir femínistar sammála þessari kröfu, en RÚV er ríkisstofnun og til eru lög um þetta sem RÚV heyrir undir. Egill virðir það ekki og við viljum að hann sjái að sér. Ég trúi ekki öðru en að hann geri það, þegar hann er búinn að ná að skilja að við erum ekki að krefjast þess að hann verði rekinn. Ha? Er það ekki Egill?

 13. 13 Erna E. 21 Mar, 2011 kl. 4:57 e.h.

  Mjög góðir punktar hjá Hildi um samhengið milli útgáfubransans og Kiljunnar.

  Mér finnst líka umhugsunarefni af hverju svona margir virðast gefa sér að þáttur eins og Kiljan eigi að öllu leyti að miðast við höfunda. Það er hægt að fjalla um bókmenntir og bækur frá fleiri sjónarhornum og ótal möguleikar til þess eru stórlega vannýttir í Kiljunni.

 14. 14 Eva Hauksdóttir 22 Mar, 2011 kl. 7:02 e.h.

  Ég horfi voða sjaldan á Kiljuna og geri mér ekki almennilega grein fyrir kynjahlutföllunum. Mig langar að vita hvaða konur það eru sem bera skarðan hlut frá borði. Eru það aðeins (án þess að ég vilji gera lítið úr því)höfundar barnabóka og matreiðslubóka eða hafa konur sem skrifa skáld- og fræðirit verið sniðgengnar og þá hvaða konur?

  Það er ekkert nýtt að barnabækur séu lítils metnar. Það eru ekki barnabækur sem fá íslensku bókmenntaverðlaunin eða Nóbelinn. Þegar barnabækur fá verðlaun á annað borð eru það sérstök barnabókaverðlaun eða verðlaun í flokki barnabóka. Kannski væri rétt að breyta því.

 15. 15 parisardaman 26 Mar, 2011 kl. 8:04 e.h.

  Já, það væri sko rétt að breyta því, Eva. Ég er ekki að benda á neinar ákveðnar konur sem hafi verið sniðgengnar frekar en ákveðnir karlar, alls ekki. Þetta mál er flóknara en það. Mér finnst bara hlutfallið vera skakkt, og oft mjög áberandi skakkt og það fer í taugarnar á mér. Ég horfi í raun ekki á margt annað í sjónvarpi og fæ sjaldan svona súrkalla-viðtippalingarnirtölumsaman-tilfinningu þegar ég hlusta á eftirlætis útvarpsþættina mína. Voilà. Varðandi hvort þetta skipti máli, bendi ég t.d. á viðtal við Auði á miðvikudaginn var. Það var, að mig minnir, í seinni hluta þáttarins. Ég treysti mér ekki til að tjá mig of mikið um doktorsritgerð hennar, því það var dálítið mikið verið að trufla mig þegar ég reyndi að hlusta. Ég ætla að hlusta aftur.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s
Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha

%d bloggurum líkar þetta: