Þessi skemmtilega furðulegi sprellikarl sprellar ekki í bili. Hann er dálítið skemmdur, og mér hefur gengið illa að laga hann. Það eru jesúholur í höndum og fótum, en bandið hefur skorið viðinn í sundur, og það virðist sama hversu þykkan þráð mér hefur tekist að þræða í hann, hann endar alltaf á því að komast út aftur, þó ég sé ekki einu sinni neitt að hamast sérstaklega hrottalega á honum, bara sprellað pínu smá og hop! Ég þarf að nota eitthvað lím eða kítti, en hef ekki komið mér í það.
Ég hef því látið hann alveg vera með sprellið undanfarin tvö ár eða svo, en hann vaktar skrifborðið mitt ásamt nokkrum góðum hlutum sem mér þykir sérstaklega vænt um. Þessi sprellikarl kemur frá föður mínum, ef mér skjöplast ekki (af hverju fær maður alltaf löngun til að tala gamlafólks mál þegar maður hugsar eða skrifar um gamla hluti? – er skjöplast ekki annars eitthvað voða gamaldags og úr sér gengið?). Kannski er þetta svertingjastrákur og einhver rasismi í því að hafa hann að leikfangi, en það tók mig mörg ár að átta mig á þessum möguleika. Ég hef haft hann hjá mér síðan ég var krakki, ég hef alltaf verið spennt fyrir gömlu dóti. Hann mun ekki fara í sölu á flóamarkaði meðan ég lifi og vonandi mun hann haldast í fjölskyldunni fram til þess að Katla þurrkar mannkyn út. Eða eitthvað kjarnorkuver. Eða eitthvað allt annað sem við vitum ekki enn að er til. Hah, hvað það er hressandi að enda umfjöllun um sprellikarl á pælingum um hvað muni á endanum eyða okkur. Svona er ósjálfráð skrift furðulegt fyrirbæri. Eða hvað sem svona bloggbull er.
Svona til að létta andrúmsloftið, ætla ég að sýna ykkur mynd af 1. apríl sprellikarlinum sem ég og krakkarnir bjuggum til, til að hrekkja pabbann. Það virkaði sæmilega, við földum okkur og honum átti að bregða hrottalega þegar hann kæmi inn í rökkvaða íbúðina og alger þögn ríkti og þessi maður sæti þarna í hægindastólnum. En Sólrún fór að flissa meðan hann var enn að reima af sér skóna fram á gangi, svo hann vissi að eitthvað var í gangi og brá ekki eins mikið. Kallinn missti svo höfuðið fljótlega, en tókst samt að láta mér bregða nokkrum sinnum og vinkonu okkar brá svakalega þegar hún kom blaðskellandi í heimsókn einn daginn. Hann hefur nú látið lífið, eftir að ég varð öskureið út í hann fyrir að hafa látið mig leita dyrum og dyngjum að gallabuxunum mínum árangurslaust. Það var ekki fyrr en tveimur dögum síðar að ég áttaði mig á því að hann var í þeim, helvískur. Ég hef sko lent í því að týna heilum Levis gallabuxum hér í íbúðinni, svo þetta var enn dramatískara mál en ella.
Og svo bara svona í tilefni frétta af snjókomu á Íslandi, ein mynd af túlípönunum mínum fínu. Það sést líka smá í grasflötina sem ég er að búa til:
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir