Sarpur fyrir apríl, 2011

trouvailles III og meira til


Þessi skemmtilega furðulegi sprellikarl sprellar ekki í bili. Hann er dálítið skemmdur, og mér hefur gengið illa að laga hann. Það eru jesúholur í höndum og fótum, en bandið hefur skorið viðinn í sundur, og það virðist sama hversu þykkan þráð mér hefur tekist að þræða í hann, hann endar alltaf á því að komast út aftur, þó ég sé ekki einu sinni neitt að hamast sérstaklega hrottalega á honum, bara sprellað pínu smá og hop! Ég þarf að nota eitthvað lím eða kítti, en hef ekki komið mér í það.
Ég hef því látið hann alveg vera með sprellið undanfarin tvö ár eða svo, en hann vaktar skrifborðið mitt ásamt nokkrum góðum hlutum sem mér þykir sérstaklega vænt um. Þessi sprellikarl kemur frá föður mínum, ef mér skjöplast ekki (af hverju fær maður alltaf löngun til að tala gamlafólks mál þegar maður hugsar eða skrifar um gamla hluti? – er skjöplast ekki annars eitthvað voða gamaldags og úr sér gengið?). Kannski er þetta svertingjastrákur og einhver rasismi í því að hafa hann að leikfangi, en það tók mig mörg ár að átta mig á þessum möguleika. Ég hef haft hann hjá mér síðan ég var krakki, ég hef alltaf verið spennt fyrir gömlu dóti. Hann mun ekki fara í sölu á flóamarkaði meðan ég lifi og vonandi mun hann haldast í fjölskyldunni fram til þess að Katla þurrkar mannkyn út. Eða eitthvað kjarnorkuver. Eða eitthvað allt annað sem við vitum ekki enn að er til. Hah, hvað það er hressandi að enda umfjöllun um sprellikarl á pælingum um hvað muni á endanum eyða okkur. Svona er ósjálfráð skrift furðulegt fyrirbæri. Eða hvað sem svona bloggbull er.

Svona til að létta andrúmsloftið, ætla ég að sýna ykkur mynd af 1. apríl sprellikarlinum sem ég og krakkarnir bjuggum til, til að hrekkja pabbann. Það virkaði sæmilega, við földum okkur og honum átti að bregða hrottalega þegar hann kæmi inn í rökkvaða íbúðina og alger þögn ríkti og þessi maður sæti þarna í hægindastólnum. En Sólrún fór að flissa meðan hann var enn að reima af sér skóna fram á gangi, svo hann vissi að eitthvað var í gangi og brá ekki eins mikið. Kallinn missti svo höfuðið fljótlega, en tókst samt að láta mér bregða nokkrum sinnum og vinkonu okkar brá svakalega þegar hún kom blaðskellandi í heimsókn einn daginn. Hann hefur nú látið lífið, eftir að ég varð öskureið út í hann fyrir að hafa látið mig leita dyrum og dyngjum að gallabuxunum mínum árangurslaust. Það var ekki fyrr en tveimur dögum síðar að ég áttaði mig á því að hann var í þeim, helvískur. Ég hef sko lent í því að týna heilum Levis gallabuxum hér í íbúðinni, svo þetta var enn dramatískara mál en ella.

Og svo bara svona í tilefni frétta af snjókomu á Íslandi, ein mynd af túlípönunum mínum fínu. Það sést líka smá í grasflötina sem ég er að búa til:

Lifið í friði.

sjónvarpskallar og gagnrýni

Páll Magnússon komst í fréttirnar í vikunni, og þá ekki sem þulur, heldur fyrir furðulegt svar við bréfi sem honum barst frá reiðum áhorfanda, sem átti erfitt með að sætta sig við að sýndur var þáttur um konungafólk á mánudagskvöldið var.
Ég nenni ómögulega að finna tengil, geri ráð fyrir að allir lesendurnir mínir fimm hafi séð fregnir af þessu máli. Eða jú, ég ætla að birta tengil, því nú man ég að þetta birtist m.a. á Róstur, og fínt að hafa ástæðu til að koma með tengil þangað. Ekki þar fyrir, að auðvitað er ástæða til að tengja á þau daglega, ég treysti því að héðan í frá verði Róstur.org daglegur viðkomustaður á ferðum ykkar um lendar Alnetsins [er þetta nægilega háfleygt? fór ég samt nokkuð yfir strikið?]
Sem sagt, Páll svarar bréfinu með þjósti. Bréfið er drulludónalegt, en Páll Magnússon ætti, miðað við þá stöðu sem hann gegnir, að kunna sig betur en svo að hoppa beint niður á plan bréfritara. Svar Páls minnti mig óþyrmilega á svar Egils við bréfinu frá okkur. Þessi tækni að gera lítið úr gagnrýnandanum sjálfum, burtséð frá efni rýninnar. (Ég minni á að Egill ákvað strax að við værum að krefjast afsagnar hans, sem ég tel vera allt of öfgakennt, Egill Helgason má alveg stjórna Kiljunni áfram, hann má bara sýna fleiri konur þar. Og reyndar hefur kynjahlutfallið í þáttunum snarbatnað síðan bréfið góða barst honum, svo ég er sátt, þó hann vilji ekki viðurkenna að neitt hafi verið að, né að mér detti í hug að honum detti nokkurn tímann í hug að þakka okkur vinsamlega ábendingu og biðjast afsökunar á offorsinu í fyrstu viðbrögðum við henni.) Páll Magnússon hefði getað svarað bréfinu mjög kurteislega og gersigrað þennan mann, ef hann hefði til dæmis sent mér kópíu og spurt mig ráða. Hann hefur aldrei spurt mig ráða um eitt eða neitt, og hver veit nema það skýri óvinsældir hans? (Ég sé oft talað illa um hann á feisbúkk, til dæmis). En ég ætla að birta hérna mitt svar við þessu ruddalega bréfi, í von um að Páll Magnússon lesi þetta og muni þá næst að láta ekki draga sig niður í svaðið:

Sæll vertu Björn [ég leyfi ávarpinu að haldast eins, enda ekkert þannig lagað við það að athuga]
Ég þakka þér fyrir bréfið, þó mér hafi reyndar bruðgið örlítið við tóninn í því. En ég skil að þú hafir verið reiður og þurft að fá útrás fyrir reiðina, svo ég fyrirgef þér.
Þér hugnast ekki að þáttur um bresku konungsfjölskylduna skuli sýndur á mánudagskvöldi kl. 20. Ég er ekki alveg viss um hvort þér hefði verið sama ef þátturinn hefði verið sýndur á öðrum tíma, en ég skil það þó helst svo, að þér finnist alger óþarfi yfir höfuð að sýna þátt um konungafólk, burtséð frá tímasetningu. Ég ætla því að svara bréfinu út frá þeim skilningi mínum.
Þannig er mál með vexti, að RÚV þjónar landsmönnum öllum. Stórum og smáum, af öllum þjóðfélagsstigum og með mismunandi áhugamál og smekk. Við fáum sífellda gagnrýni fyrir að sýna of mikið af íþróttum, of mikið af lélegum amerískum glæpaþáttum o.s.frv. Við framleiðum ekki nægilega mikið af innlendu efni og ef við gerum það er eitthvað við það að athuga. Það er mjög erfitt að gera öllum til geðs.
Nú er breska konungsfjölskyldan umdeilanlegt fyrirbrigði og eflaust margir sem vildu helst sjá þau afsala sér krúnunni og hætta að leika aðalsfólk sem er í raun mjög úrelt fyrirbrigði á 21. öldinni. En breska konungsfjölskyldan er staðreynd, þau eru þarna og þau vekja gífurlega athygli hjá ákveðnum hópi fólks. RÚV bárust fjöldi símtala frá eldri konum sem þökkuðu fyrir þáttinn [nú er ég að gefa mér að það hafi gerst, án þess að hafa nokkra hugmynd um það, en ég veit með vissu að amma mín hefði setið stjörf yfir þessum þætti og ég er viss um að fjöldi fólks sat og horfði sátt á þennan þátt].
Mér þykir það leitt að þú hafir tekið þessari sýningu sem einhvers konar móðgun við þig sem hugsandi veru. Ég tek glaður við öllum ábendingum um efni sem þú vildir að við tækjum til sýninga í okkar ágæta sjónvarpi allra landsmanna.

Virðingarfyllst,

[undirskrift]

Lifið í friði.

annirnar

Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir, svo ekki sé meira sagt. Og við alls konar allt annað en að sitja við þýðinguna. Hver dagur sem tapast í þeirri vinnu, stækkar hnútinn sem ég er með í maganum yfir henni. En ég bara neyðist líka til að sinna alls konar öðrum verkefnum þó ég sé að vísu byrjuð að segja nei takk við hinum og þessum aukadjobbum. Það er alltaf alveg fáránlega erfitt að segja nei, þegar maður er í lausamennsku.

Og svona líkt og til að refsa sjálfri mér fyrir það hvað síðasta vika var erfið, var ég með bás á flóamarkaði til leigu á sunnudeginum. Svo í staðinn fyrir að hvíla mig og hafa það náðugt með börnunum í sólinni og góða verðinu stóð ég með allt mitt versta drasl, þetta sem hefur safnað ryki í geymslunni árum saman og valdið mér brjóstsviða, og prúttaði um verðið á því við gallharða og þrælvana prúttara.
Fyrir íslenska stelpu, sem er frekar svona á því að gefa frá sér dót en að selja það, var fáránlegt að reyna að þykjast eitthvað hörð frammi fyrir konum sem kunna öll trixin, beita fyrir sér barnafjöld, veikindum og alls konar bágindum, ef þær þylja þá ekki upp ódýru verðin úr Carrefour, máli sínu til stuðnings. Ég seldi nánast ekkert yfir tíu evrur. M.a.s. svaka flott vintage-klappborð í sixtís-stíl fór til konu sem nurlaði saman tæpum sex evrum upp úr vösunum. Ég er viss um að ég hefði getað selt þetta borð í einhverru fínu hverfanna fyrir 50 evrur. Hjólin sem áttu að fara á tuttugu fóru á tíu. Rosalega flotti Deuter fjallgönguburðarpoki (til að bera barn á bakinu) fór á 10 evrur. Fína kínverska lakkaða skilrúmið fór á 17 evrur. En með öllu smádraslinu og bókunum, held ég að ég hafi náð að hala inn um 200 evrur, en ég er þó ekki viss, ég hafði ekki vit á að telja hvað ég var með í buddunni um morguninn. En 200 evrur er heldur betur fín summa fyrir dót sem ég ætlaði eiginlega að gefa.
Þetta kveikti samt algerlega í mér og ég hugsa að ég fari aftur í haust og klári að tæma óþarfann úr geymslunni. Ég gat nefnilega ekki tekið meira en það sem hægt var að taka í tveimur bílferðum á mínum góða Citroën.
Þetta er erfitt og sumir kaupendanna hreinlega dónar, en langflestir bara kúl og skemmtilegir.
Konan sem spurði mig um litla glerborðið sem er hálfvalt og vantar neðri glerplötuna í, varð ægilega döpur þegar ég sagði fjórar evrur. Ég varð hálfhissa og þegar vinkona hennar hváði kom í ljós að hún hafði heyrt áttatíu evrur. Því miður bauð hún ekki fjörtíu á móti, en hún var aldeilis dillandi glöð þegar hún reiddi fram evrurnar fjórar. Ég þarf líklega að læra pylsuprútt af Elísabetu.
Ég get samt ímyndað mér að stemningin sé mun léttari á Íslandi. Hér eru antíkbúðaeigendur hálfgerðir hákarlar vomandi í kringum mann og svo þessar hörðu konur með börnin og bágindin í ofanálag. Maður þarf að vera smá nagli, ef maður ætlar ekki bara að láta rífa allt frá sér fyrir smáaura. Og þó ég hafi selt allt mjög ódýrt og finnist það í raun skemmtilegra, er fúttið að vera líka smá nagli, sko.

En hvílíkur munur er að geta nú opnað hurðina á geymslunni, gengið inn og horft á allt dótið í hillunum. Hver veit nema maðurinn minn geti kannski bara hætt að leigja eina af tveimur aukageymslunum? Það væri nú aldeilis önnur búbót.

Lifið í friði.

trouvailles II

Þessi handþurrka hefur verið í minni eigu um árabil. Líkt og með svuntuna, er ég engan veginn viss hvaðan hún kemur. Hún gæti jafnvel komið úr búi ömmu minnar Kristínar, ef hún er ekki frá öðru hvoru þeirra móðurforeldra mannsins míns. Í raun finnst mér þessi teiknistíll sem ég kann ekki að nefna, ekkert sérstaklega fallegur, en hann heillar mig þó fyrir það hvað hann er gamaldags, eiginlega úreltur. Hann minnir mig á Siggu Viggu, sem ég átti í ástar-haturssambandi við alla mína barnæsku. Stundum svo fyndin, en stundum svo vúlgar.
Handþurrkan var straujuð við sama tækifæri og svuntan. Það skal upplýst að ég straujaði einnig gamlan smekk, bróderaðan og fínan, sem verður kannski sýndur næst. Eða ekki.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha