annirnar

Síðustu dagar hafa verið mjög annasamir, svo ekki sé meira sagt. Og við alls konar allt annað en að sitja við þýðinguna. Hver dagur sem tapast í þeirri vinnu, stækkar hnútinn sem ég er með í maganum yfir henni. En ég bara neyðist líka til að sinna alls konar öðrum verkefnum þó ég sé að vísu byrjuð að segja nei takk við hinum og þessum aukadjobbum. Það er alltaf alveg fáránlega erfitt að segja nei, þegar maður er í lausamennsku.

Og svona líkt og til að refsa sjálfri mér fyrir það hvað síðasta vika var erfið, var ég með bás á flóamarkaði til leigu á sunnudeginum. Svo í staðinn fyrir að hvíla mig og hafa það náðugt með börnunum í sólinni og góða verðinu stóð ég með allt mitt versta drasl, þetta sem hefur safnað ryki í geymslunni árum saman og valdið mér brjóstsviða, og prúttaði um verðið á því við gallharða og þrælvana prúttara.
Fyrir íslenska stelpu, sem er frekar svona á því að gefa frá sér dót en að selja það, var fáránlegt að reyna að þykjast eitthvað hörð frammi fyrir konum sem kunna öll trixin, beita fyrir sér barnafjöld, veikindum og alls konar bágindum, ef þær þylja þá ekki upp ódýru verðin úr Carrefour, máli sínu til stuðnings. Ég seldi nánast ekkert yfir tíu evrur. M.a.s. svaka flott vintage-klappborð í sixtís-stíl fór til konu sem nurlaði saman tæpum sex evrum upp úr vösunum. Ég er viss um að ég hefði getað selt þetta borð í einhverru fínu hverfanna fyrir 50 evrur. Hjólin sem áttu að fara á tuttugu fóru á tíu. Rosalega flotti Deuter fjallgönguburðarpoki (til að bera barn á bakinu) fór á 10 evrur. Fína kínverska lakkaða skilrúmið fór á 17 evrur. En með öllu smádraslinu og bókunum, held ég að ég hafi náð að hala inn um 200 evrur, en ég er þó ekki viss, ég hafði ekki vit á að telja hvað ég var með í buddunni um morguninn. En 200 evrur er heldur betur fín summa fyrir dót sem ég ætlaði eiginlega að gefa.
Þetta kveikti samt algerlega í mér og ég hugsa að ég fari aftur í haust og klári að tæma óþarfann úr geymslunni. Ég gat nefnilega ekki tekið meira en það sem hægt var að taka í tveimur bílferðum á mínum góða Citroën.
Þetta er erfitt og sumir kaupendanna hreinlega dónar, en langflestir bara kúl og skemmtilegir.
Konan sem spurði mig um litla glerborðið sem er hálfvalt og vantar neðri glerplötuna í, varð ægilega döpur þegar ég sagði fjórar evrur. Ég varð hálfhissa og þegar vinkona hennar hváði kom í ljós að hún hafði heyrt áttatíu evrur. Því miður bauð hún ekki fjörtíu á móti, en hún var aldeilis dillandi glöð þegar hún reiddi fram evrurnar fjórar. Ég þarf líklega að læra pylsuprútt af Elísabetu.
Ég get samt ímyndað mér að stemningin sé mun léttari á Íslandi. Hér eru antíkbúðaeigendur hálfgerðir hákarlar vomandi í kringum mann og svo þessar hörðu konur með börnin og bágindin í ofanálag. Maður þarf að vera smá nagli, ef maður ætlar ekki bara að láta rífa allt frá sér fyrir smáaura. Og þó ég hafi selt allt mjög ódýrt og finnist það í raun skemmtilegra, er fúttið að vera líka smá nagli, sko.

En hvílíkur munur er að geta nú opnað hurðina á geymslunni, gengið inn og horft á allt dótið í hillunum. Hver veit nema maðurinn minn geti kannski bara hætt að leigja eina af tveimur aukageymslunum? Það væri nú aldeilis önnur búbót.

Lifið í friði.

8 Responses to “annirnar”


 1. 1 Lissy 11 Apr, 2011 kl. 5:27 e.h.

  My parents have a garage so full of things that should be sold at a flee market, they cannot even walk in their garage anymore. Best to get a handle of all these things while you still can! Congrats!

 2. 2 baun 11 Apr, 2011 kl. 6:21 e.h.

  Flott hjá þér!

  Mér fannst bara gaman að standa í þessu, en skil að harkið sé erfiðara í Frakklandi þar sem hefð er fyrir prútti og þjórfé og svoleiðis veseni. En þú hafðir sko meira upp úr krafsinu en ég, get ég sagt þér, því minn hagnaður lagði sig á 6 þúsund kall;)

 3. 3 parisardaman 12 Apr, 2011 kl. 6:53 f.h.

  Ég var náttúrulega með þrjú barnahjól og eitt hlaupahjól, hitt barnadótið þarna og slatta af húsgögnum og þrjá kassa af bókum. Plús alls konar smádót. Veit ekki hvort þú varst með svona mikið af „hentugu“ dóti, sem rennur út? Lissý, mamma mín var einmitt að dæsa yfir bílskúrnum þeirra. Nú þarf ég bara að drífa þau af stað í málið!

 4. 4 baun 13 Apr, 2011 kl. 8:33 f.h.

  Já, þetta hefur heldur betur verið stærra í sniðum hjá þér. Ég var bara með smádót.

 5. 5 GD 14 Apr, 2011 kl. 1:26 f.h.

  Oh ég hefði borgað þér meira fyrir fjallabakpokann, klappborðið og skilrúmið. En ég veit sko alveg hvað þú ert að tala um! Mamma hefur alltaf verið dugleg að selja (og kaupa) á flóamörkuðum og stundum þegar ég var lítil var ég með henni með bás í Kolaportinu. Einu sinni vorum við þar í rjúkandi bissnes og hún þurfti að bregða sér frá og skildi mig eina eftir með básinn. Þá kom kona aðvífandi, reif hvern hlutinn á fætur öðrum og byrjaði að prútta við mig alveg á fullu. Ég þóttist nú nokkuð hörð og kallaði ekki allt ömmu mína en hún var svo ágeng að ég var næstum farin að grenja. Þetta endaði þannig að hún var búin að kaupa hrúgu af fötum og dóti, allt það fínasta,fyrir 500 kall. Ég var alveg niðurbrotin eftir þetta. En þær eru sumsé ekki bara í París.

 6. 6 parisardaman 14 Apr, 2011 kl. 6:59 f.h.

  Hehe, úff. Ég leyfði börnunum einmitt að sjá sjálf um hjólin og þau lentu í hvílíkum níðingum, segi ég og skrifa. Þær fá kannski sérblogg ef ég hef tíma og nennu. Þið mæðgur þurfið að koma til Parísar og við förum á flóamarkaði:)

 7. 7 hildigunnur 15 Apr, 2011 kl. 10:49 f.h.

  oj, fólk sem nýtir sér að það sé að eiga við börn!

 8. 8 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 2:24 e.h.

  nkl!


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: