sjónvarpskallar og gagnrýni

Páll Magnússon komst í fréttirnar í vikunni, og þá ekki sem þulur, heldur fyrir furðulegt svar við bréfi sem honum barst frá reiðum áhorfanda, sem átti erfitt með að sætta sig við að sýndur var þáttur um konungafólk á mánudagskvöldið var.
Ég nenni ómögulega að finna tengil, geri ráð fyrir að allir lesendurnir mínir fimm hafi séð fregnir af þessu máli. Eða jú, ég ætla að birta tengil, því nú man ég að þetta birtist m.a. á Róstur, og fínt að hafa ástæðu til að koma með tengil þangað. Ekki þar fyrir, að auðvitað er ástæða til að tengja á þau daglega, ég treysti því að héðan í frá verði Róstur.org daglegur viðkomustaður á ferðum ykkar um lendar Alnetsins [er þetta nægilega háfleygt? fór ég samt nokkuð yfir strikið?]
Sem sagt, Páll svarar bréfinu með þjósti. Bréfið er drulludónalegt, en Páll Magnússon ætti, miðað við þá stöðu sem hann gegnir, að kunna sig betur en svo að hoppa beint niður á plan bréfritara. Svar Páls minnti mig óþyrmilega á svar Egils við bréfinu frá okkur. Þessi tækni að gera lítið úr gagnrýnandanum sjálfum, burtséð frá efni rýninnar. (Ég minni á að Egill ákvað strax að við værum að krefjast afsagnar hans, sem ég tel vera allt of öfgakennt, Egill Helgason má alveg stjórna Kiljunni áfram, hann má bara sýna fleiri konur þar. Og reyndar hefur kynjahlutfallið í þáttunum snarbatnað síðan bréfið góða barst honum, svo ég er sátt, þó hann vilji ekki viðurkenna að neitt hafi verið að, né að mér detti í hug að honum detti nokkurn tímann í hug að þakka okkur vinsamlega ábendingu og biðjast afsökunar á offorsinu í fyrstu viðbrögðum við henni.) Páll Magnússon hefði getað svarað bréfinu mjög kurteislega og gersigrað þennan mann, ef hann hefði til dæmis sent mér kópíu og spurt mig ráða. Hann hefur aldrei spurt mig ráða um eitt eða neitt, og hver veit nema það skýri óvinsældir hans? (Ég sé oft talað illa um hann á feisbúkk, til dæmis). En ég ætla að birta hérna mitt svar við þessu ruddalega bréfi, í von um að Páll Magnússon lesi þetta og muni þá næst að láta ekki draga sig niður í svaðið:

Sæll vertu Björn [ég leyfi ávarpinu að haldast eins, enda ekkert þannig lagað við það að athuga]
Ég þakka þér fyrir bréfið, þó mér hafi reyndar bruðgið örlítið við tóninn í því. En ég skil að þú hafir verið reiður og þurft að fá útrás fyrir reiðina, svo ég fyrirgef þér.
Þér hugnast ekki að þáttur um bresku konungsfjölskylduna skuli sýndur á mánudagskvöldi kl. 20. Ég er ekki alveg viss um hvort þér hefði verið sama ef þátturinn hefði verið sýndur á öðrum tíma, en ég skil það þó helst svo, að þér finnist alger óþarfi yfir höfuð að sýna þátt um konungafólk, burtséð frá tímasetningu. Ég ætla því að svara bréfinu út frá þeim skilningi mínum.
Þannig er mál með vexti, að RÚV þjónar landsmönnum öllum. Stórum og smáum, af öllum þjóðfélagsstigum og með mismunandi áhugamál og smekk. Við fáum sífellda gagnrýni fyrir að sýna of mikið af íþróttum, of mikið af lélegum amerískum glæpaþáttum o.s.frv. Við framleiðum ekki nægilega mikið af innlendu efni og ef við gerum það er eitthvað við það að athuga. Það er mjög erfitt að gera öllum til geðs.
Nú er breska konungsfjölskyldan umdeilanlegt fyrirbrigði og eflaust margir sem vildu helst sjá þau afsala sér krúnunni og hætta að leika aðalsfólk sem er í raun mjög úrelt fyrirbrigði á 21. öldinni. En breska konungsfjölskyldan er staðreynd, þau eru þarna og þau vekja gífurlega athygli hjá ákveðnum hópi fólks. RÚV bárust fjöldi símtala frá eldri konum sem þökkuðu fyrir þáttinn [nú er ég að gefa mér að það hafi gerst, án þess að hafa nokkra hugmynd um það, en ég veit með vissu að amma mín hefði setið stjörf yfir þessum þætti og ég er viss um að fjöldi fólks sat og horfði sátt á þennan þátt].
Mér þykir það leitt að þú hafir tekið þessari sýningu sem einhvers konar móðgun við þig sem hugsandi veru. Ég tek glaður við öllum ábendingum um efni sem þú vildir að við tækjum til sýninga í okkar ágæta sjónvarpi allra landsmanna.

Virðingarfyllst,

[undirskrift]

Lifið í friði.

20 Responses to “sjónvarpskallar og gagnrýni”


 1. 2 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 10:32 f.h.

  Ha? Ekki sannfærð? Ókei, en hvað má þá betur fara?
  Eða finnst þér ömurlegt að sýna þátt um kóngafólk? Mér finnst það persónulega líka, en mér finnst eiginlega mikilvægara að þjóna gamla fólkinu heldur en okkur sem getum í raun sótt okkur það sem við viljum horfa á af netinu osfrv…

 2. 3 Hildur 15 Apr, 2011 kl. 10:39 f.h.

  Mér finnst að þú ættir að senda honum Páli línu og bjóðast til að annast allar bréfaskriftir fyrir hann.
  Það væri líka áhugavert að sjá hvernig hann svaraði þeim pósti.

 3. 4 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 10:40 f.h.

  Haha! Já, en ég væri líklega að lofa upp í ermina á mér með því. Hvað ætti ég að segja ef hann samþykkti?

 4. 5 hildigunnur 15 Apr, 2011 kl. 10:46 f.h.

  jú jú, ég meina sko Játs!

 5. 6 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 11:06 f.h.

  Haha! Ég skildi þetta sem svona jááá, hikandi og alls ekki sannfært:)

 6. 7 baun 15 Apr, 2011 kl. 11:29 f.h.

  PR-geirinn bíður þín Kristín, eins og plægður akur sáningar.

 7. 8 Hildur 15 Apr, 2011 kl. 11:48 f.h.

  Auðvitað myndirðu segja já og heimta svo afnot af jeppanum hans þegar þú ert á landinu.

 8. 9 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 1:08 e.h.

  Djísess, vill önnur hvor ykkar verða umbinn minn?

 9. 10 ella 15 Apr, 2011 kl. 4:26 e.h.

  Lendar alnetsins gæti lesist sem klám en lendur gætu lesist sem svæði. Hvort skal velja?

 10. 11 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 5:49 e.h.

  Ha ha! Ég er nú alveg met. Höfum þetta bara lendar áfram, það er miklu meira djúsí:)

 11. 12 Harpa Jónsdóttir 15 Apr, 2011 kl. 5:57 e.h.

  Pottþétt! Þú býður Páli auðvitað fram þjónustu þína gegn hæfilegu (les: mjög háu) gjaldi og lifir í vellysitingum pragtuglega það sem eftir er.

 12. 13 Harpa Jónsdóttir 15 Apr, 2011 kl. 5:59 e.h.

  …vellystingum átti þetta að vera. Að tölvan skuli ekki laga svona fyrir mann ha!

 13. 14 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 7:12 e.h.

  Æ, ég held ég sé bara einhvern vegin ekki týpan í að lifa í vellystingum. Ég er alltaf hálfhrædd um að ef ég myndi lenda í þannig aðstæðum, yrði löngunin til að sprengja allt í loft upp of sterk. Svo ég held ég láti bara þessa hugvekju standa hér sem beiðni til fólks um að muna að vera kurteist, en láti Pál Magnússson í friði með jeppann sinn og ókurteisina.

 14. 15 krummi 15 Apr, 2011 kl. 8:27 e.h.

  hvað var svona dónalegt við bréfið?

 15. 16 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 11:04 e.h.

  Æ, kommon, þetta bréf til Páls er dónalegt eða ruddalegt eða hvað sem á að kalla það. Fruntalegt. Ekki segja mér að þú sjáir það ekki.
  Það er ekkert eðlilegt að eitt eintak af menginu fólki skuli finnast það þurfa að tala svona við annað eintak. Við þurfum virkilega að skoða það, held ég. Það er ekkert eðlilegt að við skulum ekki bara geta verið kurteis hvert við annað.
  Við erum öll bara fólk.

 16. 17 hildigunnur 16 Apr, 2011 kl. 2:12 f.h.

  það hefði ég skrifað sem jaaaaá…? held ég 😉 Stundum erfitt að koma raddblæ til skila skrifuðu víst.

  og jamm bréfið er dónalegt.

 17. 18 parisardaman 16 Apr, 2011 kl. 7:36 f.h.

  Já, það er hárrétt hjá þér, Hildigunnur, að það er jaaaaá… ég skrifa líka stundum jámmm, þegar ég er hikandi. Líklega hefði verið greinilegast að skrifa: „JÁ! JÁ! JÁ! Áfram Kristín! Þú ert best! BEST!“ Þannig hefði ég pottþétt skilið að þú værir sammála mér;)


 1. 1 Páll Magnússon þarfnast mín « Parísardaman Bakvísun við 7 Maí, 2011 kl. 9:36 f.h.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: