trouvailles III og meira til


Þessi skemmtilega furðulegi sprellikarl sprellar ekki í bili. Hann er dálítið skemmdur, og mér hefur gengið illa að laga hann. Það eru jesúholur í höndum og fótum, en bandið hefur skorið viðinn í sundur, og það virðist sama hversu þykkan þráð mér hefur tekist að þræða í hann, hann endar alltaf á því að komast út aftur, þó ég sé ekki einu sinni neitt að hamast sérstaklega hrottalega á honum, bara sprellað pínu smá og hop! Ég þarf að nota eitthvað lím eða kítti, en hef ekki komið mér í það.
Ég hef því látið hann alveg vera með sprellið undanfarin tvö ár eða svo, en hann vaktar skrifborðið mitt ásamt nokkrum góðum hlutum sem mér þykir sérstaklega vænt um. Þessi sprellikarl kemur frá föður mínum, ef mér skjöplast ekki (af hverju fær maður alltaf löngun til að tala gamlafólks mál þegar maður hugsar eða skrifar um gamla hluti? – er skjöplast ekki annars eitthvað voða gamaldags og úr sér gengið?). Kannski er þetta svertingjastrákur og einhver rasismi í því að hafa hann að leikfangi, en það tók mig mörg ár að átta mig á þessum möguleika. Ég hef haft hann hjá mér síðan ég var krakki, ég hef alltaf verið spennt fyrir gömlu dóti. Hann mun ekki fara í sölu á flóamarkaði meðan ég lifi og vonandi mun hann haldast í fjölskyldunni fram til þess að Katla þurrkar mannkyn út. Eða eitthvað kjarnorkuver. Eða eitthvað allt annað sem við vitum ekki enn að er til. Hah, hvað það er hressandi að enda umfjöllun um sprellikarl á pælingum um hvað muni á endanum eyða okkur. Svona er ósjálfráð skrift furðulegt fyrirbæri. Eða hvað sem svona bloggbull er.

Svona til að létta andrúmsloftið, ætla ég að sýna ykkur mynd af 1. apríl sprellikarlinum sem ég og krakkarnir bjuggum til, til að hrekkja pabbann. Það virkaði sæmilega, við földum okkur og honum átti að bregða hrottalega þegar hann kæmi inn í rökkvaða íbúðina og alger þögn ríkti og þessi maður sæti þarna í hægindastólnum. En Sólrún fór að flissa meðan hann var enn að reima af sér skóna fram á gangi, svo hann vissi að eitthvað var í gangi og brá ekki eins mikið. Kallinn missti svo höfuðið fljótlega, en tókst samt að láta mér bregða nokkrum sinnum og vinkonu okkar brá svakalega þegar hún kom blaðskellandi í heimsókn einn daginn. Hann hefur nú látið lífið, eftir að ég varð öskureið út í hann fyrir að hafa látið mig leita dyrum og dyngjum að gallabuxunum mínum árangurslaust. Það var ekki fyrr en tveimur dögum síðar að ég áttaði mig á því að hann var í þeim, helvískur. Ég hef sko lent í því að týna heilum Levis gallabuxum hér í íbúðinni, svo þetta var enn dramatískara mál en ella.

Og svo bara svona í tilefni frétta af snjókomu á Íslandi, ein mynd af túlípönunum mínum fínu. Það sést líka smá í grasflötina sem ég er að búa til:

Lifið í friði.

11 Responses to “trouvailles III og meira til”


 1. 1 krummi 15 Apr, 2011 kl. 8:20 e.h.

  Litli svarti Sambó?

 2. 2 krummi 15 Apr, 2011 kl. 8:20 e.h.

  Annars frekar fölur karlinn í hægindastólnum. Hefði kannski þurft smá D-vítamín.

 3. 3 parisardaman 15 Apr, 2011 kl. 8:52 e.h.

  Já, finnst þér þetta vera svertingi? Mér fannst þetta alltaf bara vera „strákur“ og spáði ekki baun í uppruna fyrr en ég varð stór (tja, þú skilur, stærri en þegar ég var barn) og fór að pæla í svona hlutum eins og að það væru til kynþættir og að sumir hefðu það skíttara en aðrir …
  Og hvíti gaur, hann fékk hvorki vott né þurrt, þegar hann lifði.

 4. 4 Guðrún C. 15 Apr, 2011 kl. 9:56 e.h.

  Skemmtilegar trouvailles hjá þér! Elska svona gamalt dót. Sprellikarlinn er kostulegur og gæti nú alveg verið dökkur Frakki, amk hálfur svertingi og hálfur Frakki.

  Þín upplifun af karlinum sem barn ber öugglega þínu uppeldi gott vitni – ekki hefur verið bent sérstaklega á að þetta væri svertingi eða einhver öðruvísi strákur…

 5. 5 Svanfríður 15 Apr, 2011 kl. 10:20 e.h.

  Túlípanarnir eru fallegir-mínir eru við það að vakna. Hlakka til að fylgjast með garðinum þínum í sumar:)

 6. 6 Frú Sigurbjörg 15 Apr, 2011 kl. 11:39 e.h.

  Magnaðir herramenn báðir tveir og túlípanarnir fylla mig af þrá eftir sumri, sem ég annars hef verið nokkuð laus við í slabbinu, snjónum, rokinu og rigningunni.

 7. 7 ella 16 Apr, 2011 kl. 1:34 f.h.

  Hrikaleg ósvífni að ræna buxum húsráðnda og spóka sig svo blákalt í þeim fyrir framan nefið á eigandanum!

 8. 8 ella 16 Apr, 2011 kl. 1:42 f.h.

  Tölvan er farin að nöldra í mér svo ég held ég fari að sofa. Áðan setti ég athugasemd sem var svona: a
  Það gerði ég vegna þess að eitt slíkt datt út í síðustu athugasemd. Þá fékk ég þetta á skjáinn: Duplicate comment detected;

  Ég reyndi aftur og þá kom: it looks as though you’ve already said that!

 9. 9 hildigunnur 16 Apr, 2011 kl. 2:14 f.h.

  Greinilega svertingi, breitt nef og þykkar varir og svo krullaða dökka hárið. Ekkert rasistíkt við það, held ég, nema maður vilji reyna að lesa í það að hvíti maður togi í spotta og svertingi hoppi eftir pöntun…

 10. 10 baun 17 Apr, 2011 kl. 1:13 f.h.

  Ég vona að þú móðgist ekki, en mér finnst þessi sprellikall dulítið krípí, verð bara hálf stressuð við að sjá hann.

  Túlípanarnir hins vegar eru svaka sprækir og fínir!

 11. 11 parisardaman 17 Apr, 2011 kl. 3:45 e.h.

  Hehe, nei, ég móðgast svo sannarlega ekki. Mér finnst hann svo kátur, en sé nákvæmlega hvað fólk getur séð krípí við hann. Túlípanarnir eru meiriháttar:)


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: