glaðst

Í gær gladdist ég yfir litlu einföldu hlutunum, til dæmis:
Manninum í rauðu sokkunum með hvítu doppunum.
Konunni sem var öll út í grasi á rassinum (eða ætti ég að segja sitjandanum?) í metró.
Pínupínulitu búðinni með alls konar gæðapottum og pönnum, næstum allt dótið hangandi niður úr loftinu og minnti mig á oggulitla sumarbústaðinn þeirra Viðars og Ellen.
Hjólreiðamenningunni í París. Ég fer næstum því alla leið frá Bastillunni og heim, á hjólastígum. Þetta tók tíma og hefur verið gagnrýnt svakalega, en í gær sást vel hvað þessir stígar eru kærkomnir, við vorum heilmörg að nýta þá.
Veðrinu. Ohhh, veðrinu sem er svo yndislegt að radísurnar eru allar ónýtar. Þær verða víst ofurbeiskar í þessum hita.

Í dag ætla ég að stinga niður kartöflum og athuga hvort ég get bjargað kartöflunum sem ég asnaðist til að skemma um daginn. Það voru einhverjar undarlegar plöntur komnar í beðin mín, hér og þar. Mér fannst þær kunnuglegar en ákvað samt að fjarlægja þær. Ég var að flýta mér og sleit bara stöngulinn, náði aldrei í rót og hafði ekki tíma til að fara að grafa. Síðar frétti ég að þetta væru kartöflugrös, upp úr kartöflum sem hafa gleymst í moldinni og spírað alveg sjálfar. Ég er ferlega svekkt út í mig, er hægt að gera eitthvað, eða deyja þær bara núna?

Lifið í friði.

9 Responses to “glaðst”


 1. 1 ella 5 Maí, 2011 kl. 11:21 f.h.

  Það er alls ekki víst að þér hafi tekist að uppræta þær alveg, bíddu bara og sjáðu til. Sumar spírur hafa ef til vill ekki verið komnar nógu langt upp til að þú sæir þær.
  Radísur heita hreðkur á Íslensku. Það er bara fullt af íslendingum sem vita það ekki en þýðandi má til að vita það svona ef ske kynni. Já ég veit, ske er líka sletta.

 2. 2 parisardaman 5 Maí, 2011 kl. 12:42 e.h.

  Já, ég veit að þær heita hreðkur en radísur er mér mun tamara í munni, því mamma talaði alltaf um radísur.

 3. 3 Harpa Jónsdóttir 5 Maí, 2011 kl. 2:29 e.h.

  Ekki segja sitjandi. Rass er miklu betra 🙂

 4. 4 vinur 5 Maí, 2011 kl. 3:04 e.h.

  Það er í raun dásamlegur barningur að koma upp garðrækt, maður stekkur ekki fullskapaður í svoleiðis. Haltu bara áfram og gangi þér vel. Guðlaug Hestnes

 5. 5 parisardaman 5 Maí, 2011 kl. 6:05 e.h.

  Ójá, þetta er heilmikill barningur, en rosalega finnst mér alltaf gaman og gott að vera úti í garði. Alveg ferlegt að vera föst í þýðingavinnunni núna, sláandi munur milli míns reitar og kallsins sem fékk bút hjá mér.

 6. 6 Frú Sigurbjörg 6 Maí, 2011 kl. 9:13 f.h.

  Það er góð tilfinning að gleðjast yfir því einfalda og smá.

 7. 8 baun 7 Maí, 2011 kl. 12:29 f.h.

  Mér finnst sitjandi skemmtilegt orð. Segi og skrifa.

 8. 9 parisardaman 7 Maí, 2011 kl. 1:15 e.h.

  Sitjandi er reyndar mjög skemmtilegt orð, það er alveg rétt hjá þér. Samt eitthvað rosalega fyndið að lesa það um rassinn á einhverri prinsessu sem stal víst senunni með sínum í brúðkaupi aldarinnar.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: