Sarpur fyrir september, 2011

Hnappastríð

Þau undur og stórmerki áttu sér stað í franskri kvikmyndasögu, að tvær stórmyndir gerðar eftir sömu bókinni komu út á sama tíma, nú í haust.
Bókin, La guerre des boutons, eða Hnappastríðið, er eftir Louis Pergaud og kom út 1912. Hún varð strax mjög vinsæl og hefur verið endurútgefin ótal sinnum. Sagan var kvikmynduð 1936 og aftur 1962, sú mynd þykir vel heppnuð og öll börn sáu hana, í mörg ár á eftir.
Þetta er ein af fyrstu bókunum sem frönsku vinir mínir skipuðu mér að lesa, og mér fannst hún alveg meiriháttar skemmtileg. Þetta er saga fyrir börn, um börn og sögð frá sjónarhorni barnanna, strákagengi tveggja nálægra þorpa sem fara út í alvöru stríð, þar sem hnappar eru vopnin. Sagan er troðfull af gros mots, blótsyrðum, og hefur líklega, á sínum tíma, einnig verið einhvers konar parallella við heimsstyrjöldina sem braust út tveimur árum eftir útkomu bókarinnar. Höfundurinn lést einmitt „fyrir föðurlandið“ 1915.

Forsprakki Longeverne-klíkunnar

Forsprakki Longeverne-klíkunnar


Það tengist andlátsári höfundar beint, að tvær myndir komi út á sama tíma. Þegar höfundur deyr „fyrir föðurlandið“, er höfundaréttur lengdur. Venjulega er hann 50 ár, en svo hafa verið reiknaðar framlengingar eftir því hvenær verkin komu út. Fyrir bókmenntaverk sem kom út fyrir árslok 1920, var rétturinn lengdur upp í 94 ár og 272 daga (já, þetta er frönsk reglugerð, hver segir að reglulgerðir eigi að vera einfaldar?). Verkið datt því mjög nýlega úr höfundarétti og því einboðið að gera stórmynd í lit úr þessari bráðskemmtilegu sögu. Krakkar í dag nenna náttúrulega ekki að horfa á svarthvítt, eða hvað?
Leyndin yfir ferlinu hjá báðum stórframleiðendunum olli svo þessari leiðindauppákomu sem snerist um tíma upp í stríð um hver kæmi út fyrst, skreytt tilheyrandi söguburði um fall og gjaldþrot á báða bóga. Þó að börnin séu aðalpersónurnar, hafa myndirnar verið markaðsettar út á fullorðnar stjörnur. Fremstir fara Guillaume Canet gegn Alain Chabat, en báðar myndirnar eru með úrvalslið í hlutverkum foreldra og kennara.
Í dag er kennari sonar míns í verkfalli og ég er með vin hans hjá mér. Ég á ókeypis miða í bíó og er að hugsa um að fara með þá að sjá Hnappastríðið. Ég vel ekki milli myndanna tveggja, ég fer á þá mynd sem er sýnd hér í nágrenni við okkur, hef ekki einu sinni skoðað hvort það er myndin með Chabat eða Canet, mér er í raun alveg sama.
Þess má að lokum geta að þriðja hnappastríðið er víst í framleiðsluferli, en það er low budget mynd og hefur því verið fyrirfram slegin út af borðinu sem mögulegur keppandi í þessu furðulega hnappastríði fullorðinna kvikmyndaframleiðenda.

Lifið í friði.
p.s. Ég rændi myndinni héðan, vona að það komi mér ekki í vandræði.

Klapp á bakið

Það var fjallað um Rannsóknina í Kiljunni. Ekkert þeirra hætti sér út í að reyna að greina hvað höfundurinn er að fara í endanum, Egill snýr sér fínlega út úr því með ágætis lýsingu á hughrifunum. Og mikið hlýnaði mér um hjartarætur við lokasetningu Páls, ahhh, hvað það er gott að fá smá klapp á bakið, það lá við að ég gleymdi harðsperrunum um stund …

Þetta skrifaði ég í lok maí, þegar ég var að skila í fyrsta skipti:

„Það verður kannski talað um mig í einni setningu í gagnrýninni, annað hvort verður þýðingin sögð „lipur“, eða „stirðbusaleg“. Ég óttast hrottalega að sjá „stirðbusaleg“ þó ég viti líka að ef stíllinn er furðulegur er það vegna þess að hann er það í frönskunni líka.“

Eftir það var tvisvar sinnum lesið yfir þýðinguna og mjög miklu breytt. Ég á þetta því alls ekki alveg ein. Það er oft talað um ósýnileika þýðandans sem óréttlæti. Hvað má þá segja um prófarkarlesarann? Sem, í mínu tilfelli þurfti að vera ansi harður á rauða pennanum. Ekki er nafnið hans prentað í bókina, ekki er minnst á góðan prófarkarlestur í Kiljunni. Á maður að senda honum súkkulaði eða eitthvað?

Annars langar mig rosalega að lesa hinar bækurnar tvær, sem fjallað var um, Ríkisfang: Ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur og Fásinna sem er þýdd af Hermanni Stefánssyni fyrir Bjart bókaforlag. Er jólabókaflóðið að byrja, eða hefur bókaútgáfa aðeins byrjað að teygja úr sér?

Lifið í friði.

litlir dropar

Tveimur mínútum áður en ég talaði við útvarpið í morgun, lagði ég í stæði sem var 4 sentimetrum lengra en bíllinn minn. Ég var dálítið svekkt yfir því að það kæmi ekki fram, og hefði náttúrulega helst viljað vera í sjónvarpinu. Ekki það, bíllinn var ekki alveg límdur upp við gangstéttarbrúnina eins og þegar lagningin er fullkomin, en þetta var meira en ásættanlegt. Mér finnst gaman að bakka í stæði.

Á hárgreiðslustofunni var ákveðið að setja Bee Gees á fóninn, en hárgreiðslukonan hafði keypt disk með þeim á einhverri brunaútsölu. Við sungum hástöfum og í lokin, þegar hún lét mig standa til að fínstilla klippinguna, dönsuðum við báðar. Klippingin hlýtur því að vera áhugaverð, en ég hef ekkert skoðað hana almennilega.

Á Alnetið er komin spennandi vefsíða með alls konar ofurfallegu dóti til sölu. Allir ættu að líta við hjá Dísu og Betu. Tilvaldar tækifærisgjafir eða sjálfsdekur. Ég reyni alltaf núorðið að fá notað það sem mig vantar til heimilisins og er þegar búin að festa mér fínu Erik Kold dollurnar þeirra. Ó, hvað ég hlakka til að fá þær.

En aðalviðfangsefni mitt þessa dagana er rannsóknaráætlun. Eins og er gengur hún … hægt. Samt líður þessi mánuður svo hratt. Það er alveg að koma 20. september! Var ekki 5. sept í gær?

Lifið í friði.

Rannsóknin

Ég gleymi alveg að plögga sjálfa mig, ef mig skyldi kalla. En út er komin hjá Bjarti, skáldsagan Rannsóknin eftir Philippe Claudel, í þýðingu minni.

Kápan er svona fín:

Þetta er ekki glæpasaga, heldur meira svona pæling um nútímann og það hvernig við erum orðin hluti af einhvers konar maskínu og virðumst ekki geta (eða vilja?) snúa því við.

Smá brot úr bókinni:

„Jæja, þessi sjálfsmorð? Hve mörg, nákvæmlega?“
„23. En eitt af þeim er ekki öruggt. Það er ekki víst hvort manneskjan vildi binda endi á líf sitt eða hvort það var slys. Gas.“
„Stórtæk aðferð, gasið! Þú deyrð og tekur stundum fleiri með þér í ferðalagið. Varð sú raunin?“
„Nei, hann bjó einn í einbýlishúsi.“
„Það var leitt.“
„Ha?“
„Ekkert, gleymdu þessu.“

Mér skilst að bókin seljist ágætlega. Hér er búið að skrifa um hana, en ég veit ekki til þess að fjallað hafi verið um hana annars staðar.

Þessi þýðing var hluti af lokaverkefninu í meistaranáminu. Nú þarf ég bara að hrista fram 6000 orða rannsókn á þýðingaferlinu og þá er ég líklega búin með námið. Það er reyndar ekki alveg ljóst, en ég vona það besta.
Ég byrjaði í miðju góðærinu, haustið 2007, þó að það væri brjálað að gera hjá mér. Vinum mínum fannst ég biluð, en ég veit ekki hvernig hefði farið fyrir mér ef ég hefði ekki verið skráð í nám þegar hrunið svo varð. Það datt algerlega niður öll vinna hjá mér, mánuðum saman. Ég er ekki viss um að ég hefði þolað að sitja aðgerðarlaus heima hjá mér, bíðandi eftir tölvupóstum sem aldrei kæmu. (Sem minnir mig á að Beðið eftir Godot verður sýnt í Borgarleikhúsinu í vetur, sjá hér). Þetta verður núna fimmti veturinn, en fyrsta veturinn tók ég eingöngu BA-kúrsa í íslensku, til undirbúnings. Mastersnámið hefur tekið mig þrjá vetur, vonandi lýk ég á þessari önn. Þetta er gaman, ég mæli eindregið með þessu námi, sem hefur reyndar þróast töluvert meðan ég hef stundað það. Þýðingar eru vaxandi fag og eiga eftir að verða enn mikilvægari á næstu árum, hvort sem við endum í ESB eða ekki.
Og ég ætla á bókasafnið í dag, í tilraun til að berja saman svo sem eins og einni rannsóknaráætlun.

Lifið í friði.

komin aftur

Ég er ekki hætt að blogga, þó ég hafi líkt og misst áhugann um tíma. Ég get samt ekki ímyndað mér að hætta og ég hef oft komið hingað inn undanfarna daga og byrjað að skrifa eitthvað. En svo fannst mér það alltaf hjárænulegt og leiðinlegt.
En ég ætla að halda áfram að prófa og ef þú ert að lesa þetta, hefur mér loksins tekist að byrja aftur. Ég ætla að prófa að hafa þetta sundurleita frásögn af fríinu mínu sem var extralangt, sem er ekki jákvæð staðreynd, nema maður sé alger letingi og eigi peninga á leynireikningi sem er ekki málið hjá mér. Ég er reyndar letingi, en það eru takmörk fyrir því hversu langt það nær.

Eftir unaðslegt Suður-Frakklandsfrí var ég í mánuð á Íslandi. Aðallega að stússast með yfirþyrmingunum í fjölskyldunni, en náði að hitta hluta af vinahópnum mínum sem er orðinn svo stór að það hafa komið upp hugmyndir um að ég leigi Laugardalshöllina einn laugardag og verði svo með svona speed-date, fólk raði sér á borð og ég komi og tali við það í ákveðið langan tíma. Svo geti ég bara verið róleg og laus við samviskubit það sem eftir er af tímanum heima. Þarf að spá í þetta.
Mér tókst að fara gönguferð um fjöll og firnindi líkt og í fyrra, barnlaus og kallalaus. Þetta verður eitthvað sem ég mun reyna að gera árlega. Í þetta skiptið gekk ég Hinn óeiginlega Laugaveg, undir leiðsögn Páls Ásgeirs og Rósu konunnar hans. Hreint út sagt ólýsanlega frábær ferð. Ekki spillti að ég var alveg óvænt með skemmtilega ferðafélaga og að einn af þeim skipaði sig forseta matarfjelags Alþýðu og kokkaði ofan í mig dýrðarinnar dásemdir úr Oradósum og alls konar á hverju kvöldi. Hann bar líka postulínsbolla á bakinu og bruggaði alvöru expressókaffi handa okkur Alþýðunni í hádegishléum. Það fannst mér voðalega gott.
Þó að hnén á mér hafi ákveðið að vera til leiðinda, dugði það engan veginn til að skemma þessa ferð, sem ég endurupplifi í huganum á hverjum degi. Ég lofa því að setja inn nokkrar myndir, en hér kemur mín uppáhalds:

Uppgönguhryggir

Nú hef ég ekki orku í meira. En ég dreif mig af stað í kvöld vegna þess að þó ég hafi klikkað á alls konar plöggi undanfarið, vil ég koma því hér með á framfæri að ég „held með“ sakborningum í máli ríkisins gegn Hauki Hilmarssyni og Jason Thomas Slade og hvet alla til að lesa sér til um málið hér. Í alvöru, þetta er mjög áhugavert, eins og bara allt í sambandi við valdið og ríkið og hver ræður og hver er frjáls.

Og einmitt í framhaldi af þessu er hægt að minna á frumsýningu myndarinnar Ge9n (borið fram Gegn, samkvæmt afar áreiðanlegum heimildum), föstudaginn 9. september, sama dag og Chomsky talar í Háskólanum. Oh, það væri nú gaman að vera á Íslandi þessa dagana, en hér í útlandinu á ég víst heima. Það var ágætis viðtal við Hauk Má Helgason í Víðsjá í dag, 6. september, seinni hlutanum.

Ég lofa því að verða duglegri á næstu dögum, lýsi því galvösk yfir að pásan er búin og margt brennur mér á hjarta.

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha