Sarpur fyrir október, 2011

vændiskonan og stóra systir hennar

Ég er búin að vera nánast á bólakafi í spurningunni um vændi og lögleiðingu þess síðan Eva fór af stað með pistil um það á dögunum. Ég skrifaði langa grein fyrir knuz.is, en hún varð svo ruglingsleg og persónuleg að ég ákvað að vilja ekki birta hana. Ég þarf að endurskoða þetta allt saman, en mín niðurstaða er, sett niður í punkta þessi:

Vændi er málaflokkur sem á ekki að rugla saman við heimilisstörf.

Vændi er ekki það sama og kynlíf milli tveggja fullorðinna og viljugra einstaklinga. Þess vegna er ekki heldur hægt að rugla vændi saman við réttindi samkynhneigðra.

Vændi þrífst í skúmaskotum, og að lögleiða það myndi væntanlega ekki breyta neinu. Þetta tengist nefnilega siðferðiskennd okkar, þetta er feimnismál og ég efast um að það muni breytast. Það langar engan til að aka sperrtur upp að rauða flotta áberandi vændishúsinu við Suðurlandsbraut, hitta þar í innganginum frænda (eða frænku) og spjalla aðeins, áður en maður lítur á klukkuna og segir: „Jæja, það fer að koma að mér, best að drífa sig inn á biðstofuna!“

Það er klifað á því að fólk sem stundar vændi og er hamingjusamt sé þaggað niður, en samt finn ég endalaus viðtöl við fólk hér sem kallar sig starfsmann í kynlífsþjónustu og segist vilja fá réttindi. Það er svo furðulegt, að stundum fær maður svo sterklega á tilfinninguna að þetta fólk sé að þóknast einhverjum öðrum með því að tala, því tal þeirra einkennist af endurtekningum á sömu frösunum. Aftur og aftur. Eins og það hafi lært ákveðna frasa en hugsunin sé svo til engin. Ég held að þöggun sé ekki vandamálið, heldur tengist þetta frekar því sem ég benti á hér að ofan, að þetta er of siðferðistengt og ég í alvöru talað efast stórlega um að lagasetningar breyti því.

Aðgerðir hópsins Stóra systir hafa vakið verðskuldaða athygli. Sumir skrifa popúlískar hugleiðingar um að vændi sé nú viðurkennt í sumum löndum, sem er svona álíka og að segja að spilling sé viðurkennd í sumum löndum. Það er rifist um þetta hér í Frakklandi, í Hollandi og bara í öllum vestrænum ríkjum, m.a.s. í púrítaníska Noregi (omg!), þetta er rætt fram og til baka og er einn af erfiðustu málaflokkum sem stjórnmálamenn eiga við, eins og lagasetningar í kross sýna berlega.
Athugasemdirnar hafa svo styrkt mig í því sem ég vildi sagt hafa: Eftir að hafa sofið á því, styð ég Stóru systur alla leið. Það veitir ekki af að hrista aðeins upp í þessu liði. Ég held að vændi sé einmitt vandlega samofið annarri spillingu í þjóðfélaginu, og nákvæm og góð lögreglurannsókn gæti leitt til þess að önnur undirheimastarfsemi yrði afhjúpuð. Mig grunar að valdamikið fólk sé nátengt þessum málum, og það skýri áhugaleysið (jahá, hér er sko samsæriskenning og allt!).

Ég verð eiginlega að skrifa nánar um þetta, en ég bara hef ekki tíma núna, ég á að liggja yfir lokaverkefni í þýðingafræðum, ekki félagsfræðilegri stúdíu á vændi. Eins og þetta er nú áhugavert mál.

Lifið í friði.

Freku kennslukonurnar bæla strákana niður

Ég heyrði þessa kenningu um daginn og mér brá svo, að ég var alveg stúmm. Ég reyndi að malda í móinn, en ég gat ekki sagt neitt annað en að ég tryði ekki því sem ég væri að heyra. Svo sé ég þetta frá leyniskyttunni og veit því nú að þetta er eitthvað sem verið er að klifa á, á Íslandi.

Mér finnst þetta hrikaleg kenning og ég stend fast á því að þetta er rangt. Ég hef engar vísindalegar rannsóknir til að bakka mig upp, hafa verið gerðar alvöru rannsóknir á þessu? Til dæmis á viðhorfi drengja til kennslukvenna? Eru þeir hræddir við þær? Og allar hinar freku stelpurnar í bekknum? Mér detta strax í hug stelpurnar sem efndu til kröfugöngu sem gekk út á að fá Justin Bieber til Íslands (eða einhvern annan, ég er ekki viss og mér dettur ekki í hug að leita uppi fréttina, sem olli mér svo mikilli depurð að ég veit ekki hvort ég verð nokkurn tímann söm). Eru það þær sem bæla niður stráka svo þeir geta ekki orðið karlmenn og verða bara ólæsir aumingjar?

Æh, hvað ég er þreytt. Þreytt á rökræðum um efni sem eru svo flókin og erfið að varla er hægt að ræða þau, sérstaklega ekki við fólk sem hefur ákveðið afstöðu sína og biður bara um eitthvað sem hægt er að rífa í sig með útúrsnúningum og oft hrikalegum dónaskap. Þreytt. En það er nú líka mánudagur í dag. Eins og bent var á, á feisbúkk í morgun, verður þriðjudagur á morgun. Þá verður vonandi skemmtilegra í mér hljóðið.

Lifið í friði.

Stikla sem vert er að horfa á

Fjölmiðlafyrirtækin halda því fram að þau séu bara að „fjalla um það sem fólkið vill“. Nei. Þeir fjalla um það sem fjölmiðlafyrirtæki vilja, þeir fjalla um það sem auglýsendur vilja. Og þeir setja þetta þannig upp að það hljómi eins og það sé okkur að kenna. Sem er rangt!

[This notion that these media companies are just „giving us what the public wants“: No! They’re giving us what the media companies want, they’re giving us what the advertisers want. And they’re packaging it in such a way as to make it sound like it’s our fault. And it’s not!]

Ég hvet alla til að horfa á myndband sem minnti mig aftur á hvað ég þoli illa vefi eins og Pjattrófurnar og bleikt. Þessir miðlar eru nákvæmlega að gera þetta. Fjalla um dót og hluti á úthugsaðan hátt til að selja það sama dót og fylla í auglýsingarammana allt í kringum „efnið“.

Þetta er átta mínútna stikla, en ég lofa því að það er ekki tímasóun að horfa á hana og jafnvel nota pásutakkann ef þú ert ekki viss um að hafa skilið eitthvað rétt. Farðu hingað.

Og hér er vefur heimildamyndarinnar.

Og svo er náttúrulega um að gera að fá sér knúz reglulega!

Lifið í friði.

væluleysi

Ég var rétt í þessu að tala við vinkonu mína sem er stödd í fáránlegum reglugerðar/byggingarleyfa/verktakaklaufahremmingum. Húsið hennar var byggt nokkrum sentimetrum (kannski var það 1 og 1/2 metri, ég man það ekki) of nálægt því næsta og því þarf að rífa það, færa grunninn og byggja aftur. Þetta kom ekki í ljós fyrr en húsið var risið og þau vitanlega búin að selja ofan af sér. Þeim var komið fyrir í lítilli leiguíbúð sem byggingaverktakinn á að borga, ásamt smá aukapening en dagsektir fyrir síðbúin skil voru vel skilgreindar í upprunalega samningnum. Byggingaverktakinn segist vera á kúpunni og bendir á arkitektinn. Allir eru tryggðir upp í topp og málið er nú orðið tryggingafélagadeila og var vinkonu minni tjáð að það gæti tekið um tvö ár. Þegar ég hjálpaði henni að flytja í litlu leiguíbúðina, hélt hún að hún yrði þar í tvo mánuði. Hún sagði mér að hún hefði grátið í tvo klukkutíma í síðustu viku eftir fund með ráðgjafa (þessum sem sagði henni að búa sig undir tvö ár). En, hún sagði mér samt að hún væri oftast frekar jákvæð og ákveðin í að gera það besta úr þessu. Krakkarnir eru ánægðir í nýja skólanum, það er styttra fyrir þau að fara í vinnuna og útilegustemningin í litlu íbúðinni er oft skemmtileg. Ég var mjög hissa á þessu viðhorfi, er frekar vön því að fólk væli og mæðist út í það óendanlega og lét hana vita af því að ég dáðist að hugrekki hennar. Þá sagði hún mér að það sem „rétti hennar viðhorf af“ var að um daginn lenti dóttir vinkonu hennar í slysi og liggur á spítala. Það er fáránlegt hvað það er stundum auðvelt að minna sjálfan sig á hvað skiptir máli í lífinu. Ég hef hér með ákveðið að hætta öllu væli. Að minnsta kosti fram að kaffi.

Lifið í friði.

Nýja París I

Síðan ég flutti til Parísar, 1989, hefur ekki mikið verið byggt intra muros, einfaldlega vegna þess að það er vart meira pláss. Eina borgarlandið sem er nokkuð ósnert, eru skógarnir sem vaxa austur og vestur af borginni, Vincennes og Boulogne. Ég efast um að nokkur borgarstjóri muni nokkurn tímann láta sig dreyma um að reyna að taka þá af Parísarbúum, en hvað veit maður svo sem, hræsnin og óskammfeilnin virðist stundum ná út í hið óendanlega.
Hins vegar voru enn einhvers konar Sundahafnarhverfi við Signubakka í 12. og 13. hverfi, en þar var eitthvað af vöruskemmum og verksmiðjum sem ákveðið var að breyta í skrifstofu- og íbúðahverfi fyrir líklega um fimmtán árum síðan. Stóra fjármálaráðuneytið var byggt með tilþrifum, það er risastór bygging sem hýsir ráðuneytið og stóran hluta af franska Skattinum (eða hvað sem maður kallar það). Á byggingunni er þyrlupallur og hún nær út í ána. Fjármálaráðherra getur sumsé flúið á bát eða í þyrlu þegar (já, þegar) byltingin brýst út.
Fjármálaráðuneytið - Frá vef France2

Svæðið í kring var svo tekið algerlega í gegn, byggður heill hellingur af huggulegum fjölbýlishúsum með alls konar stórum svölum og terrössum. Allt voða barnvænt og fínt. Það eina sem gleymdist í 12. hverfi, voru leikskólar fyrir börn undir 3ja ára (eftir 3ja ára tekur ríkið við þeim). Mér skilst að u.þ.b. 0,4 prósent barna fái inni á leikskóla og ég veit af reynslu góðrar vinkonu að barnapíur eru yfirboðnar af örvæntingarfullum foreldrum úti á götuhorni og bara bölvað rugl með þetta. En hvað um það, Bercy-garðurinn er með japönsku ívafi og er sérlega smart, Bercy-village minnir kannski pínulítið á Disney, en er samt einhvern veginn svo skemmtilega útlandalegt, sérstaklega þegar veðrið er gott, næstum eins og maður sé staddur í strandbæ með öllum terrössunum og lágreistu steinhlöðnu húsunum (þar fengu skemmurnar, gömlu víngeymslurnar að standa en voru gerðar upp og breytt í kaffihús og krúttbúðir). Risastóra glerkvikmyndahöllin í enda götunnar gerir skemmtilegan kontrast og verndar gegn of stórum krúttskammti.

Meira af nýju París síðar!

Lifið í friði.

p.s. Myndin af fjármálaráðuneytinu kemur héðan. Vona að það valdi mér ekki vandræðum.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha