Sarpur fyrir nóvember, 2011

svik og prettir

Í gær bankaði fólk upp á hjá gömlu konunni sem býr á jarðhæð í blokkinni okkar. Þau voru tvö, en annað þeirra hélt sér til hlés og nágrannakonunni minni finnst eins og það hafi verið karl, klæddur í kvennmannsföt. Hún er þó viss um að sú sem sá um að tala var kona, sem byrjaði á því að kynna sig sem Christine, og spurði hvort Frú Michaud myndi ekki eftir henni. Frú Michaud neitaði því, en þá sagði Christine jú jú, og spurði hvort hún hefði ekki misst manninn sinn fyrir fimm árum síðan. Vesalings Frú Michaud játti því. Þá sagðist Christine vera í tengslum við Magali, sem býr á 2. hæð (þriðju í íslensku talið), sem er fasteignasali. Christine sagði að Magali hefði nýlega fundið atvinnuhúsnæði fyrir hana, en hún væri í smá peningavandræðum og að Frú Michaud yrði að hjálpa henni. Hvort hún væri ekki nú ekki með einhvern pening á sér, nágrannar hennar á móti hefðu lánað henni smá, en hana vantaði 300 evrur í viðbót. Hún myndi svo endurgreiða þær 29. nóvember, þegar hún fengi pening.
Eitt leiddi af öðru, Frú Michaud sem er bara svo yndisleg og trúir engu illu upp á nokkurn mann, skrifaði 300 evru ávísun fyrir konuhelvítið.
Það var miðvikudagur, sem er ekki skóladagur og barnafólkið í húsinu er á stöðugu renneríi inn og út, á leið með börnin í og úr hinum og þessum tómstundunum. Alveg hrikalegt að ekkert okkar átti leið hjá akkúrat meðan þau voru þarna hjá henni, sem Frú Michaud telur hafa verið korter.
Um leið og þau fóru, bankaði Frú Michaud upp á hjá nágrönnunum á móti. Þau voru ekki heima. Þá vissi hún, það sem hún vissi í raun allan tímann, að þetta var eitthvað svikadæmi. Ég kem heim um það leyti sem hún er að átta sig, búin að ná í Magali, sem stendur og er að fara yfir atburðarásina með henni. Magali var á náttfötunum, en þegar Frú Michaud er búin að lýsa konunni, hleyp ég af stað niður í banka, til að athuga hvort hún sé nokkuð þar að leggja inn ávísunina. Þar var enginn og ég sá enga sem gat passað við lýsinguna á leiðinni (og veit svo sem ekki hvað ég hefði átt að gera, ég bara sá rautt og var tilbúin að vaða í hvaða konu á gráum jakka með svarta tösku sem var). Á þeim tímapunkti vissum við ekki að þau hefðu verið tvö, sagan kom nefnilega smátt og smátt, við hverja upprifjun bættust við upplýsingar. Nú skil ég betur hvers vegna lögregla lætur fólk endurtaka sögurnar aftur og aftur.
Magali hringdi í bankann og bað um að láta stoppa ávísunina. Það kostar 10 evrur, sem er skárra en 300.

Um eftirmiðdaginn fór ég með Frú Michaud upp á lögreglustöð, því auðvitað varð að tilkynna þetta. Þar var nóg að gera, hundur hafði klórað mann í fótinn og eigandinn ekki beðist afsökunar, svo maðurinn vildi kæra, en var á endanum sannfærður um að fara bara og finna hundaeigandann og biðja hann um að biðja sig afsökunar. Ein hafði týnt pappírum, önnur kom með yfirlit yfir símareikning úr farsímanum sem var stolið í síðasta mánuði og blóðroðnaði þegar hún sagði að númerin sem hringt var í, voru allt í klámlínur. Kona sem greinilega mætir oft í viku, var komin til að láta vita að blómapottur hefði verið brotinn og blómin væru út um allt, og svo væru enn sígarettustubbar út um allt. Við Frú Michaud erum svo heppnar með stigagang, hér fá blómapottar að vera í friði og reykingafólkið notar öskubakka.

Lögreglumaðurinn sem tók við okkur var bæði vingjarnlegur og kunni að vélrita, og tölvan hans og prentarinn virkuðu (staðalímynd mín af löggunni brotnaði þarna í þúsund mola). Hann sagði okkur hins vegar að í raun hefði fólkið ekki brotið nein lög. Frú Michaud hleypti þeim inn til sín og skrifaði ávísunina án þess að nokkur neyddi hana til þess. Þar að auki hafði konan látið hana fá tvö ilmvatnsglös, svona drasl sem verið er að selja á mörkuðum hérna, svo í raun gætu þau haldið því fram að þetta hafi verið viðskipti. Og það sem við komumst líka að, er að í raun má bankinn ekki einu sinni stöðva ávísunina, af þessari sömu ástæðu. Hún skrifaði hana sjálfviljug og hefur ekki rétt til að taka það til baka. Peningurinn hefur verið afhentur og það er óafturkræft.
Þau ræddu þarna saman þrjú í smá tíma um mismunandi orðalag, misnotkun á trausti varð ofan á, og vonandi mun bankinn komast upp með að leysa ávísunina ekki út. Hins vegar verður ekki farið gegn fólkinu, nema mun fleiri tilkynningar berist inn á borð lögreglunnar á næstu dögum. Þá fyrst yrði málið tekið til rannsóknar sem svikamál.

Djöfull var ég reið. Ég er búin að jafna mig núna, en helvítis skítapakk er það sem nýtir sér veikleika gamallar ekkju og snuðar hana um pening. Og svakalega geri ég mér sífellt betur grein fyrir því hvað við búum í dásamlega góðu húsi. Við erum ólík, en öll svo kurteis og almennileg hvert við annað og aldrei neitt vesen. M.a.s. durturinn, Herra Sinnep, sem býr hér fyrir neðan okkur og öskrar svolítið mikið á unglingana sína og konuna (sem öskra á móti, svo því sé haldið til haga). Hann er alltaf brosandi og almennilegur og hefur ekki oft kvartað yfir hávaða frá okkur, þó ég viti að stundum eru krakkarnir dálítið háværir, og þegar við erum með matarboð fram yfir miðnætti, erum við beint yfir þar sem þau sofa, því þau eru fjögur svo til fullorðin, í 70 m2 íbúð og foreldrarnir sofa í borðstofunni.

Jájá, börnin góð. Svik og prettir eiga sér stað á mismunandi plani. Sumir svíkja heilu bankana af heilu þjóðunum, aðrir láta sér duga smærri afrek. Og svo er þetta allt sett þannig upp að í raun er þetta löglegt:

Þú lést mig fá draslilmvatn sem kostar eina evru og ég asnaðist til að láta þig fá 300 í staðinn, því ég var svo óviss, svo rugluð, þú talaðir svo mikið, og virtist svo viss í þinni sök, minntist á manninn minn heitinn …

Hvað var það aftur sem Björgólfarnir og allir hinir, sögðu við Íslendinga?

Lifið í friði.

endanleg afhjúpun afdönkunar RÚV

Í gær var víst sýnd mynd um Thorsara á RÚV. Ég sé af statusum á feisbúkk að þessi mynd kom mörgum í mikið uppnám. Sumir lýsa því hvernig þeir urðu að slökkva þegar ónefndur aðili birtist sjálfumglaður á skjánum, aðrir horfðu til enda og fussa og sveia. Enginn fagnar þessari mynd, en mjög margir litu á það sem einhvers konar skylduverkefni að horfa.

Hvað það er, sem fær fólk til að finnast það vera skyldugt að horfa, veit ég ekki alveg. En ég veit að mér hefði líklega liðið eins, mér hefði þótt ég þurfa að setjast niður yfir þessu, þó ég hafi í raun engan áhuga á að vita nokkuð um sumt fólk, sem þó er alltaf verið að klína í fjölmiðla.

Þess vegna get ég svo sem ekki gagnrýnt RÚV sérstaklega fyrir að vera að sýna svona ósóma. Kannski þurfum við að horfast í augu við ósómann.
Hins vegar leyfi ég mér, hér og nú, að gagnrýna hátt og snjallt þá ákvörðun stjórnar RÚV að kaupa ekki heimildamyndina Ge9n, sem er tilraun Hauks Más Helgasonar til að sýna hvað mál nímenninganna stóð fyrir. Það er hægt að lesa samskipti Sigrúnar Stefánsdóttur og Hauks Más hér.
Þarna sést svo óhugnalega vel hvað RÚV er afdönkuð stofnun, að manni blöskrar. Þetta bara getur ekki verið. Það er ekki hægt að sætta sig við svona „rök“, að myndatakan sé of furðuleg. Hvílík vanvirðing gagnvart kvikmyndagerðarlistinni. Hvílík heimska.
En það versta er þó að vita að þessi heimska er látalæti. Sigrún Stefánsdóttir veit alveg hvers vegna hún neitar að taka myndina til sýningar. Raunveruleg ástæða er þöggun. Hræðsla við að sýna eitthvað sem gæti kannski vakið lýðinn upp, fengið fólk til þess að hugsa.
Þá er nú öruggara að sýna bara Björgólf Thor sem „ungan mann á reiðhjóli“. Það mun ekki duga til að rífa fólk upp úr sófanum og út á götu. Eða hvað?

Uppfært: Ég kalla dönsku myndina „ósóma“, sem er líklega vanhugsað af mér. Ég hef ekki séð hana og veit ekkert um það hvort hún er ósómi eða ekki. Ég var meira að vísa til þess að mér sýndist fólki yfirleitt líða mjög illa yfir þessari mynd.

Lifið í friði.

aldrei verður jú stundum

Ég er ekki farin neitt og get ekki einu sinni sagt að ég sé hætt að slæpast á netinu. Ég er bara greinilega í bloggpásu. Það er ekkert útpælt, bara finn enga blogglöngun í augnablikinu.

En það eru aðrir vefir snarvirkir á meðan. Knúz.is birtir grein á hverjum morgni, eigulegt hleður inn alls konar fallegu dóti, nú er m.a.s. komið jólaskraut og afar falleg kökubox. Svo eru nokkrir bloggvinir duglegir áfram, en reyndar ekki margir, en Druslbókardömur virðast vera að ná að taka yfir heiminn og jafnvel meira.

Ég verð í fyrsta skipti í mörg ár, dálítið lengi heima í kringum jólin. Hugmyndin er að reyna að hespa ritgerðinni af, en miðað við hvað mér gengur hægt núna er ég ekki alveg viss hvort það náist. Ég er líka búin að fá það á hreint, loksins, að ég þarf að gera eitt aukaverkefni til að fylla íslenskukvótann. Ég spurði hvort ég mætti taka hópskrúfusleik við erlenda aðila á degi íslenskrar tungu, en það var ekki samþykkt. Ég þarf víst að skrifa eitthvað gáfulegt á blað.
Ég hlakka til að koma heim. Það er komið myrkur hér líka og þetta árið er ég mjög sæl með myrkrið. Ég man ekki hvort það er kannski alltaf þannig. Er það kannski bara febrúar sem er erfiður? Eða var það ekki þannig? Æ, kannski er eins gott að maður man aldrei neitt. Hins vegar skal ég ekki samþykkja að það sé gott hvað tíminn líður hratt, en ég ætla ekki að tala meira um það núna.

Undanfarna daga hef ég verið hálf manneskja, með hrikalega hálsbólgu og beinverki. Ég er búin að komast að því að þegar ég verð veik, verð ég alveg ömurleg og vorkenni mér óhóflega mikið. Mér tókst samt að halda vælinu fyrir fjölskyldumeðlimi og þá sem slysuðust til að eiga við mig símasamtöl þessa tvo, þrjá daga, sem mér finnast hafa verið fimmtíu (og svo væli ég samt yfir því hvað tíminn líður hratt, svona er ég nú mikill bjáni).
En ég fór í heilsubúð í gær, og fjárfesti í ofursírópi frá einhverjum manni sem vinnur þetta úr hunangsflugum eða efninu sem umlykur hunangsflugurnar eða eitthvað svoleiðis. Allt rosalega lífrænt og er víst kallað pensillín náttúrunnar. Eða eitthvað annað. Æ, þið skiljið, mig langar rosalega til að segja ykkur að mér snarbatnaði um leið og ég fór að taka þetta inn, en ég nenni samt ekki að standa upp til að finna flöskuna eða gúggla þessu. En þetta er voðalega sniðugt. Nema mér slái niður aftur, þá er það ekki sniðugt. Og kannski er þetta bara sálrænt, hver veit?
Ég veit ekki hvernig á því stendur, en undanfarið hefur dálítið mikið af svona aldrei hlutum orðið að ha, jú, víst stundum – hlutum. En núna man ég bara þetta með að ég verð sko aldrei veik. Ég man samt að um daginn hugsaði ég um að eitthvað tvennt aldrei hætti að verða aldrei sama daginn. Hvort það dugði til að ég hætti að segja aldrei? Nei, aldrei skal ég hætta því!

Lifið í friði.


Nýlegar athugasemdir

parisardaman um Kveðja
Margrét H um Kveðja
koparskál um Tau frá Tógó
Elín Kjartansdóttir um rafmögnuð kona
juliann um agnetha