aldrei verður jú stundum

Ég er ekki farin neitt og get ekki einu sinni sagt að ég sé hætt að slæpast á netinu. Ég er bara greinilega í bloggpásu. Það er ekkert útpælt, bara finn enga blogglöngun í augnablikinu.

En það eru aðrir vefir snarvirkir á meðan. Knúz.is birtir grein á hverjum morgni, eigulegt hleður inn alls konar fallegu dóti, nú er m.a.s. komið jólaskraut og afar falleg kökubox. Svo eru nokkrir bloggvinir duglegir áfram, en reyndar ekki margir, en Druslbókardömur virðast vera að ná að taka yfir heiminn og jafnvel meira.

Ég verð í fyrsta skipti í mörg ár, dálítið lengi heima í kringum jólin. Hugmyndin er að reyna að hespa ritgerðinni af, en miðað við hvað mér gengur hægt núna er ég ekki alveg viss hvort það náist. Ég er líka búin að fá það á hreint, loksins, að ég þarf að gera eitt aukaverkefni til að fylla íslenskukvótann. Ég spurði hvort ég mætti taka hópskrúfusleik við erlenda aðila á degi íslenskrar tungu, en það var ekki samþykkt. Ég þarf víst að skrifa eitthvað gáfulegt á blað.
Ég hlakka til að koma heim. Það er komið myrkur hér líka og þetta árið er ég mjög sæl með myrkrið. Ég man ekki hvort það er kannski alltaf þannig. Er það kannski bara febrúar sem er erfiður? Eða var það ekki þannig? Æ, kannski er eins gott að maður man aldrei neitt. Hins vegar skal ég ekki samþykkja að það sé gott hvað tíminn líður hratt, en ég ætla ekki að tala meira um það núna.

Undanfarna daga hef ég verið hálf manneskja, með hrikalega hálsbólgu og beinverki. Ég er búin að komast að því að þegar ég verð veik, verð ég alveg ömurleg og vorkenni mér óhóflega mikið. Mér tókst samt að halda vælinu fyrir fjölskyldumeðlimi og þá sem slysuðust til að eiga við mig símasamtöl þessa tvo, þrjá daga, sem mér finnast hafa verið fimmtíu (og svo væli ég samt yfir því hvað tíminn líður hratt, svona er ég nú mikill bjáni).
En ég fór í heilsubúð í gær, og fjárfesti í ofursírópi frá einhverjum manni sem vinnur þetta úr hunangsflugum eða efninu sem umlykur hunangsflugurnar eða eitthvað svoleiðis. Allt rosalega lífrænt og er víst kallað pensillín náttúrunnar. Eða eitthvað annað. Æ, þið skiljið, mig langar rosalega til að segja ykkur að mér snarbatnaði um leið og ég fór að taka þetta inn, en ég nenni samt ekki að standa upp til að finna flöskuna eða gúggla þessu. En þetta er voðalega sniðugt. Nema mér slái niður aftur, þá er það ekki sniðugt. Og kannski er þetta bara sálrænt, hver veit?
Ég veit ekki hvernig á því stendur, en undanfarið hefur dálítið mikið af svona aldrei hlutum orðið að ha, jú, víst stundum – hlutum. En núna man ég bara þetta með að ég verð sko aldrei veik. Ég man samt að um daginn hugsaði ég um að eitthvað tvennt aldrei hætti að verða aldrei sama daginn. Hvort það dugði til að ég hætti að segja aldrei? Nei, aldrei skal ég hætta því!

Lifið í friði.

6 Responses to “aldrei verður jú stundum”


 1. 1 ella 16 Nóv, 2011 kl. 4:07 e.h.

  Aldrei að segja aldrei því aldrei getur aldrei verið aldrei. Vitað mál.

 2. 2 hildigunnur 17 Nóv, 2011 kl. 12:24 e.h.

  þekki þetta með bloggandleysið – og svei mér þá ef ég sem „aldrei“ verð veik fékk ekki mancold um daginn! (skrökva reyndar að ég verði aldrei veik, tvær lungnabólgur á síðustu fimm árum.

  Er þetta ekki eitthvað drottningarhunang sem þú tókst?

 3. 3 Glúmur 18 Nóv, 2011 kl. 5:03 e.h.

  1.Hvar verður sá lengi sem ætlar að vera „lengi heima“ þegar kona á í hlut?

  2. Er það skv. fræðunum að so blogga stjórni þgf?

 4. 4 parisardaman 19 Nóv, 2011 kl. 8:36 f.h.

  Já, Hildigunnur, mitt var líka ekta mancold. Þetta heitir Propolis, á íslensku býþétti: http://is.wikipedia.org/wiki/B%C3%BD%C3%BE%C3%A9tti (enska greinin er mun lengri).
  Glúmur: Ég verð á Íslandi í mánuð. Sögnin að blogga er undanþegin öllum reglugerðum, eins og er.

 5. 5 Glúmur 19 Nóv, 2011 kl. 5:53 e.h.

  Þakka síðara svarið, en fyrri spurningin var heimspekilegs eðlis,
  þ.e., hvenær hættir „heim“ að vera heim til mömmu þegar kona talar?
  Er það við hjónaband, fæðingu 1. barns, dauða foreldra eða aldrei?

 6. 6 parisardaman 20 Nóv, 2011 kl. 1:03 f.h.

  Aha, ég fer kannski ekki beint heim, þegar ég er hjá mömmu og pabba, enda eiga þau ekki lengur heima í „húsinu mínu“, en ég fer heim til Íslands. Og líka heim til Frakklands, svona er ég nú heppin. Ef ég væri að fara á æskuheimilið, væri ég líklega að fara heim þangað, veit það ekki.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: