endanleg afhjúpun afdönkunar RÚV

Í gær var víst sýnd mynd um Thorsara á RÚV. Ég sé af statusum á feisbúkk að þessi mynd kom mörgum í mikið uppnám. Sumir lýsa því hvernig þeir urðu að slökkva þegar ónefndur aðili birtist sjálfumglaður á skjánum, aðrir horfðu til enda og fussa og sveia. Enginn fagnar þessari mynd, en mjög margir litu á það sem einhvers konar skylduverkefni að horfa.

Hvað það er, sem fær fólk til að finnast það vera skyldugt að horfa, veit ég ekki alveg. En ég veit að mér hefði líklega liðið eins, mér hefði þótt ég þurfa að setjast niður yfir þessu, þó ég hafi í raun engan áhuga á að vita nokkuð um sumt fólk, sem þó er alltaf verið að klína í fjölmiðla.

Þess vegna get ég svo sem ekki gagnrýnt RÚV sérstaklega fyrir að vera að sýna svona ósóma. Kannski þurfum við að horfast í augu við ósómann.
Hins vegar leyfi ég mér, hér og nú, að gagnrýna hátt og snjallt þá ákvörðun stjórnar RÚV að kaupa ekki heimildamyndina Ge9n, sem er tilraun Hauks Más Helgasonar til að sýna hvað mál nímenninganna stóð fyrir. Það er hægt að lesa samskipti Sigrúnar Stefánsdóttur og Hauks Más hér.
Þarna sést svo óhugnalega vel hvað RÚV er afdönkuð stofnun, að manni blöskrar. Þetta bara getur ekki verið. Það er ekki hægt að sætta sig við svona „rök“, að myndatakan sé of furðuleg. Hvílík vanvirðing gagnvart kvikmyndagerðarlistinni. Hvílík heimska.
En það versta er þó að vita að þessi heimska er látalæti. Sigrún Stefánsdóttir veit alveg hvers vegna hún neitar að taka myndina til sýningar. Raunveruleg ástæða er þöggun. Hræðsla við að sýna eitthvað sem gæti kannski vakið lýðinn upp, fengið fólk til þess að hugsa.
Þá er nú öruggara að sýna bara Björgólf Thor sem „ungan mann á reiðhjóli“. Það mun ekki duga til að rífa fólk upp úr sófanum og út á götu. Eða hvað?

Uppfært: Ég kalla dönsku myndina „ósóma“, sem er líklega vanhugsað af mér. Ég hef ekki séð hana og veit ekkert um það hvort hún er ósómi eða ekki. Ég var meira að vísa til þess að mér sýndist fólki yfirleitt líða mjög illa yfir þessari mynd.

Lifið í friði.

7 Responses to “endanleg afhjúpun afdönkunar RÚV”


 1. 1 ella 21 Nóv, 2011 kl. 9:47 f.h.

  Jahér, nú er ég hissa. Ég horfði á myndina með áhuga og hef líka lesið bókina um gamla Thór og finnst margt athyglisvert í hvoru tveggja. Það táknar hreint ekki að ég sé sammála eða ósammála því sem fjallað er um, skárra væri það nú. Mér fannst ekki kvikmyndagerðarkonan danska vera neitt að fegra hlut Björgólfs og fjölskyldu eða sverta en ég er alltaf forvitin um það hvernig fólk hugsar og hvað varð til þess að þessi eða hinn gerði þetta eða hitt. Erfitt að gagnrýna hluti sem maður veit ekkert um.
  Svo hef ég líka alltaf gaman af að horfa á mjög gamalt myndefni og þarna var mikið af því.

 2. 2 parisardaman 21 Nóv, 2011 kl. 9:52 f.h.

  Já, kannski er það vitlaust af mér að kalla myndina ósóma, enda hef ég ekki séð hana. Þetta var skrifað í samhengi við það sem mér fannst fólk almennt upplifa. Ein minntist á að hana langaði svo að sjá gömlu myndirnar, en meikaði ekki að bíða eftir þeim, henni leið svo illa…

 3. 3 ella 21 Nóv, 2011 kl. 10:52 f.h.

  Ææ, ekki er nú gott að líða illa.

 4. 4 parisardaman 21 Nóv, 2011 kl. 2:06 e.h.

  Nei, það er ekki gott að líða illa, en þessi pistill fjallar á engan hátt um að ekki hefði átt að sýna Thorsaramyndina, heldur að það er fáránlegt að RÚV neiti að sýna Ge9n.

 5. 5 ella 22 Nóv, 2011 kl. 12:52 f.h.

  Ég má til að láta það koma skýrt fram að ég er ekki hissa á þér heldur þeim sem komust í uppnám yfir fróðleik um atburðarás sem fólk er að sjálfsögðu afar óánægt með en sakar þó ekki að kynna sér hina hliðina þó ekki væri til annars en að vara sig betur á slíku næst. Ég er reyndar ekkert sérlega bjartsýn á það þegar strax er komin upp sú staða að ný tískuverslun tæmist á þriðja degi og farnar eru verslunarferðir til Dublin „til að spara“ og svo framvegis.
  Bestu kveðjur til Parísar.

 6. 6 parisardaman 22 Nóv, 2011 kl. 8:49 f.h.

  Ég skil nú alveg að fólk sé í uppnámi yfir þessu öllu saman, þetta er viðkvæmt mál. Fáránlegt að RÚV varð svo aftur uppvíst að þöggunartilburðum, með því að neita að taka við auglýsingum gegn áróðursauglýsingum „íslenskra útvegsmanna“.

 7. 7 Hlédís 23 Nóv, 2011 kl. 12:11 e.h.

  Hlutdrægni RUV er skuggalegri en afdönkunin


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: