Í fyrsta sinn í nokkur ár hef ég verið heima á Íslandi á aðventunni. Snjór, vinir, gleði og stúss. Fullkomið. Jólin í París munu aldrei ná þeim íslensku, þó mér takist alltaf að gera gott úr því sem maður hefur þar.
Ég hef dálítið fílað mig svona bæði utan og innan alls. Ég var búin að kaupa eitthvað af gjöfunum, en miðaði þó við að halda áfram átaki mínu: evrurnar heim og vildi því líka styrkja íslenska kaupmenn þessi jólin. Ég er ekki beint með heimili hér, en tek þátt í stússinu með mömmu. Er búin að baka horn og snúða, en engar kökur. Mamma mín hætti því fyrir löngu, löngu síðan og þá datt engu barna hennar í hug að kalla eftir skjaldborg. Svo við erum föst í brauðbakstri og kaupum piparkökur úti í búð. Ég bakaði reyndar slatta af piparkökum úti og krakkarnir skreyttu og gáfu vinum sínum þar. Þar sem ég hef aldrei gefið mig út fyrir að vera fimmtán sorta jólakona, getur enginn kvartað.
En já, utan alls. Ég fylgist með veseninu á sumum hérna. Mér finnst þetta næstum framandi. Næstum, því auðvitað hef ég engu gleymt og veit hvernig Íslendingar eru staðráðnir í að allt eigi að vera spikk og span og fullkomið og gjafirnar verða að vera flottar og sniðugar og allt bara einhvern veginn verður næstum eins og hvirfilbylur stundum, minnislistarnir fjölfaldast, hverri útstrikun fylgir tvennt í viðbót neðst … Ég stóð um stund við útgang í Kringlunni og horfði á fólkið og fyrst fannst mér þetta óhugnalegt, tónlistin, herpingurinn í andlitunum, stóru pokarnir fullir af allt of dýru drasli. En svo færðist yfir mig einhvers konar næstum værð. Á einhvern furðulegan hátt finnst mér það næstum huggandi að sjá að brjálæðið er hér ennþá. Ég, sjálf á kafi í að vera andneyslutýpan (gengur illa stundum), finn huggun í annarra manna brjálæði. Ég vil ekkert að Kringlan standi tóm, ljósin slökkt og að ógeðslega lélega platjólatónlistin þagni. Að allir séu bara heima hjá sér að búa til misfallegar gjafir úr engu eða gefi bara heimagerð kerti og bakkelsi. Ég get ekki alveg komið orðum að þessu, því að í hausnum á mér hef ég ekki náð að festa almennilega reiður á þessari hugsun.
Og nú er klukkan farin að ganga ellefu og ég ekki byrjuð á neinu og á áreiðanlega eftir að gera allt!
Gleðileg jól, kæru lesendur. Hvar sem þið eruð, hver sem þið eruð. Gleðileg jól.
Lifið í friði.
Nýlegar athugasemdir